Hús dagsins: Brekkugata 4

Mér finnst svolítið sniðugt að fyrsta "Hús dagsins" á þessu nýja ári og birtist á 4.degi ársins sé einmitt númer 4... 

Brekkugata 4 er eitt fjölmargra húsa sem Sveinbjörn Jónsson teiknaði á Akureyri á 3. og fyrri hluta 4.áratugs síðustu aldar. P9150219Húsið byggði Kristján Kristjánsson árið 1932. Hann var kallaður Kristján bílakóngur en hann var forstjóri BSA; Bifreiðastöðvar Akureyrar.     Brekkugata 4 er reisulegt steinsteypuhús, tvílyft með flötu þaki. Það er nokkurn vegin ferningslaga að grunnfleti en á suðvesturhorni er sneiðingur og einnig er skúrbygging á gagnstæðu (þ.e. NA) horni á bakhlið. Steyptir þakkantar með kassalaga kögri og lóðréttar súlur milli gluggapara og dyra setja svip á húsið. Gluggapóstar eru einfaldir þverpóstar með fjórum smárúðum í efri fögum. Inngangur er á miðju framhliðar og steyptar tröppur að honum en einnig eru inngangar í kjallara og á viðbyggingu bakatil. Á bakhlið eru svalir á annarri hæð og þar eru miklar stáltröppur sem liggja þangað ofan af þaki, líklega um einhverskonar neyðarútgang að ræða.

Upprunalega var húsið reist sem íbúðarhús en síðastliðna áratugi hefur húsið hýst ýmsar skrifstofur og starfsemi; vinnumiðlun, Alþýðusamband Norðurlands, lögmannsstofur og fasteignasölur svo fátt eitt sé nefnt. Síðustu ár hefur gistiheimili verið rekið í húsinu, nánar tiltekið Gistiheimilið Hrafninn. Húsið er í mjög góðu standi og lítur vel út, og skv. Húsakönnun sem unnin var um Miðbæjarsvæðið og nágrenni árið 2014 er húsið sagt nánast óbreytt frá upphafi. Þá er tekið fram að húsið hafi ekki sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús í nágrenninu. Það er þó nokkuð árstíðabundið hvenær vegfarendur neðanverðrar Brekkugötu geta barið framhlið hins glæsta steinhúss á Brekkugötu 4 augum. P7240115Lóðina prýða nefnilega stór og gróskumikil reynitré og yfir hásumarið hverfur framhliðin nánast bakvið laufskrúð. Trén hljóta að vera áratugagömul- jafnvel litlu yngri en húsið sjálft. Myndin sem sýnir trjálundinn geðþekka við húsið Brekkugötumegin var tekin 24.júlí 2015 en hin myndin er tekin 15.sept. sama sumar af bílaplaninu bakvið Landsbankann.

 

 

 

Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson (1996). Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.

 Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 495
  • Frá upphafi: 436890

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 327
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband