Hús dagsins: Brekkugata 47

Brekkugötu 47 reisti Kaupfélag Eyfirðinga KEA árið 1941, eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. 

P1100329Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu “Infrapath” en þar má finna raflagnateikningar Eyjólfs Þórarinssonar sem dagsett er 12.ágúst 1941, samþykkt 17.sept. Þar má auk þess finna járnateikningar H. Halldórssonar (sem ég hef löngum talið vera Halldór Halldórsson,), þar sem stendur “verslunarhús KEA”. Brekkugata 47 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki, i funkisstíl. Húsið er raunar tvær álmur, framhús og vesturálma. Gluggar eru víðir og breiðir með einföldum, lóðréttum póstum og með pappa á þaki. Steyptir kantar eru á þaki. Klæðning er ekki sögð þekkt í húsakönnun sem vísað er til hér að neðan, en mér sýnist veggir klæddir einhvers lags steinmulningi eða perluákasti. Á suðurhlið eru steyptar svalir með timburverki á annarri hæð en timburverönd í kverk milli álma á vesturhlið. Þar eru inngangar hússins, en snýr sú hlið að Munkaþverárstræti.

Verslun KEA var opnuð í húsinu árið 1942, nánar tiltekið laugardaginn 14.mars 1942, líkt og sjá má í þessari auglýsingu í Verkamanninum. Þarna eru auglýstar hinar ýmsu vörur, s.s. Ostar, smjör, smjörlíki, harðfiskur, jarðepli (kartöflur) og margt fleira.  Þegar heimilisfangið “Brekkugötu 47” er slegið inn í timarit.is koma einar 109 niðurstöður, en stór hluti þeirra eru auglýsingar frá versluninni sem rekin var þarna í fjóra áratugi eða svo. Fyrstur gegndi Sigmundur Björnsson stöðu verslunarstjóra í verslununni. (Og fyrir þá sem áhuga hafa á ættfræðinni má geta þess, að faðir Sigmundar hét Björn Sigmundsson og yngsti bróðir Björns var Kristinn Sigmundsson, föðurafi þess sem þetta ritar ) Ætli það megi ekki fullyrða, að blómaskeið hverfisverslana hafi verið um og upp úr miðri 20.öld. Margar litlar verslanir voru bæði á Brekkunni og Eyrinni, flestar reknar af KEA . Einnig voru þeir nokkrir sjálfstætt starfandi nokkrum sjálfstæðum “kaupmenn á horninu”. Með tilkomu stærri verslana og stórmarkaða fór vegur hverfisverslana þó minnkandi. Bílaeign varð auk þess almenn og hagkvæmt að gera stærri innkaup, þó fara þyrfti langan veg. Árið 1979 var farið að halla nokkuð undan fæti í rekstri hverfisverslana KEA og ákveðið var, að loka m.a. Útibúinu í Brekkugötu 47 í hádeginu. Tveimur árum síðar eða 1981 var versluninni lokað. Nú eru í húsinu tvær íbúðir, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 10.janúar 2016.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband