Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 2; Péturskirkja.

Kaþólska kirkjan á Akureyri hefur til umráða tvö glæsileg timburhús frá fyrri hluta 20.aldar á horni Eyrarlandsvegar og Hrafnagilsstrætis. P5180333Annars vegar er það Eyrarlandsvegur 26 frá 1911 og hins vegar er það kirkjan sjálf, en hún stendur við Hrafnagilsstræti 2. Húsið hefur þó öldungis ekki alla tíð verið kirkja því upprunalega eða árið 1933 var húsið reist sem íbúðarhús. Það byggði Þorlákur Jónsson eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Þorlákur fékk haustið 1932 leyfi til að reisa íbúðarhús á horninu norðan Hrafnagilsstrætis og austan Möðruvallastrætis. Húsið yrði ein hæð úr timbri á lágum kjallara úr steini, vesturhluti 10,05x8,8m en austurhluti 6,50. Þessi mál vísa væntanlega til þess, að austurálma, sem snýr gafli mót austri sé 6,50 að breidd en hin vestari, sem vísar mót suðri sé 8,8m. Við norðurhlið “inngangsforstofa” og smá kvistir að sunnan og austan. Byggingarnefnd setti Þorláki nokkur skilyrði fyrir húsbyggingarleyfinu. Fyrir það fyrsta, máttu viðir ekki vera grennri en byggingarreglugerð mælti fyrir um, kjallari mátti ekki vera lægri en ein alin (63cm) upp frá lóðar eða götufleti. Þá skyldi húsið allt járnklætt þegar í stað, annars færi byggingin í bága við brunareglur.

Hrafnagilsstræti 2 er skrautleg timburkirkja, klædd láréttri borðaklæðningu og með sexrúðugluggum og bárujárni á þaki. Gengið er inn að sunnan, frá Hrafnagilsstræti og er turn kirkjunnar yfir inngönguálmu. Fyrrum austurálma íbúðarhússins er nú kirkjuskip og á austurhlið er lítill kór. Þá er stór gluggi á vesturhlið. Inngöngudyr eru breiðar og veglegar með miklu rislaga dyraskýli. Húsið var, eftir því sem ég best veit, íbúðarhús frá byggingu og fram að aldamótum. Þorlákur Jónsson, sá er byggði húsið auglýsir það til sölu árið 1947. Húsinu var breytt í kirkju á árunum 1998-2000, eftir teikningum Kristjönu Aðalgeirsdóttur og Sigríðar Sigþórsdóttur Hér má sjá grein um endurbætur á Hrafnagilsstræti 2 í Degi frá nóvember 1998. Það er ekki annað að sjá, en að þessi endurbygging hússins sé mjög vel heppnuð, allavega er Kaþólska kirkjan í hópi skrautlegustu og glæstustu bygginga, og er sannkölluð perla í glæsilegri götumynd Hrafnagilsstrætis. Allt er húsið sem nýtt, enda var flest endurnýjað sem nöfnum tjáir að nefna fyrir tæpum tveimur áratugum. Samkvæmt Húsakönnun 2016 er húsið metið til 6.stigs varðveislugildis, þ.e. Í meðallagi fyrir stakt hús- en einnig er húsið talið mynda skemmtilega heild með Eyrarlandsvegi 26. Myndin með færslunni er tekin þann 18.maí 2016.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 683, 10.okt. 1932. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. (1996). Byggingameistari í stein og stál; saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 457
  • Frá upphafi: 436796

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 291
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband