Úr myndasafninu

Ég luma á hinum ýmsu myndum - sem margar hverjar er alveg vert að birta hér fyrir allra augum. Það er ekki óalgengt að myndavélin fylgi með í göngu- eða hjóltúra- og svosem heldur ekki óalgengt að ég leggi upp slíka túra. Hér eru nokkur sjónarhorn úr nærumhverfi Akureyrar sem mér hefur þótt ástæða til að festa á filmu - eða öllu heldur festa á minniskort- því filman leið undir lok hjá mér fyrir einum 14 árum.

KAFFIKLAUF OG SMJÖRSKÁL

P7240410

P7240413

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessar myndir eru teknar á hjóltúr um Kjarna og Hamra sunnudaginn 24.júlí 2016. Ofan Hamra má finna Kaffiklauf og Smjörskál. Mætti kalla girnileg örnefni; eru kannski Kleinulaut, Brauðgil, nú eða Rjómalækur þarna nærri ? wink.  Kaffiklauf sést á myndinni til vinstri en svo nefnist skarðið á milli Arnarkletts og Krosskletts. Þeir sjást að hluta á myndinni, Arnarklettur til vinstri. Smjörskál nefnist skál norðarlega undir Hamrahömrum. Hún sést á myndinni t.h. og vísar stafninn sem snýr að ljósmyndara svo til beint upp í hana. Þakið tilheyrir Hömrum II, sem nú þjónar sem gistihús fyrir ört stækkandi gestahóp Tjaldsvæðisins á Hömrum. (Meira um Hamra hér) Í Smjörskál drýpur eflaust smjör af hverju strái en þar einnig gnægð aðalbláberja á haustin. Ekki kann nú ég sögurnar á bak við þessi örnefni. Kannski hafa gangnamenn og aðrir sem erindi áttu af Kjarna- Hamra- Naustatorfunni upp á Súlumýrar fengið sér kaffi í eða við Kaffiklauf... ? 

Á SÚLUMÝRUM

Ofan Löngukletta og Hamrahamra eru Súlumýrar. Eru þær geysivíðlendar- eins og margir Súlnafarar þekkja. Þær eru ansi vinsæll leikvöllur jeppa- sleða og skíðamanna, já og raunar göngu og hjólamanna...útivistarfólks yfirleitt. Ekki er þar neitt formlegt vegakerfi en þessi slóði liggur eftir austurbrún mýranna, ofan Fálkafells. Hvert liggur slóðinn. Við því er einfalt svar: Spölkorn sunnan við tökustað þessarar myndar er likt og klippt sé á troðninginn, þar sem við taka lyngþúfur og melar. Vegur þessi, sem hvergi er á skrá hjá neinni vegamálastofnun eða á nokkru skipulagi endar eiginlega bara þarna úti í mýri. P9180470

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona til að glöggva sæmilega staðkunnuga á því, hvar þessi mynd er tekin skal hér birt mynd sem tekin er til austurs af sama stað, þarna má sjá skátaskálann Fálkafell og Akureyri líkt og útbreitt landakort. Myndirnar eru teknar sunnudaginn 18.september 2016 í brakandi haustblíðu eins og hún gerist best.

IMG_20160918_144909

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á Súlumýrum, dágóðan spöl sunnan og ofan Fálkafells má finna hina svokölluðu Steinmenn. Þeir standa á hól framarlega á mýrarstallinum og eru vel sýnilegir úr 2-4km loftlínu frá Akureyri, þrátt fyrir að vera rétt um mannhæðarháir. Myndin er tekin 21.apríl 2012.

P4210072 

 Steinmenn

 

 

 

 

 

 

Myndin hægra megin er einmitt tekin á Oddeyri þann 4.nóv 2012. Þarna má sjá hólinn þar sem steinarnir standa og í hvítum vetrarsnjó eru kallarnir oft býsna áberandi- þó 6 megapíxla Olympus vélin hafi e.t.v. ekki greint þá þarna með góðu móti. 

Á ÞVERBRAUTINNI

Hinn valinkunna Þjóðveg 66, eða Route 66 milli Los Angeles og Chicago þekkja allir. Hann var í almennri notkun frá 1926 til 1985 og var því nánast samtíða öðrum ágætum valinkunnum vegi, mögulega minna þekktum, þ.e. "Þverbrautinni". Hún var hluti þjóðvegakerfisins frá 1923 til 1987. Á henni voru þrjár brýr sem hver um sig þótti mikið stórvirki. Síðustu áratugina hefur þessi leið einkum verið nýtt af hesta- hjóla og göngufólki en 2008 lengdist þessi leið nokkuð þegar flugbrautin var lengd. Þá var lögð lykkja milli bílaplansins við Eyjafjarðarbraut vestri og vestustu brúar. Þar sem leiðin liggur sunnan flugbrautar tók ég þessa mynd í snemmsumarsólinni þann 31.maí 2014. Í forgrunni er Brunnáin sem rennur gegn um Kjarnaskóg og út í Eyjafjarðará við Hólmana en við lengingu flugbrautar var henni veitt í lykkju suður fyrir. Fjöllin þrjú á myndinni heita Staðarbyggðarfjall (Öngulsstaðaöxl, Sigtúnafjall, Uppsalahnjúkur; Staðarbyggðarfjallið er raunar heill fjallgarður), Tungnafjall og Möðruvallafjall (hef líka heyrt heitið Öxnafell á hinu síðastnefnda fjallinu). Milli Staðarbyggðarfjalls og Tungnafjall er Þverárdalur og Mjaðmárdalur er milli Tungnafjalls og Möðruvallafjalls.
P5310010 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

LEYNIMYNDIN

Þetta er ein þeirra mynda sem ekki er auðvelt að átta sig á hvar er tekin. Ég ætla ekki að ljóstra því upp því upp strax og þessi færsla er rituð (lesendur mega spreyta sig á ágiskunum smile) hvar hún er tekin. Hins vegar get ég þess, að hún er tekin þann 12.október 2013 sunnarlega á Akureyri, á svæði sem aðgengilegt er almenningi en e.t.v. ekki svo fjölsóttu (mögulega vantar upp á, að fólk viti almennt af þessum unaðsreit).

PA120032

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan daginn.

Ég giska á Gömlu Gróðrarstöðina með öllum sínum gömlu trjástofnum. Fór reyndar þangað í dag og leitaði vel en fann ekki tröppurnar.

Gott að vita að enn eru til leynistaðir á Akureyri.

Með kveðju.

Sigurður.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 20.4.2017 kl. 15:21

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæll. Þetta er alveg rétt hjá þér- ég tók þessa mynd einhvers staðar í Gróðrarstöðvargarðinum. laughing Mér fannst þetta svo upplagt myndefni, tröppurnar þaktar haustlaufum. Það gæti hins vegar hugsast, að tröppurnar hafi verið fjarlægðar einhvern tíma á þessum þremur og hálfa ári frá því myndin var tekin. (Átti síðast leið þarna í fyrrasumar og veitti því ekki athygli). Eins og sjá má eru þær (voru) orðnar heldur slitnar.  

Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 20.4.2017 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 27
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 518
  • Frá upphafi: 436913

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 349
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband