Hús dagsins: Gilsbakkavegur 15; Frímúrarahúsið

Eitt helsta kennileiti á svæðinu ofan Gilsins er hvíta stórhýsið á horninu þar sem mætast Kaupangsstræti, Þingvallastræti, Gilsbakkavegur og Oddeyrargata. Hér er um að ræða hús Frímúrarareglunnar eða Frímúrarahúsið. Sjálfur hef ég (sem allt þykist nú vita um hús og götur á Akureyri) aldrei vitað við hvaða götu húsið stendur, eða einfaldlega ekkert spáð í það.

En sögu þessa húss má rekja til vorsins 1945,PC290773 þegar síðari Heimstyrjöldin síðari var að ljúka, en þann 10.apríl það ár settist Jakob Frímannsson niður við bréfaskriftir. Hann skrifaði Bygginganefnd Akureyrar og falaðist þar, fyrir hönd Frímúrarareglunnar eftir lóðinni á reitnum milli Gilsbakkavegar, Oddagötu og Oddeyrargötu. Nefndin tók erindi hans fyrir á fundi sínum þann 4.júní og lagði til að Frímúrarar fengju lóðina. Þess má geta, að á sama fundi var næsta lóð fyrir neðan afgreidd til Tómasar Björnssonar. Og svo vildi til, að honum var einmitt veitt byggingaleyfi á sama fundi nefndarinnar, og Frímúrarar fengu sitt byggingaleyfi, þ. 12.okt. 1945. En þeir fengu leyfi til að reisa hús, 24x10,5 m að stærð, steinsteypt með járnklæddu eða hellulögðu timburþaki og árið eftir var húsið risið af grunni.  Teikningarnar að húsinu gerði Hörður Bjarnason. Árið 1981 var byggt við húsið til austurs, niður eftir  eftir teikningum Haraldar Bjarnasonar og er húsið síðan tvær álmur, sú eldri snýr N-S. Húsið hefur alla tíð verið heimili Frímúrarareglunnar hér í bæ. Húsið er stórt og veglegt steinhús með háu valmaþaki, með sjö smáum þríhyrndum kvistum og voldugt dyraskýli á steyptum súlum. PC290774Framhlið hússins er samhverf um inngöngudyr og kvist á miðri þekju. Hvoru megin eru þrír ferningslaga, innrammaðar gluggar með níu smáum rúðum og yst kringlóttur gluggi með stjörnupósti á hvorri hæð. Húsið er m.ö.o. allt hið skrautlegasta og viðhald eins og best verður á kosið- húsið virðist traustlegt og sem nýtt að sjá. Ekki kann ég að nefna þann byggingarstíl sem húsið flokkast undir- en skrautlegur er sá stíll og skemmtilegur. Frímúrarahúsið er mikið kennileiti á þessum fjölfarna stað og ber mikið á því, enda umtalsvert stærra en nærliggjandi hús.

Um Frímúrarahúsið segir í Húsakönnun 2014: Hefur gildi fyrir þennan hluta brekkunnar, það er svæðið umhverfis andapollinn þar sem húsið er reislulegt og stendur á áberandi stað og kallast á við sundlaugarbygginguna og íþróttahús Laugagötu ofar í brekkunni.  (Landslag Arkitektastofa 2014:94). Þar er húsið talið hafa varðveislugildi vegna byggingarstíls og staðsetningar. Sá sem þetta ritar getur aldeilis tekið undir það. Myndirnar eru teknar fyrr í dag, 29.des 2017, í heiðríkju og -16° frosti. Efri myndin sýnir framhliðina en neðri mynd sýnir suðurstafn og viðbyggingu, hliðina sem veit að Gilsbakkavegi. 

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1022, 4.júní 1945. Fundur nr. 1034, 12.okt. 1945Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband