Hús dagsins: Hlíðargata 8

Hlíðargötu 8 reistu bræðurnir Hörður og Brynjar Eydal árið 1939,PA090838 en þeir fengu að reisa hús; ein hæð á kjallara, steinsteypt með flötu þaki að stærð 7,75x9,7m.  Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Hlíðargata 8 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með einhalla aflíðandi þaki, klætt pappa og innrammað stölluðum, steyptum þakkanti. Útskot er til suðausturs. Horngluggar eru á framhlið til suðurs, sem og á útskoti og í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum. Yfir inngöngudyrum að framan er steypt  dyraskýli, sambyggt að norðan við steypt, stallað handrið. Ekki ópraktísk hönnun, sem auk þess að vera skemmtilegur svipauki á húsinu, veitir einnig skjól fyrir norðanáttum.

Húsið er teiknað sem tvíbýli, og hafa þeir Hörður og Brynjar væntanlega búið hvor á sinni hæð ásamt fjölskyldum sínum. Hörður og kona hans, Pálína Eydal bjuggu hér um áratugaskeið, en ýmsir hafa átt hér og búið sl. 2 - 3 áratugi. Öllum hefur þó auðnast að halda þessu látlausa en glæsta funkishúsi vel við.  Sonur Harðar og Pálínu Eydal var Ingimar, tónlistarmaður með meiru en hann og hljómsveit hans þarf vart að kynna fyrir lesendum. Hljómsveit Ingimars Eydal hélt, eins og kunnugt er, uppi fjörinu í Sjallanum um árabil og naut mikilla vinsælda á 7. og 8. áratugnum. Og enn í dag nýtur hljómsveit Ingimars fádæma vinsælda og er fyrir löngu orðin sígild. Meðal fjölmargra ódauðlegra laga frá hljómsveit Ingimars má nefna Vor í Vaglaskógi (1965), Á sjó (1965) og Í sól og sumaryl (1972). Í bæklingi, sem fylgir með hljómdiskinum Kvöldið er okkar, kemur fram að Ingimar hafi verið fæddur í húsinu Jerúsalem, sem stóð á Hafnarstræti 93, en í upphafi stríðs hafi fjölskyldan flutt „upp í sveit“ á Hlíðargötuna- sem nú er nánast í miðbænum (Kristján Sigurjónsson, 1996: 4). En Hlíðargatan var á þessum tíma við efri mörk þéttbýlis á Akureyri. Finnur, bróðir Ingimars, var einnig mikilvirkur tónlistarmaður og lék m.a. með bróður sínum en einnig með eigin hljómsveit, Hljómsveit Finns Eydal  . Hér má heyra lagið Hvítur stormsveipur, (1969) þar sem Finnur leikur hreint og beint óviðjafnanlega á klarinett og er lagið eitt af mörgum snilldarverkum bræðranna úr Hlíðargötu 8.

Húsið er sem áður segir, látlaust og glæsilegt steinhús í funkishús, lítið breytt frá upphafi og fær varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015. Húsið er lítið sem ekkert breytt að ytra byrði frá upphafi, a.m.k. ef núverandi útlit er borið saman við teikningarnar frá 1939. Húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni og lóð er vel gróin og hirt, þar eru m.a. gróskumikil reynitré. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. október 2018.  

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 842, 18. sept 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Kristján Sigurðsson (1996). Píanistinn verður til. Í bæklingi (bls. 4-5) með hljómdiskinum Kvöldið er okkar. Kópavogur: Spor útgáfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 497
  • Frá upphafi: 436892

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 329
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband