Hús dagsins: Hlíðargata 11

Hlíðargata 11 stendur á horni götunnar og Hamarstígs, PA090832töluvert neðar en næsta hús nr. 9 en Hlíðargatan er afar brött á þessum kafla næst Hamarstíg. Árið 1942 falaðist Jakob Frímann kaupfélagsstjóri KEA eftir lóð undir verslunarhús og fékk lóðina næst norðan við hús Jóns Sigurðssonar myndasmiðs sunnan Hamarstígs. Hús Jón Sigurðssonar myndasmiðs er að sjálfsögðu Hlíðargata 9, en Byggingarnefnd lýsti framan af ævinlega staðsetningu lóða og húsa á þennan hátt; þ.e. afstöðu miðað við lóð eða hús tiltekinna manna. En þetta nýja verslunarhús KEA reis árið 1943 og fékk félagið leyfi til að reisa verslunarhús, tvær hæðir úr steinsteypu með flötu þaki og steyptu lofti og veggjum. Stærð hússins 10,0x7,3m auk útskots að sunnan, 7,8x3,7m.

En Hlíðargata 11 er reisulegt tvílyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki sem innrammað er með háum kanti. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson. Á suðurhlið er bakálma og í kverkinni á milli inngangur á efri hæð auk steyptra trappa með stölluðu handriði. Á framhlið hússins (til NA) er "bogadregið horn" og þar er steyptur toppur á þakkanti. (Bogadregið horn kann e.t.v. að hljóma svolítið mótsagnarlegt, e.t.v. svipað og t.d. ferkantað hjól) Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins og á neðri hæð eru stórir "verslunargluggar", arfur frá fyrra hlutverki hússins.

 Á fimmta áratug 20. aldar og eftir miðja 20. öld spruttu upp fjölmargar KEA verslanir eða útibú, á borð við verslunina í Hlíðargötu en flest liðu þau undir lok um eða upp úr 1980. Nú er starfsemi KEA fyrst og fremst fjárfestingar og hefur félagið ekki beina aðkomu að verslunar- eða fyrirtækjarekstri árum saman.  Fullbyggt mun húsið hafa verið 1943, og verslunin væntanlega verið opnuð um það leyti. Elstu heimildir um Útibú KEA á Hamarstíg semtimarit.is finnur er frá haustinu 1945. Gengið var inn í verslunina frá Hamarstíg, enda þótt húsið standi á Hlíðargötu.  Árið 1962 var byggt við verslunina til vesturs, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar, og sumarið 1963 var opnuð glæný „nýtízku kjörbúð KEA við Hlíðargötu 11“. Verslunin þjónaði íbúum ytri Brekkunnar með glæsibrag í fjóra áratugi en vorið 1984 leið hið rótgróna útibú KEA á Hlíðargötu 11 undir lok. Nú eru íbúðir á báðum hæðum hússins, en viðbyggingin frá 1962 sem reist var sem vörulager og uppvigtunarrými mun nú þjóna sem bílskúr. Á efri hæð hefur hins vegar alla tíð verið íbúð. Hlíðargata 11 er sérlega svipmikið og glæst hús, sem tekur þátt í götumynd bæði Hlíðargötu og Hamarstígs. Húsið er í góðri hirðu og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti af heild, líkt og flestöll húsin á Hlíðargötu. Það er álit þess sem ritar, að sem fyrrum hverfiskjörbúð til áratuga hljóti húsið að skipa nokkurn sögulegan sess. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48.  Fundur nr. 904, 27. mars 1942. Fundur nr. 945, 11. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. 

Góðir pistlar hver af öðrum.

Bogadregið horn er snilldarhugtak!laughing

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 14.2.2019 kl. 06:38

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Takk fyrir innlit og athugasemd. Kannski hef ég hitt á eitthvert afbragðs nýyrði þarna með bogadregna horninu wink.

Arnór Bliki Hallmundsson, 16.2.2019 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 33
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 504
  • Frá upphafi: 436859

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 326
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband