Hús dagsins: Hús Hákarla-Jörundar (Gamli Syðstibær) við Norðurveg, Hrísey.

Áður en ég held af Hlíðargötu upp á Holtagötu, næstu götu ofan við bregð ég mér "örlítið" út fyrir Brekkuna, nánar til tekið út í Hrísey. Ég hef gefið mig út fyrir að skrifa um hús á Akureyri og Hrísey er vitaskuld hluti Akureyrarkaupstaðar og hefur verið síðan 2004. Þar má, eins og í flestum bæjarhlutum Akureyrar gömul og glæsileg hús, en þeirra elst er Hús Hákarla- Jörundar.

Hús Hákarla Jörundar stendur við Norðurveg 3 í Hrísey, skammt frá höfninni.P9200053 Húsið var reist á Syðstabæ, nokkuð sunnar á eynni og var reist árið 1885 af Jóhanni Bessasyni fyrir Jörund Jónsson.  Byggingarefni hússins er viður úr norskri skonnortu, Skjöld, sem var í hópi margra norksra skipa sem fórust í aftakaveðri við Hrísey haustið 1884. Óneitanlega nokkuð sérstakt byggingarefni, en auðvitað ekkert einsdæmi að viður úr skipum eða eldri byggingum og mannvirkjum hafi verið endurnýttur til húsbyggingar. Menn stukku a.m.k. ekki til á timburlagerinn í næstu byggingarvöruverslun á níunda áratug 19. aldar.  Jörundur var afar fengsæll og valinkunnur fyrir hákarlaveiðar sínar, og hlaut viðurnefnið Hákarla- Jörundur. Hann var fæddur árið 1826 á Kleifum í Ólafsfirði og flutti til Hríseyjar árið 1862 og var alla tíð bóndi á Syðstabæ, meðfram hákarlaveiðunum. Hann lést 1888, aðeins þremur árum eftir að hann reisti nýja íbúðarhúsið.

En hús Hákarla-Jörundar er einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti og stendur á steyptum kjallara. Á bakhlið er forstofubygginga eða "bíslag". Veggir eru klæddir með listaþili og bárujárn á þaki og sexrúðupóstar í gluggum.  Húsið var sem áður segir, reist á Syðstabæ en árið 1917 var byggt nýtt hús þar og húsið flutt á núverandi stað. Húsið var líkast til lengst framan af íbúðarhús og bjuggu þar margar fjölskyldur samtímis. Þá var einnig verslun í húsinu og KEA sem síðar eignaðist það nýtti það sem verslun og vörugeymslu. Um aldamótin 2000 var hins vegar farið að huga að endurbyggingu þessa elsta húss Hríseyjar og hófust þá endurbætur sem miðuðust að því, að færa húsið til upprunalegs horfs.  Þá var byggt við húsið til vestur eða bakatil, snyrting og aðstaða fyrir gesti fyrirhugaðs safns. Fyrir þessum endurbótum hússins stóð Húsfélagið Hákarla Jörundur og var Ásgeir Halldórsson málari helsti forvígismaður þar. Árið 2003 var sett upp Hákarlasetur, safn um hákarlaútgerð á Íslandi, í húsinu og árið 2009 var húsið afhent Fasteignum Akureyrar til umsjónar og nú er í húsinu vandað og veglegt safn. Því miður verður höfundar að viðurkenna, að hann hefur ekki heimsótt safnið þegar þetta er ritað en það hlýtur að standa til bóta. Hús Hákarla-Jörundar er á allan hátt stórglæsilegt og snyrtilegt og ljóst má vera, að endurbætur þess hafa tekist frábærlega. Húsið er svo sannarlega eitt af perlum Hríseyjar; perlu Eyjafjarðar. Minjastofnun friðlýsti þetta ágæta hús árið 2003. Myndin er tekin í ljósaskiptunum þann 20. september 2013.

Heimildir: Ýmsar greinar og vefsíður: sjá tengla í texta.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436847

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband