Hús dagsins: Helgamagrastræti 11

Helgamagrastræti 11 reisti Hallgrímur Traustason árið 1937 P2240891en hann var einn þriggja sem fengu úthlutað lóð og húsgrunni Samvinnubyggingafélagsins við Helgamagrastrætið á fundi Bygginganefndar þann 5. september 1936. Fékk Hallgrímur „lóðina norðan við hús Jóhanns Kröyer [Helgamagrastræti 9]“. Teikningarnar að húsinu gerði Þórir Baldvinsson, líkt og öllum húsunum sem byggð voru við Helgamagrastræti á vegum Samvinnubyggingafélagsins 1936-37.

Helgamagrastræti 11 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Á bakhlið er einlyft viðbygging, lágreistur geymsluskúr með einhalla aflíðandi þaki (skúrþaki), niðurgrafinn. Steining er á veggjum og þeir málaðir en pappi á þaki.

Líkt og flest allir, sem byggðu á reitum Samvinnubyggingafélagsins, starfaði Hallgrímur Traustason hjá KEA, lengst af hjá kornvörudeild félagsins en einnig við bögglageymsluna. Hóf hann störf hjá félaginu 1929. Hallgrímur bjó hér allt til dánardægurs, 1968. Eiginkona Hallgríms var Kristín Ingibjörg Jónsdóttir frá Hóli í Svarfaðardal en Hallgrímur var Þingeyingur, frá Köldukinn. Sonur þeirra, Jónas H(allgrímsson) Traustason, framkvæmdastjóri byggði húsið að Holtagötu 3 árið 1941. Ýmsir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma en öllum auðnast að halda því og lóðinni vel við. Árið 1951 byggði Hallgrímur lágreistan geymsluskúr við húsið baka til, eftir teikningum Adams Magnússonar. Að öðru leyti er húsið óbreytt frá upphaflegri gerð, líkt og flest nærliggjandi hús í þessari merku röð.

Helgamagrastræti 11 er í senn og einfalt og látlaust og stórglæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel gróin og hana prýða m.a. nokkur stæðileg reynitré. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin  er tekin þann 24. feb. 2019

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 780, þ. 5. sept. 1936. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband