Hús dagsins: Möðruvallastræti 5

Árið 1945 fengu þeir Bjarni Kristjánsson og Jónas Snæbjörnsson lóð og byggingarleyfi við Möðruvallastræti 5. Fengu þeir að reisa hús á tveimur hæðum með kjallara undir hálfu húsi, byggt úr steinsteypu með steingólfum og valmaþaki úr timbri. Stærð húss 11x8,5m. Teikningarnar að húsinu gerði Jónas Snæbjörnsson.PA270985

Möðruvallastræti 5 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Norðanmegin á framhlið er útskot og inngöngudyr ásamt tröppum í kverkinni á milli. Bárujárn er á þaki, veggir múrsléttaðir og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í gluggum.

Jónas Snæbjörnsson menntaskólakennari og brúarsmiður, sem byggði Möðruvallastræti 5 var fæddur var á Svefneyjum á Breiðafirði. Hann kenndi teikningu og smíði við Menntaskólann á Akureyri í ein 46 ár, frá 1914 til 1960 og mun það vera starfsaldursmet við þá ágætu stofnun. Jónas var trésmiður og stundaði auk kennslunnar, brúarsmíði á sumrin og kom auk þess að byggingu margra vita og kirkna. Á löngum starfsferli sem brúarsmiður kom Jónas að byggingu hengibrúa yfir Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum og brúnna yfir Eyjafjarðará á Hólmunum (Þverbrautinni). Sem áður segir kenndi hann til ársins 1960, eða til sjötugs. Um það leyti auglýsti hann hæðina í Möðruvallastræti 5 til sölu og tilgreindi að þar væri „fagurt útsýni“. En hann settist aldeilis ekki alfarið í helgan stein eftir tæplega hálfrar aldar kennslu, því árið 1963 var hann enn starfandi við brúarsmíðar. Þá var hann starfandi við 100. brúna á starfsferlinum,  Hofsárbrú í Vesturdal í Skagafirði. Jónas lést árið 1966.  Jónas var kvæntur Herdísi Símonardóttur frá Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal.

 Margir hafa átt heima í Möðruvallastræti 5 eftir tíð þeirra heiðurshjóna, Jónasar og Herdísar, en húsið hefur alla tíð verið tvíbýli. Húsið er lítið breytt frá upphaflegri gerð, en árið 2005 var glugga á neðri hæð breytt í dyr ásamt lítils háttar breytingum, eftir teikningum Loga Más Einarssonar. Líkt og flestöll húsin við Möðruvallastræti er húsið er í mjög góðri hirðu eiginlega sem nýtt að sjá, sem og lóðin sem er vel gróin og hirt og til mikillar prýði í umhverfinu. Möðruvallastræti 5 hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs, eða 4. stigs varðveislugildi og er talið hafa gildi sem hluti þeirrar heildar sem götumyndin er. Myndin er tekin sunnudaginn 27. október 2019.

p8090017.jpg

Hér er ein þeirra rúmlega 100 brúa sem Jónas Snæbjörnsson tók þátt í að reisa: Vestasta brúin af þremur á svokallaðri Þverbraut yfir óshólma Eyjafjarðarár. Voru þær byggðar 1923 og voru mikil samgöngubót, og voru hluti þjóðvegakerfisins í rúm 60 ár. Þessari tilteknu brú hefur reyndar verið lokað fyrir umferð þar eð hún lendir inn á öryggissvæði Akureyrarflugvallar. Myndin er tekin á góðviðrisdegi í ágúst 2010.  

 

 

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1009, 6. apríl 1945.  Fundur nr. 1018, 26. maí 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 460
  • Frá upphafi: 436799

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 293
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband