Hús dagsins: Möðruvallastræti 9

Árið 1945 var Eiríki Guðmundssyni leyft að reisa hús á lóð,PA270981 sem hann hafði fengið úthlutað við Möðruvallastræti. Húsið skyldi byggt úr steinsteypu með steingólfi og valmaþaki úr timbri. Ein hæð á háum kjallara, stærð 12,7x8,2m auk útskots að vestan, 1,5x6,3m. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.  

Möðruvallastræti 9 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, af nokkuð algengri gerð funkishúsa hérlendis, með útskoti að framan og í kverk á milli steyptar tröppur upp að inngangi efri hæðar. Ekki eru þó horngluggar á húsinu, en í Húsakönnun 2016 segir að húsið sé af gerð funksjónalisma en     „[...]búið að einfalda og aðlaga  stílinn að  íslenskum  aðstæðum  með  valmaþaki, samhverfari gluggasetningu og steiningu.“ (Minjasafnið á Ak., Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 95) . Á veggjum er steining, bárujárn á þaki og einfaldir póstar í gluggum.

Þau Eiríkur Guðmundsson og kona hans, Anna Sigurveig Sveinsdóttir bjuggu hér um áratugaskeið. Eiríkur allt til dánardægurs, 1983, en Anna bjó hér til 1989. Þau ráku hér lengi vel matstofu og leigðu út herbergi fyrir nemendur Menntaskólans, en héðan eru um 150 metrar að skólahúsinu. Eiríkur, sem var kjötiðnaðarmeistari var frá Hróarsstöðum í Öxarfirði en Anna sem var matráðskona, var frá Eyvindarstöðum í Eiðaþinghá. Á 5. áratugnum var einnig búsett hér Einhildur Sveinsdóttir, systir Önnu, sem þarna stundaði matsölu, svo sjá má á auglýsingu frá haustinu 1946; „Sel fast fæði“ Um og fyrir miðja 20. öld var ekkert óalgengt að konur seldu fæði, stundum í eins konar áskrift og þá talað um kostgangara. Það var aldeilis ekki sama úrval af skyndibitastöðum um og fyrir miðja 20. öld og síðar varð, enda áratugir í að flestir skyndibitar þeirra tegunda sem neytt er í dag  kæmu til sögunnar hérlendis.

Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi, á því mun upprunaleg steining en er þó snyrtilegt og í góðri hirðu. Á lóðarmörkum er girðing með steyptum stöplum og járnavirki og gróskumikil reynitré á lóð. Húsið hlýtur miðlungs eða fimmta stigs varðveislugildi í áðurnefndri Húsakönnun frá 2016. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin sunnudaginn 27. október 2019, í fyrstu snjóum vetrarins 2019-20.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1007. 27. mars 1945 Fundur nr. 1010, 13. apríl 1945.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 25
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 474
  • Frá upphafi: 436813

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 303
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband