Hús dagsins: Ránargata 21

Þann 1. maí sl. fór ég göngutúr um Ránargötu og Ægisgötu og ljósmyndaði- að ég hélt- öll húsin við þær götur norðan Eiðsvallagötu. En við vinnslu pistlana komst ég að því, að einhverra hluta vegna, gleymt húsum nr. 20 og 21. En ég náði mynd af hinu síðarnefnda í dag...

Í maí 1949 fékk Sigfús Jónsson lóð og byggingarleyfi við Ránargötu.P9120991 Fékk hann að reisa hús samkvæmt meðfylgjandi, en húsinu ekki lýst frekar. En umræddar teikningar gerði Sigurður Hannesson.

Ránargata 21 er tvílyft steinhús með valmaþaki. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Sólskáli úr gleri er áfastur á suðurhlið hússins. Á framhlið eru inngöngudyr og steypt skýli yfir þeim en á vesturhlið eru svalir á efri hæð. Samkvæmt teikningum er grunnflötur hússins 9,30x11,50 og telst þar sólskálinn ekki með, enda síðari tíma viðbót.

Þegar Ránargötu 21 er flett upp í bæjarblöðum Akureyrar koma eitthvað nálægt 40 niðurstöður. Þar af er ein frá haustinu 1952 þegar „eldur var uppi í Ránargötu 21“. Kviknaði þá í þakinu og skemmdist töluvert og mun hafa þurft að rjúfa það að hluta til þess að slökkva í reiðingi, sem hafður var til einangrunar. Í frétt Íslendings kemur fram, að í húsinu búi þeir Sigfús Jónsson, starfsmaður á Gefjun og Sigtryggur Þorbjarnarson rafvirki. Sá síðarnefndi seldi Jóni Stefánssyni sinn eignarhluta í húsinu árið 1958.

Sigfús Jónsson var fæddur á Goðdölum við Skagafjörð og starfaði lengst af á Gefjun, lengi vel sem verkstjóri. Kona hans var María Árnína Ísaksdóttir, sem fædd var á Raufarhöfn. Hún var lengst af húsmóðir en vann hin seinni ár á Sútunarverksmiðjunum. Þau hjónin unnu þannig bæði á Verksmiðjunum á Gleráreyrum, eins og svo fjölmargir Akureyringar á 20. öldinni. Þau bjuggu þarna um árabil en margir hafa átt og búið í tveimur íbúðum hússins.  Árið 1989 var sólskálinn að vestanverðu byggður við húsið, eftir teikningum Ágústs Hafsteinssonar. Að öðru leyti er húsið að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð.

Ránargata 21 er látlaust og stílhreint hús og er í mjög góðri hirðu. Það er hluti samstæðra en innbyrðis gjörólíkra húsa við norðanverða Ránargötu og er til mikillar prýði. Sömu sögu er að segja af lóð, sem öll er hin snyrtilegasta og vel hirt. Það er álit þess sem þetta ritar, að þessar húsaröð og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 12. sept. 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1109, 6. maí 1949. Fundur nr.1109, 10. júní 1949. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 475
  • Frá upphafi: 436830

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 304
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband