Hús dagsins: Ægisgata 16

Ægisgötu 16 munu þeir Baldur J. Líndal og Þorsteinn Gunnarsson P5010997hafa reist árið 1943. Þeir voru líkast til í húsbyggingum í verktöku en í lok júlí 1943 sóttu þeir um „þrjár lóðir fyrir einlyft hús, helst við Ægisgötu“. Þeir fengu hins vegar aðeins eina lóð austan götunnar, norðan Eyrarvegar (gatan var þá þegar fullbyggð sunnan við Eyrarveg), en bygginganefnd vildi ekki festa fleiri lóðir, nema vissa fengist fyrir því, að  bygging hefðist þar þá um sumarið. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en höfundur telur nokkuð líklegt, að þar hafi Tryggvi Jónatansson verið að verki.

Ægisgata 16 er einlyft steinhús með tiltölulega háu valmaþaki, horngluggum í anda funkis. Það skiptist í tvær álmur, framhús er ca 9x12 en áfast bakhús eða suðausturálma er 7x7. Steiningarmúr er á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Það birtast eitthvað nálægt 20 niðurstöður á timarit.is í Akureyrarblöðunum þegar heimilisfanginu “Ægisgötu 16” er flett upp, sú elsta frá 13. apríl 1945 þar sem nýlegur árabátur er auglýstur til sölu. (Þess má til gamans geta, að þann sama dag fæddist í Keflavík  Rúnar nokkur Júlíusson, sá ástsæli tónlistarmaður). Árið 1953 eru eigendur hússins Jörundur Jónsson og Torfi Jörundsson. Þá var reist við húsið viðbygging til suðausturs, 7x7m að grunnfleti eftir teikningum Halldórs Jónssonar.  Viðbyggingin er í sama stíl og upprunalega húsið, svolítið eins og smækkuð mynd af því. Í viðbyggingu var innréttuð sér íbúð og mun sú íbúðaskipan óbreytt enn í dag.

Þeir Baldur og Þorsteinn hafa líkast til ekki búið lengi í húsinu, væntanlega reist það í verktöku og selt fljótlega eftir að það var reist. Síðar sama ár og þeir reistu húsið, 1943, komu þeir, ásamt Agli Sigurðssyni, á fót kolsýruverksmiðju, þar sem þeir unnu kolsýru m.a. úr skeljasandi og töppuðu á kúta. Við þá starfsemi hugkvæmdist Baldri að tappa vetni á kút og prófa að keyra breskan „offisera“bíl af Humber-gerð og niðurstaðan var fyrsti „vetnisbíll“ Íslandssögunnar. En Baldur keyrði semsagt fyrstur manna á Íslandi á vetnisbíl, en það var árið 1945. Baldur Líndal (1918-1991), sem var frá Lækjamóti í Víðidal, lauk nokkrum árum síðar, 1949, prófi í efnaverkfræði frá hinum virta háskóla MIT í Boston og starfaði við þá grein um árabil, var m.a. einn af frumkvöðlum við vinnslu kísilgúr í Mývatni.

Ægisgata 16 er líkt og nærliggjandi hús við Ægisgötuna, snoturt og reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel gróin og vel hirt, ber þar mest á tveimur gróskumiklum reynitrjám framan við húsið. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein í framhúsi og önnur í bakálmu og er húsið líklega eina tvíbýlishúsið við Ægisgötu. Myndin er tekin 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 951, 30. júlí 1943 Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. Hvernig líst þér á nýju tillögurnar um byggingar við Tónatröð? Þetta eru ekki háhýsi eins og í þeirri fyrri.

Einhver var að nota það sem rök gegn lausagöngu katta að þeir slást. Þeir sem slást eru ÓGELTIR FRESSKETTIR. Í Rvík er skylda að gelda alla fressketti ekki síðar en við 6 mán. aldur. Enginn vill hafa einn slíkan sem innikött.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 13.11.2021 kl. 16:15

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Skárri eru nýtilkomnar tillögur en þær fyrri, mér sýnast byggingarnar eiga að mynd einhvers konar tröppugang upp í brekkuna. Enn er þetta þó ívið stórkarlalegt fyrir þetta umhverfi og æskilegra að útlitið tæki betur mið af nærliggjandi byggð. Risþök og kvistir myndu t.d. gera gæfumun þarna.  Reyndar er sjúkrahúsið þarna á næstu grösum og þessar byggingar e.t.v. eitthvað samskonar og byggingar þess. Svo set ég líka spurningamerki við innviði hverfisins; tveir bílar geta trauðla mæst á Spítalavegi- enda er hann einstefna á parti (að vísu neðan við Tónatröð). Hvernig ber hann þá umferð frá tugum íbúða. 

Hvað kettina varðar eru þetta rök sem varla halda vatni, eru ekki almennt fresskettir, sem haldnir eru sem gæludýr geltir. Eða það hefði ég haldið- þeir eru varla mönnum sinnandi annars.

Arnór Bliki Hallmundsson, 14.11.2021 kl. 13:59

3 identicon

Geltir fresskettir verða fljótt feitir og latir, ónýtir til músaveiða. Læðurnar veiða og reyna að veiða fugla háaldraðar. Nágrannakisa náði fugli í garðinum hjá mér, 17 ára held ég. Og horfði löngunaraugum á svartþröst sem sat oft á grein í öruggri hæð og horfði niður á kisu. Ef fuglar gætu glott, þá hefði þessi fugl gert það.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 14.11.2021 kl. 15:09

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já, það er auðvitað ekki gott að hafa fressketti gelta þegar stólað er á þá til músaveiða. En líkast til nauðsynlegt ef ætlunin er að halda þá sem inniketti. Skemmtilegt þetta með fuglinn og kisuna; sjálfsagt ófáir fuglar sem bjargast hafa á flugi og í trjám.

Arnór Bliki Hallmundsson, 14.11.2021 kl. 18:23

5 identicon

Það þýðir ekkert að hafa fresskött til músaveiða, ef þeir eru ógeltir eru þeir alltaf að elta læður og slást. Eina vitið er að fá sér læðu.

Á s.hl. 20.aldar var mikið af ógeltum fressköttum hér í 101 Rvík.  Reglur um geldingu þeirra tóku gildi 2005 og gefinn út bæklingur með reglum um kattahald. Ég tók mynd út um glugga á björtu kvöldi af 6 köttum í garðinum hjá mér, samt átti enginn köttur heima í húsinu. En það sést ekki á myndinni að þetta eru 4 fress að slást um 2 læður, og líka um það hver þeirra væri kóngur í garðinum. Í því var einn sigurvegari, hét Stalín. Hann þurfti svo seinna að lúta í lægra haldi f. yngri og sprækari fressum. Þá var hann um tíma inniliggjandi, rifinn, bitinn og klóraður. Það var sko fjör í kattalífinu í bakgörðunum!

 

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 15.11.2021 kl. 11:28

6 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Það er ævinlega fjör í kringum ketti og oft gaman að fylgjast með þeim. Stundum þykir manni þó nóg um, enda oft mikið bitið, klórað og hvæst.

Arnór Bliki Hallmundsson, 15.11.2021 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 456
  • Frá upphafi: 436795

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 290
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband