Hús dagsins: Eyrarvegur 2a

Veitingahúsið Greifann þekkja sjálfsagt flestir, sem sótt P6220990hafa Akureyri heim og auðvitað íbúar bæjarins líka. Hann stendur í þjóðbraut, bókstaflega, því Þjóðvegur 1 gegnum Akureyri liggur um Glerárgötu, þar sem Greifinn er hús nr. 20. Norðan við Greifann liggur Eyrarvegur til austurs fast við þau gatnamót liggja Hvannavellir til norðurs. Bak við Greifann, sunnan við gatnamótin þreföldu er efsta hús Eyrarvegar. Það ber númerið 2a. Það var fullbyggt árið 1950, en Eyrarvegur var að mestu fullbyggður fáeinum árum fyrr, þ.á.m. nr. 2, sem reis 1945.  Hús nr. 1 er t.d. nokkuð neðar en á móti Eyrarvegi 2a eru Hvannavellir 2 og Sólvellir 1. Þá var auðvitað enginn Greifi, heldur braggaþyrping þar sem veitingahúsið rómaða stendur nú.

En það var í júní 1949 að Adolf Ingimarsson fékk „hornlóðina við Eyrarveg“ og byggingarleyfi. Byggingarlýsing fylgdi ekki en tekið fram að vegna umferðar væri ekki hægt að láta nema nokkurn hluta lóðar af hendi. Hvort einhvern tíma bættist við lóðina fylgir ekki sögunni, en aðeins um fjórir metrar skilja að vesturhlið hússins og lóðarmörkin við Greifann. Teikningarnar að húsinu gerði Sigurður Hannesson.

Eyrarvegur 2a er einlyft steinhús með lágu valmaþaki undir áhrifum funkisstíls, horngluggi á norðvesturhorni. Gluggapóstar eru þrískiptir með lóðréttum fögum og lóðrétt fögum uppi og niðri, sem gefur gluggunum og þar með húsinu, sérstakan svip. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Grunnflötur er nokkurn veginn ferningslaga, 11x11,15m.

Adolf Ingimarsson (1914-1982) var frá Uppsölum í Öngulsstaðahreppi- nú Eyjafjarðarsveit og kona hans var Jóna Sigríður Jónsdóttir (1920-2012) frá Goðdölum í Skagafirði.  Adolf var mjög fær golfspilari og vakti athygli, þegar hann fór fyrstur holu í höggi á nýju golfvelli Akureyrar í júlí 1952. Þess má reyndar geta, að umræddur golfvöllur er nú löngu kominn undir byggð- í Byggðahverfi á syðri Brekkunni. Mun þetta hafa verið í þriðja skiptið, sem einhver fór holu í höggi í golfsögu bæjarins. Þau Adolf og Ingibjörg bjuggu hér um langt árabil, en þó nokkrir hafa átt og búið í húsinu eftir þeirra tíð, en öllum auðnast að halda því vel við í hvívetna. Það er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð, m.a. eru gluggapóstar sömu gerðar og á upprunalegri teikningu. Bílskúr var byggður á lóðinni, suðaustan við húsið, árið 1967 eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar.

Eyrarvegur 2a er látlaust en glæst hús í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Lóðin er einnig mjög gróskumikil og vel hirt og er þar m.a. lítið gróðurhús. Eyrarvegurinn er ein af mörgum skemmtilegum og áhugaverðum götumyndum eldri hverfa Akureyrar. Hún er eiginlega tvískipt; sunnanmegin eru funkishús með valmaþök, áþekk húsum við Ægisgötu en norðanmegin er þyrping verkamannabústaða með sérstæðu lagi. Að sjálfsögðu verðskulda öll þessi hús varðveislugildi að mati síðuhafa (þarf kannski ekki að spyrja að því wink). Myndin er tekin þann 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1110, 24. júní 1949. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • PA021039
  • P8291019
  • page07
  • page02
  • page01

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.12.): 41
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 455
  • Frá upphafi: 437584

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 322
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband