31.3.2022 | 16:49
Hús dagsins: Freyvangur
Skammt ofan Laugalands, í fyrrum Öngulsstaðahreppi, um 14 km framan Akureyrar, er að finna eina af helstu menningarmiðstöðvum Eyjafjarðarsvæðisins. Freyvangur, í upphafi félagsheimili Öngulsstaðahrepps, var vígt 1957, en hefur sl. áratugi verið aðsetur samnefnds leikfélags, sem sett hefur upp hverja stórsýninguna á fætur annarri. Freyvangsleikhúsið hefur löngum verið orðlagt fyrir metnað og sýningar jafnan lofaðar í hástert af gagnrýnendum. Og það verðskuldað. Nú eru uppi áform um sölu Freyvangs og svo geti því farið, að leiksýningar og samkomur í Freyvangi heyri sögunni til. Þannig hillir undir viss vatnaskil í sögu þessa ágæta húss, enda þótt það muni standa áfram en hlutverk þess og kannski útlit og yfirbragð breytt. En kannski (og vonandi) verður ekkert úr þessum fyrirætlunum og Freyvangur og Freyvangsleikhúsið við lýði um ókomna tíð.
Fyrri hluta síðustu aldar sóttu íbúar Öngulsstaðahrepps samkomur sínar í þinghús hreppsins. Það hús var reist um 1905 og stóð í víðum hvammi sunnan Þverár, undir Þverárhöfða. Um miðja öldina var sú bygging komin að fótum fram og þótti orðið með öllu ófullnægjandi. Það var því snemma árs 1953 að með hreppsnefnd funduðu öll þau félög hreppsins, sem komið gætu að byggingu nýs félagsheimilis. Hófust nú samningaviðræður um hlutdeild hvers félags og lauk þeim í ágúst sama ár. Þau félög sem komu að byggingu hússins voru kvenfélögin Aldan og Voröld, Slysavarnarfélagið Keðjan, ungmennafélögin Árroðinn, Ársól og Væringjar ásamt Framfarafélaginu. Þess má reyndar geta að téð ungmennafélag Ársól reisti einnig samkomuhús á Munkaþverá um 1924 (rifið um 1980) sem íbúar syðri hluta hreppsins nýttu til samkomuhalda, en íbúar norðurhluta hreppsins sóttu samkomur á Þverá. Framkvæmdanefnd skipuðu þeir Garðar Halldórsson á Rifkelsstöðum, Jónas Þórhallsson á Stóra - Hamri og Kristinn Sigmundsson á Arnarhóli. Þess má geta að sá síðasttaldi var föðurafi þess sem þetta ritar. Það var svo 21. nóvember 1953 sem jarðvinna hófst. Nýja félagsheimilinu var valinn staður í landi Ytra Laugalands, í aflíðandi hlíð ofan þjóðvegarins, neðan Stekkjarhjalla (skv. Örnefnakorti LMÍ). Margir komu að byggingu hins nýja félagsheimilis en byggingu stýrðu þeir Sigfús Hallgrímsson og Þórður Friðbjarnarson. Tók sá síðarnefndi við af hinum fyrrnefnda. Tryggvi Sæmundsson sá um járnabindingu og þeir Jóhann Þórisson og Jóhannes Pétursson um múrverk. Miðstöðvar- og raflagnadeildir KEA sáu um þær framkvæmdir, sem að því laut, Ólafur Magnússon sá um uppsetningu miðstöðvarkerfis en Ingvi Hjörleifsson um raflögnina. Bræðurnir Kristján og Hannes Vigfússynir önnuðust málningarvinnu en innréttingar voru smíðaðar í Lundi og Slippstöðinni. Þess ber einnig að geta, að margir komu að byggingunni í sjálfboðavinnu og lögðu þar flestir íbúar sveitarinna, karlar jafnt sem konur, hönd á plóg. Í upphafi var ákveðið að kostnaðurinn skyldi skiptast milli félagana átta, hreppsins og annarra á þá leið að hreppurinn legði til 52 % á móti hinum félagasamtökunum. Við vígslu skiptist þeir fjármunir, sem þessir aðilar höfðu lagt til á þessa leið: Hreppurinn 370 þúsund krónur, félögin átta 195 þúsund frjáls framlög 90 þúsund, Menningarsjóður KEA kr. 5000. Þá hafði félagsheimilasjóður lagt til 170 þúsund og fylgdi sögunni, að sá sjóður væri langt á eftir með sínar lögboðnu greiðslur. Vart þarf að taka fram, að mun dýrari hefði byggingin verið, ef ekki hefði verið sjálfboðavinnu þeirri, sem sveitungar sinntu af eljusemi og dugnaði. Fullbúin kostaði byggingin 1,5 milljónir. Ekki kann síðuhafi að snara þeirri upphæð á núvirði. i. Nú munu skráðir eigendur hússins vera Eyjafjarðarsveit, Búnaðarfélag Eyjafjarðarsveitar, Kvenfélagið Aldan Voröld og ungmennafélagið Samherjar (ekki útgerðarfélagið Samherji) en raunar ríkir ákveðin óvissa um eignarhaldið.
Freyvangur er steinsteypuhús í tveimur álmum, önnur þeirra tvílyft með lágu, aflíðandi risi og sú fremri ein hæð með aflíðandi, einhalla þaki. Samkomusalur og húsvarðaríbúð er í hærri álmunni en í lægri álmunni m.a. anddyri, búningsherbergi, salerni, fatahengi, eldhús. Nú kann einhver að gera þá athugasemd, að samkomusalur með 7m lofthæð telst vitaskuld ekki tvílyftur; með tvo loft- en hluti álmunnar er sannanlega á tveimur hæðum. Veggir hússins eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Gólfflötur hússins mun 445 m2 og lofthæð í sal 7 metrar. Í upphafi var leiksvið 60 m2 , salur 115 m2 og veitingastofa 50 m2 . Húsið mun að mestu óbreytt að ytra byrði frá upphaflegri gerð, þó mun þaki á framálmu hafa verið breytt lítillega um 1990. Á bakvið stendur geymsluhúsnæði, sem byggt mun árið 1963.
Vígsluhátíð Freyvangs var haldin á sumardaginn fyrsta, 25. apríl 1957. Um var að ræða mikil hátíðahöld, en þar voru samankomnir 350 manns. Veislustjóri var yfirvald sveitarinnar Árni Jóhannsson en athöfnin hófst með guðsþjónustu sr. Benjamíns Kristjánssonar. Héldu margir ræður og mikið sungið og borð svignuðu undan kræsingum. Hið nýja félagsheimili Öngulsstaðahrepps, Freyvangur, var komið í gagnið. Efnt hafði verið til samkeppni innan sveitarinnar um nafn á nýja félagsheimilið og var tillaga Sigurpáls Helgasonar á Þórustöðum, um nafnið Freyvang, hlutskörpust. Fyrstu íbúar Freyvangs og húsverðir voru þau Theódór Kristjánsson og Guðmunda Finnbogadóttir. Bjuggu þau hér frá 1957 til 1965. Þess má líka geta, að tveir synir þeirra, Kristján Helgi og Ólafur Helgi gegndu einnig stöðu húsvarðar, Kristján frá 1972 til 1974 og Ólafur frá 1981-88.
Ef Freyvangur eða Freyvangi er flett upp á gagnagrunninum timarit.is birtast alls um 2500 niðurstöður, mestmegnis auglýsingar um hina ýmsa viðburði og leiksýningar. Ef þessari tölu er deilt með aldursárum Freyvangs (65) fæst út, að Freyvangur hefur að jafnaði birst í prentmiðlum 40 sinnum á ári frá byggingu. Svo ljóst má vera, að alla tíð hefur verið nóg að gerast í Freyvangi. Á fyrstu árum má sjá þar auglýsta dansleiki, sem og héraðsmót. (Um svipað leyti og Skapti Ólafsson söng um héraðsmótin) Þá stóðu bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn fyrir mótum, fundum og viðburðum þarna, þannig að segja má, að Freyvangur hafi verið þverpólítískur samkomustaður. Líkt og tíðkast með félagsheimili var Freyvangur auðvitað miðpunktur samkvæmis- og félagslífs Öngulsstaðahrepps: Þorrablót, jólaskemmtanir, árshátíðir, tónleikar og aðrar slíkar samkomur. Með sameiningu hreppana þriggja framan Akureyrar um áramótin 1990-91 breyttust forsendur alls þessa nokkuð. Freyvangur var einnig nýttur sem skólahúsnæði um nokkurra ára skeið, eða veturna 1967-69 og 70-71. Um var að ræða sérstakan unglingaskóla Öngulsstaðahrepps en honum var sjálfhætt 1971 þegar Hrafnagilsskóli var stofnsettur. Þess má geta, að á þeim tíma var vegalengdin milli Freyvangs og Hrafnagils um 30 kílómetrar, þar eð næstu brýr yfir Eyjafjarðará voru Hólmabrýrnar við Akureyrarflugvallar eða Stíflubrú við Möðruvelli fram. Miðbrautin, milli Laugalands og Hrafnagils, kom löngu síðar en með henni styttist þessi leið h.u.b. tífalt.
Það sem e.t.v. hefur haldið merkjum Freyvangs hæst á lofti hin síðari ár, og raunar áratugi er hið rómaða Freyvangsleikhús. Leikverk hafa verið sett upp í Freyvangi frá byggingu hússins en stofnfundur leikfélags í Öngulsstaðahreppi var haldinn þann 9. apríl 1962. Formleg leiklistarstarfsemi í húsinu á þannig 60 ára afmæli um svipað leyti og þetta er ritað. Leikfélag Öngulstaðahrepps var að einhverju leyti forveri Freyvangsleikhússins sem nú heitir svo. Sem áður segir nær saga leiklistar í Freyvangi raunar lengra aftur, en leikrit höfðu verið sýnd í Freyvangi frá vígslu hússins eða þar um bil. Það yrði auðvitað alltof langt mál að telja upp öll þau verk sem Freyvangsleikhúsið hefur sett upp gegnum tíðina, en síðustu ár og áratugi hefur leikfélagið sett upp mörg sígild og vinsæl verk. Má þar nefna t.d. Dagbók Önnu Frank, Góða dátann Svejk, Fiðlarann á þakinu, Fló á skinni auk þess sem leikfélagið er ötult við að setja upp barnasýningar en m.a. hafa Lína Langsokkur, Emil í Kattholti og Dýrin í Hálsaskógi farið á fjalir Freyvangsleikhússins á sl. áratug eða svo. Þegar þetta er ritað sýnir Freyvangsleikhúsið Kardemommubæinn. Að auki hefur Freyvangsleikhúsið sett upp ýmis frumsamin leikverk, eða leikrit samin sérstaklega fyrir og frumsýnd í Freyvangi. Freyvangsleikhúsið hefur löngum verið rómað fyrir metnað og sýningar þess jafnan hlotið einróma lof og notið mikilla vinsælda. Síðuhafi fullyrðir, að Freyvangsleikhúsið sé ein af helstu menningarstofnunum Eyjafjarðarsvæðisins og jafnvel Norðurlands alls.
En nú munu blikur á lofti. Tíðindi hafa borist af hugsanlegri sölu Freyvangs og framtíð þessa stórmerka og rótgróna leikfélags jafnvel í tvísýnu. Félaginu mun raunar hafa boðist önnur aðstaða, nánar tiltekið Laugarborg við Hrafnagil, en starfseminni mun þó svo gott sem sjálfhætt, ef félagið missir húsið. (Það þætti nú líklega sérstakt, ef selt yrði ofan af Þjóðleikhúsinu og því gert að gera sér Hörpuna eða Háskólabíó að góðu!). Auðvitað er það skiljanlegt, að sveitarfélagið leiti leiða til fjáröflunar við uppbyggingu innviða og auðvitað margt hægt að gera, íbúum Eyjafjarðarsveitar til hagsbóta, fyrir andvirði Freyvangs. Það væri hins vegar synd ef Freyvangsleikhúsið legði upp laupana vegna sölu hússins. Og tæpast mun áhugaleikfélag sitja á slíkum fjármunum, að það geti fest kaup á húsinu og sinnt viðhaldi. (Uppsett verð mun um 65 milljónir). Nú mun liggja fyrir samningur til tveggja ára um áframhaldandi leigu félagsins á húsnæðinu og er það svo sannarlega vel.
Freyvangur er látlaust en glæst hús og í góðri hirðu. Túnið framan við er umgirt trjágróðri en á síðustu árum hefur trjágróður og skógar sett æ meiri svip á fyrir blómlegar og grösugar sveitir Eyjafjarðar. Freyvangur og öll hin gömlu félagsheimili um sveitir landsins eiga að sjálfsögðu að hljóta hátt varðveislugildi, ef ekki friðun. Oft er um að ræða stórkostlegar byggingar hvað byggingarlist varðar en menningarsögulegt gildi Freyvangs og sambærilegra húsa hlýtur að vera ótvírætt. En auk þess sem friða ætti bygginguna Freyvang væri ekki síður mikilvægt að varðveita þá merku menningarstofnun sem þar á skjól og tryggja þar áframhaldandi starf. Meðfylgjandi myndir eru teknar 13. júní 2020 og 29. mars 2022.
Gula örin bendir nokkurn veginn á staðinn, þar sem fyrrum þinghús Öngulsstaðahrepps, forveri Freyvangs, stóð í Þverárhvammi. Myndin er yfirlýst af síðdegis-síðvetrarsól- en greina má Þverá í baksýn. Í forgrunni eru viðgerðir á brúarstokki, en landfyllingin yfir honum- brúarmannvirkið yfir Þverá, gaf sig undan ofsafengnum vatnavöxtum sl. sumar. Af þinghúsinu er það að segja, að því var breytt í hlöðu og útihús en stóð síðustu árin eða áratugina ónotað og opið fyrir veðri og vindum. Það var jafnan við jörðu um 2015, líkast til orðið það ónýtt að viðgerð var ekki raunhæf.
Heimildir:
Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Upplýsingar um byggingaframkvæmdir, fjármögnun og forsögu er að mestu fengin úr forsíðufrétt og ítarlegri Dags, 27. apríl 1957: Stórglæsilegt félagsheimili í Öngulsstaðahreppi vígt með hátíðlegri athöfn fyrsta sumardag. (Ekkert nafn er skrifað undir greinina) Vísað er beint í aðrar heimildir í tenglum í texta.
Þá þakka ég öllum þeim, sem veittu mér upplýsingar, á Facebook-hópnum Öngulsstaðahreppur hinn forni.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 8
- Sl. sólarhring: 56
- Sl. viku: 425
- Frá upphafi: 440782
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 203
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ljómandi fínt hjá þér Arnór. En mér hefði þótt gott að það kæmi skýrar fram hvað hreppsbúar lögðu fram mikla sjálfboðaavinnu, bæði konur og karlar. Ég hugsa að það hafi verið tiltölulega fá heimili sem ekki lögðu fram einhverja vinnu, sum meiri en aðrir minni eins og gengur. Fyrir vikið fannst fólki - og finnst mörgum enn - að Freyvangur væri húsið þeirra. Svo held ég að kvenfélagið beri heiti beggja gömlu félaganna þ.e. Aldan Voröld. En takk fyrir þennan pistil Arnór.
Emilía Baldursdóttir (IP-tala skráð) 1.4.2022 kl. 16:23
Þakka þér
Ólafur Ólafsson (IP-tala skráð) 2.4.2022 kl. 08:19
Sæl og takk sömuleiðis, fyrir innlit og ábendingar. Alveg sjálfsagt að koma þessu að með sjálfboðavinnuna, þeir sem henni sinntu eiga að sjálfsögðu engu minni heiður af byggingunni, en verktakarnir sem ég tel upp. Það er ótvíræður kostur vefsíðutexta, að þeim er alltaf hægt að breyta og bæta við.
Arnór Bliki Hallmundsson, 2.4.2022 kl. 11:24
Móðir mín, Kristín Jónsdóttir, vill benda þér á eitt. Það var aðeins nyrðri hluti Öngusstaðahrepps sem notaði þinghúsið á Þverá þar til Freyvangur var byggður, en syðri hluti hreppsins, Staðarbyggð, notaði Ungmennafélagshúsið á Munkaþverá sem var byggt í kringum 1924. Ég set meiri upplýsingar um það hér á vefsíðuna.
Una Margrét Jónsdóttir (IP-tala skráð) 10.4.2022 kl. 22:37
Sæl Una. Takk fyrir innlitið hér og tilskrifin. Heimildirnar um samkomuhald Öngulsstaðahreppsbúa, fyrir daga Freyvangs, eru úr Byggðum Eyjafjarðar 1990 og þar virðist aðeins minnst á þinghúsið. Hefði eflaust mátt leita fanga víðar. Ég mun að sjálfsögðu að bæta þessum upplýsingum við skrifin, enda skal rétt vera rétt. Þakka enn og aftur kærlega fyrir þennan fróðleik og bestu kveðjur og þakkir til móður þinnar.
Arnór Bliki.
Arnór Bliki Hallmundsson, 11.4.2022 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.