Hús dagsins: Strandgata 23

Strandgötu 23 tók ég fyrir í mjög stuttu máli haustið 2009. Hér er hins vegar ítarlegri umfjöllun...

Eitt af skrautlegri og tilkomumeiru húsunum við Strandgötu P7151016er hús nr. 23, sem stendur austanmegin við horn götunnar og Lundargötu. Húsið byggði Metúsalem Jóhannsson árið 1906 en fyrst var byggt á þessari lóð árið 1879. Upprunalega húsið var hins vegar flutt á næstu lóð norðan við árið 1902, Lundargötu 2 og stendur þar enn. Byggði þá téður Metúsalem nýtt hús, sem varð skammlíft því það brann til grunna 18. mars 1906. Það var einmitt í kjölfar mikilla bruna, sem menn fóru að huga að því, að klæða timburhús með óbrennanlegum efnum á borð við járn og stein. Klæddi Metúsalem nýja húsið með steinskífu, veggi jafnt sem þak. Steinskífur þessar eru rúnnaðar grjótflögur, að því er virðist úr granít, ca. 1-2 cm að þykkt. Skífan hefur þann kost, að  ryðga ekki og ekki þarf að mála hana. En ekkert er „viðhaldsfrítt“ og ekki steinskífan heldur; skífurnar veðrast eins og annað og með tímanum geta þær farið að losna. Þær munu einnig nokkuð brotthættar.  Steinskífa prýddi þó nokkur timburhús á Akureyri, en þau hafa mörg hver týnt tölunni eða skífunni skipt út fyrir aðra klæðningu.

Það var sumarið 1906 að Metúsalem var leyft að byggja nýtt hús á grunni þess sem brann veturinn áður. Húsið var sagt tvílyft timburhús á kjallara, 14 álnir á breidd, suðurhlið 25 álnir en norðurhlið 24 álnir en grunnflötur er ekki hornréttur vestanmegin; gæti hafa átt að fylgja stefnu Lundargötu. Auk þess var getið „altans“ á framhlið 8x2 álnir fyrir miðju húsi. Lagði hann fram teikningar, en þær virðast ekki hafa varðveist. Þann 18. september 1906 fundar Bygginganefnd m.a. um nýtt hús Metúsalems og virðist aldeilis ekki skemmt. Gerir hún m.a. athugasemdir við, að byggingin hafi verið hafin að miklu leyti áður en byggingaleyfi var í höfn, auk þess sem hann hafi grafið innganga og steypt tröppur niður í kjallara út í gangstétt. Þá gerði bygginganefnd athugasemd við það, að yfir „altaninu“ hefði Metúsalem byggt risþak á stólpum, sem ekki var í samræmi við upprunalegar teikningar. Hvort þetta hafði einhverja eftirmála fylgir ekki sögunni, en risþakið þ.e. kvisturinn er enn yfir „altaninu“ eða svölunum og enn eru niðurgrafnar kjallaratröppur að framanverðu.

Strandgata 23 er tvílyft timburhús á háum kjallara með háu risi og miðjukvisti og svölum undir honum. Á bakhlið, austanmegin er einlyft bygging með einhalla þaki auk hárrar og mjórrar útbyggingar fyrir miðri bakhlið.  Steinskífa er á veggjum en bárujárn á þaki, en lengi vel var einnig skífuklæðning á þaki. Í flestum gluggum eru T-laga póstar en verslunargluggar fyrir miðri jarðhæð. Eru þeir rammaðir inn af sléttum plötum. Miðjukvist, prýðir útskorið skraut, eitt af einkennum Sveitserstíls, sem var áberandi í stærri einbýlishúsum og húsum efnamanna á fyrstu árum 20. aldar. Þessi hús, sem mörg hver komu tilhöggvin frá Noregi, einkenndust m.a. af útskornu skrauti og miklum íburði. Grunnflötur hússins er um 15,8x8,8m (norðurhlið 15,2m), viðbygging að NA, 6x6,3m og bakbygging 2,5x2,5m.

Metúsalem Jóhannsson (1874-1941), kaupmaður var utan úr Glæsibæjarhreppi, uppalinn á Einarsstöðum. Hann var kvæntur Sigrúnu Sörensdóttur (1872-1915) en hún var úr Þingeyjarsýslum, skráð til heimilis að Vargsnesi í Þóroddsstaðasókn árið 1880. Húsið var frá upphafi hvort tveggja verslunar- og íbúðarhús. Þau bjuggu ekki mjög lengi í húsinu, eða um sex ár. Þau og fjögur börn þeirra eru skráð hér í Manntali 1911, ásamt vetrarstúlku og leigjendum, alls 12 manns. Ári síðar búa aðeins fjórir í húsinu og eigandi sagður „Metúsalem Jóhannesson, kaupmaður á Óspaksseyri“. Hefur hann þá væntanlega flutt þangað árið 1912.  Það er í rauninni svolítið óvenjulegt miðað við stærð hússins, að einungis fjórir einstaklingar búi þar árið 1912, en þá var ekki óalgengt að margar fjölskyldur, um eða yfir 20 manns byggju saman í miklu smærri húsum. En þessir fjórir einstaklingar eru þau Lárus Thorarenssen kaupmaður, Guðbjörg Friðbjarnardóttir ekkja, Amelía Klara Jóhannsdóttir búðarstúlka, dóttir Guðbjargar, og Jóhanna Guðmundsdóttir húskona. Árið 1913 er Pétur Pétursson orðinn eigandi hússins. Þá eru, auk Lárusar kaupmanns og mæðgnanna Guðbjargar og Klöru búsett hér Karl Nikulásson, skráður verslunarstjóri ásamt fjölskyldu sinni. Árið 1914 er Pétur Pétursson fluttur inn ásamt fjölskyldu sinni. Það yrði væntanlega afar löng lesning, að rekja eigenda- og íbúasögu hússins á þennan hátt til dagsins í dag en eins og nærri má geta hafa margir búið og verslað í Strandgötu 23. Af Metúsalem Jóhannssyni er það hins vegar að segja, að hann stundaði verslun og útgerð víða um land, m.a. á Óspaksseyri og síðar í Reykjavík. Hann lést í Kaupmannahöfn árið 1941.   

Byggt hefur verið við Strandgötu  a.m.k. tvisvar að aftanverðu, annars vegar byggingin austanmegin, sem enn stendur. Þá stóð steypt viðbygging vestanmegin við húsið, meðfram Lundargötu, byggð um eða rétt fyrir miðja 20. öld. (Á mynd frá 1931 er hún a.m.k. ekki risin). Sú bygging var rifin um 2000.  Verslunargluggum á framhlið var breytt árið 1949 og um 1990 var skífu á þaki skipt út fyrir bárujárn. Að öðru leyti mun húsið lítt breytt frá upphafi að ytra byrði. Á þessari vel rúmlega öld hefur ýmis konar verslun og þjónusta verið starfrækt í húsinu sem og í viðbyggingunni. Það birtast tæplega 1400 niðurstöður fyrir „Strandgötu 23“ á timarit.is. Má þar nefna t.d. Atlabúðina, Kjöt og Fisk og hinn valinkunna Diddabar, svo fátt eitt sé nefnt. Ferðafélag Akureyrar hafði lengi aðsetur í viðbyggingunni, en fluttist í miðrýmið árið 1998, en þar hafði áður verið Snyrtistofa Nönnu.

Strandgata 23 er með reisulegri og skrautlegri húsum við Strandgötu og er til mikillar prýði. Útskurður á kvisti og skífuklæðningin gefa húsinu sérstakan og glæsilegan svip. Skífurnar mynda sérstætt munstur (sem kann að minna á fiskhreistur) og gefa húsinu þannig sérstætt og skemmtilegt yfirbragð. Þessi sérstaka klæðning var á þó nokkrum timburhúsum hér í bæ á öndverðri 20. öld, en kannski hæpið að segja hana mjög algenga, ekkert í líkingu við t.d. bárujárn eða steinblikk. Í mörgum tilfellum hefur steinskífu verið skipt út fyrir aðra klæðningu en einnig hafa nokkur steinskífuklædd hús verið rifin.  Hafnarstræti 103 (síðast skóbúð M.H. Lyngdal, rifið 1998) og Snorrahús við Strandgötu 29 (rifið 1987) voru steinskífuklædd. Nú er höfundi aðeins kunnugt um tvö hús á Akureyri sem klædd eru steinskífu. Svo vill til, að þau standa bæði á sama hektaranum á sunnanverðri, Oddeyri en hitt steinskífuhúsið er Norðurgata 2.

Strandgata 23 er vitaskuld aldursfriðað hús, þar eð húsið er yfir 100 ára (116 þegar þetta er ritað). Húsið er með stærri húsum við götuna og er til mikillar prýði í umhverfinu. Það er í góðri hirðu og kvisturinn, svalaumbúnaður, skrautið og ekki síst steinskífan gefur húsinu sinn einstæða og glæsta svip. Í húsakönnun 1990 er húsið metið með varðveislugildi, sem hluti af heild. Þar er einnig mælt með því, að viðbygging mætti víkja, en sú bygging var einmitt rifin um 2000. Húsakönnun 2020 metur varðveisugildi hússins hátt og telst það friðað (vegna aldurs) og nýtur einnig varðveislu undir flokknum einstök/hús eða götumynd og þar er einnig ítrekað varðveislugildi hússins sem hluti merkrar heildar. Á miðri jarðhæð og kjallara hússins eru höfuðstöðvar Ferðafélags Akureyrar. Þrjár íbúðir eru á neðri hæð, tvær hvor sínu megin við skrifstofu Ferðafélagsins og ein í viðbyggingu norðaustanmegin. Lengi vel var samkomusalur á efri hæð en nú eru innréttaðar þær tvær íbúðir, eftir nýjum teikningum Valbjörns Ægis Vilhjálmssonar. Myndin er tekin þ. 15. júlí 2022.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 312, 30. júní 1906. Fundur nr. 317, 18. sept. 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 499
  • Frá upphafi: 436894

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 331
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband