100 ár frá rafvæðingu Akureyrar

30. september 1922 var svo sannarlega stór dagur í sögu Akureyrar en þá birti mjög til og það í bókstaflegri merkingu; þá var nefnilega í fyrsta skipti hleypt á bæinn rafmagni frá rafveitu, nánar tiltekið Rafveitu Akureyrar. Á einstaka stöðum höfðu fram að því verið rafstöðvar en þarna var tekin í notkun rafveita til almennings.

Þeim sem rýnir í samtímaheimildir t.d. á timarit.is kynni að þykja lítið fjallað um þennan stórviðburð; hefði þetta ekki á vera forsíðufrétt í bæjarblöðunum. Ef við rýnum t.d. í DagÍslending og Verkamanninn eru þessi frétt aðeins ein af stuttum fréttum á meginopnum blaðanna, í sama dálki og fréttir af bátum, landbúnað og ekkert endilega efst á listanum. Tilkynningar um skólasetningar, hjúskap og skipaferðir eru t.d. ofar á blaði í tveimur blaðanna. Þetta kann okkur, sem ekki geta hugsað okkur daglegt líf án rafmagns, kannski einkennilegt; þvílík bylting og straumhvörf sem þetta hljóta að hafa verið. En það er nú ekki eins og bæjarbúar fyrir einni öld hafi beðið í ofvæni eftir því að stinga sjónvörpum, hljómflutningstækjum, kaffivélum, tölvum eða hárþurrkum í samband, eða að hlaða síma eða spjaldtölvur. En auðvitað var mikil bylting fólgin í því, að geta kveikt rafljós.

Það dró líka e.t.v. úr hátíðleika þessa merku tímamóta, að ekki nutu allir rafljósa þetta fyrsta kvöld og einhver vandræði höfðu skapast varðandi ljósaperur og íhluti í rafbúnað. Það vill nefnilega svo til, að á forsíðu Dags tæpum tveimur vikum síðar er frétt um rafveituna, enn viðameiri en fréttirnar af fyrstu straumhleypingunni. Svo virðist sem röð mistaka og misskilnings hafi leitt til þess, að afleitir kaupsamningar hafi verið gerðir við birgja hinnar nýju rafveitu, íhlutir, búnaður og mælar hafi verið of fáir, af röngum gerðum og ekki borist í tæka tíð. Því hafi sárafáir geta notið rafmagnsins þessa fyrstu daga og enn löng bið. Eða eins og segir orðrétt: Afleiðingar þessa alls eru þær, að fyrirtækið verður af tekjum sínum, fjöldi bæjarbúa er óánægður, svo að bærinn er fullur af öfund og ljótum munnsöfnuði og í stað þess að umbót þessi veki almenna hrifningu og að á móti henni væri tekið með tilhlýðilegri viðhöfn, er enn ekki búið, að leggja inn í Samkomuhús bæjarins og rafmagnið kemur hægt og drattandi eins og íslenzkur framkvæmdahugur. (Dagur 5. árg, 41. tbl. 12. okt 1922. Ekkert nafn) 

En Bandaríkjamaðurinn James Normann Hall, sem var einmitt staddur á Akureyri þennan merka dag í septemberlok hafði aðra sögu að segja, svo sem sjá má hér, á vef Grenndargralsins. Hann lýsir mikilli hrifningu og fögnuði bæjarbúa og talar um, að hvarvetna hafi logað rafljós í gluggum. (Hann virðist alltént ekki hafa orðið var við öfund og ljótan munnsöfnuð bæjarbúa).  Það er ástæða til þess, að vera þakklátur fyrir blessaða raforkuna, sem er algjör grundvallarforsenda nútíma lífshátta. Flest tökum við henni sem sjálfgefinni og erum stundum minnt á það, að það er hún alls ekki. T.d. þegar  flutningskerfi hennar verða fyrir skakkaföllum vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi þátta

P7040025

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

UPPHAFIÐ. Glerárstífla var reist árin 1921-22. Þaðan kom fyrsta rafmagnið, sem hleypt var á Akureyri. Byggingunni stýrði sænskur verkfræðingur, Olof Sandell. Hann þótti harður í horn að taka, stýrði mannskapnum með heraga og rak menn miskunnarlaust fyrir minnstu yfirsjónir.  Glerárvirkjun dugaði þó sívaxandi bæjarfélaginu skammt og ekki mörgum árum síðar fóru menn að horfa til frekara virkjanakosta t.d. í Þingeyjarsýslum. Fyrsta Laxárvirkjunin var tekin í notkun 1938. Þessi mynd er tekin í júlí 2009. Greinilega eru leysingar í ánni. 

 

084

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

RAFORKUMANNVIRKI. Endastöð háspennulínu. Þessi er reyndar komin ofan í jörð fyrir nokkrum árum síðan en þessi lá upp að borholuskúrum neðarlega á Glerárdal, norðan og við Fálkafell. Myndin er tekin í júní 2004. 

 

P4140723

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

RAFLÝST AKUREYRI. Uppljómaður Akureyrarbær á síðvetrarkvöldi, apríl 2018. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 498
  • Frá upphafi: 436893

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 330
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband