24.2.2023 | 17:21
Hús dagsins: Strandgata 17
Austan megin á einu fjölfarnasta götuhorni Akureyrar stendur snoturt forskalað timburhús með tveimur kvistum. Vesturstafn þess prýða jafnan vegglistaverk, en húsið sjálft má sjálfsagt muna sinn fífil fegurri. Afstaða hússins við götuna er nokkuð óþægileg, sér í lagi fyrir notendur gangstéttar, því þar skilur innan við metrabreið stétt að norðurhorn hússins og mestu umferðargötu Akureyrar þ.e. Glerárgötu. Snjóruðningar að vetri gera aðstæður enn verri. En þegar þetta er ritað stendur hvort tveggja til bóta, ástand hússins og öryggismál vegfarenda, því nýr eigandi hyggst færa þetta tæplega 140 ára gamla timburhús til upprunalegs horfs. Og svo vill til, að sá hluti hússins sem skagar út í Glerárgötuna er síðari tíma viðbygging og verður fjarlægð. Um er að ræða Strandgötu 17.
Á tveimur fundum Bygginganefndar Akureyrar í maí 1886 voru mældar út lóðir, sem síðar fengu númerin 17, 19 og 21 við Strandgötu, og vill svo skemmtilega til, að öll þessi þrjú hús standa enn. Einar Pálsson og Þórður Brynjólfsson fengu mælda út lóð vestan við Hauskenshús og Jón Jóhannesson næstu lóð vestan við þá. Þriðji lóðarhafinn var Pétur Tærgesen, sem fékk næstu lóð vestan við téðan Jón Jóhannesson og skyldu húsin standa í línu hvert við annað. Í Húsakönnun um Oddeyri er P. Tærgesen sagður hafa fengið lóðina árið 1885 en mögulega er það misritun. En það er heldur ekki útilokað, að húsið hafi verið reist árið áður og gengið frá lóðarútmælingu vorið eftir. Ekki er getið neins byggingaleyfis eða lýsingar en um var að ræða einlyft hús með háu risi og miðjukvisti og þremur gluggabilum á framhlið og skúr á norðurhlið. Fékk hann útmælda lóð sem átti að vera í línu við næstu hús. Þeir sem keyrt hafa gegnum Akureyri ættu að kannast við þetta hús en Þjóðvegur 1 (Glerárgata) liggur aðeins nokkra tugi cm frá vesturgafli þess.
Strandgata 17 er einlyft timburhús með háu risi og tveimur stórum kvistum á framhlið. Á austurgafli er forstofubygging og útskot eða álma, með stafni til norðurs, vestanmegin. Bárujárn er á þaki og á veggjum munu kvarsmulnings-steinaðar asbestplötur. Í flestum gluggum eru tvískiptir þverpóstar.
Af Pétri Tærgesen, sem hét fullu nafni Hans Pétur Tærgesen er það að segja, að mjög skömmu eftir að hann reisti húsið, 1886 eða ´87 fluttist hann til Vesturheims. Heimildum ber ekki alveg saman: Samkvæmt islendingabok.is fluttist hann vestur 1887 en samkvæmt sögusetri Manitobafylkis í Kanada, kom hann þangað árið áður. Pétur Tærgesen settist, eins og margir Íslendingar, að í Gimli, Winnipeg. Þar stundaði hann verslunarrekstur um áratugaskeið. Hann var tvisvar bæjarstjóri í Gimli, 1911-13 og 1919-23. Hans Pétur Tærgesen lést í Gimli árið 1954, 92 ára að aldri. Það er gaman að segja frá því, að Tærgesen mun hafa reist hús í Gimli árið 1911, Tergesen House, 38 Fourt Avenue Þannig eru Tærgesenshúsin tvö, hvort í sinni heimsálfu! Og raunar eru þau þrjú, því Tærgesen reisti árið 1898 verslunarhús í Gimli, H.P. Tergesen General store. Og það sem meira er, verslunin H.P. Tergesen & sons er ennþá starfandi í sama húsi í Gimli. (Í Vesturheimi hefur sá ritháttur, að rita nafnið með e komist á, enda æ framandi stafur í enskri tungu. Hér verður hvort tveggja viðhaft, kanadíski rithátturinn þar sem við á og öfugt).
Sá sem keypti hið nýreista hús af Tærgesen mun hafa verið Carl Holm, kaupmaður. Árið 1890 kallast húsið Hús Carls Holm, Oddeyri í Manntali og þar eru til heimilis, Carl og Nielsina Holm og dóttir þeirra, Hansína Holm. Einnig er skráður þar til heimilis Tómas Þorsteinsson, 75 ára, titlaður uppgjafaprestur. Árið 1907 eignaðist Bjarni Einarsson, skipasmiður og útgerðarmaður, frá Kletti í Borgarfirði húsið. Í september 1908 fékk hann leyfi til að lengja húsið til vesturs, viðbygging 5 álnum breiðari en upprunalegt hús, með kvisti á framhlið og eldvarnarmúr á lóðarmörkum. Lagði hann fram teikningu að þessum breytingum. Þar er um að ræða vesturálmu hússins, með vestri kvistinum (nær Glerárgötu). Árið 1921 var innréttuð verslun í vesturhluta hússins og var þá settur á verslunargluggi.
Í eystri hluta hafa alla tíð verið íbúðir. Sá húshluti var í eigu sömu fjölskyldu drjúgan hluta 20. aldar, en Magnús (1900-1992), sonur Bjarna Einarssonar, sem fluttist hingað á barnsaldri, bjó hér til æviloka. Kona Magnúsar Bjarnasonar, Ingibjörg Halldórsdóttir (1906-1999), var dóttir Halldórs Halldórssonar söðlasmiðs, sem reisti Strandgötu 15 (það hús var rifið fyrir áratugum). Margir hafa búið í Strandgötu 17 eftir hina löngu tíð þeirra Bjarna Einarssonar, sonar hans, Magnúsar og Ingibjargar. Allt frá 1921 og fram undir 2010 hýsti neðri hæð vestri hluta hina ýmsu verslun og starfsemi, m.a. afgreiðslu Happdrættis SÍBS um árabil. Á þriðja áratugnum er auglýst í húsinu Litla búðin Axels Schiöth og um miðja 20. öld raftækjaverslunin RAF. SÍBS hafði þarna aðsetur í fjóra áratugi, frá 1970. Um 2014 var innréttuð íbúð á neðri hæð að vestan, þar sem SÍBS-rýmið var áður.
Akureyrarbær hefur átt húsið sl. áratugi en seldi það nýverið með þeirri kvöð, að það yrði fært í upprunalegt horf. Teikningar að þeim endurbótum gerði Ágúst Hafsteinsson. Snemma árs 2023 keypti Helgi Ólafsson, sem hyggur á þessar endurbætur en hann mun þrautreyndur í endurbyggingu gamalla húsa. Í Húsakönnun 1990 er húsið metið með varðveislugildi sem hluti götumyndar Strandgötu og það er einnig aldursfriðað, þar sem það er byggt löngu fyrir árið 1923. Þá hlýtur sú staðreynd, að húsið byggði maður, sem síðar varð einn af helstu mektarmönnum Íslendingasamfélagsins í Kanada, svo að segja rétt fyrir brottförina vestur, að gefa húsinu nokkurt gildi. Í Gimli virðist haldið nokkuð upp á Tergesenshúsin tvö, verslunarhúsið frá 1898 og íbúðarhús Tergesens frá 1911. Full ástæða er til þess, að gera elsta Tærgesenshúsinu, á heimaslóðum H.P. Tærgesens, einnig hátt undir höfði. Og nú stendur það svo sannarlega til: Fyrir liggja glæstar teikningar að endurbótum og húsið komið í góðar hendur.
Það verður mjög spennandi að sjá hvernig endurbótum vindur fram á hinu aldna timburhúsi og er heillaóskum hér með komið til nýrra eigenda. Húsið mun, ef að líkum lætur, von bráðar verða hin mesta bæjarprýði, sannkölluð perla á fjölfarnasta stað Akureyrar. Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. febrúar 2007 og 8. desember 2021.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundir nr. 71 og 72, 3. og 10. maí 1886. 1902-1921. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 347, 9. sept. 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.4.): 28
- Sl. sólarhring: 28
- Sl. viku: 447
- Frá upphafi: 445006
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 273
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 17
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Var að skoða húsið á já.is. Kortið er frá 2017 og allt annað listaverk á gaflinum.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 24.2.2023 kl. 21:23
Já, þessi veggur er uppfærður reglulega, líklega u.þ.b einu sinni á ári.
Arnór Bliki Hallmundsson, 26.2.2023 kl. 22:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.