Hús dagsins: Saurbæjarkirkja

Á komandi aðventusunnudögum (eða helgum) hyggst ég birta umfjöllun um kirkjur Eyjafjarðarsveitar eina af annarri. Þær eru hins vegar sex en aðventusunnudagarnir fjórir. Grundarkirkju tók ég fyrir fyrr í sumar. Hyggst ég fara hringinn frá vestri, fram og út að austan. Þannig hefst umfjöllunin við Saurbæ, þá eru það Hólar, næst Möðruvellir og loks Kaupangskirkja. Munkaþverárkirkja verður svo fyrsta „Hús dagsins“ á nýju ári, mögulega á nýársdag en sú kirkja á stórafmæli, 180 ára, á hinu nýja ári 2024.

Fremstur hinna þriggja hreppa, er sameinuðust undirP6131000 nafni Eyjafjarðarsveitar fyrir rúmum þremur áratugum, var Saurbæjarhreppur. Dregur hann nafn sitt af Saurbæ, sem stendur undir miklum hálsi norður af Hleiðargarðsfjalli, sem mun kallast Saurbæjarháls. Á „Saurbæjartorfunni“ standa m.a. byggingarnar Sólgarður, félagsheimili Saurbæjarhrepps sem byggt var í áföngum frá 1934, 1954 og 1980 en hýsir nú Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Stendur Sólgarður fast við Eyjafjarðarbraut vestri. Bæjarhús Saurbæjar standa á hól nokkrum ofan Sólgarðs og þar er um að ræða veglegar byggingar frá 1927 og síðar, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Í þeim húsakynnum hefur Búsaga, samtök um búnaðarsögusafn, komið sér fyrir og þar leynast margir dýrgripir úr sögu búvéla 20. aldar. Nýjasta rós í hnappagat þessa geðþekka staðar við mynni Eyjafjarðardals er svo kýrin Edda, stórvirki eldsmiðsins Beate Stormo í Kristnesi en henni var komið fyrir á hólbrún norðan Sólgarðs í ágústbyrjun 2023. En krúnudjásn Saurbæjartorfunnar hlýtur þó að vera kirkjan, torfkirkja frá miðri 19. öld. Stendur hún framan eða austan við bæjarhús Saurbæjar og nefnist umræddur hóll einmitt Kirkjuhóll. Frá miðbæ Akureyrar að hlaðinu við Saurbæjarkirkju eru tæpir 29 kílómetrar.  

     Sögu Saurbæjar má rekja til landnáms en þar mun hafa búið Helga, dóttir Helga magra og maður hennar Auðun rotinn. Hversu snemma Saurbær varð kirkjustaður liggur ekki nákvæmlega fyrir en þar reis klaustur eftir miðja 12. öld. Sjálfsagt mætti skrifa mikið ritverk um sögu kirkjustaðarins og klaustursins að Saurbæ en hér látum við hana liggja milli hluta og hefjum umfjöllun á 19. öld. Það var árið 1822 að séra Einar Hallgrímsson Thorlacius kom að Saurbæ og hóf þar prestsskap og sat þar í nærri hálfa öld. (Kristján Eldjárn segir reyndar, að sr. Einar hafi komið að Saurbæ árið 1823). Kirkjubyggingin á Saurbæ þegar séra Einar kom að staðnum var torfkirkja með timburþiljum, reist um 1794. Sjálfsagt hefur Einari þótt tími kominn á nýja kirkju þegar leið á hinu löngu embættistíð hans, en ekki verður ráðið af heimildum að sú frá 1794 hafi verið orðin hrörleg enda þótt suðurveggur hafi verið farinn að fyrnast, skv. visitasíu árið 1856 (Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason, 2007:287). En þótt ekki væri endilega aðkallandi þörf á nýrri kirkju ákvað sr. Einar engu að síðar að reisa nýja kirkju um þetta leyti og réði til byggingarinnar Ólaf Briem timburmeistara á Grund.

Saurbæjarkirkja er torfhús með timburstöfnum, en veggir grjóthlaðnir P8111000neðst og með klömbruhnausum efst og torf á þaki. Á suðurhlið er smár kvistur. Á stöfnum er slagþil, lóðrétt timburborð og þrír smáir sexrúðugluggar á framhlið, tveir sitt hvoru megin dyra og einn ofan þeirra. Tvær klukkur hanga á framhlið, önnur með gotnesku lagi, 32cm í þvermál og tíu árum eldri en kirkjan sjálf. Stærri klukka, 40 cm í þvermál er með síðrómönsku lagi, með einfaldri strikun efst og neðst. Hún mun ævaforn, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason (2007:301) telja hana vart yngri en frá 14. öld eða lokum þeirrar 13. Með öðrum orðum, stærri bjallan utan á Saurbæjarkirkju gæti verið meira en 700 ára gömul; frá svipuðum tíma og Íslendingasögurnar voru ritaðar eða skömmu eftir Sturlungaöld! Undir norðausturhorni kirkjunnar mun vera steyptur kjallari frá því um 1960. Timburhluti Saurbæjarkirkju, þ.e. kirkjan að frátöldum torfveggjum er 9,63x5,33m en torfveggir eru 10,8m að lengd og skaga því um tæplega 60cm út fyrir timburstafnana hvoru megin. Torfveggur sunnanmegin er 1,7m á breidd en norðurveggur 2,2m. Alls er því grunnflötur Saurbæjarkirkju að viðbættum torfveggjum 10,8x9,23m.

Byggingameistari Saurbæjarkirkju var Ólafur Briem timburmeistari á Grund. Hann var fæddur á Kjarna í Eyjafirði þann 29. nóvember 1808. Hann fluttist barnungur að Grund í Eyjafirði ásamt foreldrum sínum, Gunnlaugi Briem sýslumanni og Valgerði Árnadóttur. Hann sýndi ungur tilhneigingar til smíða og hagleiks og faðir hans, sem hafði í bernsku ætlað sP8110999ér að verða myndhöggvari, vildi gefa syni sínum tækifæri til þess að þroska þessa hæfileika sína. Sendi hann bréf til ekki ómerkari manns en Bertels Thorvaldsen og leitaðist eftir því, að hann tæki Ólaf til náms í höggmyndalist. En Thorvaldsen var þá búsettur í Róm og þangað var nokkuð örðugt um póstsendingar fyrir 200 árum síðan. Ekki er vitað, hvort Bertel fékk nokkurn tíma bréfið en það varð úr, að Ólafur var sendur til náms í trésmíði til Danmerkur. Þangað sigldi hann tæplega 17 ára gamall, haustið 1825. (Nú gætu gárungar lagt saman tvo og tvo og fengið þá niðurstöðu, að hefði Ólafur numið höggmyndalist hjá Thorvaldsen stæði kannski ekki kirkja þarna heldur myndastytta).

Smíðanáminu lauk Ólafur árið 1831 og fluttist þá heim aftur og hóf störf við smíðar. Settist hann að á Grund og bjó þar allan sinn aldur eftir það. Hann kvæntist Dómhildi Þorsteinsdóttir árið 1838. Ólafur hafði smíðaverkstæði á Grund og mun hafa bætt nokkuð húsakostinn, hann byggði t.d. nýja kirkju þar árið 1842. Hana reif annar stórtækur Grundarbóndi, Magnús Sigurðsson, eftir 1905 er hann hafði reist hina veglegu kirkju er þar stendur nú. En Ólafur stýrði eða kom að byggingum fjölda kirkna og timburhúsa m.a. flestallra kirkna í Eyjafirði, Hrafnagili, Miklagarði, Grund, Hólum og Möðruvöllum (aðeins tvær síðasttaldar standa enn) auk Hvanneyrarkirkju á Siglufirði, á Þóroddsstað í Kinn og Draflastöðum í Kinn (sbr. Benjamín Kristjánsson 1968:113-118).  Þá reisti einnig verslunarhús í kaupstöðum. Í Skjaldarvík reisti hann veglega stofu (íbúðarhús) árið 1835. Það hús flutti Gránufélagið á Oddeyri árið 1876 og mun það vera austasti hluti Gránufélagshúsanna við Strandgötu (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:255). Ólafur Briem lést í byrjun árs 1859, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann reisti Saurbæjarkirkju. Ólafur mun koma nokkuð við sögu í næstu pistlum um kirkjur Eyjafjarðar.

Það mun vera nokkuð nákvæmlega skráð hvernig vinnu vP8291014ar háttað við smíði kirkjunnar en að henni komu ýmsir lærlingar, snikkarar og ýmsir sóknarmenn úr hreppnum lögðu einnig til sjálfboðavinnu. Þá var ráðinn maður, sérstaklega til torfhleðslu. Launuð vinna mun hafa verið 218 dagsverk en sjálfboðavinna um 60 dagsverk. Alls hljóðaði reikningurinn upp á 633 ríkisdali og auk vinnunnar var þar fæði og hressing til handa vinnumönnum, auk kaffis og brennivíns „eftir venjunni“ og brennivín „til svölunar undir púlinu“ fyrir þá sem óku grjóti og timbri til kirkjunnar (sbr. Kristján Eldjárn 1964:15). Af þessu má ráða, að ekki skorti kirkjusmiði brennivín meðan á vinnu stóð!

Það kann að þykja dálítið sérstakt, að Saurbæjarkirkja sé torfkirkja þegar það er haft í huga að hún er yngst 19. aldar kirknanna í Eyjafirði og reist af byggingameistara, sem sérhæfði sig í timburhúsabyggingum. Þegar leið á 19. öld var það almennt svo, að timbrið ætti að taka við af torfinu. En þetta mun eiga nokkrar skýringar. Mögulega gæti það hafa verið nýtni; norðurveggur eldri kirkjunnar frá 1794 var nýtilegur og mun hann að einhverju leyti vera uppistaða núverandi kirkju. Þá gæti íhaldssemi sr. Einars Thorlacius hafa haft áhrif,  hann hafði verið prestur í meira en 40 ár og kominn á efri ár. Þá er ein athyglisverð kenning reifuð í Kirkjum Íslands: „Þá er hugsanlegt að hrein skynsemi hafi ráðið ferðinni [að byggja úr torfi] en kirkjan stendur berskjölduð uppi á hæð þar sem vindur getur orðið sterkur. Þegar þannig háttar til er mikið öryggi af torfklæðningu“ (Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:297). Löngu síðar reyndi einmitt á þetta. Haustið 1900, nánar tiltekið þann 20. september, gekk annálað ofsaveður yfir Norðurland. Þá gerðist það, að nýtt þinghús Saurbæjarhrepps, sem reist hafði verið úr timbri fremst á Kirkjuhólnum fauk af grunni, lenti á kirkjugarðsveggnum og brotnaði í spón (sbr.  Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:836).  Hafi þeir sr. Einar og Ólafur Briem ákveðið að reisa kirkjuna með torfveggjum sem vörn gegn ofsaveðri, má segja að þarna hafi komið á daginn, að þeir höfðu lög mæla. Voru þeir reyndar báðir löngu látnir þegar þetta gerðist. Af þinghúsmálum Saurbæjarhrepps er það að segja, að úr viðum hússins sem fauk var reist nýtt þinghús á sama stað. Það var rifið um 1934, þegar reist var nýtt samkomuhús úr steinsteypu austan og neðan hólsins. IMG_0927 

Elsta lýsing á Saurbæjarkirkju er frá því hún var nýbyggð, nánar tiltekið 25. ágúst 1858. Þá vísiteraði prófasturinn Guðmundur E. Johnsen hina nýbyggðu kirkju. Visitasíuskýrslan er mjög löng og írtarleg en hér eru nokkrar glefsur: Kirkja þessi, sem er torfkirkja, er að lengd 14 ½ alin, þar af er kórinn 5 ¾ alin; á breidd er hún 7 álnir, 13 þumlungar; á hæð frá gólfi og á efri bitabrún 3 álnir, 14 þumlungar, og er frá efri bitabrún til mænis 4 álnir, 1 þumlungur, allt mælt að innan. Sperrur eru 9 og jafnmargir bitar hvíla á lausholtum yfir 18 stoðum. Húsið er byggt á fótstykkjum með bindingsverki allt um kring og alþiljað að innan, bæði til hliða og á báðum stöfnum upp í gegn, með plægðu póstþili. [...] Bæði stafnþilin eru hið ytra af heilum borðum og venjulegum vindskeiðum. Fyrir kirkjunni er sterk vængjahurð á járnum, með járnlokum að ofan – og neðanverðu á öðrum vængnum að utan og innan eru strikaðir listar og yfir dyrunum að utanverðu er þríhyrningur einnig með listum allt um kring, sem er málaður með bláum lit, ásamt hurðinni og dyraumbúningnum að utan.

Að lokum segir prófastur: Yfir höfuð er smíðið á kirkjunni fagurt, sterkt og vandað. Suðurveggur hússins er nýhlaðinn upp af torfi og grjóti, en á ofan á hinn gamla norðurvegg, sem var eins góður og nýr, hefur verið hlaðið, eins og þak hússins útheimti. Húsið er og vel þakið og hellulagt og þilin bæði eru einu sinni bikuð (Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:289-290).

Prestsetur var Saurbær til ársins 1931 en ekki fann greinarhöfundur prestatal fyrir staðinn við fljótlega leit. Hér verður gerð tilraun til slíks tals: Sr. Einar Thorlacius lét af prestsembætti í Saurbæ, og prestskap yfirhöfuð, árið 1867 þá orðinn 77 ára og hafði þá þjónað í Saurbæ í um 45 ár. Saurbæ í Eyjafjarðarsýslu virðist ekki að finna í Manntali árið 1870 en árið 1872 sest þar að séra Jón Austmann. Gegndi hann embætti til ársins 1881. Þá tók við sr. Guðjón Hálfdánarson sem lést tveimur árum síðar. Eftir fráfall Guðjóns settist sr. Jakob Björnsson að í Saurbæ og sat þar rúm 30 ár, eða til 1916. Það er ekki að sjá í manntölum árin á eftir að nýr prestur setjist að í Saurbæ eftir að Jakob lét af störfum en hann er skráður sem „prestur emeritus.“  Saurbæjarprestakall hafði raunar verið lagt niður árið 1907 og lagt undir Grundarþing. Árið 1920 fluttist hins vegar í Saurbæ séra Gunnar Benediktsson.

Framangreindir prestar höfðu eflaust allir sinn hátt á viðhaldi kirkjunnar og hugmyndir um breytingar. Um 1880 koma t.d. fram hugmyndir um að rífa torfveggi og klæða veggina með timbri. Um svipað leyti var tekið niður klukknaport og klukkunum komið fyrir á núverandi stað, á vesturstafni kirkjunnar. Á þriðja áratug 20. aldar voru uppi hugmyndir um að reisa nýja kirkju úr steinsteypu en af því augljóslega  ekki. Þáverandi prestur, sr. Gunnar Benediktsson réðst hins vegar í byggingu veglegs prestseturs úr steinsteypu, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, og leysti það hús af hólmi torfbæ sem jafnframt var rifinn. Fáeinum árum eftir byggingu prestsetursins, eða árið 1931, fluttist Gunnar hins vegar í burtu. Var hann síðasti presturinn sem sat að Saurbæ.

Það mun hafa verið svo snemma sem á fjórða áratug 20. aldar að torfkirkjan í Saurbæ fór að vekja athygli þeirra, sem leið áttu um Eyjafjörð. Árið 1937 var t.d. nefnt í vísitasíu, að töluverður ferðamannastraumur sé til Saurbæjar að skoða kirkjuna (sbr. Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:293). Líkt og nærri má geta var „ferðamannaiðnaðurinn“ og ferðavenjur fólks þá, töluvert frábrugðnar því sem nú er. Orðið „ferðamannastaður“ hafði t.d. aðeins birst tvisvar í rituðu máli árið 1937 skv. timarit.is, en skemmtiferðir og ferðalög án hagnýts erindis voru lítt þekkt og ekkert endilega hátt skrifuð meðal almennings í bændasamfélagi fyrri tíma. Það var svo árið 1953 að biskup lagði fram formlega fyrirspurn til Þjóðminjavarðar; Kristjáns Eldjárn, um hvort hið opinbera hyggðist vernda kirkjuna sem forngrip og hvort hið opinbera væri tilbúið að kosta viðgerð kirkjunnar (Sbr. Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:294).

Á árunum 1959-60 fór fram viðamikil viðgerð á Saurbæjarkirkju, að innan jafnt sem utan á vegum Þjóðminjavarðar. Var þá m.a. steyptur kjallari undir norðausturhorn og farið í hinar ýmsu framkvæmdir á torfhleðslum. Þá voru vindskeiðar á stöfnum málaðar hvítar, sem setur nokkurn svip á kirkjuna en áður voru þær tjargaðar. Hönnuður og umsjónarmaður þessara framkvæmda var Sigurður Egilsson. Aftur voru gerðar endurbætur á kirkjunni árin 2002-2005 undir stjórn Haraldar Helgasonar, arkitekts á Þjóðminjasafninu. Saurbæjarkirkja hefur verið í umsjón og vörslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 1962 og hefur safnið tryggt kirkjunni fyrsta flokks viðhald og hirðingu alla tíð síðan. Saurbæjarkirkja er ein af fáum torfkirkjum landsins og nýtur friðunar sem slík en hún var friðuð árið 1990. (Raunar var hún friðlýst sem fornminjar árið 1959 en sú friðlýsing mun ekki hafa talist gild vegna formsatriða). Enn er kirkjan notuð sem sóknarkirkja, þar eru haldnar skírnir, brúðkaup og stundum messur. Einhverjum kann að þykja það ótrúlegt, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Eyjafjarðarsveitar rúmar kirkjan 60 manns í sæti. (Gildir kannski þar sama lögmál og félagsheimilið í Stuðmannamyndin Með allt á hreinu; sem var lítið að utan og stórt að innan). Saurbæjarkirkja er til mikillar prýði í fallegu umhverfi og svo sannarlega ein af perlum eða djásnum Eyjafjarðar. Hefur hún laðað að ferðamenn frá því löngu áður en ferðaþjónusta varð sú undirstöðuatvinnugrein, sem hún nú er. Myndirnar eru teknar 13. júní, og 29. ágúst 2020, 11. ágúst 2021 og 8. ágúst 2023.

Heimildir: Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007. Saurbæjarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 283-312. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristján Eldjárn. 1964. Á söguslóðum. Saurbæjarkirkja í Eyjafirði. Í Morgunblaðinu 177. tbl. 51. árg. 31. júlí 1964. Bls. 15. (af timarit.is)

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 430
  • Frá upphafi: 440787

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 208
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband