17.12.2023 | 11:21
Hús dagsins: Möðruvallakirkja
Á Eyjafjarðarsvæðinu eru tveir Möðruvellir. Hvort tveggja valinkunn höfuðból og kirkjustaðir. Möðruvellirnir eru annars vegar í Hörgárdal og hins vegar framarlega í Eyjafirði, í fyrrum Saurbæjarhreppi. Þar ber okkur niður að þessu sinni, en á Möðruvöllum í Hörgárdal fyrirfinnast svo sannarlega byggingar, sem verðskulda umfjöllun sem Hús dagsins. Möðruvellir í Eyjafirði standa hins vegar sunnarlega undir Möðruvallafjalli, spölkorn frá Núpá, sem rennur úr Sölvadal í Eyjafjarðará. Lengi vel lá Eyjafjarðarbraut eystri um bæjarhlaðið, milli íbúðarhússins og gripahúsa en um 2005 var brautin færð norður og vestur fyrir og gamli vegurinn nýtist nú sem heimreið. Frá Akureyri eru um 25 kílómetrar að Möðruvöllum um Eyjafjarðarbraut eystri. Á Möðruvöllum stendur timburkirkja frá 1848. Stendur hún austan og ofan íbúðarhússins og gömlu Eyjafjarðarbrautar, sunnan við fjárhúsin. Hana lét þáverandi eigandi Möðruvalla, Magnús Ásgeirsson, reisa.
Á Möðruvöllum hefur verið búið frá 10. öld en fyrsti ábúandi mun hafa verið Eyjólfur Valgerðarson, sonarsonur Auðuns rotins og Helgu Helgadóttur magra, sem námu land að Saurbæ. Eyjólfur var faðir Guðmundar ríka, sem var annálaður höfðingi Norðlendinga. Guðmundur ríki er talinn hafa staðið fyrir byggingu fyrstu kirkju á Möðruvöllum, en hann lést árið 1025. (Kannski eru nákvæmlega 1000 ár frá fyrstu kirkjubyggingu á Möðruvöllum þegar þetta er ritað). Fyrsti nafngreindi prestur að Möðruvöllum var Ketill Möðruvellingaprestur og mun hann hafa verið þar fyrir 1047. Svo ekki hefur liðið langt frá frá kristnitöku þar til kirkja reis að Möðruvöllum. (Nú veltir greinarhöfundur vöngum. Í ritgerð Benjamíns Kristjánssonar (1970:34-50) í Eyfirskum fræðum er sagt frá Katli presti Þorsteinssyni sem bjó að Möðruvöllum og var þar kirkjuprestur. Sá Ketill var langafabarn Guðmundar ríka, og er sagður hafa búið á Möðruvöllum frá því um 1100. Getur þar ekki verið um að ræða sama Ketil og sagt er frá í Kirkjum Íslands (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007:245) og kom að Möðruvöllum fyrir 1047 og nefndur var Möðruvallaprestur. Enda Ketill Þorsteinsson, sem síðar varð biskup, fæddur um 1075. Þarna getur verið, að heimildum beri ekki saman, eða sem einnig er líklegt, að um sé að ræða tvo séra Katla, sem sátu staðinn með hálfrar aldar millibili. Einhver, höfundi fróðari um þessi mál, verður að skera úr um þetta). Árið 1318 var kirkjan á Möðruvöllum helguð heilögum Marteini. Í kaþólskum sið munu löngum hafa verið stafkirkjur á Möðruvöllum en eftir siðaskipti urðu bindingsverks- og torfkirkjur algengari. Árið 1769 var ein slík, þ.e. torfkirkja á Möðruvöllum. Í vísitasíu biskups níu árum síðar var hún m.a. sögð af 14 stöplum, undir sjö bitum og jafn mörgum sperrum, þiljuð í hólf og gólf. Guðshús þetta var 18,5 álnir að lengd og 8 álna breitt. Umrædd torfkirkja var orðin nokkuð hrörleg þegar líða tók á 19. öld. Árið 1840 segir prófastur að kirkjubóndi, Magnús Ásgrímsson, hafi í hyggju að endurbyggja kirkjuna. Eitthvað mun það hafa dregist því sex árum síðar fær hún umsögnina: Hús þetta er sem fyrri vel um hirt en tekur mjög að fyrnast svo ei er þörf á endurbyggingu við fyrsta hentugleika (Agnes, Hjörleifur, Guðrún M., Guðrún, Gunnar 2007: 248). Og fyrsti hentugleiki var strax árið eftir; bygging Möðruvallakirkju hófst þá, sumarið 1847, og var byggingameistari Flóvent Sigfússon en auk þess komu að byggingu hagleiksmenn úr sveitinni, m.a. Ólafur Briem á Grund og Friðrik Möller á Möðruvöllum. Um vorið munu allir sóknarmenn hafa hafist handa við að draga grjót í grunninn, rífa gömlu kirkjuna, gera undirhleðslur og stétt. Þá fluttu þeir timbur á staðinn. Þann 10. júní 1847 er þess getið í vísitasíu að kirkjan sé undir byggingu og verði líklegast ekki lokið fyrr en sumarið eftir.
Möðruvallakirkja er timburhús á steingrunni, 11,7x5,41m að grunnfleti. Veggir eru klæddir slagþili og bárujárn á þaki. Tvöfaldir sexrúðupóstar eru í gluggum hliða, tveir smærri gluggar á austurstafni (bakhlið) og annar slíkur undir rjáfri á framhlið. Smáturn með krossi er á framhlið kirkjunnar, en þar er um að ræða ferkantað krossstæði, á að giska 1,5m hátt, skreytt pílárum. Kirkjan er stöguð niður en fyrir hefur komið, að hún hafi verið hætt komin vegna hvassviðra. Framan við Möðruvallakirkju stendur ekki síður stórmerkilegt mannvirki, klukknaport frá árinu 1781. Um er að ræða eitt elsta mannvirki á Eyjafjarðarsvæðinu, hálfum öðrum áratug eldra en elsta hús Akureyrar. Klukknaport þetta mun það eina sinnar tegundar sem varðveist hefur, en port af þessari gerð voru algeng við kirkjur víða um land.
Byggingameistari Möðruvallakirkju var sem fyrr segir, Flóvent Sigfússon. Hann var Hörgdælingur, fæddur árið 1801 í Hólkoti í þeim dal en bjó síðar í Glæsibæjarhreppi og Árskógsströnd m.a. Ytra-Krossanesi, Ósi og síðast Fagraskógi. Er hann byggði Möðruvallakirkju var hann búsettur í Kálfsskinni. Flóvent nam snikkaraiðn erlendis (væntanlega í Danmörku, í Kirkjum Íslands er aðeins sagt, að hann hafi haldið utan). Flóvent dvaldi á Skipalóni sem ungur maður og hefur þar eflaust fengið áhuga og komist upp á lag með smíðar. Því á Skipalóni bjó einhver annálaðisti húsasmiður og timburmeistari Eyjafjarðarsvæðisins, Þorsteinn Daníelsson. Flóvent var einmitt einn helsti samstarfsmaður Þorsteins lengi vel. Flóvent smíðaði árið 1840 timburkirkju á Knappstað í Stíflu og mun sú kirkja elsta varðveitta timburkirkja landsins. Löngum var talið, að Möðruvallakirkja hafi verið hönnun Þorsteins Daníelssonar. Flest bendir þó til að Flóvent eigi heiðurinn af hönnun kirkjunnar, þar ber m.a. að nefna handverk og smíðisgripi sem sannarlega eru hans verk, m.a. pílárasettan turnstallinn og frágangur altaris. Þá sjást nokkur augljós líkindi með Knappsstaðakirkju og Möðruvallakirkju en kirkjan er heldur frábrugðin kirkjum, sem vitað er að Þorsteinn reisti (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsson, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason 2007:249). Auk Flóvents vann Friðrik Möller, smiður á Möðruvöllum, að stjórn byggingar og unnu þeir saman um sex mánaða skeið. Þá kom Ólafur Briem timburmeistari á Grund að byggingunni um 20 daga skeið. Nokkuð glögglega hefur verið fjallað um Ólaf Briem í greinum um Saurbæjarkirkju og Hólakirkju en minna mun vitað um starfsferil Friðriks á Möðruvöllum (sbr. Agnes, Hjörleifur, Guðrún M., Guðrún og Gunnar 2007:248). Auk þeirra komu bændur af nærliggjandi bæjum að byggingunni um nokkra daga skeið, Páll á Helgastöðum, Sveinn á Æsustöðum og Benjamín á Björk í Sölvadal. Jón Sveinsson í Fjósakoti var við smíði í 25 daga. Alls var kostnaður við bygginguna 1172 ríkisdalir og 9,5 skildingar (sbr. Benjamín Kristjánsson 1970:46).
Fullreist var Möðruvallakirkja sumarið 1848 og var hún vísiteruð þann 3. júlí það ár. Var henni lýst á eftirfarandi hátt: Hún er í lengd innan þilja 18 álnir, ½ þumlungi í fátt; breidd 8 álnir, ½ þumlungi í fátt; á hæð undir bita 3 álnir, 17 þumlungar og frá neðri bitabrún til mænis 4 álnir, 15 ½ þumlungar.[...] Sperrur eru 9 og jafnmargir bitar. Húsið er umhverfis af bindingsverki klætt utan með slagborðum og allt þiljað innan með grópuðum standborðum [...] (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007: 249). Kemur þar einnig fram, að alls munu sextán baksláar sæti (kirkjubekkir), átta hvoru megin auk krókbekks undir stiga sem lá upp á plægt loft [söngloft] með tilhlýðilegum tröppustiga með pílárum á innri hlið.
Möðruvallakirkja hefur nokkrum sinnum fengið að kenna á veðurofsa. Án þess að greinarhöfundur þekki nokkuð til veðuraðstæðna þarna fremra má geta sér þess til, að stífir og ofsafengnir vindstrengir renni sér ýmist úr Sölvadalnum eða niður af Möðruvallafjallinu í ákveðnum áttum. En a.m.k. þrisvar á 19. öld skekktist kirkjan í hvassviðri. Fyrst var það 2. mars árið 1857 að tveir bitar færðust úr skorðum og hnikuðust upp af lausholtum, svo kirkjan skekkist. Þetta var lagfært þannig, að bitarnir voru festir með járngöddum við lausholtin, gegnum bjálka sem festir voru utan á lausholtin. Þá mun kirkjan aftur hafa hnikast til í hvassviðri árið 1865 en eftir það rétt af og skorðuð með stórgrýti, sem dregið var að. Aftur skekktist kirkjan í roki árið 1885 og voru þá járnfestingar bættar og endurnýjaðar. Það er nokkuð athyglisvert, að ári eftir að kirkjan skekktist í fyrsta skiptið, þ.e. 1858, var reist ný kirkja í Saurbæ, handan Eyjafjarðarár. Það þykir nokkuð sérstakt, að hún er torfkirkja en á þessum tíma höfðu byggingar slíkra kirkna að mestu lagst af. Ein kenning á því, hverju það sætti er sú, að torfhús þyldu vindálag betur en timburhús, sem var hættar var við að skekkjast eða hreinlega fjúka...
Um 1890 var kirkjan farin að láta nokkuð á sjá og þess getið í visitasíum. Gegnumgangandi höfðu verið nokkur vandræði með þak, stundum veggir og gólf en einnig voru rúður oft sprungnar. Sjálfsagt afleiðingar hvassviðra. Þó munu hafa verið hlerar fyrir suðurgluggum í upphafi. Í upphafi var kirkjan tjörguð en slíkt var æði viðhaldsfrekt, tjarga þurfti hús oft og reglulega til að halda svertunni og glansinum; best var að tjarga annað hvert ár ef vel átti að vera (Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsdóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Bollason 2007: 250). Árið 1895 voru gerðar gagngerar endurbætur á kirkjunni, grunnur hækkaður og steinlímdur, þak endurnýjað og gert við fúaskemmdir. Þá var tjaran skafin af og kirkjan hvítmáluð. Tjaran hélt þó áfram að gera skráveifur, því það vildi bera á því, að tjöruleifar hitnuðu í sólskini og mynduðu svartar skellur í hvítri málninguna. Varð þetta þrálátt að því er virðist áratugum saman eftir málninguna. Pappaþakið frá 1895 var tjöruborið og tjöruna þurfti oft að endurnýja en engu að síður var þakið hriplekt. Tjaran var nefnilega fljótt að tapa vatnsvarnareiginleikum sínum því í sólskini vill hún fara af stað. Þessa gætti sérstaklega á suðurhlið, á móti sól. Þessa eðliseiginleika tjörunnar getum við eflaust séð nokkuð glögglega á háspennustaurum úr timbri. Þeir eru oftar en ekki svartflekkóttir og á þeim má greina misþykkar tjöruskellur. En væntanlega hafa þeir verið allt að því altjargaðir í upphafi. Og fyrst minnst er á háspennustaura má geta þess, að rafmagn var leitt í Möðruvallakirkju árið 1962. Væntanlega var rafmagnið nýtt til kyndingar líka, en frá árinu 1917 hafði kolaofn verið í kirkjunni. Hann hafði þó verið leystur af hólmi árið 1934 með olíufýringu en sú reyndist svo illa, að tólf árum síðar var henni skipt út fyrir gamla kolabrennarann.
Möðruvallakirkja hefur alla tíð verið bændakirkja þ.e. í eigu Möðruvallabænda. Kannski sakna einhverjir þess, að í umfjöllun um kirkjur Eyjafjarðarsveit séu rakin ítarlega presta- og ábúendatöl staðanna. Það væri hins vegar efni í aðrar og enn lengri greinar því hér eru það fyrst og fremst kirkjurnar og þeirra saga sem er til umfjöllunar. Væri því e.t.v. borið í bakkafullan læk, að gera ítarlega grein fyrir ábúendasögu kirkjustaðanna á þessum vettvangi. Á 100 ára afmæli kirkjunnar árið 1948 fóru fram gagngerar endurbætur á henni á vegum Möðruvallabænda, feðgana Valdimars Pálssonar og Jóhanns sonar hans. Fólust þær endurbætur m.a. í endurbótum á gólfi, lagfæringu trappa og afstúkun forkirkju. Þá var Haukur Stefánsson ráðinn til málningarvinnu innandyra. Haukur var löngum þekktur sem Haukur málari og var annálaður fyrir mikilfenglegar innanhússkreytingar, málverk og munstur m.a. á stigagöngum.
Þann 21. desember 1972 gekk yfir Eyjafjörð ofsarok og fór þá Möðruvallakirkja ansi illa og raunar miklu verr heldur en nokkurn tíma á 19. öldinni. Fauk hún um hálfa breidd sína til norðurs, skekktist og brotnaði. Á suðurhlið var kirkjan stöguð með kengjum við þrjú mikill björg en svo mikill var veðurofsinn, að miðbjargið lyftist, slóst undir kirkjuna svo gólfið skall á það með tilheyrandi skemmdum. Hefðu þessara grettistaka ekki notið við, hefði væntanlega ekki þurft að spyrja að leikslokum. Og ekki voru menn sammála um téð leikslok, eða möguleg ævilok Möðruvallakirkju. Þjóðminjavörður, Þór Magnússon hvatti til endurbyggingar og kirkjubændur voru áfram um endurbyggingu kirkjunnar. Söfnuðurinn vildi frekar nýja kirkju, mögulega á Syðra Laugalandi eða Hrafnagili, en endurbætur á þeirri gömlu. Þjóðminjavörður taldi varðveislugildi kirkjunnar og gripa hennar verulegt og beitti sér fyrir því, að Þjóðminjasafnið fengi að annast endurbygginguna. Árið 1976 hófust endurbætur kirkjunnar og stóðu þær yfir í ein sex ár. Steyptur var nýr grunnur og gert við allar skemmdir hvort sem þær voru að völdum ofviðrisins 1972, fúa eða elli. Umsjón með endurbótunum hafði Gunnar Bjarnason trésmiður en hinn annálaði húsasmíðameistari, Sverrir Hermannsson, kom einnig að verkinu. Árið 1982 taldist Möðruvallakirkja fullgerð að utan. Fimm árum síðar mættu þeir feðgar Guðvarður Jónsson og Snorri Guðvarðsson til Möðruvallakirkju og máluðu í hólf og gólf. Endurbætt Möðruvallakirkja var endurvígð á 140 ára afmælisárinu, 1988.
Ekki er annað að sjá, en að Möðruvallakirkja hafi frá þessum endurbótum hlotið hina bestu umhirðu og viðhald. Kirkjan sem slík er auðvitað sannkölluð perla og nokkurs konar safngripur en í henni er einnig margt gripa og muna sem margir hverjir eru einstakir. Þar ber helst að nefna altaristöflu frá 15. öld, alabastursbrík sem Benjamín Kristjánsson segir vera (1970:47) einn hinn merkilegasti forngripur sem enn er í kirkju hér á landi. Klukknaportið framan við kirkjuna er einnig sannkölluð gersemi sem slíkt, og er sem fyrr segir, hið eina sinna tegundar, sem varðveist hefur. Þar hanga þrjár klukkur, framleiddar í Danmörku með ártölunum 1769, 1799 og 1867. Portið og kirkjan mynda einstaka órofa heild, ásamt hlöðnum garði umhverfis. Bæjarstæði og ásýnd Möðruvalla í umhverfinu er svo allt hið fegursta. Möðruvallakirkja var friðlýst 1. janúar 1990. Þá er klukknaportið einnig friðlýst og hefur verið í umjón Þjóðminjasafnsins frá árinu 1962. Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2021.
Heimildir: Agnes Stefánsdóttir, Hjörleifur Stefánsson, Guðrún M. Kristinsson, Guðrún Harðardóttir og Gunnar Bollason. 2007. Möðruvallakirkja í Eyjafirði. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 245-282. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.
Benjamín Kristjánsson. 1970. Eyfirðingabók II. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Ýmsar upplýsingar af m.a. timarit.is, manntal.is og minjastofnun.is.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 8
- Sl. sólarhring: 56
- Sl. viku: 425
- Frá upphafi: 440782
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 203
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð samantekt.
FORNLEIFUR, 17.12.2023 kl. 13:27
Takk fyrir. Mun ítarlegri umfjöllun er svo að finna í 10. binda bókaflokksins Kirkjur Íslands (sjá heimildaskrá). Þar er fjallað um gripi og innra byrða o.m.fl.
Kveðja, ABH
Arnór Bliki Hallmundsson, 24.12.2023 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.