Hús dagsins: Kaupangskirkja

Yngst kirknanna í Eyjafjarðarsveit, 101 árs þegar þetta er ritað, er Kaupangskirkja. Það er því e.t.v. táknrænt, að hún skuli vera byggð úr steini en að Saurbæjarkirkju undanskilinni, eru hinar fimm úr timbri. Það vill hins vegar svo til, að torfkirkjan í Saurbæ er yngri en allar timburkirkjur héraðsins frá 19. öld (Grundarkirkja er byggð í upphafi 20. aldar). Þegar greinarhöfundur greip í sitt helsta heimildarit við ritun þessara pistla; Kirkjur Íslands, margra binda ritverk um friðaðar kirkjur á Íslandi rak hann í rogastans, því Kaupangskirkju var ekki að finna í 10. bindinu, þar sem kirkjur Eyjafjarðarprófastsdæmis eru til umfjöllunar. Þetta á sér hins vegar eðlilegar skýringar; í „kirkjubókunum“ er aðeins fjallað um friðaðar kirkjur og Kaupangskirkja hafði einfaldlega ekki verið friðlýst þegar bókaflokkurinn var ritaður. Nú er Kaupangskirkja hins vegar aldursfriðuð, líkt og allar byggingar sem byggðar eru fyrir 1923.IMG_1279

Sögu Kaupangs má líklega rekja til upphafs búsetu manna í Eyjafirði, hvorki meira né minna. Skammt norðan bæjarins er Festarklettur, þar sem sagt er að Helgi magri hafi lagt skipi sínu að landi. Hét hann áður Galtarhamar og dregur væntanlega nafn sitt af gelti Helga, sem mun hafa verið bíldóttur. Sá mun hafa farist í á, sem rennur þar skammt frá, og þaðan komið nafnið Bíldsá. Segir í Landnámu, að Helgi magri hafi búið einn vetur á Bíldsá sem talin er sama jörð og Kaupangur er nú. Síðar er talið, að þarna hafi verið verslunarstaður eða kaupstefnur og nafnið Kaupangur til komið þannig (Brynjólfur Sveinsson, Guðrún María Kristinsdóttir 2000:60). Áin, sem rennur norðan Kaupangs heitir hins vegar enn Bíldsá og rennur hún um Bíldsárskarð.  Milli Kaupangs og miðbæjar Akureyrar eru tæpir 7 kílómetrar.  Hvenær kirkja reis fyrst í Kaupangi mun ekki ljóst, en Kaupangskirkju mun þó getið í Auðunnar máldaga árið 1318. Kaupangur er alltént með elstu kirkjustöðum landsins. Kannski hefur kirkja risið á Kaupangi ekkert mjög löngu eftir kristnitöku(?).

    Árið 1920 reisti eigandi Kaupangs, Bergsteinn Kolbeinsson,IMG_1281 þar veglegt steinhús. Þá stóð þar timburkirkja, sem talin var úr sér gengin. Mögulega hefur sú kirkja verið verk timburmeistara á borð við Þorstein Daníelsson og Ólafs Briem á Grund, en hennar er reyndar ekki getið í ítarlegu æviágripi hins síðarnefnda í Eyfirðingabók Benjamíns Kristjánssonar. En timburkirkjan í Kaupangi hefur væntanlega verið byggð á 19. öld og fyrirrennarar hennar verið torfkirkjur. En það mun hafa verið árið 1921 að söfnuður Kaupangskirkju leitaði til byggingafræðingsins Sveinbjarnar Jónssonar um hönnun á nýrri kirkju.

     Ólafsfirðingurinn Sveinbjörn Jónsson, var aðeinsP7100167 25 ára þegar þetta var, og hafði nýlega lokið námi í byggingafræðum í Noregi. Hann hafði árið 1919 fundið upp sérstakan hleðslutein, r-stein og smíðað sérstaka vél, sem steypti þessa steina. Þess má geta, að hún er varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri. Sveinbjörn var mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki.  En Sveinbjörn tók sem sagt að sér að teikna og reisa nýja Kaupangskirkju og hana reisti hann að sjálfsögðu úr hinum nýstárlega r-steini. En r-steinninn var steyptur múrsteinn sem var í laginu eins og lítið  r.  Við hleðslu komu tveir fletir þvert, hvor á annan og mynduðu  vísaði „þverleggurinn“ inn í vegginn og var þannig hleðslan tvöföld. Þannig myndaðist holrúm milli „þverleggjanna“ sem einnig mynduðu einskonar burðarstoð. Í holrúmið var svo troðið einangrun. Oftast var þar um að ræða mó eða torfmylsnu.

    Það var ekki einasta, að byggingarefnið væri nýstárlegt heldur var útlit Kaupangskirkju nokkuð nýstárlegt miðað við það sem menn áttu að venjast; í stað turns fyrir miðju var turninn staðsettur á norðvesturhorni kirkjunnar. Gefur það kirkjunni mjög sérstakan svip en gera má ráð fyrir, að einhverjum kunni að hafa líkað þetta misjafnlega. Því væntanlega er íhaldssemi nokkur þegar kemur að kirkjubyggingum.IMG_1283

    Kaupangskirkja er steinhús með koparþaki. Á norðvesturhorni er turn með brattri, pýramídalagaðri spíru og kross upp á henni. Undir turni, þ.e. norðvestanmegin á framhlið eru bogalaga inngöngudyr en allir gluggar eru einnig bogadregnir. Á hvorri hlið, norður og suður, eru þrír gluggar, tveir smáir gluggar að kórbaki (bakhlið) og þrír smágluggar, sá í miðið hæstur, nokkurn veginn fyrir miðri framhlið. Á turni eru tveir smáir gluggar til norðurs og vesturs. Í turni Kaupangskirkju eru tvær klukkur, sú stærri 29cm í þvermál en sú stærri 36,5cm. Síðarnefnda klukkan ber merkinguna Ceres of Hull 1870, Leckie; Wood & Munro. Builders. Aberdeen. Er sú talin vera úr skipinu Ceres frá Hull á Englandi, sem smíðað var 1870 en fórst í Kattegat árið 1882 (sbr. Guðmundur Karl Einarsson án árs) Smærri klukkan er ómerkt og því lítið vitað um uppruna hennar. Á kortavef map.is mælist grunnflötur Kaupangskirkju 7x11m, P8090015turninn nærri 2x2m, ferningslaga.

      Þegar líða tók á 20. öldina tók tímans tönn að vinna á Kaupangskirkju, líkt og öllum mannanna verkum og sýnt þótti, að fara þyrfti í endurbætur á henni. Í þær var ráðist árið 1988, og var kirkjan endurvígð þá um sumarið. Var þá m.a. skipt um bekki, gólfið flísalagt og skipt um altari (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1082). Væntanlega hefur um svipað leyti,einnig verið farið í eitthvert viðhald að utanverðu. Var kirkjan endurvígð eftir endurbæturnar í ágúst 1988. Að ytra byrði er ekki annað að sjá, en að Kaupangskirkja hafi hlotið fyrirtaks viðhald þessa þrjá og hálfa áratugi sem liðnir eru frá endurbótum. Hún virðist alltént í mjög góðu ásigkomulagi að utan. Kaupangskirkja er sem fyrr segir yngsta kirkja Eyjafjarðarsveitar og segir það kannski sitthvað um meðalaldur þeirra, að hún er nýlega orðin aldargömul. Líkt og eyfirsku kirkjurnar allar er Kaupangskirkja mikil prýði og sérlegt kennileiti í fallegu umhverfi sínu og myndar ákaflega skemmtilega heild ásamt íbúðarhúsinu í Kaupangi. Þá er nokkuð myndarlegur trjágróður í kirkjugarðinum umhverfis kirkjuna og er það álit greinarhöfundar, að hann sé til prýði. Einhverjir kynnu þó eflaust að telja, að hann skyggði á glæsta kirkjubygginguna. Meðfylgjandi myndir eru teknar þann 12. desember 2023, myndirnar af Iðnaðarsafninu þ. 10. júlí 2011. Sumarmyndin af Kaupangskirkju er tekin 9. ágúst 2010.

Heimildir: Brynjólfur Sveinsson (Guðrún María Kristinsdóttir, myndatexti). 2000. Svæðislýsing. Í Bragi Guðmundsson (ritstj.) Líf í Eyjafirði bls. 59-94. Akureyri: Höfundar og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

EHB. Kaupangskirkja endurvígð. Í Degi, 31. ágúst 1988, sótt af timarit.is (sjá tengil í texta).

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Karl Einarsson. [Án árs] Kirkjuklukkur Íslands; Kaupangskirkja - Kirkjuklukkur Íslands. Sótt á Kaupangskirkja - Kirkjuklukkur Íslands

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 440782

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 203
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband