Hús dagsins: Lónsstofa á Skipalóni; 200 ára í ár

Í samanburði við nágrannalönd okkar eru íslensk mannvirki frekar „ung“. Á Norðurlöndunum, að ekki sé minnst á Bretlandseyjar og meginland Evrópu, standa heilu borgirnar, eða borgarhlutar, IMG 1932sem byggðar voru á miðöldum og eru þannig mörg hundruð ára gamlar. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um aðstöðumun þessara landa og Íslands á fyrri öldum, hvað varðaði aðgang að byggingarefni, íbúafjölda, samfélagsgerð og annað slíkt. Þá hafa einnig ótal margar byggingar og menningarminjar  farið forgörðum gegnum tíðina. En hérlendis teljast byggingar, byggðar fyrir 1923, aldursfriðaðar (miðaðist raunar við 100 ára aldur til ársloka 2022). Á Eyjafjarðarsvæðinu skipta hús eldri en 100 ára á að giska fáeinum hundruðum; á Akureyrarsvæðinu gætu þau t.d. verið á þriðja hundrað, þegar þetta er ritað. Hús eldri en 200 ára eru hins vegar aðeins örfá og heyrir það raunar til tíðinda, að eitthvert hús á Eyjafjarðarsvæðinu nái því marki. Á Akureyri gerist það ekki fyrr en árið 2035, að Gamli Spítalinn og mögulega (heimildum ber ekki saman) elsti hluti Gránufélagshúsanna á Oddeyrartanga, Skjaldarvíkurstofan, nái 200 árunum. Veita þau þá Laxdalshúsi kærkominn félagsskap í hópi „tvæöldunga“ innan Akureyrar. Nokkrum árum síðar bætast svo Frökenarhús, Lækjargata 2a og Aðalstræti 52 í þennan hóp og þegar 21. öldin verður hálfnuð ættu um fimmtán Akureyrarhús að hafa náð 200 árunum. Áður en fjölgar í „200 ára klúbbi“ Akureyrar árið 2035 munu tvö hús hafa náð þessum mjög svo virðulega áfanga í Hörgársveit; Hofstofa árið 2028 og svo vill til, að á þessu ári er 200 ára afmælisár Lónsstofu á Skipalóni. En hana byggði Þorsteinn Daníelsson árið 1824.

Skipalón- lýsing og forsaga

Skipalón stendur  yst og vestast í víðlendri og aflíðandi hlíð norður af Moldhaugnahálsi, á brún lágrar brekku upp af ósum Hörgár, austanmegin ár nokkurn veginn beint á móti Möðruvöllum. IMG 1930Næstu bæir eru Hlaðir að sunnan og Gásir austan við og á jörðin merki að þeim jörðum en við Hörgá í vestri og sjávarmál í norðri. Nafnið kann að benda til þess, að þarna hafi áður verið skipgengt, þegar mögulega hefur verið hægt að sigla að staðnum, upp eftir Hörgá. Frá hlaðinu á Skipalóni eru rúmir 14 kílómetrar í miðbæ Akureyrar, sé farið austur um Dagverðareyrarveg, um félagsheimilið Hlíðarbæ. Örlítið lengri leið er um sama veg vestanmegin, um Hlaðir og að Moldhaugnahálsi.

                Skipalón hefur löngum aðeins kallast Lón og er nefnt svo í Landnámu. Í þessari grein verða bæði heiti notuð jöfnum höndum. Sögu jarðarinnar má rekja til landnáms en þar settist að Eysteinn Rauðúlfsson, sem nam land allt frá Bægisá og gervalla Þelamörk að Kræklingahlíð. Um hann virðist næsta lítið vitað, en hann mun hafa fæðst um 870 og gæti mögulega hafa numið land að Lóni um eða upp úr 900. Son átti Eysteinn sem hétIMG 1923 Gunnsteinn og á meðal barna hans var Halldóra, eiginkona Víga- Glúms Eyjólfssonar. Í landi Lóns er svonefnd Gunnsteinsþúfa og segir sagan að Gunnsteinn sé heygður þar. Sögu Lóns frá öndverðu má að sjálfsögðu gera skil í löngu máli en við bregðum okkur hins vegar frá landnámsöld og til loka 18. aldar. Þó má geta þess, að ekki er ólíklegt, að líf og fjör hafi verið á Lóni á miðöldum, þegar helsti samkomu- og verslunarstaður Eyjafjarðar var á Gáseyri. En það var árið 1793, að þau Daníel Andrésson og Guðrún Sigurðardóttir settust að á Lóni. Á meðal barna þeirra var Þorsteinn, sem fæddist þremur árum síðar, en hann bjó á staðnum allt til æviloka í hárri elli. Hann reisti þar hús sem enn standa, tveimur öldum síðar.

Þorsteinn Daníelsson forsmiður - Lónsstofa

Þorsteinn Daníelsson var sem fyrr segir fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni og bjó þar mestalla sína ævi, utan fáein ár sem hann dvaldist á Akureyri og í Danmörku. En á síðarnefnda staðnum dvaldist hann veturinn 1819-20, nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið. Prófstykki hans var saumakassi úr mahóní með inngreyptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Sumarið 1821 giftist Þorsteinn, Margréti Þorláksdóttur frá Skriðu. Fluttust þau til Akureyrar, en Þorsteini þótti ekki við hæfi að bjóða eiginkonu sinni upp á búsetu í torfbænum, sem þá var á Lóni, og hugði á uppbyggingu þar, ef hann settist þar að. Tæpum fjórum árum síðar flytjast þau Þorsteinn og Margrét að Lóni, en þar höfðu Þórður, bróðir Þorsteins og kona hans, Wilhelmína Lever, búið ásamt þeim Daníel og Guðrúnu í fáein ár, en ekki fest þar yndi. Þorsteinn hafði sem fyrr segir, haft hug á uppbyggingu og hófst þegar handa við byggingu timburhúss.  Er þar komin Lónsstofa.IMG 1920

Lónsstofa er einlyft, stokkbyggt timburhús, þ.e.a.s. það er ekki byggt með hefðbundinni grind (bindingsverki) heldur hlaðið úr bjálkum, með háu risi og miðjukvisti. Húsið er múrhúðað eða steypt utan um það en bárujárn er á þaki. Kvistur er einnig bárujárnsklæddur. Í flestum gluggum eru margskiptir póstar en krosspóstur í kvistglugga. Grunnflötur Lónsstofu er 6,72x10,44m. Áfast húsinu norðanmegin er steinsteypt gripahús sem mælist um 10x10m á kortavefnum map.is. Upphaflega var Lónsstofa áföst gömlum torfbæ að norðan.  

Í ævisögu Þorsteins Daníelsson segir Kristmundur Bjarnason afar ítarlega frá byggingu og tilurð hússins ásamt mjög greinargóðri lýsingu á því, hvernig þar var til háttað í tíð Þorsteins. Byrjum á grunninum (og það bókstaflega): „Grunnur hússins er hlaðinn úr grjóti og virðist enn...[1961] all traustur, og er húsið ekki fest á neinn hátt í grunnhleðsluna, og gizka [svo] byggingafróðir menn á, að afstýfing og styrkur grindarinnar hafi helst stuðlað að því að halda húsinu á grunni sínum, en ekki er vitað til þess, að það hafi nokkurn tíma haggast af grunni sínum“ (Kristmundur Bjarnason 1961:211). Sá þótti nefnilega mikill ókostur við timburhús 19. aldar að þau vildu skekkjast eða jafnvel fjúka og brotna í illviðrum, kirkjum var t.d. sérlega hætt við þessu. Mun Þorsteinn hafa haft eitthvert sérstakt lag á því, að ganga þannig tryggilega frá timburhúsum að þau bifuðust ekki í ofviðrum og kunnað það fyrstur manna norðanlands. Gefum KristmundiIMG 1941 Bjarnasyni aftur orðið: „Efniviður hússins er hörð og mjög góð fura og er grindin úr 3“ [3 tommu] plönkum sem lagðir eru láréttir og tappaðir saman. Stoðir munu vera undir hverri sperru, og plankarnir lagðir í spor í þeim, þannig að endar skorðist vel. Sperrur eru tappaðar í mæni og skammbitar þannig inni í sperrur. Utan og innan á plankaveggina hefur síðan verið klætt lóðrétt breiðum borðum. Einangrun er í húsinu er engin önnur en sú, sem er í plönkunum og mun þessi byggingarháttur ekki krefjast annarrar einangrunar í útveggjum“ (Kristmundur Bjarnason 1961:212). Eitt sem nýstárlegt var við Lónsstofu var, að á henni voru „upploksgluggar“ eða opnanleg fög en á þessum tíma þótti mikilvægast að loka fyrir hverja glufu. Þá voru gluggahlerar fyrir gluggum neðri hæðar en það tíðkaðist almennt með timburhús. Á dyrahellunni var höggvið ártalið 1824 (sést móta fyrir á meðfylgjandi mynd, sést væntanlega betur ef mynd ef er stækkuð). og einnig nafn og ártal útskorið yfir dyrum. Úr forstofu var gengið í eldhús á  hægri hönd en bestu stofu til vinstri. Besta stofa var einnig skrifstofa Þorsteins. Þá var einnig verkstæði Þorsteins í norðurhluta neðri hæðar en árið 1843 stækkaði hann við sig svo um munaði, með Smíðahúsinu, sem stendur fast austan Lónsstofu. Þá var einnig svokölluð daglega stofa og hjónaherbergi á neIMG 1918ðri hæð. (Höfum í huga, við upptalningu allra þessara rýma, að grunnflötur Lónsstofu er eitthvað um 70 fermetrar).  Gengið var upp á efri hæð úr eldhúsinu að norðan. Norðurhluti rishæðar skiptist í Piltaloft og Geymsluloft, hið síðarnefnda fyrst og fremst matargeymsla. Þá var svokallað Vesturloft, þar sem þjónustustúlkur höfðu að jafnaði persónulega muni, en þær sváfu yfirleitt í dagstofunni á neðri hæð. Suðurloft var yfir bestu stofu og var það gestaherbergi en inn af því súðarherbergi að austan, þar sem skrifarar Þorsteins höfðu aðsetur sitt. Efst undir rjáfri var svokallað Hanabjálkaloft, lágt og illa nýtilegt geymsluloft. Þangað lá stigi  (og liggur kannski enn)  úr skipinu Det Gode Haab, sem strandaði við Gásir haustið 1818 (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961: 214-215).IMG 1924

Þau Þorsteinn og Margrét bjuggu miklu rausnarbúi á Skipalóni í nærri 60 ár og komust til mikilla efna. Gekk Þorsteinn ætíð undir nafninu Danielssen og Margrét ævinlega kölluð Lónsmaddaman. Voru þau orðlögð fyrir metnað og snyrtimennsku og réðu t.d. ekki til sín hjú, nema gengið væri úr skugga um, að fólkið væri ekki lúsugt en slíkt var landlægt. Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni. Hann fékkst einnig við útgerð og jarðrækt,brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur fyrir mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og ætlaðist til þess sama af öðrum. Sumum þótti vinnuharka hans raunar keyra fram úr hófi og  sumarið 1844 gripu smiðir hans við byggingu Munkaþverárkirkju til aðgerða, sem kannski má kalla einhvers konar vísi að fyrstu verkfallsaðgerðum hérlendis. Héldu þeir fund þar sem þeir ákváðu að leika á Þorstein, þannig að hann fyndi sig knúinn til að yfirgefa svæðið. Þóttist einn smiðurinn dotta, og þegar Þorsteinn hastaði á hann, sagðist hann hafa dreymt Grím amtmann fara heim að Lóni. Grímur var mjög góður vinur frú Margrétar og mun Þorsteinn hafa verið mjög á varðbergi gagnvart vinskap þeirra (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262). Gekk þetta eftir, Þorsteinn snaraðist heim að Lóni og væntanlega hafa smiðirnir nýtt fjarveru hans til að slaka á. Hann hefur væntanlega verið drjúgan tíma í burtu, því milli Munkaþverár og Skipalóns eru um 35 kílómetrar og ekki voru bílar, vegir eða brýr árið 1844. Jón Sveinsson eða Nonni átti heima á Möðruvöllum sem barn og hefur líkast til verið heimagangur á Skipalóni. Ein af sögunum í barnabókum hans nefnist einmitt Jól á Skipalóni og segir þar frá baráttu Nonna, Manna og Lónsfólksins við ísbirni. Skipalónsþætti Nonna og viðureigninni við birnina voru gerð skil á eftirminnilegan hátt í þýsku sjónvarpsþáttaröðinni um ævintýri þeirra bræðra, sem gerð var árið 1988. (Sjá hér í lok 3. og upphafi 4. þáttar. Rétt er að geta þess, að Þorsteinn sá, er bræðrunum og HaraIMG 1917ldi vini þeirra verður tíðrætt um í lok þriðja þáttar, er alls ekki Þorsteinn Daníelsson heldur skálduð persóna, sem var hinn argasti þrjótur í þáttunum).

                Sem fyrr segir bjuggu þau Þorsteinn og Margrét hér til æviloka, hún lést sumarið 1881 og hann í desember 1882. Þorsteinn sinnti húsasmíðum langt fram á efri ár, hann tók m.a. þátt í að taka niður  Skjaldarvíkurstofu, Ólafs Briem (byggð 1835) og byggja hana upp á Oddeyri, á vegum Gránufélagsins, árið 1873. Þess má reyndar geta, að tíu árum fyrr hafði Þorsteinn keypt Oddeyrina en seldi Gránufélaginu drjúgan hluta hennar árið 1871. Síðasta hús sem hann byggði mun hafa verið Tugthúsið í Búðargili. Það var byggt árið 1874 stóð neðarlaga gilinu en brann til ösku snemma árs 1938.  Um 1880 var Þorsteinn, þá kominn vel á níræðisaldur, með hugann við það framfaramál, að brúa Hörgá. Hugðist hann gefa töluvert fé til byggingarinnar, en hann átti sem fyrr segir mikil auðævi og ekki áttu þau Lónshjón neina lögformlega erfingja.  Þorsteinn hafði meira að segja komið upp líkani að fyrirhugaðri brú. En „hins vegar rann þessi fyrirætlun út í sandinn sökum sljóleika Danielsens“ (Kristmundur Bjarnason 1961:515). Hörgá var ekki brúuð fyrr en upp úr aldamótum 1900.

Þorsteinn Daníelsson og Þorsteinn Daníelsson

Það vill nú svo til, að það er ekki einn Þorsteinn Daníelsson sem kemur við sögu Lónsstofu heldur eru þeir tveir. Ásta, systir Þorsteins, átti soninn Daníel, sem átti soninn Þorsteinn. Sá var fæddur í janúar 1858 og var tvítugur árið 1878 er hann og móðir hans hugðust flytja til Ameríku. Höfðu þau selt allar sínar eigur, nema Þorsteinn átti enn hnakkinn sinn. Kom það sér vel, þegar ömmubróðir hans og alnafni bað hann að finna sig á Lóni. Erindi hans, var að biðja Þorstein yngri að taka við Lónsjörðinni að sér látnum. Ekki fylgir sögunni, hvort eða hversu lengi Þorsteinn yngri hafi hugsað sig um, en hann gekk að þessu og skemmst frá því að segja, að hann bjó að Lóni til æviloka árið 1941. Þannig má segja, að í meira en 100 ár hafi eigandi Skipalóns verið Þorsteinn Daníelsson! 

Árið 1918 voru húseignir á Skipalóni metnar til brunabóta og Lónsstofu þá lýst á eftirfarandi hátt: Timburhús, 16x10 álnir  með járnklæddum kvisti, plankahús með klæðningu utan og innan og þreföldu timburþaki. Skiptist húsið í 6 herbergi niðri og stærð þeirra getið, herbergi a) 4x5 al., herbergi b) 4 ½ x 2 ½ álnir, herbergi c) 5x5 álnir, herbergi d) og e) eru IMG 1927hvort um sig 6x3 ½ álnir, og herbergi f) 5x4 ½ álnir.  Á neðri hæð eru og þrjú eldstæði niðri við múrpípu, fjögur föst rúmstæði og skilvinda. Á lofti eru sex herbergi með eldstæði við múrpípu. Kvistur á húsinu að stærð 6x3 álnir. Þess má geta, að mál hússins eru sett fram með nokkuð sérstæðum hætti; t.d. er húsið sagt 16+10+3+5 álnir að stærð og herbergin sögð t.d. 4+5+3 álnir. Greinarhöfundur getur sér til, að fyrri tvær tölurnar séu grunnflötur en þriðja talan hæð. Þannig sé stærð hússins 16x10 álnir að grunnfleti, hæð upp að þakskeggi 3 álnir og hæð þaks 5 álnir. Þá er þriðja máltalan í herbergjastærðinni í öllum tilfellum 3 álnir.  Hins vegar eru 3 álnir aðeins um 190 cm, sem er fremur tæp lofthæð. Það getur hins vegar vel staðist, að hæð hússins sé um 8 álnir, sem mun nærri 5 metrum. Þá segir í lýsingunni: „Húsið er orðið gamalt (bygt 1824) [svo] en hefur verið mjög vel bygt og er enn vel stæðilegt og að mestu ófúið“ (Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps 1918: nr. 24). 

                Ekki er ljóst hvenær kvistur var byggður á húsið en fyrir liggur, að hann var ekki á húsinu frá upphafi. Kvistlaus Lónsstofa sést á málverki eftir Kristínu Jónsdóttur, sem sjá má á bls. 209 í ævisögu Þorsteins Daníelssonar. Hvorki er getið ártals, né hvort myndin sýni bæinn eins og var þegar verkið var málað, en verkið gæti verið frá 2. áratug 20. aldar. Það er þó alltént ljóst, að kvistur var kominn á húsið árið 1918.  Steypt mun hafa verið utan um Lónsstofu um 1930 (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:209) og mögulega hefur Þorsteinn Daníelsson yngri staðið fyrir þeirri framkvæmd, eða ábúendur sem tóku við af honum um það leyti (sjá nánar síðar um ábúendur).  Gluggaskipan framhliðar virðist þó næsta lítið breytt, ef marka má gamlar myndir. Frá upphafi var húsið áfast eldri torfbæ að norðanverðu en núverandi gripahús reist á grunni hans.  Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 kemur fram, að á bænum standi fjós frá 1945 og mjög sennilegt, að þar sé um að ræða hús sem áfast er íbúðarhúsinu að norðan. Sama fjós er a.m.k. sagt steinsteypt í Byggðum Eyjafjarðar 1970 en fjárhús frá 1920 úr timbri og torfi. Svo vill til, að byggingarár annarra bygginga en íbúðarhúsa er ekki getið í eldri bókinni en svo er hins vegar í þeirri yngri. Þar er byggingarefna hins vegar ekki getið.

Ábúendur og búsaga Skipalóns á 20. öld - Lokaorð

Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 eru Þorsteinn Daníelsson yngri og Gunnlaug Margrét Gunnlaugsson sögð búa hér til ársins 1930 en í ársbyrjun 1941, þegar Þorsteinn lést, er hann sagður hafa látist á heimili sínu, Skipalóni. Svo þau virðast hafa búið hér áfram á efri árum, þó aðrir tækju við búinu. Frá 1930 virðist vera tvíbýlt á Skipalóni, þar búa annars vegar þau Sveinn Benediktsson og Ingibjörg Jónsdóttir og hins vegar þau Sigurjón Kristinsson og Margrét Ragna Þorsteinsdóttir. Fyrrnefndu hjónin bjuggu hér í fjögur ár, eða til 1934 en þau síðarnefndu til ársins 1948. Þá fluttu að Skipalóni þau Snorri Pétursson frá Blómsturvöllum og Sigurbjörg HallfríðurIMG 1946 Kristjánsdóttir frá Gásum (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 573). Árið 1970 er búrekstur þeirra Snorra og Sigurbjargar eftirfarandi: 13 kýr, 2 geldneyti, 100 fjár, 4 hross, 45 gæsir og 5 geitur. Túnstærð tæpir 13 hektarar og töðufengur um 600 hestar. Hlunnindi eru einnig talin nokkurt æðavarp og silungsveiði (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 209). Árið 1990, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru aftur gerð skil í samnefndu ritverki var bústofninn 17 fjár, 6 geitur, 15 hænur og 20 alifuglar. Ræktað land var réttir 13 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993 :572). En í ritinu Byggðir Eyjafjarðar árið 2010 er Skipalón farið í eyði, og það mun hafa gerst árið 1997 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:355).  Snorri Pétursson lést árið 1995 og mun Sigurbjörg hafa flust héðan skömmu eftir lát hans.

                Sumarið 1981 heimsótti Ómar Ragnarsson Skipalón og heilsaði upp á Snorra Pétursson og myndarlegan gæsahóp hans. Afraksturinn var tæplega tveggja mínútna innslag í Stikluþættinum Saga í grjóti og grasi. Þar vakti e.t.v. mesta athygli hundur Snorra, sem bundinn var við rauðan Renault bifreið af árgerð 1946, sem stóð í hlaðinu. Hundurinn var bundinn við bílinn, svo hann styngi ekki af til Akureyrar! Nefnilega, ef hann fékk færi á, brá hundurinn sér þessa 14 kílómetra leið í bæinn, fór eftir öllum umferðarreglum og spásseraði um strætin eins og fínn borgari! Greinarhöfundur veit ekki til þess, að þáttur þessi sé aðgengilegur nema á gamalli VHS-myndbandsspólu. Svo ef lesendur komast yfir VHS-tæki og Stikluspólu nr. 2 er svo sannarlega mælt með þessum þætti. Almennt mælir greinarhöfundur  eindregið með Stiklum Ómars Ragnarssonar, fyrir alla þá sem vilja auðga vitneskju sínu og auka skilning á landinu og staðháttum. Þættirnir eru mjög merkt framtak til kynningar á landsháttum og náttúru en auk þess að vera mjög fróðlegir eru þeir einnig afar skemmtilegir. 

                Jörðin Skipalón mun vera í eigu afkomenda Snorra Péturssonar og Sigurbjargar Kristjánsdóttur. Lónsstofa hefur hins vegar verið í umsjón Þjóðminjasafnsins frá árinu 1985 og telst hluti húsasafns þess. Smíðahúsið hefur hins vegar verið í umsjón safnsins frá 1976 og var það gert upp um svipað leyti. Lónsstofu bíða hins vegar gagngerar endurbætur, svo sem sjá má á meðfylgjandi myndum.  Væntanlega myndu slíkar endurbætur miða að því, að færa það til upprunalegs horfs. Í lýsingum á húsinu er mjög haft á orði, hversu vel viðað húsið er. Múrhúðun timburhúsa, sem þótti hin mesta bót áLonsstofa teikning sínum tíma hefur í seinni tíð reynst vera algjört skaðræði, hún m.a. lokar auðvitað algjörlega fyrir öndun timbursins, sem er að stofni til lífrænt efni. En það er vonandi að sem mest af nýtilegum og óskemmdum viði leynist undir steypukápunni, sem hjúpað hefur hina 200 ára gömlu Lónsstofu í tæpa öld. Greinarhöfundur ákvað að gamni sínu, að rissa upp teikningar, byggðar á gömlum myndum, að upprunalegu útliti Lónsstofu, með og án kvists, en upprunalega mun húsið hafa verið kvistlaust.  Þá er spurning í hvað húsið gæti nýst, því húsum fer auðvitað ekki vel að standa auð og ónotuð, líkt og bátar sem fúna í naust, best er að þau séu notuð. Lónsstofa gæti auðvitað orðið fyrirtaks safnahús, kannski „útibú“ frá Nonnahúsi vegna tengsla við sögurnar hans. Kannski væri hægt að reka þarna veitinga- og kaffihús yfir sumartímann. Þá væri mögulega hægt að leigja húsið til dvalar og afnota í sérstökum tilgangi, kannski gæti einhver hugsað sér að búa þarna. Hver veit. Eitt er víst, að húsin á Skipalóni eru mikil prýði í fallegu umhverfi, bæjarstæðið tilkomumikið og skemmtilegt og býður eflaust upp á fjölmarga möguleika. Þá má segja, að sagan drjúpi hér af hverju strái, hvort sem er vegna nálægðar við hinn forna Gásakaupstað eða húsanna; hinna geðþekku minnisvarða um athafnamanninn og brautryðjandann Þorstein Daníelsson. Lónsstofa var friðlýst árið 1990 á grundvelli þjóðminjalaga.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. júní 2024. Myndina, þar sem greinarhöfundur er í forgrunni tók Árni Már Árnason. 

Þess ber að geta hér, að húsin á Skipalóni eru ekki aðgengileg almenningi og heimreiðin lokuð. Greinarhöfundur fékk hins vegar góðfúslegt leyfi Þjóðminjasafnsins til þess að fara að húsunum og ljósmynda þau. Hinum bestu þökkum er hér með komið á framfæri til Ölmu Sigurðardóttur hjá Þjóðminjasafninu fyrir að veita þetta leyfi, sem og Sædísi Gunnarsdóttur hjá Minjastofnun sem hafði milligöngu en höfundur leitaði fyrst til hennar. 

 

Heimildir: Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps: Virðingabók 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990 II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

úr dagbókum í Hörgárdal. 

Okt.1881.

 17. okt.Sunnud, á föstudag burtkallaðist Maddama Margrét á Lóni eptir nær enga legu Ólafr, minn var þar staddur og bar hana fram og kom í gærkv, aptur.

24 okt. Jarðsungin Maddama margrét Daníelssen á Skipalóni Mannfjöldi mikill um hálft 3 ja hundrað. O, var þar lika.

 

1882.24. apríl. Mikið uppbóð á Lóni. Ólafr. Og Halldór  fóru þangað.

13 des. Daníelssen á Skipalóni andaðist þan 7 ,þ,m.                     

Bjorg Gudjonsdottir (IP-tala skráð) 2.7.2024 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og sautján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband