Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan

Áður en lengra er haldið: Hrafnkell Marinósson, eigandi Aðalstræti 66, hafði samband við undirritaðan í kjölfar síðastliðins pistils og langaði að koma eftirfarandi á framfæri:

  • Styrkurinn frá Húsfriðunarsjóði við endurbætur á húsinu dugði til  endurgera teikningar frá Finni Birgissyni en ekki beint til neinna framkvæmda. Þær voru að öllu leyti einkaframkvæmd fjölskyldunnar. 
  • Skorsteinninn var nýlega endurhlaðinn og svo skemmtilega vill til, að sá sem annaðist þá framkvæmd var Jón Grímsson Laxdal afkomandi Gríms Laxdal (sem byggði húsið) Jón endurhlóð skorsteininn síðastliðið sumar (2024). Skorsteinninn er endurhlaðinn úr upprunalega steininum.
  • Viðbyggingin að vestan er bókastofa reist til minningar um Magnús Jónsson og Eufemiu Ólafsdóttur þar sem vantaði pláss fyrir bækur frá Magnúsi. 
  • Þá heitir eiginkona Hrafnkels Hlín Ástþórsdóttir (ekki Ásbjörns) og amma hans hét Eufemia (var kölluð Ebba). Það hefur verið leiðrétt og biðst höfundur velvirðingar, en þakkar jafnframt Hrafnkeli Marinóssyni fyrir veittar upplýsingar. 

Aðalstræti 66a

Sunnarlega við Aðalstrætið taka vegfarendur eftir því, að gangstéttin tekur vinkilbeygju og rammar þar inn bílastæði að sunnanverðu, m.a. framan við Minjasafnið. Sveigir stéttinn framfyrir lítið hús, sem skagar að götunni út frá lóðinni við Aðalstræti 66 og stendur þarna gangstéttarbrúninni. Er hús þetta einstaklega snoturt og vinalegt, bárujárnsklætt lágreist með háu risi og smáum sexrúðugluggum. (Gaman að geta þess, í ljósi þess hversu áberandi smátt húsið er, bjó þarna um áratugaskeið maður sem nefndur var Jón Sigurðsson stóri, uppi á árunum 1834 til 1914). Um er að ræða Aðalstræti 66a sem einnig hefur gengið undir nafninu Smiðjan. Hús þetta er um 175-180 ára gamalt en byggingarár þess nokkuð á reiki, eins og gjarnt er með elstu hús bæjarins.

Skráð byggingarár AðalstrætiIMG_2887s 66a er 1845 en mögulega er húsið örlítið yngra.  Árið 1845 var eigandi þessa lóðar Grímur Laxdal bókbindari og veitingamaður og hafði hann nokkru fyrr (1842-43) reist sér íbúðar- og veitingahús á lóðinni. Í virðingu á húsum hans árið 1848 er hvergi minnst á þetta hús en það er reyndar heldur ekki gert í virðingum áratugum síðar. Árið 1851 kaupir Indriði Þorsteinsson gullsmiður hús Gríms og lóð og ekki ósennilegt, að hann hafi reist smiðju á sama tíma. Í virðingu árið 1892 er húsið sagt um 35 ára. Greinarhöfundi þykir nokkuð freistandi að áætla, að Indriði Indriðason hafi reist þetta hús sem smiðju einhvern tíma á 6. áratug 19. aldar, kannski 1851. Í virðingu árið 1892 er húsið sagt um 35 ára, sem gefur byggingarár nærri 1857. Að ákvarða eða sannreyna byggingarár húsa frá þessum (miðri 19. öld og þaðan af fyrr) er oftar en ekki snúið. En hafi húsið verið reist árið 1845 er nokkuð víst, að þá hefur Grímur Laxdal reist það, mögulega í tengslum við bókbandsiðnina eða veitingareksturinn.  

Aðalstræti 66a er einlyft timburhús með háu risi. Sunnan og vestan við er einlyft viðbygging með einhalla aflíðandi þaki og er sá hluti hússins úr steini. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak og margskiptir, sex – og níurúðupóstar í gluggum. Grunnflötur eldri hluta hússins er 6,50x5,35m og viðbyggingar 9x5,8m. Húsið er mjög lágreist og stendur þétt við gangstéttarbrún og lætur nærri, að vegfarendur geti teygt sig þaðan í þakbrúnir hússins.IMG_2888

Indriði Þorsteinsson gullsmiður, sem að öllum líkindum reisti húsið sem smiðju, var úr Fnjóskadal og hafði stundað þar búskap og gullsmíði þar á Víðivöllum áður en hann fluttist til Akureyrar. Indriði var fæddur 1814 og kom fyrst fram í manntölum 1816 og þá er hann skráður sem tökubarn á Hálsi í Hálssókn í S-Þingeyjarsýslu. Eiginkona Indriða Þorsteinssonar var Þóra Andrea Nikolína Jónsdóttir, fædd í Kaupmannahöfn árið 1813. Faðir hennar, séra Jón Jónsson helsingi frá Möðrufelli var þar við nám en móðir hennar var dönsk, Helena Andrea Olsen.  Árið 1824 fluttist fjölskyldan að Möðrufelli til föður Jóns, séra Jóns Jónssonar lærða.   Ástæða þess, að Jón, faðir Þóru, var nefndur helsingi hefur væntanlega verið tvíþætt; annars vegar vegna þess að hann lærði í skóla á Helsingjaeyri og hins vegar til aðgreiningar frá föður sínum, séra Jóni Jónssyni lærði. Þóra A.N. Jónsdóttir sendi árið 1858 frá sér eina fyrstu matreiðslubók sem gefin var út á íslensku. Nefndist hún Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. og var höfundarnafnið Þ.A.N. Jónsdóttir.

Indriði og Þóra áttu heima í Aðalstræti 66 í tvo áratugi eða til ársins 1872, er Akureyrarbær keypti húsið til skólahalds. Það fylgir ekki sögunni, að Smiðjan hafi fylgt með í kaupunum en einhvern tíma eignaðist húsið Jón nokkur Sigurðsson, nefndur Jón Sigurðsson stóri. Mögulega hefur Indriði selt honum smiðjuna samhliða því, að hann seldi bænum íbúðarhúsið.   Hann var úr Hrafnagilshreppi, fæddur á Grísará og uppalinn m.a. á Hömrum, Kroppi og Klúkum (sbr. Stefán Aðalsteinnsson 2019: 212).  Jón Sigurðsson var trésmiður en hafði einnig fengist við sjómennsku og búskap. Líklega var það Jón sem innréttaði húsið sem íbúðarhús en hússins er þó ekki getið í virðingum árið 1878 og 1882. Árið 1890 eru Jón Sigurðsson og kona hans, María Guðmundsdóttir úr Reykjavík skráð til heimilis á nr. 9 á Akureyri, en hús Sigurðar Sigurðarson (Aðalstræti 66) er nr. 8.

Árið 1893 var ár mikilla landvinninga fyrir hinn rúmlega þrítugaIMG_2892 Akureyrarkaupstað. Festi bæjarstjórnin þá kaup á jörðinni Stóra-Eyrarlandi sem náði yfir drjúgan hluta þeirra miklu lenda er lágu ofar brekkunni ofan kaupstaðarins. Jörðina hugðist bærinn nýta til að eiga land fyrir húsalóðir og grasbýli. Sama ár var Jón Sigurðsson trésmiður í húsi nr. 9 í umræddum kaupstað einnig í landvinningum, þó smærri væru í sniðum. Fékk hann keypta 55 faðma viðbót við lóð sína, gegn því, að léti hana af hendi til húsbyggingar, yrði þess óskað (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:106). Ekki fylgir sögunni í hvaða átt þessir 55 faðmar, eða tæpu 92 metra (miðað við að 1 faðmur sé 167cm) lóðarstækkun var, en væntanlega hefur það verið til suðurs.

Jón Sigurðsson átti hér til dánardægurs árið 1914 en eftir það eignaðist Axel Schiöth húsið. Hann virðist hafa leigt húsið því árið 1915 eru búsettir hér leigjendur, tvær fjölskyldur, 10 manns. Ekki hefur verið sérlega rúmt um þau Hóseas Jónsson, Sigríði Bjarnadóttur og fjögur börn þeirra annars vegar og Svein Helgason, Svövu Magnúsdóttur ráðskonu hans og tvö börn þeirra því þá voru a.m.k. tveir áratugir í viðbygginguna.  Framangreint fólk hefur þann 24. nóvember 1916 tekið á móti matsmönnum Brunabótafélags Íslands, sem rituðu skilmerkilega lýsingu á herbergjaskipan hússins. Aðalstræti 66a er í skýrslu brunabótafélagsins sagt einlyft timburhús með háu risi, 6,3x4,8m að grunnfleti, 4,4m á hæð og með 9 gluggum. Á hæð voru þrjú herbergi, eldhús og búr en eitt herbergi og geymsla í risi. Einn kolaofn var í húsinu og gat höfundur ekki betur séð, en að eldavélarnar hafi verið tvær; nokkuð vel í lagt í ekki stærra húsi.  Mögulega hefur önnur eldavélin verið í risinu enda þótt eldhúss sé ekki getið þar.  Árið 1918 er Oddur J. Thorarensen orðinn eigandi hússins og býr þar ásamt konu syni, Ingileif Jónsdóttur og syni,IMG_2885 Eyþóri.

Viðbygging við húsið er sögð byggð 1934 en greinarhöfundur fann ekki byggingaleyfi fyrir henni frá þeim tíma, í bókunum Bygginganefndar. Húsið kemur hins vegar tvisvar sinnum fyrir í fundargerðum nefndarinnar, á 3. og 4. áratug 20. aldar. Annars vegar var það þann 5. desember árið 1927, að þáverandi eigandi, Kristján Tryggvason, sótti um að fá steypa grunn undir húsið og reisa skúr norðan við það. Fékk Kristján leyfi til að steypa grunn undir húsið en var ekki leyft að byggja umræddan skúr þar sem stígur lá norðan við (sbr. Bygginganefnd Akureyrar 1927: nr.604).  Sjö og hálfu ári síðar, eða á sumarsólstöðum 1935 afgreiddi Bygginganefnd annað erindi, varðandi Aðalstræti 66a. Þá var það Freidar Johansen, norskur matreiðslumaður, eiginmaður Mörtu Jóhannsdóttur, eiganda hússins á þessum árum, sem sótti um að fá að flytja húsið á lóðinni og byggja það upp á 1,0 metra háum steyptum grunni. Ekki var honum  heimilað þetta, bygginganefndin vildi ekki leyfa það, að húsið yrði byggt upp á lóðinni “vegna skipulagsmála”.IMG_2890

Árið 1937 fluttu í húsið þau Magnús Jónsson bifreiðarstjóri og Eufemía Ólafsdóttir. Þau eignuðust síðar (1945) Aðalstræti 66 og reistu nýtt íbúðarhús, Aðalstræti 68 árið 1952. Það er skemmst frá því að segja, að líkt og Aðalstræti 66 hefur húsið haldist innan sömu fjölskyldu allar götur síðan og núverandi eigendur hússins eru þau Ragnhildur Sverrisdóttir og Steinar Sigurðsson, en Ragnhildur er dótturdóttur þeirra Magnúsar og Eufemíu. Í bókinni Innbær húsin og fólkið eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur segir Ragnhildur svo frá: […] hér eru mínar rætur. Hér er auk þess reitur fjölskyldunnar, mamma [Auður Magnúsdóttir, AÐalAðalstræti 68] er í næsta húsi. Þegar ég var barn gat ég alltaf hlaupið til ömmu og afa, það gat Sverrir sonur okkur líka gert sem var ómetanlegt. Við Steinar erum samtaka í því að halda húsinu við og höfum gaman af því. Við höfum gjörbreytt öllu hér inni og erum alltaf að breyta og bæta. Við reynum að láta allt njóta sín sem best og gerum allt eins vel og hægt er (Ragnhildur Sverrisdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2016: 79).

Það þarf svo ekki fleiri vitnanna við;p8150044.jpg það blasir við hverjum þeim sem leið eiga um Innbæinn að þau Ragnhildur og Steinar hafa svo sannarlega gert allt eins vel og hægt er. Húsið er í afbragðs góðri hirðu og sómir sér einstaklega vel á þessum skemmtilega stað, skagandi fram á gangstéttarbrún undir miklu tré, sem greinarhöfundur sýnist að sé silfurreynir. Aðalstræti 66a er sérlega geðþekkt og snoturt hús, eins og flest húsin á þessum bletti undir skógi vöxnu Skammagili. Það er og skemmtilegt að vita til þess, að mörg þessara húsa við Aðalstræti hafa haldist innan sömu ætta áratugum saman, þrjár eða jafnvel fjórar kynslóðir. Í raun ekkert ósvipað og gengur og gerist á mörgum bújörðum. (Raunar eru lóðirnar við Aðalstrætið margar hverjar svo stórar, að tala mætti um örjarðir eða landareignir). Aðalstræti 66a eða Smiðjan var friðlýst þann 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 16. febrúar 2025 og 15. ágúst 2009. 

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar.  Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 604, 5. des. 1927. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 749. 21. júní 1935  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins:  https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn.

 Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbærinn Saga hús og fólk. Akureyri: Höfundur gaf út.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_2890
  • IMG_2885
  • IMG_2892
  • IMG_2888
  • IMG_2887

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.4.): 38
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 465
  • Frá upphafi: 445516

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 341
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband