Hús dagsins: Aðalstræti 62

Í upphafi þessa árs setti höfundur sér það markmið í umfjöllun þessari, að taka fyrir tvö elstu hús bæjarins, sem bæði eiga stórafmæli í ár, og í kjölfarið elstu hús bæjarins í aldursröð eftir það. En það er reyndar ekki svo einfalt að ákvarða þá röð. Á öllum húsum eru vitaskuld skráð byggingarár en stundum er allur gangur á því hvort þau standist. Í einhverjum tilfellum er útilokað, að sá sem vitað er að byggði húsið, hafi byggt húsið það ár. Þá flækir það málin enn frekar, að það er ekki endilega vitað með óyggjandi hætti hver byggði húsin. Þannig getur t.d. byggingarár, sé það vitað með vissu, útilokað möguleika á húsbyggjanda og öfugt. Það eykur enn á flækjustigið, að í einhverjum tilfellum hafa hús verið flutt annars staðar frá. Þess er sjaldnast getið sérstaklega og sé svo, fylgir ekki sögunni hver byggði hið flutta hús og hvenær. Svona álitamál eru algeng þegar í hlut eiga elstu hús Akureyrar.IMG_2889

Aðalstræti 62 er látlaust, snoturt og geðþekkt hús sem stendur sunnarlega við Aðalstræti í skógi vöxnum hvammi neðst undir Skammagili. Það er talið nokkuð víst, að Hallgrímur Kristjánsson hafi reist húsið sem skráð er með byggingarárið 1846. Á því er einn hængur: Það er vitað með vissu, að Hallgrímur Kristjánsson flutti ekki til bæjarins fyrr en 1849  og mun að öllum líkindum ekki hafa byggt húsið fyrr en 1855 (sbr. Jón Hjaltason 1990:174).  En gæti hann hafa flutt hingað á lóðina tæplega áratugs gamalt hús? Það er í sjálfu sér ekki útilokað enda þótt engar heimildir séu fyrir því, svo höfundur viti til.

Aðalstræti 62 er einlyft timburhús, bindingsverkshús, á steyptum grunni (skriðkjallara) með háu risi. Á framhlið er smár kvistur með einhalla, bröttu þaki og á bakhlið er inngönguskúr. Í gluggum eru sexrúðupóstar, steinblikk á veggjum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins er 9,56x6,14m og skúr á bakhlið er 2,47x3,19m.

Hallgrímur Kristjánsson gullsmiður, sem mun hafa reist húsið var fæddur árið 1818 á Þönglabakka í Fjörðum í S-Þingeyjarsýslu. Árið 1835 er hann til heimilis á Glæsibæ og fimm árum síðar er hann titlaður „silfursmiður“ á prestsetrinu á Syðri Bægisá en faðir hans, sr. Kristján Þorsteinsson, var þá sóknarprestur þar. Svo vill til, að prestssonurinn á Syðri Bægisá kvæntist prestsdóttur, Ólöfu Einarsdóttur Thorlacius, haustið 1844 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:330) en Ólöf var dóttir séra Einars Thorlacius í Saurbæ. Árið eftir hófu Hallgrímur og Ólöf búskap á Stokkahlöðum í Hrafnagilshreppi. Þar bjuggu þau til ársins 1849 er þau fluttu til Akureyrar. Sú staðreynd útilokar eiginlega, að Hallgrímur hafi byggt Aðalstræti 62, árið 1846. Hann mun hins vegar hafa flust á þessar lóðir, því árið 1849 kaupir hann torfhús af Grími Laxdal, sem þá hafði nýlega reist Aðalstræti 66 (það númer og götuheiti kom  reyndar ekki til fyrr en  rúmlega hálfri öld síðar). Í manntali 1850 eru þau Hallgrímur Kristjánsson og Ólöf Einarsdóttir skráð í húsi nr. 63, í “Akureyri verzlunarstað “. Árið 1856 fékk Hallgrímur Kristjánsson leyfi til veitingareksturs og er jafnvel talið að hann hafi reist sér nýtt hús í tengslum við þann rekstur (sbr. Jón Hjaltason 1990:174). Og þar er um að ræða hús það, sem nú er Aðalstræti 62.

Hallgrímur Kristjánsson var ekki mörg ár í veitingarekstri því árið 1859 söðlaði hann um og gerðist kaupmaður og í manntali árið 1860 er hann skráður „verslunarborgari “. Hallgrímur bjó hér til æviloka, í ársbyrjun 1884, en þá eignaðist sonur hans Einar, húsið. Hann var raunar skráður eigandi hússins ásamt föður sínum árið 1881. Einar Thorlacius Hallgrímsson var lengst af verslunarstjóri Gránufélagsins. Hann var búsettur á Seyðisfirði áratugina kringum aldamótin 1900 en leigði þetta hús út.  Á meðal leigjenda í húsinu var Magnús Júlíus Kristjánsson, verslunarmaður og síðar alþingismaður og ráðherra. Hann fékk árið 1899 leyfi til að reisa bakhús 9 x12 álnir að stærð. Bygginganefnd talar um, að Magnús fái að reisa bakhús við „íbúðarhús sitt“ en væntanlega var Einar Hallgrímsson eigandi hússins. Magnús Kristjánsson var búsettur hér til ársins 1903 en það ár flyst í húsið Oddur Björnsson prentari og fjölskylda hans og áttu þau hér heima til ársins 1905, skv. manntölum. Fram til 1906 taldist þetta hús vera nr. 17 við Aðalstræti. Árið 1906 var núverandi númeraröð komið á og hlaut þá húsið númerið 62. Svo skemmtilega vill til, að sama ár fluttist Oddur Björnsson í annað hús, norðar við sömu götu og austanmegin hennar. Það hús hafði Kristján nokkur Sigurðsson byggt árið 1899 og samkvæmt gamla númerakerfinu var það númer 8. En viti menn, samkvæmt nýja númerakerfinu var þetta hús nr. 17; svo Oddur Björnsson prentari og fjölskylda fluttu úr  einu Aðalstræti 17 í annað.IMG_2893

Sama ár og húsið hlaut hið nýja númer, 1906, flytjast hingað þau Jón Sigurðsson tómthúsmaður og Snjólaug Baldvinsdóttir. Tveimur árum síðar er Jón orðinn eigandi hússins, sem þá virðist skiptast í tvo eignarhluti því meðeigandi Jóns að húsinu er Páll Hallgrímsson, sem þarna býr ásamt konu sinni, Guðnýju Kristjánsdóttur. Nú kunna lesendur að spyrja sig, hvort Páll þessi hafi verið sonur Hallgríms Kristjánssonar, sem byggði húsið og bróðir Einars, sem átti það til 1907. Svo er ekki. Páll Hallgrímsson var fæddur að Jórunnarstöðum í Saurbæjarhreppi og skráður m.a. á Steinsstöðum í Öxnadal (1850) og Miklagarði í Saurbæjarhreppi (1855) á sínum uppvaxtarárum. Hann var bóndi á Möðrufelli í Hrafnagilshreppi frá 1877 til 1907 er hann fluttist hingað. Sex árum síðar fluttist hann hins vegar aftur í Hrafnagilshrepp, nánar tiltekið á Ytra-Gil, þar sem sonur hans hóf búskap.

Árið 1916 er Jón Sigurðsson eigandi hússins ásamt Stefáni Stefánssyni, en sá síðarnefndi er ekki búsettur hér. Síðla það ár heimsóttu matsmenn Brunabótafélags Íslands, Jón, Snjólaugu og son þeirra Þorvald, sem þá eru ein skráð íbúar hússins og tóku saman eftirfarandi lýsingu: Íbúðarhús, einlyft á lágum grunni með háu risi, lítill skúr við bakhlið. Á gólfi 2 herbergi við framhlið við bakhlið eitt herb.[ergi] eldhús og búr. Á lofti 2 herbergi og 2 geimslu herbergi  (Brunabótafélag Ísl. 1916: nr. 17). Brunabótamatsmenn mældu húsið 9,4x6m, hæð hússins 5,6m. Veggir eru timburklæddir og þakið pappaklætt timburþak og í húsinu 1 kolaofn og 3 eldavélar.

Förum nú hratt yfir eigendasögu hússins á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldar; Árið 1920 eignast Jón Guðlaugsson eignarhluta Stefáns Stefánssonar og ári síðar er Þorvaldur J. Vestmann, bankagjaldkeri,orðinn eigandi hússins ásamt Jóni Guðlaugssyni. Jón Sigurðsson og Snjólaug Baldvinsdóttir eru þó enn skráð þar til heimilis. Árið 1922 er Jón Guðlaugsson á bak og burt í manntölum hér, en Þorvaldur J. Vestmann skráður einn eigandi. Hann er hér búsettur ásamt konu sinni, Margréti Aðalsteinsdóttur og barnungri dóttur, Þórlaugu. En fyrir hvað stóð J. í nafni Þorvalds J. Vestmann? Jú, nefnilega Jónsson, nánar tiltekið Jónsson Sigurðssonar og Snjólaugar Baldvinsdóttur. Stórfjölskylda þessi, sem var úr Svarfaðardal en var um árabil búsett í Kanada þar sem Þorvaldur fæddist, átti hér heimili til ársins 1930. Þá fluttust hingað þau Ármann Dalmannsson, búfræðingur og næstráðandi á Gróðrarstöð Akureyrar, frá Fíflholti í Mýrum og Sigrún Kristjánsdóttir frá Végeirsstöðum í Fnjóskadal.

Ármann Dalmannsson hafði flust til Akureyrar árið 1924 með það í huga, að starfa við íþróttakennslu en skólafélagi hans af bændaskólanum á Hvanneyri, Ólafur Jónsson, sem þá var nýráðinn forstöðumaður Gróðrarstöðvarinnar á Akureyri (og löngum kenndur við hana) réði hann til sín sem aðstoðarmann. Þar starfaði Ármann í tæpan aldarfjórðung uns hann söðlaði um og hóf störf hjá Skógræktarfélagi Akureyrar árið 1947. Um þær mundir var að hefjast stórmerkt verkefni hjá því félagi, nefnilega gróðursetning og trjárækt í landi Kjarna. Var Ármann þar, ásamt fleirum, ein helsta driffjöðrin og sinnti ræktun Kjarnalands af mikilli alúð áratugum saman, en hann lét af störfum hjá Skógræktarfélaginu árið 1968. Af þeim sem komu að ræktun Kjarnaskógar er einnig rétt að nefna Tryggva Þorsteinsson, skólastjóra og skátaforingja, en hann fór ótal ferðir ásamt sjálfboðaliðum til gróðursetninga í Kjarnalandi. Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar skógar að fornu og nýju eru þeir Ármann og Tryggvi sagðir frumkvöðlar Kjarnaskógar (sbr. Hallgrímur Indriðason og Aðalsteinn Svanur Sigfússon 2000:130). Óhætt er að segja að tæpum 80 árum eftir að Skógræktarfélag Eyfirðinga, undir forystu Ármanns Dalmannssonar og Tryggva Þorsteinssonar, hóf trjárækt í Kjarnalandi njóti  Akureyringar allir, nærsveitungar og gestir, góðs af þessu framtaki, því umrædd ræktun er auðvitað hinn valinkunna útivistar- og náttúruperla, Kjarnaskógur. Auk starfs síns við hin ýmsu ræktunarstörf var Ármann virkur í hinum ýmsu félagsmálum, m.a. formaður Íþróttabandalags Akureyrar í 20 ár, kom að stofnun Skautafélags Akureyrar og gegndi formennsku í Jarðræktarfélagi Akureyrar og síðar Búnaðarsambandi Eyjafjarðar. Árið 1973 sendi Búnaðarsambandið frá sér mikið ritverk um byggðir Eyjafjarðar og var Ármann þar einn höfunda og formaður ritnefndar. Oft hefur höfundur vitnað í það verk hér, sérstaklega þegar skrifað er um hús á bújörðum í Eyjafirði.pa230005.jpg

Þau Ármann og Sigrún bjuggu hér allan sinn aldur frá 1930, hann lést 1978 og hún árið 1984. Dóttir þeirra Stefanía, og hennar maður, Baldur Sigurðsson, bjuggu hér  eftir þeirra tíð og gerðu m.a. gagngerar endurbætur á innra byrði hússins og undirstöðum árin eftir 1985-1988. Nutu þau m.a. liðsinnis hins valinkunna þúsundþjalasmiðs, Sverris Hermannssonar.  Árið 2021 var húsið til sölu og lýsti þáverandi eigandi hússins, Sigurður Baldursson, endurbótunum svo, samkvæmt sölulýsingu á fasteignavefnum fastinn.is: Nýr sökkull var steyptur undir húsið og settir nýir olíubornir eikargólfbitar undir húsið með því að lyfta húsinu upp með lánstjökkum frá Vegagerðinni og gömlu bitarnir fjarlægðir, steypt ný sæti undir bitana og smíðuð ný grind í gólfið með einangrun, gólfið var á sama tíma lækkað til að auka lofthæð um þrjá þumlunga (um 7,5 cm) og sett ný gólfefni. 
Einnig var nánast allt hreinsað innan úr húsinu milli 1985 og 1988, m.a. allar innréttingar, öll veggjar og loftaklæðning og skipt var um loftabitana og stigann og handriðið milli hæða og hluta innveggja. Veggir og loft voru svo klædd upp á nýtt með plötum og settur nýr panill í loftið í risinu á efri hæðinni. Nýir gluggar voru smíðaðir þar sem þurfti ásamt því að ný hurð var sett út á pall frá stofunni, ný bakdyrahurð og ný sérsmíðuð útidyrahurð. Ný eldhúsinnrétting sett og baðherbergið allt endurnýjað. Rafmagn gert nýtt. Hitaveita tekin inn og sett ný skólplögn út í götu. 
Á sama tíma var hreinsað frá húsinu að utanverðu og endurnýjað ásamt því að tröppur að inngangi framan við húsið voru endursmíðaðar ásamt handriðinu (Sigurður Baldursson (Vilhjálmur Bjarnason), 2021).

Umræddur Sigurður Baldursson er sonur þeirra Baldurs Sigurðssonar og Stefaníu Ármannsdóttur. Hafði því húsið gengið milli þriggja kynslóða í tæp 90 ár þegar þetta var. Kristín Aðalsteinsdóttir heimsótti Sigurð í Aðalstræti 62 í júní 2016 og tók við hann viðtal í tengslum við bókina Innbær Húsin og fólkið. Hann lýsti stemningu í húsinu á uppvaxtarárum sínum: […] Hér áður var hátíð á vorin þegar útsæðið var sett niður og aftur á haustin þegar tekið var upp. Amma var alltaf til staðar, hæg og stillt og bauð upp á kaffi, kakó og pönnukökur. Já, þetta voru skemmtilegar tímar þegar fjölskyldan öll (Sigurður Baldursson (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017:69). E.t.v. er þetta nokkuð lýsandi fyrir stemninguna í húsunum við sunnanvert Aðalstrætið á árum áður.P6171048 Á flestum lóðunum var umfangsmikil kartöflurækt og önnur rækt einnig og mörg þessara húsa voru nokkurs konar stórfjölskylduhús, sem gengið höfðu milli kynslóða frá öndverðri 20. öld.

Sem fyrr segir fóru fram algjörar endurbætur á innra byrði hússins fyrir um 40 árum síðan en hvað varðar ytra byrði hússins er nokkuð merkilegt, að þar mun húsið að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Ekki mun t.d. hafa verið byggt við húsið og gluggaskipan líklega nokkurn veginn óbreytt frá upphafi. Núverandi steinblikkklæðning mun hafa verið sett á húsið um 1930. Í Húsakönnun 1986 segir Hjörleifur Stefánsson að húsið sé […]meðal elstu húsa bæjarins og eitt fárra húsa, sem ekki hefur verið mikið breytt frá fyrstu gerð (Hjörleifur Stefánsson 1986:103). Höfum hins vegar í huga, að þegar Hjörleifur ritar þetta, eru framkvæmdir þeirra Baldurs og Stefaníu í þann veginn að hefjast.

Enda þótt ekki verði skorið endanlega úr um byggingarárið er Aðalstræti 62 eitt af allra elstu húsum Akureyrar. Aðalstræti 62 er sérlega geðþekkt, snoturt og látlaust og stendur á einstaklega skemmtilegum stað, neðst í Skammagili á víðlendri og gróinni lóð, sem nær langt upp í brekkurnar. Það má geta sér til, að frumkvöðull Kjarnaskógar, Ármann Dalmannsson, og hans fjölskylda eigi heiðurinn af þó nokkrum trjám í skógarlundinum, sem umlykur húsið. Aðalstræti 62 var friðlýst þann 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 23. október 2010, 17. júní 2022 og 16. febrúar 2025.  

Heimildir:

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins:  https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Hallgrímur Indriðason og Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Kjarnaskógur. Í Bjarni E. Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Bls. 128-143. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni  https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf

Jón Dalmann Ármannsson. 2000. Ármann Dalmannsson 1894-1978. Í Bjarni E. Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Bls. 58. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.

Matthías Eggertsson. Ármann Dalmannsson. Í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands. 75. árg. Vefslóð  https://timarit.is/page/3119550#page/n0/mode/2up

Vilhjálmur Bjarnason (Sigurður Baldursson) 2018. Lýsing. Aðalstræti 62 á fasteignaauglýsingavefnum Fastinn. Sótt 5. maí 2024 á slóðina  Aðalstræti 62, 600 Akureyri | Fasteignavefurinn Fastinn

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og fimmtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 70
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 274
  • Frá upphafi: 446987

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 207
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband