31.8.2025 | 11:20
Hús dagsins: Fífilgerði, gamla íbúðarhúsið
Hátt undir syðstu hlíðum Vaðlaheiðar, spölkorn frá Bíldsá, standa tveir bæir á ávalri og víðlendri brekkubrún. Á kortagrunni map.is liggur hæðarlínan, sem afmarkar 100 metra hæð yfir sjávarmáli nánast undir bæjarhúsum Króksstaða og Fífilgerðis, sem eru einmitt umræddir bæir. Á fyrrnefnda bænum stendur hús frá aldamótum 1900 og þar ber okkur niður að þessu sinni.
Fífilgerði stendur sem fyrr segir, í 100 metra hæð yfir sjávarmáli, norðanmegin undir Bíldsárskarði en það skarð skilur á milli ógnarlangrar og aflíðandi Vaðlaheiðar og veggbratts Kaupangssveitarfjalls. Fífilgerði stendur, líkt og hús við götu, að vestan og neðan við heimreið, sem liggur að Króksstöðum en ber engu að síður heitið Leifsstaðavegur. Frá Fífilgerði eru um 1700 metrar niður að Eyfjarðarbraut eystri og tæplega 6,5 kílómetrar í Miðbæ Akureyrar. Það er líka skemmtileg staðreynd, að frá vegamótum Leiruvegar og Drottningarbrautar er jafn langt að Fífilgerði og að verslunarmiðstöðinni Norðurtorgi, yst á Akureyri!
Gamla íbúðarhúsið í Fífilgerði er einlyft timburhús með háu risi og viðbyggingu með aflíðandi þaki, einhalla til austurs við norðurstafn. Veggir eru múrhúðaðir, forskalaðir sem kallað er, bárujárn á þaki og einfaldir þverpóstar í gluggum. Í upphafi hefur húsið, þ.e. vesturhlið eða framhlið, væntanlega verið klætt timbri, mögulega slagþili eða rennisúð, og kross- eða sexrúðupóstar í gluggum. Aðrar hliðar hússins voru úr torfi. Grunnflötur mælist um 4,5x10,8m (ónákvæm mæling af loftmynd), þar af er viðbygging að norðan 3,8m að lengd. Grunnflötur upprunalegs húss hefur þannig aðeins verið um 4,5x7m eða rúmir 32 fermetrar.
Fífilgerði fyrr á tíð
Fífilgerði hefur verið í byggð frá örófi alda ef svo mætti segja, en það er nefnt í Auðunarmáldaga árið 1318. Heitið Fífilsgerði hefur einnig verið notað. Jörðin er talin byggð úr landi Kaupangs, eins og margar nærliggjandi jarðir. Jörðin var um aldir eign Munkaþverárklausturs og er árið 1446 skráð sem ein jarða, sem klaustrið hefur leigutekjur af. Vitað er um a.m.k. tvö eigendaskipti Fífilgerðis á 16. öld, í fyrra skiptið, 1532, selur Jón biskup á Hólum, Þorleifi Grímssyni, jörðina ásamt nágrannajörðunum Þórustöðum og Króksstöðum. Nærri fjórum áratugum síðar, eða 1569 hafa þeir Jón Marteinsson og síra Björn Gíslason jarðaskipti, Jón fékk Fífilgerði í stað Skóga í Fnjóskadal (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:2079). Í bókinni Eyfirðingar, nánar tiltekið í sjötta bindi (bls. 2079-2087) má sjá ítarlegt ábúendatal fyrir Fífilgerði allt frá 1703.
Á síðari hluta 19. Aldar, virðast ábúendaskipti nokkuð tíð í Fífilgerði, á árunum 1886 til 1898 eru t.d. fimm sinnum ábúendaskipti og nokkrir búa aðeins 1-2 ár. Hverju það sætir liggur ekki endilega fyrir, mögulega var þetta ekkert einsdæmi. Jörðin er ekki sérlega stór og vitað er að húsakostur var orðinn lélegur um aldamótin 1900. En árið 1898 flytjast hingað þau Sigfús Davíðsson frá Bakkaseli í Fnjóskadal og Aðalbjörg Hallgrímsdóttir frá Víðikeri í Bárðardal. Þau bjuggu hér í fimm ár en hafa væntanlega haft jarðaskipti við næstu eigendur, þau Rögnvald Sigurðsson frá Akureyri og Lovísu Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Þau fluttust nefnilega hingað frá Grjótárgerði í Fnjóskadal árið 1903 og sama ár flytjast þau Sigfús og Aðalbjörg að Grjótárgerði. Við eigendaskiptin sumarið 1903 voru kvaddir til hreppstjóri og matsmaður og liggur fyrir löng og ítarleg skýrsla um húsakostinn, sem Rögnvaldur og Lovísa tóku við. Hér að neðan fer sá hluti hennar, sem lýtur að húsakosti jarðarinnar, nokkurn veginn orðréttur en sá fyrirvari er á, að hlutar hennar eru illlæsilegir og gæti þannig eitthvað hafa skolast til. Verðmat og annað slíkt lætur höfundur liggja á milli hluta.
Úr úttekt á Fífilgerðisjörðinni 1903
Þann 18. júní árið 1903 standa í Fífilgerði baðstofa, fjós, búr, eldhús, göng, bæjardyr og fjárhús og er þeim lýst á eftirfarandi hátt:
Baðstofa: Lengd 5 ½ al. breidd 4 ½ al. með 6 stoðum undir lausholtum, þrennum kálfasperrum og reisifjöl yfir. 2 gluggar, annar með 4 rúðum en hinn með tveimur. Hurð á járnum við dyrastafi fylgir. Lausholt bæði brotin og stoðir mjög fúnar. Sömuleiðis langbönd brotin og svignuð milli sperra. Reisifjöl gömul og mjög fúin. [ ] Þak hriplekt.
Fjós: Norðan við baðstofu 5 ¼ al. langt, 4 ½ al. á breidd með 3 stoðum og styttu í vegg undir 1 mænisás og 3 stoðum undir hliðarár, 12 máttarröftum og nokkru árefti yfir. Austurveggur nokkuð skotóttur [svo] en veggir að öðru leyti all stæðilegir. Þakið hriplekt, viðir nokkuð teknir að fúna. [ ]
Búr: 3 ½ x 4 ½ al. með 4 sperrum á þremur bitum og 9 langböndum. 1 gluggi 4 rúðu fylgir. [ ] Veggir allvel háir og dável stæðilegir að aftan nýir og góðir og þak gott.
Eldhús: 4 ½ x 5 ál. með 1 bita á veggjum og 2 dvergum undir 2 mænisásum, 11 máttarröftum og nægilega reft milli ása. Engin hurð fylgir, veggir all stæðilegur. Þakið gott á norðurhlið en mjög slæmt á norðurhlið.
Göng: Lengd 15 al. Göngin eru mikið of mjó en sæmilega há, Frá baðstofu að bæjardyrum er þverreft af fúnum spítum, þar fyrir fram eru þau spítulaus en þak þó ekki innsigið, þar er það þykkt og vel gróið.
Bæjardyr: Lengd 5 ½ al. breidd 3 1/3 al. innan við með 6 stoðum, 2 lausholtum, 3 bitum, 3 sperrum 6 langböndum og nokkru árefti. Standþil fyrir framan. Hurð á járnum með hespu, loku og keng. Veggir mikið of lágir, einsog grindin er öll, en ekki óstæðilegir, þak brúklegt undir stoðum en mjög missigið og grindin því öll skökk og skæld. Viðir eru mjög grannir og allflestir meira og minna fúnir (Sigurgeir Sigurðsson 1903: 276-278).
Hér er greinilega lýsing á torfbæ. Á teikningu Guðmundar Frímannssonar (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 2079) sést að um hefur verið að ræða tveggja bursta bæ, með stöfnum til vestur, bæjardyrum og skála suður af. Skálinn er á teikningum suður af bæjardyrum en virðist ekki getið sérstaklega í úttektum. Göng hafa legið til austurs frá bæjardyrum til fjóss, en þar til norðurs baðstofa, norðaustanmegin. Milli bæjardyra og fjóss var eldhús norðanmegin og búr, sunnanmegin. Norðvestanmegin í þessari húsasamstæðu hefur verið töðutótt (sbr. Jónas Rafnar 1975: 157). Í úttektinni frá 1903 er hvergi minnst á timburhús en greinilegt, að torfbærinn, sem líklega hefur verið orðinn ævagamall, er að drjúgum hluta í bágu ástandi; Fífilgerði mátti greinilega muna sinn fífil fegurri.
Skráð byggingarár gamla íbúðarhússins í Fífilgerði er 1900 en af þessu má ráða, að það sé lítið eitt yngra, mögulega reist sumarið 1903 í stað torfbæjarins. Sonur þeirra Rögnvaldar og Lovísu, Jón, sem átti einmitt átta ára afmæli daginn sem úttektin var gerð á Fífilgerðishúsum, segir í endurminningum sínum, að þá hafi bærinn verið kotbær (sbr. Jón Rögnvaldsson (Erlingur Davíðsson) 1972:97). Það hefði varla þótt kotbær í upphafi 20. aldar, þar sem stæði nýlegt timburhús. Hér verður ekki úr því skorið, hvort Sigfús Davíðsson reisti Fífilgerðishúsið árið 1900 eða Rögnvaldur Sigurðsson árið 1903 (eða litlu síðar) en gögn styðja óneitanlega frekar hið síðarnefnda. En svo er annað sem flækt getur málin enn frekar: Var húsið e.t.v. flutt einhvers staðar annars staðar frá, þar sem það var byggt fyrr?
Brunabótamat 1934 - Byggingarsaga á hundavaði
Líkt og oft tíðkaðist með timburhús á sveitabæjum var Fífilgerðishúsið reist sem viðbót eða sambyggt við eldri torfbæ. Árið 1934 er Fífilgerði lýst sem íbúðarhúsi, 9x4m á grunnfleti, 4 m á hæð. Torfveggir eru á þrjá vegu en timbur á eina, sem bendir til þess, að timburhúsið sé umlukið torfbænum, sem þremur áratugum fyrr var kominn að fótum fram. Loft, gólf og skilrúm eru úr timbri, járnþak á húsinu og þess getið, að húsið sé kjallaralaust. Raflögn er í húsinu til ljósa, suðu og hitunar, 14 ljósastæði, ein rafvél og fjórir rafofnar en ekkert eldstæði. Það gæti hins vegar hafa verið í eldhúsi, sem metið er sér, 5x3m og 2,2m og sagt úr sama efni sem er þá mögulega timbur og torf. Sú bygging, sem kölluð er eldhús, gæti hafa verið eldhús og búr úr gamla torfbænum, en samanlagt eru þær vistarverur, samkvæmt úttektinni árið 1903, 8 álnir á lengd og 4,5-5 álnir á breidd en 8 álnir eru 5,04 metrar og 5 álnir 3,15 metrar. Þá er einnig nefnt geymsluhús 7x2m, torfveggir með járnþaki og fjós og hlaða úr torfi (Björn Jóhannsson 1934: án bls.). Torfhúsin hafa síðar vikið fyrir nýjum byggingum á sama grunni, því Fífilgerðishúsið er enn nokkurs konar framhús í byggingasamstæðu. Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 er talað um geymslur, áður fjós, sem byggð var 1948 og vélageymslu, sem byggð var tveimur árum síðar (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1064). Þær byggingar hafa þeir Jón og Kristján Rögnvaldssynir byggt og sá síðarnefndi byggingameistari en hann var múrari. Einhvern tíma var byggt við íbúðarhúsið til norðurs, einlyft bygging með lágu, einhalla þaki. Nýtt íbúðarhús var reist í Fífilgerði árið 1977 og lauk þá hlutverki gamla hússins frá aldamótum 1900 sem íbúðarhús.
Garðrækt Jóns Rögnvaldssonar og systkina hans - Rafvæðing Fífilgerðis
Rögnvaldur og Lovísa bjuggu hér á þriðja áratug. Lovísa lést árið 1925 en Rögnvaldur bjó hér áfram til ársins 1929 er hann flutti til Akureyrar. Þá tóku synir hans, Jón og Kristján við búinu, en systur þeirra, Sigrún og Sólveig bjuggu einnig hér um nokkurt skeið. Fífilgerði var með fyrstu bæjum í sveitunum framan Akureyrar, þar sem leitt var rafmagn. Síðla árs 1928 að tekin var í notkun virkjun í Bíldsá og þjónaði hún Króksstöðum, Fífilgerði og Leifsstöðum. Á síðasttalda bænum höfðu téð Sólveig Rögnvaldsdóttir í Fífilgerði og maður hennar, Bergsteinn Kolbeinsson, nýlega lokið byggingu veglegs steinhúss eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Búskapur var ekki aðalstarf þeirra Fífilgerðisbræðra heldur var það garðyrkjan og skógrækt, sem átti hug þeirra allan. Jón Rögnvaldsson nam garðyrkju- og skógfræði við Landbúnaðarháskólann í Winnipeg árin 1920 til 1925. Heimkominn hófst hann handa við garðyrkjustörf og skógrækt og var þar sérlegur frumkvöðull í því starfi og ein helsta driffjöðrin á því sviði hér um slóðir næstu áratugina á eftir. Svo segir hann frá sjálfur: Heima í Fífilgerði hófumst við systkinin handa árið 1926 um það að koma upp skrúðgarði og að sumu leyti garðyrkjustöð, og auk þess höfðum við alltaf verulega matjurtarækt. Það vorum við Kristján og systurnar Sólveig og Sigrún, meðan þær voru enn heima, sem að þessu unnum. Og auk þess byrjuðum við strax á trjárækt, og ennfremur fórum við að safna íslenzkum jurtum, og varð þar vísir að grasagarði, og allt var þetta tómstundavinna, því að við Kristján og Sigrún unnum löngum á Akureyri, ég við skrúðgarða, Kristján við múrverk og Sigrún við sauma, svo að búskapurinn varð líka tómstundaverk okkar (Jón Rögnvaldsson (Erlingur Davíðsson) 1972:115-116).
Grasa -og trjágarðurinn í Fífilgerði þótti mikið undur og árið 1940 mun hvergi á Íslandi hafa verið jafn mikill fjöldi íslenskra tegunda í einum garði á Íslandi (sbr. Sigurður Arnarson 2025) en Jón safnaði sérstaklega íslenskum plöntum. Var ekki óalgengt, að ferðafólk hvaðanæva að, legði leið sína í Fífilgerði að berja skrúðgarðinn augum (sbr. Hörður Kristinsson 1972:22). Árið 1954 tók Jón við forstöðu Lystigarðsins á Akureyri og þegar þeir bræður brugðu búi í Fífilgerði árið 1957 fluttu þeir plöntusafnið í garðinn. Auk ræktunar skrúðgarðsins reistu Jón og Kristján mikið gróðurhús (óvíst hvenær) skammt sunnan við íbúðarhúsið og ræktuðu þar m.a. vínvið. Greinarhöfundur minnist þess að hafa heyrt, að föðurbróðir hans, sem uppalinn var á Arnarhóli, næsta bæ neðan við Fífilgerði, hafi á barnsaldri heimsótt skrúðgarð bræðranna í Fífilgerði og áhugi hans vaknað, m.a. þar, á smávinunum fögru. Hefur strákurinn á Arnarhóli væntanlega notið alúðlegrar leiðsagnar Jóns Rögnvaldssonar um plöntusafnið en þarna má segja, að krókurinn hafi snemma beygst, því hér var um að ræða Hörð Kristinsson (1937-2023), grasafræðing með meiru! Fyrir þá sem vilja kynna sér ævi og störf Jóns Rögnvaldssonar má benda á vandaða, ítarlega og fróðlega grein Sigurðar Arnarsonar, sem birtist á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga í júní síðastliðnum, í tilefni þess, að liðin voru 130 ár frá fæðingu Jóns. Enn standa múrsteinshlaðnir útveggir og þakgrind gróðurhússins og trjágróður, fyrrum skrúðgarður Jóns og Kristjáns Rögnvaldssona myndar gróskumikinn skógarlund, sem mælist á loftmynd um 2000 fermetrar.
Síðari áratugir - Úr Byggðum Eyjafjarðar
Sem fyrr segir fluttust þeir Jón og Kristján Rögnvaldssynir úr Fífilgerði árið 1957. Kristján var ókvæntur en Jón kvæntist árið 1939, Körlu Þorsteinsdóttur, sem fædd var og uppalin í Noregi en átti íslenskan föður. Í Fífilgerði fluttust þau Jónatan Davíðsson frá Brúnagerði í Fnjóskadal og ráðskona hans, Þórunn Stefánsdóttir frá Syðra-Kambhóli í Arnarneshreppi. Með þeim fluttist hingað uppkominn fóstursonur Þórunnar, Haukur Berg Friðgeirsson. Eins og venjan er, þegar fjallað er um hús í Eyjafjarðarsveit, skulum við grípa niður í skýrslum þeim, sem birtast í ritverkunum, Byggðir Eyjafjarðar. Fyrst voru þessar skráningar unnar fyrir árið 1970, svo 1990 og aftur 2010, og voru þær gefnar út þremur árum síðar. (Kannski ber til um þessar mundir, eða innan fárra missera, að boð komi frá Búnaðarsambandinu að skrásetja skuli alla Eyjafjarðarbyggðina árið 2030 og gefa út á bók 2033, samkvæmt hefðinni).
Árið 1970 voru ábúendur téður Haukur, kona hans Hildur Sigursteinsdóttir, ásamt þeim Jónatan og Þórunni. Byggingar voru sagðar gamalt íbúðarhús (byggingarárs ekki getið) úr timbri, portbyggt, 204 m3, fjós fyrir 15 nautgripi, fjárhús f. 60 fjár, hesthús fyrir tvö hross og hlaða fyrir um 570 hesta af heyi. Útihús eru sögð að mestu úr timbri og asbesti. Túnstærð er 11,02 hektarar, töðufengur um 460 hestar og kartöfluland 800 m2 . Þrettán kýr, þrjú geldneyti, 50 fjár og tveir hestar er bústofn Fífilgerðis árið 1970 (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson, 1973: 407). Gróðurhús Jóns og Kristjáns virðist ekki með í þessari samtölu bygginga.
Á næstu tveim áratugum sem liðu milli skrásetninga Eyjafjarðarbyggða bar það til tíðinda, að byggt var nýtt íbúðarhús í Fífilgerði. Það var árið 1977 og stendur það um 50 metra norðan gamla hússins. Þá var einnig byggð 707 rúmmetra hlaða og átta árum síðar 16 bása fjós og geldneytapláss. Eru þær byggingar ofan og austan við Leifsstaðaveginn, beint á móti gamla húsinu. Þá er einnig talin upp 65 fermetra garðávaxtageymsla, byggð 1935 (ekki er þó getið um garðávaxtageymslu árið 1970) og geymslur byggðar 1900 (gamla íbúðarhúsið, sem hér er til umfjöllunar) og 1948, áður fjós og vélageymsla byggð árið 1950. Þá er búrekstur 14 kýr og 5 aðrir nautgripir auk kartöfluræktar. Ræktað land er 13,2 hektarar og ábúendur eru þau Haukur og Hildur (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1065).
Árið 2010 eru byggingar þær sömu og áður, en fjósið frá 1985 hefur breytt um hlutverk og er orðið að garðávaxtageymslu. Enda var skepnuhaldi lokið í Fífilgerði og búrekstur fólst í kartöflurækt. Ræktað land var, líkt og 20 árum fyrr, 13,2 hektara og þau Haukur og Hildur enn eigendur og ábúendur Fífilgerðis. Árið 2006 reisti Hörður Edvinsson, sonur Hildar, íbúðarhúsið Fífilgerði II spölkorn neðar í brekkunum, nærri merkjum við Arnarhól (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013: 591). Garðávaxtageymslu frá 1935 er þó ekki getið. Kannski er þar um að ræða gróðurhús Jóns og Kristjáns, sem þá hefur mögulega verið orðið ónothæft.
Niðurlag
Gamla íbúðarhúsið er látlaust og snoturt hús, sem ekki lætur mikið yfir sér. Það er í raun framhús á stærri samstæðu bæjarhúsa, sem reist hafa verið á grunni torfbæjar á bæjarhól og hluti skemmtilegrar heildar. Fífilgerði er líklega ekki ósvipað að gerð og eldri hluti gamla hússins á Eyrarlandi. Það er þó ívið stærra hús, enda reist sem frístandandi hús en Fífilgerðishúsið sem nokkurs konar timburstofa við torfbæ. Í bókinni Eyðibýli á Íslandi er húsið sagt í nokkuð góðu ástandi gluggakarmar, póstar og opnanleg fög til staðar, útidyrahurð í góðu lagi, auk þess vatnslagnir og frárennsli sé enn til staðar. Múrhúð er þó nokkuð tekin að springa (Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012:102). Miðað við það, að ekki hefur verið búið í gamla Fífilgerðishúsinu í tæpa hálfa öld virðist það í nokkuð ástandi enda ekki um eyðibýli að ræða í þeim skilningi, að jörðin er enn í ábúð. Þar sem húsið er byggt fyrir 1923 er það friðað vegna aldurs, en bakbyggingarnar eru miklu yngri, eða frá miðri 20. öld. Saga hússins og umhverfis þess er einnig nokkuð merkileg m.a. vegna frumkvöðlastarfs ábúendanna hér í skógrækt og garðyrkju, á fyrri hluta 20. aldar og tengsla skrúðgarðsins sem var, við Lystigarðinn á Akureyri. Það má geta þess, að fyrsta ákvörðun Skógræktarfélags Eyfirðinga (þá Skógræktarfélags Íslands) um friðun skógar, var líkast til samþykkt í þessu húsi: Það var á fundi félagsins þann 30. júlí 1931, að ákveðið var að friða og girða í kringum náttúrulegan, fornan birkiskóg, í Garðsárgili, og fór sá fundur fram hér í Fífilgerði, á heimili formannsins, Jóns Rögnvaldssonar (sbr. Aðalsteinn Svanur Sigfússon 2000:167). Trjálundurinn sunnan hússins er, auk þess að vera prýði í umhverfinu, nokkurs konar minnisvarði, ásamt útveggjum gróðurhússins vestan hússins, um verk þeirra Fífilgerðisbræðra Jóns og Kristjáns.
Myndirnar af Fífilgerði eru teknar 22. júní 2014 (um miðnæturbil á sumarsólstöðum) og 25. júlí 2025. Myndin úr Garðsárreit eru teknar 30. júlí 2025, réttum 94 árum eftir að Skógræktarfélagið ákvað að friða hann, á fundi sínum í Fífilgerði.
Heimildir:
Aðalsteinn Svanur Sigfússon. 2000. Garðsárreitur í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar; Skógar að fornu og nýju. Bls. 167-169. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli áhugamannafélag.
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri (ekki aðgengileg á vef). Hskj.Ak. H12-41.
Erlingur Davíðsson (Jón Rögnvaldsson). Aldnir hafa orðið I bindi: Jón Rögnvaldsson. Bls. 95-121. Akureyri: Skjaldborg.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Hörður Kristinsson. 1972. Jón Rögnvaldsson fyrrverandi forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar (minningargrein) Í Morgunblaðinu 219. tbl. 59. árg. 27. sept. Bls. 22.
Sigurgeir Sigurðsson. 1903. Fífilgerði. Úttekt 18. júní 1903. Í Úttektarbók Öngulsstaðahrepps 1893-1927 bls. 276-282. Handskrifaðar matsgerðir færðar í bók, varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri Hskj.Ak. H12-12. Úttektabók Öngulsstaðahrepps 1893-1927 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Sigurður Arnarson. 2025. Jón Rögnvaldsson. Mikilhæfur leiðtogi á sviði skrúðgarðyrkju og landgræðslu. Grein á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga 18. júní 2025. Sótt 27. ágúst 2025 á slóðina https://www.kjarnaskogur.is/post/jon-rognvaldsson
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.8.): 99
- Sl. sólarhring: 106
- Sl. viku: 357
- Frá upphafi: 453819
Annað
- Innlit í dag: 71
- Innlit sl. viku: 266
- Gestir í dag: 71
- IP-tölur í dag: 67
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning