Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Hleiðargarðsfjall, nefnist fjall,IMG_3790 framarlega í Eyjafirði vestanverðum. Um það greinist annars vegar Djúpidalur vestanmegin og hins vegar fremstu kimar Eyjafjarðar (eða Eyjafjarðardals) austanmegin. Þar nefnist byggðin Vesturkjálki, undir bröttum hlíðum Hleiðargarðsfjalls og Tröllshöfða. Norður úr Hleiðargarðsfjalli gengur ógnarlöng og aflíðandi öxl eða háls, sem örnefnakort map.is nefnir Slakka efst en Saurbæjarháls neðar, en Saurbær stendur einmitt undir hálsi þessum. Kallast þar Saurbæjarpláss, undir hálsinum en samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:805) eru norðurmörk Vesturkjálka og Saurbæjarpláss við Krónustaði, liðlega kílómetra framan Saurbæjar.  Hátt í hlíðunum ofan og lítið eitt norðan Saurbæjar stendur annar bær, sem hefur reyndar verið í eyði í ríflega þrjá áratugi og dregur hann einmitt nafn sitt af hálsi þessum. Bærinn heitir þóIMG 3797 ekki Saurbæjarháls heldur einfaldlega Háls. Þar stendur tæplega aldargamalt timburhús.

Bæjarstæði og hús

Háls stendur sem fyrr segir hátt í hlíðum Saurbæjarháls. Er bæjarstæðið í rúmlega 140 metra hæð yfir sjávarmáli, en til samanburðar er Saurbær í um 50 metra hæð. Húsið stendur sunnarlega í aflíðandi og víðlendu túni, um 600x200 metra breiðu, sem liggur á milli gróskumikilla skógarreita til allra átta. Frá Eyjafjarðarbraut vestri liggur um 1400 metra löng heimreið og er hún sameiginleg með Saurbæ og Saurbæjarkirkju. Frá miðbæ Akureyrar eru rétt um 30 kílómetrar að íbúðarhúsinu á Hálsi, sem hér eftir mun einfaldlega kallast Háls, en tilgreint sérstaklega ef um jörðina er að ræða.

Háls er einlyft timburhús með portbyggðu risi og stórum miðjukvisti. Stafnar hússins snúa austur-vestur og framhlið mót vestri. Á norðausturhorni hússins er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og smár kvistur á bakhlið. Húsið er nokkuð greinilega byggt við gamlanIMG 1179 torfbæ og má greina leifar af þeim bæ suðvestan við húsið. Húsið er klætt láréttum borðum eða panel og bárujárn á þaki. Þverpóstar eru í flestum gluggum en tveir gluggar eru negldir aftur með plönkum.  Grunnflötur hússins mælist um 6x9m en viðbygging nærri 4x7m.

Að fornu og nýju

Jörðin Háls er ævaforn, raunar frá landnámi og notaði Helgi magri jörðina sem merki, þegar hann gaf Auðuni rotnum, land sem heimanmund með Helgu dóttur sinni. Náði land þetta frá Hálsi í norðri að Villingadal í suðri. Næstu aldir fer fáum sögum af Hálsi og Hálsverjum en jörðin mun hafa verið í eigu Saurbæjarkirkju. Jarðarinnar er reyndar getið árið 1318 sem hluta af eignasafni Saurbæjarkirkju, en þá átti kirkjan hálfa jörðina. Fyrsti nafngreindi bóndi á Hálsi í stórvirkinu Eyfirðingum er Jón Flóventsson, handalausi, sem mun hafa búið hér á fyrri hluta 17. aldar. Árið 1703 er Gunnvör Jónsdóttir, ríflega sextug ekkja skráð hér fyrir búskap, aðrir íbúar Höskuldur Björnsson ráðsmaður og „fyrirvinna“ frá Brekku í Öngulsstaðahreppi og vinnuhjú, Hallur ÞorsteinIMG_3808sson og Halldóra Jónsdóttir. Höskuldur mun skömmu síðar hafa tekið við búskapnum. Margir sátu jörðina næstu hálfa aðra öldina, svo sem gengur og gerist á löngum tíma. Um miðja 19. öld fluttust hingað þau Hallgrímur Einarsson Thorlacius og Sigríður Jónsdóttir frá Litla-Dal en á þeim tíma, var faðir Hallgríms, séra Einar Hallgrímsson Thorlacius, prestur í Saurbæ. Hann stóð fyrir byggingu þeirrar Saurbæjarkirkju sem enn stendur, árið 1858. Hallgrímur og Sigríður bjuggu hér til ársins 1880 og virðist hafa verið tvíbýlt hér um nokkurra ára skeið, frá 1877 til 1883 og virðast ábúendaskipti hafa verið nokkurn veginn árviss á Hálsi árin 1879 til 1881.

Jón Abrahamsson frá Nesi í Saurbæjarhreppi og Anna Stefánsdóttir frá Ásláksstöðum í Kræklingahlíð fluttust hingað árið 1881 en fluttu vestur um haf til Ameríku tveimur árum síðar. Þá fluttust hingað þau Benedikt Einarsson (1856-1928) fæddur á Halllandi á Svalbarðsströnd og Margrét Kristín Ólafsdóttir (1850-1916) frá Ánastöðum í Sölvadal. Hér bjuggu þau til æviloka og afkomendur þeirra æ síðan, í meira en öld. Benedikt Einarsson á Hálsi var annálaður athafnamaður: Benedikt á Hálsi var meira riðinn við opinber störf en nokkur annar samtíðarmaður hans í Eyjafirði. Hann var hreppstjóri i 27 ár, oddviti hreppsins í 3 ár, í sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu nær 2 áratugi, endurskoðandi reikningIMG 3807a Kaupfélags Eyfirðinga í 24 ár, formaður Búnaðarfélags Saurbæjarhrepps í 13 ár (Laufey Sigurðardóttir 1980: 400).  Benedikt var sæmdur riddarakrossi Dannebrogsorðunnar árið 1907. Benedikt var einnig afkastamikill hagyrðingur og skáld og eftir hann er ljóðabókin Vökudraumar sem út kom fyrir réttri öld, 1925.  Þegar góðvinur Benedikts, Matthías Jochumsson, flutti í nýtt hús sitt á Akureyri orti hann þessa vísu:

Heimþrá manns er heiðin greið

huldir liggja þræðir,

anda hans er leiða leið

Ijúft á Sigurhœðir.

 

Árið 1908 tóku við búinu á Hálsi þau Ingimar Traustason (1876-1947)IMG 3801 frá Æsustaðagerði og Indíana Benediktsdóttir (1882-1971), dóttir téðra Benedikts og Margrétar. Synir þeirra voru Benedikt og Ármann. Þá var á Hálsi torfbær frá fornu fari. Núverandi timburhús var reist árið 1929 og það hefur Trausti væntanlega reist ásamt sonum sínum, sem þá voru 17 og 23 ára gamlir. Eins og oft tíðkaðist kom nýja íbúðarhúsið ekki algjörlega í stað gamla torfbæjarins, heldur var það í raun reist sem nokkurs konar viðbót við hann, nokkurs konar framhús. Upprunalega voru stafnar hússins úr torfi en einhvern tíma hefur suðurstafn verið steyptur eða múrhúðaður. Hlóðaeldhús var hér notað langt fram yfir miðja 20. öld og árið 1970 var ein torfburst áföst íbúðarhúsinu að sunnanverðu.

Þann 6. mars 1934 voru húsakynnin á jörðinni IMG 3802Hálsi metin til brunabóta. Þar eru fyrst upp talin baðstofa og eldavélarhús, sem væntanlega voru hluti gamla torfbæjarins. Þar er timburskilrúm milli baðstofu og eldavélarhúss og þess getið, að reykháfur sé 16 tommur að utanmáli og reykholið sé 6 tommur. Baðstofan og eldavélarhúsið tengjast öðrum húsum með þykkum torfveggjum. Þetta mannvirki er 8,5x3,2m að grunnfleti og 2m á hæð. Næst í upptalningunni er búr og gangur, 4,2x3,4m að grunnfleti og 2,4m á hæð. Þriðja í upptalningunni er svokallað „framhús með torfstöfnum og járnþaki“. Þar er líklega komið nýja timburhúsið. Þar eru stofa, bæjardyr og geymsluhús. Það er 8,1x4,4m að grunnfleti og 3,7m á hæð. Steinolía er notuð til ljósa. Að auki eru á Hálsi hlóðaeldhús, búr, fjós, skemma, eldiviðarkofi, fjárhús og jötukofi og allar framangreindar byggingar úr torfi. Tekið er fram, að baðstofa og eldavélarhús sé aðskilið frá öðrum mannvirkjum með þykkum torfveggjum. Ríkissjóður er eigandi jarðarinnar árið 1934 (sbr. Brunabótafélag Íslands 1934: nr. 42).

Ingimar og Indíana eru skráð hér sem ábúendur eftir 1908, Skjámynd 2025 09 30 120925þó er Benedikt Einarsson skráður hér árabilið 1916 til 1920. Frá árinu 1938 er Ármann, sonur Ingimars og Indíönu, skráður hér fyrir búinu. Það má þó geta sér þess til, að báðir hafi þeir bræðurnir komið að búrekstrinum, þó aðeins annar þeirra væri skráður fyrir honum. Ármann Ingimarsson lést árið 1957, aðeins 45 ára að aldri og tók þá Benedikt við búinu. Með honum bjó móðir hans, Indíana, en hún lést árið 1971. Svanhildur Daníelsdóttir, fædd og uppalin í Gnúpufelli kom oft í Háls sem barn. Var hún þá í fylgd móður sinnar, Ingibjargar Bjarnadóttur, sem hafði verið í vist á Hálsi, áður en hún hóf búskap í Gnúpufelli ásamt manni sínum, Daníel Pálmasyni.  Svanhildur minnist þessara heimsókna með mikilli hlýju:

Ég kom mjög oft í Háls þegar ég var barn og unglingur, mamma hafði verið þar kaupakona sumarið 1948 og leit alltaf til með Indíönu gömlu og Benna syni hennar, allt þar til þau dóu. Gluggarnir sunnaná eru eldhúsgluggi sá stærri og salernisgluggi sá mjói. Framaná sunnan við útidyrnar var stofan og þar sváfu þau mæðgin bæði, Inda í rúmi að sunnanverðu, Benni við eldhúsvegginn. Dívan var undir stofugluggunum og borðstofuborð stóð þar, setið á dívaninum öðru megin borðsins og á kollum hinu megin. Þar man ég eftir að hafa fengið að sjúga kamfórudropa úr molasykri og finn nú lyktina þegar ég hugsa um það. Við norðurvegg stóð skrifborð Benna, en hann var skáld gott. Á skrifborðinu stóð líka upptrekktur grammafónn og Benni spilaði stundum 78 snúninga plötur fyrir okkur mömmu. Stofan var eina herbergið í húsinu sem var upphitað. Skjámynd 2025 09 30 120901Norðan við útidýrnar var búrið og aftan við búrið þröngur stigi upp í kvistherbergið. Torffjósið stóð sunnan við húsið, þar voru tvær kýr, önnur grá, hin bröndótt. Aftan við fjósið stóð enn hlóðaeldhúsið og þar sauð mamma slátrið fyrir Indu gömlu (Svanhildur Daníelsdóttir, 2025).

Það er ekki ósennilegt, að innri skipan hússins hafi verið að mestu óbreytt frá upphafi þegar þarna var komið sögu (um og fyrir 1970) og sé það enn.

Úr Byggðum Eyjafjarðar

Árið 1970 voru byggðum Eyjafjarðar gerð skil í miklu, samnefndu riti, sem út kom þremur árum síðar. Þá eru þau mæðgin búsett hér og Benedikt sagður hafa tekið hér við búi með móður sinni árið 1958 og byggingar sagðar íbúðarhús úr timbri, 150 m3 , fjós fyrir 6 kýr, fjárhús fyrir 120 fjár og braggahlaða fyrir um 450 hesta (af heyi). Túnstærð er 15,29 hektarar og töðufengur er um 450 hestar. Bústofninn telur 80 fjár (sbr. Ármann Dalmansson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:311). Þegar Eyjafjarðarbyggðum voru næst gerð skil á prenti hafði Benedikt búið einn á Hálsi í um tvo áratugi, en Indíana móðir hans lést 1971, tæplega níræð að aldri.  Árið 1990 voru nokkurn veginn sömu byggingar á Hálsjörðinni, íbúðarhúsið frá 1929, sem sagt er 59 m2, fjárhús sem einfaldlega eru sögð ”gömul” fyrir 80 kindur og hlaða byggð 1945 fyrir 640 rúmmetra. Þar er líklega um að ræða bygginguna, sem tuttugu árum fyrr kallast „braggahlaða“ en braggarnir urðu móðins með breska og síðar bandaríska setuliðinu. Hæg hafa heimatökin verið fyrir Hálsfólk að nýta  bragga frá setuliðinu, en á vegum þess voru miklar bækistöðvar og flugvöll steinsnar frá, við Rauðhús. Flugvöllurinn var á Melgerðismelum og eftir að stríði lauk þjónaði hann sem flugvöllur Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins í um áratug, þar til Akureyrarflugvöllur var tekinn í notkun.  Ræktað land að Hálsi er 15,3 hektarar sem er nokkurn veginn það sama og 1970 og árið 1990 átti Benedikt á Hálsi 37 kindur (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes IMG 3814Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:832). Steindórsson, Benedikt átti hér heima alla sína tíð, en hann lést í október 1992, 86 ára að aldri. Byggðabókunum ber ekki saman um, hvenær Benedikt tók við búinu, síðari bókin (1993) segir 1957 en í eldri bókinni frá 1973 er nefnt árið 1958 í því samhengi. Ármann, bróðir Benedikts, lést í nóvember 1957 og hlýtur því Benedikt að hafa tekið við búinu samdægurs. Mögulega gætu einhver formlegheit vegna yfirfærslunnar hafa dregist fram yfir áramótin. Benedikt Einarsson bjó á Hálsi alla sína tíð en hann lést þann 8. október 1992, 86 ára að aldri. Eftir fráfall hans lauk búsetu á Hálsi og jörðin fór í eyði. Benedikt var, líkt og Svanhildur Daníelsdóttir nefnir hér að framan, skáld gott og liggja eftir hann a.m.k. tvær ljóðabækur, Kvæðakver (1969) og Frá vordögum (1975).

Hér er haustvísa eftir Benedikt Ingimarsson:

Að hausti vart má vita af því
hvað vorið skarta lætur.
Næðir hjarta nepjan í.
Nóttin svarta grætur.

Benedikt Ingimarsson á Hálsi kvað einnig um vorið:

Sólin bræðir fannafeld
fald sem klæðir vetur.
Vorið glæðir innri eld
öllum gæðum betur.

Þegar Háls var kominn í eyði gerði fyrrnefnd Ingibjörg Bjarnadóttir í Gnúpufelli því skil í löngu kvæði. Eitt erindanna er eftirfarandi:

Tíminn streymir sem stórfljót æst

stór komu skörð í hópinn.

Ármann hvarf fyrstur, Inda næst

enginn í staðinn hafði bæst

Örlögin sýna sópinn.

 

Skógræktin á HálsiIMG_3808

Enda þótt búsetu lyki á Hálsi hófst nýtt tímabil í sögu jarðarinnar nokkrum misserum síðar. Þannig var, að Skógræktarfélag Eyfirðinga hafði löngum leitað fyrir sér að landi, þar sem félagar þess gætu sinnt og stundað skógrækt. Jörðin þótti ekki sérlega hentug til búskapar, m.a. nokkuð þurr og hrjóstug.  Í jörðinni Hálsi sáu skógræktarmann ákveðið tækifæri og varð úr, að samningar tókust milli Skógræktarfélagsins og Landbúnaðarráðuneytisins um langvarandi afnot félagsins af jörðinni (leiga til 75 ára auk forleiguréttar að þeim tíma liðnum) í árslok 1993. Í fyrstu voru girtir 70 hektarar og hófst þar ræktun árið 1995. Eftirspurn eftir ræktarlöndum reyndist mikil og því var ráðist í friðun annars áfanga jarðarinnar árið 1997 og var það viðbótarland um 75 hektarar. Í upphafi voru hugmyndir hjá Skógræktinni að gera gamla íbúðarhúsið upp, en við nánari skoðun reyndist það of kostnaðarsamt enda hafði húsið verið dæmt ónothæft (sbr. Hallgrímur Indriðason og Vignir Sveinsson 2000:159). Húsið var þó engu að síður nýtt sem afdrep fyrir starfsmenn félagsins og hlaut lágmarks viðhald. Það er skemmst frá því að segja, að Hálslandið hefur ítrekað sprengt utan af sér skógræktina, svo mikil hefur eftirspurnin verið, og árið 2005 samdi Skógræktarfélagið um viðbótarlandsspildu, 150 hektara, á nágrannajörðinni Saurbæ. Upprunalega voru spildurnar, sem úthlutað var til ræktunar 37 að tölu á 70 hektörum en nú eru þeir a.m.k. 110 á alls 295 hekturum eða tæpum þremur ferkílómetrum.  

Árið 2012 heimsótti rannsóknarhópur um eyðibýli Háls og hafði m.a. þetta að segja um ástand hússins: [...] Útveggir eru heilir og húsið viIMG 3818rðist í góðu ásigkomulagi. Gluggar eru glerjaðir og karmar, póstar og fög á sínum stað [innskot: Árið 2025 eru neglt fyrir tvo glugga hússins]. Þak og útihurð eru heil. [...] Ekki varð komist inn í húsið en inn um gluggana sást að húsið er heillegt að innan og líklega notað í kringum skógræktina. Erfitt er að segja til um hvort herbergjaskipan sé óröskuð, en það þykir þó líklegt (Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir 2012:110).  Eyðibýlahópurinn telur varðveislugildi hússins einkum felast í staðsetningu hússins, hér sé mikilfenglegur útsýnisstaður og telur viðgerð á húsinu raunhæfa.

Niðurlag

Háls er einfalt og snoturt hús til mikillar prýði í grænu og grónu umhverfi. Það stendur á áberandi stað og sést langt að, enda þótt það sé í miðju skóglendi. Lesendur kunna að hafa tekið eftir því, að greinarhöfundi þykir nokkuð gaman að bera saman íbúðarhús í sveitum Eyjafjarðar við hús á Akureyri, hvað varðar útlit og byggingarlag. Segja má, að fljótt á litið gæti Háls átt a.m.k. tvö „frændhús“ á Akureyri: Syðst við austanverða Norðurgötu á Oddeyri má sjá tvö hús, númer 2 og 4, sem eru ekki óáþekk Hálsi að sjá; kannski sér í lagi stærðir og hlutföll t.d. kvists og þaks og virðast nokkuð sviplík (látum ólíka gluggasetningu á framhlið liggja milli hluta). Það er þó skemmst frá því að segja, að Norðurgata 2 og 4 eru alls óskyld Hálsi, þrátt fyrir líkindin í útliti. Háls er t.a.m. miklu yngri en Norðurgötuhúsin og munar þar rúmum þremur áratugum. Húsin við Norðurgötu eru byggð IMG_26811897 og eru talin hönnun Snorra Jónssonar timburmeistara, en hann hefur ekki komið nærri hönnun Hálshússins, sem byggt er 1929, enda látinn ellefu árum fyrr. Það vill nú svo til, að þessi hús eru af mjög algengri gerð timburhúsa sem tíðkaðist um aldamótin 1900, einlyft, portbyggt ris og miðjukvistur og sjást ámóta hús víða. Háls er reyndar nokkuð „ungur“ af þess háttar timburhúsi að vera, en árið 1929 voru steinhús aðallega móðins í nýbyggingu íbúðarhúsa, hvort tveggja í sveitum og kaupstöðum. Í bókinni Eyðibýli á Íslandi er Háls sagður áhugaverður sökum náttúrufars, fjallasýn hvert sem litið er og staðsetningin skemmtileg. Þar er viðgerð á húsinu sögð raunhæf. Það er þó nokkuð ljóst, að sú viðgerð yrði ærin og kostnaðarsöm, það hefur Skógræktarfélagið þegar reynt sem fram hefur komið, en sannarlega yrði mikil prýði af húsinu endurbættu: Háls er að upplagi látlaust en glæst hús á virkilega skemmtilegu og tignarlegu bæjarstæði og yrði svo sannarlega mikil prýði af því endurbættu. Háls gæti eflaust orðið fyrirtaks orlofshús eða ámóta bústaður. Nú stendur húsið að heita umlukið skógi, sem ræktaður hefur verið upp á síðastliðnum þremur áratugum, en engu að síður er þaðan mikið útsýni.  

Meðfylgjandi myndir sem sýna Háls í nærmynd frá mörgum hliðum eru teknar 11. ágúst 2025, en myndin sem tekin er handan Eyjafjarðarár og sýnir bæjarstæði Háls er tekin 7. október 2023. Myndin af húsunum við Norðurgötu er tekin 22. október 2024.

Háls er kominn í eyði

Kvæði Ingibjargar Bjarnadóttir í fullri lengd.

Ljósið í glugganum lítur á mig

ljómar svo glatt og segir:

Sælinú! kom inn og hvíldu þig

komdu – frostið er tíu stig

harðir og hélaðir vegir

 

Hurðin með ískri opnast við

andlit í dyrunum ljóma.

Hlýlegt og þétt er handtakið

heilsteypt er sálin þar bak við

Fingrum er brugðið á kalda kinn – komdu inn!

 

Inda, Benni og Ármann hlýtt

inna þar gestinn sagna.

Eitthvað þú segir sjálfsagt títt,

sestu hérna – hvað er nýtt

Einlæg þau öll mér fagna

 

Tíminn streymir sem stórfljót æst

stór komu skörð í hópinn.

Ármann hvarf fyrstur, Inda næst

enginn í staðinn hafði bæst

Örlögin sýna sópinn.

 

Kom ég þar oft með blek og blað

bætti í visku sarpinn.

Láðist mér oft að þakka það

þetta, sem Benni las og kvað.

Man ég vel gamla garpinn.

 

Líkaminn hnýttur, hönd með sigg

hrukkur á enni stórar.

Lundin þýð og trölla trygg

tungan aldrei hörð né stygg

sálin, sem sólir fjórar.

 

Á hálsinum stendur hnípinn bær

hljóður og yfirgefinn.

Grasið í varpanum vex og grær,

vellir spói, gaukur hlær

Að mér sækir efinn.

 

Járnkrumlur hrista jaðarbyggð

jafnvel í bestu sveitum

Ofnotkun valds er viðurstyggð,

verða hér nokkrum lífskjör tryggð. -

Það er eitthvað, sem enginn veit um.

 

Myrkrið í gluggunum mænir út

moldirnar gróa á leiði.

Enginn í dyrum með eldhúsklút

eyðingin glottir niðurlút.

Nú er Háls kominn í eyði.

Ingibjörg Bjarnadóttir (1926-2022) í Gnúpufelli. Birtist í eyfirska tímaritinu Eyvindi í mars 1995.


IMG 3822

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Greinarhöfundur við Háls þ. 11. ágúst 2025. Þess má geta, að allar húsamyndatökuferðir sínar um sveitir Eyjafjarðar fer undirritaður á reiðskjóta sínum, Cube 750-rafhjóli, enda um sérlegt samgöngutæki hans að ræða og langhjólreiðar eitt það skemmtilegasta sem hann gerir. Myndina tók Árni Már Árnason, en hann er eigandi hjólsins sem stendur við dyr hússins.

Heimildir:  

Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður-Þingeyjarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar. 

Brunabótafélag Íslands. 1934. Háls. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I. 1933-1944. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/41.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Hallgrímur Indriðason og Vignir Sveinsson.2000. „Háls í Eyjafjarðarsveit“ í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar; Skógar að fornu og nýju. Bls. 159-161. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Ingibjörg Bjarnadóttir. 1995. „Háls er kominn í eyði“ Í Eyvindi, 4. árg. 1. tbl., bls.6.  

Laufey Sigurðardóttir. 1980. „Benedikt á Hálsi“ Í Heima er bezt, 30. árg. 11. tbl. 1. nóv. 

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.  

Svanhildur Daníelsdóttir. 2025. Munnleg/skrifleg heimild: Ummæli á Facebook síðu höfundar þ. 12. ágúst 2025.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3808
  • IMG_3790
  • IMG_3922
  • IMG_3906
  • IMG_0006

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.10.): 5
  • Sl. sólarhring: 85
  • Sl. viku: 331
  • Frá upphafi: 455906

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 220
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband