Hús dagsins: Eiðsvallagata 26

Kannski er Eiðsvallagata 26 fyrsta húsið sem teiknað var Eiðsvallagötu. PA310005Allavega reiknast mér til að teikningarnar að húsinu séu þær elstu varðveittu en þær gerði Tryggvi Jónatansson í október árið 1927 og þar stendur "íbúðarhús fyrir Friðrik Kristjánsson" Árið 1930 er samþykkt að byggja megi tröppur á austurstafni og ári síðar reis húsið en það byggði Friðrik Kristjánsson. Eiðsvallagata 26 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Þverpóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki en “pússning” á veggjum er óslétt, með einhvers lags óreglulegu öldumynstri sem gefur húsinu sérstaka áferð og svip. Upprunalega var íbúð á efri hæð hússins en verkstæði, geymslur og þvottahús á þeirri neðri. Að utan er húsið er lítið breytt frá upphafi, en neðri hæðin var innréttuð sem íbúð fyrir áratugum. Ástand hússins virðist almennt gott og er það til prýði í umhverfi sínu, einfalt og látlaust að gerð. Í húsinu eru tvær íbúðir, hvor á sinni hæð.

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 24

Eiðsvallagötu 24 reisti Egill Tómasson árið 1930 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar en ári síðar, 2.maí 1931 fær hann leyfi til að reisa steyptar tröppur á austurstafn. PA310010Hefur húsið þá líkast til verið h.u.b. fullklárað en 1.des 1930 var enginn fluttur þangað inn. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvistum, sem líklega eru seinni tíma viðbætur líkt og á nr. 22, hugsanlega eftir sömu teikningu frá 1937. Húsið er af mjög dæmigerðri gerð steinhúsa frá þessum tíma, og alls ekki ósvipað húsum við t.d. Norðurgötu 10 og 12, og að sjálfsögðu húsum nr. 1 og 22 við Eiðsvallagötuna en þetta hús og þau tvö síðast töldu eru jafnaldrar. Sú staðreynd að fljótlega var ákveðið að reisa tröppur á aðra hæð gæti bent til þess að innrétta skyldi aðra íbúð á fyrstu hæð eða hugsanlega verkstæði en sér íbúð á efri hæð. Alltént er sér inngangur að vestanverðu á neðstu hæð en íbúðir í annarri hæð og í risi deila innganginum á austurhlið. Því eru þrjár íbúðir í húsinu, hver á sinni hæð líkt og í nr. 22.Húsið er í góðu ásigkomulagi og glæsilegt á að líta og myndar skemmtilega tvennd með nágranna sínum á nr. 22. Þessi tvö systurhús eru skemmtileg tvennd í götumynd Eiðsvallagötunnar en gatan geymir marga fulltrúa byggingargerða 4. og 5. áratugarins. Gatan markar ákveðin byggingasöguleg vatnaskil í byggðasögu Oddeyrar, sem miða má við árið 1930 en syðsti hluti Eyrarinnar er að mestu leyti byggðir fyrir þann tíma en nyrðri hlutinn að mestu milli 1930-60. Húsakönnunin fyrir Oddeyri sem unnin var á sínum var enda látin afmarkast af Eiðsvallagötunni.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30 Óútgefið rit, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 22

Umfjöllunin um húsin við Eiðsvallagötu á Oddeyri heldur áfram þar sem frá var horfið fyrir jól og áramót en fyrsta "Hús dagsins" er Eiðsvallagata 22. PA310011 

Eiðsvallagötu 22 reisti Kristján Magnússon árið 1930 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Þann 17.febrúar 1930 er Kristjáni “leigð byggingarlóð sunnan við Eiðsvallagötu og austan við Jakob Einarsson “ en þar er um að ræða lóðina Eiðsvallagötu 20. Ekki gekk vandræðalaust að fá byggingarleyfi fyrir húsinu því 31.mars meinar Byggingarnefnd Kristjáni um leyfið vegna ófullnægjandi teikninga, þar vantaði mynd af götuhlið og aðeins einn gluggi sýndur á hverri hæð. En Sveinbjörn hefur greinilega kippt þessum teikningamálum í liðinn með hraði því þremur vikum seinna, 22.apríl 1930 er byggingaleyfi veitt. Eiðsvallagata 22 er tvílyft steinhús með háu risi. Miðjukvistur er á bakhlið en á götuhlið er stór kvistur með flötu þaki, sem nær svo til eftir risinu endilöngu. Í flestum gluggum eru einfaldir lang- eða þverpóstar en einnig eru þar krosspóstar. Forstofubygging með svölum er á austurstafni hússins. Sennilega hefur húsið ekki verið fullklárað fyrr en eftir áramótin 1930-31 því enginn íbúi er skráður í Eiðsvallagötu 22 þann 1.des 1930. Árið 1937 voru byggðir kvistir á risið eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar en árið 1962 er kvistur á götuhlið stækkaður og hefur húsið þá líkast til fengið það lag sem það nú hefur. Ég gæti ímyndað mér að ris hafi ekki verið innréttað nema í besta falli að takmarköðu leiti áður en kvistirnir komu. Íbúðaskipan hefur að öllum líkindum tekið einhverjum breytingum gegn um tíðina. En Eiðsvallagata 22 er traustlegt og reisulegt hús og í góðu standi. Þrjár íbúðir eru í húsinu, hver á sinni hæð. Húsið myndar ásamt næsta húsi nokkuð skemmtilega tvennd er hér er um ræða nk. tvíburahús en þau eru reist eftir h.u.b. sömu teikningu. Þau virðast alveg eins fljótt á litið en eu þó að nokkuð frábrugðin hvort öðru, bæði gluggasetning, dyraskipan og segja hvort sína sögu seinni tíma breytinga.

 Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30 Óútgefið rit, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Nýjárskveðja 2015

Óska öllum gleðilegs nýs árs 2015 með þökk fyrir það liðna. 

 

Arnór Bliki Hallmundsson.


« Fyrri síða

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2015
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 33
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 618
  • Frá upphafi: 420820

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 494
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband