Hús dagsins: Lundeyri; in memoriam

Á dögunum var húsið Lundeyri í Glerárþorpi rifið í þeim tilgangi að rýma fyrir nýjum hlutum Holtahverfis. Um var að ræða látlaust steinhús á einni hæð, frá 5. áratug sl. aldar, en fyrst var byggt á Lundeyri árið 1917. Hér verður stiklað á stóru úr sögu Lundeyrar, sem spannar alls 106 ár.

Það er dálítið örðugra að kortleggja sögu Glerárþorpsbýlanna P5220058heldur en húsa í eldri hverfunum sunnan Glerár. Ástæðan er m.a. sú, að Glerárþorp tilheyrði ekki Akureyri fyrr en 1955 og þau hús komu því ekki inn á borð bygginganefndar bæjarins. Sambærileg nefnd virðist ekki hafa verið starfrækt í Glæsibæjarhreppi. Skipulagsmál bygginga í dreifbýli lúta eðlilega öðrum lögmálum en í bæjum; menn átti jarðir eða jarðaskika og byggðu þar einfaldlega sín íbúðar- og gripahús án nokkurra afskipta, enda þurfti ekki að huga að götumyndum eða útliti bygginga.

Elsta heimildin um Lundeyri er mögulega brunabótamat frá árinu 1918. Þá eru eigendur og íbúar tvær húskonur, Jóhanna Jónasdóttir og Jónína Jónatansdóttir. Það hlýtur að vera óhætt að leiða líkur að því, að þær fyrstar byggt á býlinu Lundeyri. Þá er Lundeyri lýst svona:

„Nýbýli með útveggjum úr torfi á 3 vegu og torfþaki. Timburhlið að framan. Stærð 11+5+5+2 ¾ +2 ¼ álnir.  Skiftist [svo] í: a) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað, með eldavél við múrpípu. b) Gangur: Stærð 2+5+2 ¾ al. c) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað með ofni og rörleiðslu í gegnum 2 þil og ganginn inn í múrpípuna. Kjallari undir húsinu“ (Brunabótafélag Íslands 1918: nr. 58). Það er kannski ekki gott að átta sig á þessum málum, þar sem þau eru öll samanlögð en ekki margfölduð.  Í þessu mati er byggingarárið sagt 1917 en í heimildum er einnig getið byggingarársins 1918 (Lárus Zophoníasson, Steindór Steindórsson). Hversu stórt Lundeyrarlandið var, virðist ekki fylgja sögunni en býlinu fylgdi a.m.k. tún norðan við húsið en lönd Glerárþorpsbýlanna mældust sjaldnast í mörgum hekturum. Lundeyrartún (stundum kallað Lundeyristún), norðan við húsið, var löngum vinsælt leiksvæði barna í Glerárþorpi, nýtt m.a. til boltaleikja.

   Torfhúsið með timburþilinu sem lýst er í brunabótamati árið 1918 hefur væntanlega vikið fyrir húsinu  sem stóð fram á vordaga 2023. Samkvæmt fasteignamati var það hús byggt árið 1946. Ein elsta heimildin sem finnst á gagnagrunninum timarit.is, um Lundeyri, er frá ágúst 1921, þar sem hálft býlið er auglýst til sölu. Mögulega hafa þau Guðmundur Vigfús Guðjónsson sjómaður (1884-1957) Björg Guðmundsdóttir (1885-1971) keypt býlið þá, en þau eru alltént flutt hingað árið 1927. Bjuggu þau hér ásamt börnum sínum til ársins 1956, er Axel Vatnsdal keypti býlið. Það voru því Guðmundur og Björg sem byggðu steinhúsið árið 1946.  Axel Vatnsdal lét breyta húsinu eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Fékk húsið þá það lag sem það hafði alla tíð síðan. Lundeyri var einlyft timburhús með lágu risi, múrhúðað með bárujárnsþaki. Að grunnfleti var það um 12x8m. Samkvæmt teikningum Páls var austurhluti þess í upphafi með einhalla þaki undir háum kanti sunnanmegin en vesturhluti með lágu risi og ívið mjórri en austurhlutinn. Eftir tíð Axels Vatnsdals hafa ýmsir búið í Lundeyri og húsið alla verið tíð einbýli.

   Á meðal barna Guðmundar og Bjargar, sem byggðu nýja Lundeyrarhúsið, var Gestur (1913-1961). Greinarhöfundur minnist þess, að hafa heyrt þess getið, að Gestur muni hafa verið yrkisefni eða innblástur Davíðs Stefánssonar er hann orti ljóðið „Barnið í þorpinu“ og olli það uppátæki nokkrum deilum. Munu íbúar Glerárþorps  hafa talið að sér vegið, enda verður ekki sagt, að þarna sé farið sérlega fögrum orðum um Þorpið. („Ég kom í ljótt og lítið þorp sem liggur út við sjó“)  Munu þessar lýsingar ekki hafa þótt sanngjarnar gagnvart Gesti og Lundeyrarfólkinu. Um þetta verður ekki fullyrt hér, enda í raun aðeins um sögusagnir að ræða. Það er hins vegar gömul saga og ný, að skáld og verk þeirra geta verið umdeild.  

   Það er gangur lífsins, ef þannig mætti komast að orði, að sum hús þurfa að víkja. Með hverju húsi sem rifið er hverfur ákveðin saga að vissu leyti, enda þótt saga húsa og fólks sem þar ól manninn varðveitist eilíflega í myndum og frásögnum. Nær alltaf er eftirsjá af þeim húsum sem hverfa og í raun gildir það um flest öll hús, að þau hafa alltaf visst tilfinningalegt og sögulegt gildi hjá einhverjum. En mætti þá segja, með þeim rökum, að það ætti bara aldrei rífa nokkurt hús!? Sá sem þetta ritar hefur vissulega haft uppi miklar yfirlýsingar um ansi mörg hús - og stendur við þær - að þau skuli varðveita eða friða. Stundum er því hreytt í undirritaðan, að honum væri mátulegt að eiga og viðhalda viðkomandi húsi sjálfur, sem hann mælir með, að varðveitt verði. En greinarhöfundur hefur þrátt fyrir allt skilning á því, að ekki verða öll hús varðveitt, af ýmsum ástæðum.  Húsafriðun lýtur nefnilega öðrum lögmálum en t.d. friðun náttúrufyrirbrigða á borð við fossa og fjalla. Hús standa ekki bara til þess að vegfarendur geti dáðst að þeim og barið þau augum, þau þurfa viðhald og einhver þarf að eiga þau, búa í þeim eða nýta á annan hátt.

   Að áliti greinarhöfundar ætti niðurrif þó ætíð að vera allra síðasta úrræði og í lengstu lög ætti að huga að endurgerð eða endurbyggingu gamalla húsa. Burtséð frá varðveislusjónarmiðum hlýtur það alltaf að vera betri nýting á auðlindum og þar af leiðandi umhverfisvænna, að nýta þau hús sem fyrir eru, heldur en að rífa og byggja nýtt. Að sjálfsögðu þarf að horfa til fleiri þátta þarna, t.a.m. nýtingu lóðar og byggingakostnaðar og ástand þeirra húsa sem rifin eru. Þannig er það skiljanlegt, þegar reist eru ný hverfi, að stök eldri hús þurfi að víkja. En það er engu að síður bjargföst skoðun höfundar, að gömul býli í þéttbýli skuli varðveitt sem slík, þó e.t.v. mætti, ef nauðsyn krefur, semja um að taka af víðlendum lóðum þeirra undir aðrar byggingar. Þá er góð regla að ný hús sem reist eru á grunnum eldri húsa, hljóti sömu nöfn, svo nöfnin varðveitist með bæjarstæðinu. Þannig væri upplagt, að ný bygging á þessum stað hlyti nafnið Lundeyri. Myndin af Lundeyrarhúsinu er tekin 22. maí 2011 en meðfylgjandi er einnig mynd sem sýnir lóð Lundeyrar að kvöldi 18. apríl 2023.IMG_0239 Það eina, sem eftir lifir af Lundeyri er furutré og líkan af torfbæ. Kannski er torfbærinn litli eftirlíking af upphaflega Lundeyrarbænum ...(?)

Að lokum leggur undirritaður til að öll gömlu býli Glerárþorps, ásamt með sambærilegum húsum á Brekku og í Naustahverfi verði friðlýst!

Heimildir: Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Glerárþorp 1917-1922. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu, kassanr.H9/25.  

Lárus Zophoníasson. 1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“ Súlur X. árg. (bls. 3-33).

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Vegna umfjöllunar um Grundargötu 6

Eitt það allra skemmtilegasta við það hugðarmál mitt, að kanna og skrásetja sögu eldri húsa er, að það má alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt, sem kannski kollvarpar því sem áður var talið eða stendur í heimildum. Þó heimildir styðji við það sem haldið er á lofti, geta þær brugðist og oft ber ólíkum heimildum ekki saman. Stundum koma „nýjar" upplýsingar um eitthvað sem gerðist fyrir meira en 100 árum. Almennt miða ég við regluna hafa ber það sem sannara reynist" og svo bregðast krosstré sem önnur tré. Þær heimildir sem taldar eru öruggar geta reynst rangar. En því fer fjarri að ég geti varpað allri ábyrgð á heimildirnar, því ég er aldeilis ekki óskeikull sjálfur og oft hafa ýmsar „rósir" ratað hingað inn, sem aðeins skrifast á ónákvæmni eða fljótfærni hjá mér. 

Síðdegis sl. föstudag, fékk undirritaður áhugavert símtal frá Þorsteini Jónassyni. Erindi hans var upprunasaga Grundargötu 6, en pistill undirritaðs hafði þá birst á vefnum. Þorsteinn er langafabarns Jóns Jónatanssonar sem búsettur var í húsinu á fyrsta áratug 20. aldar og gerði þá athugasemd, að hvorki hann né nokkur innan hans ættar hefði heyrt á það minnst, að Jón hefði búið þarna, hvað þá byggt húsið. Hann vissi heldur ekki til þess, að langafi hans hefði nokkurn tíma verið járnsmiður. Manntöl frá þessum tíma sýna þó með óyggjandi hætti, að Jón Jónatansson og Guðrún Sesselja Jónsdóttur bjuggu þarna ásamt börnum sínum Kristjáni (bakara) og Sigurborgu. Það gæti hent sig, að fjölskyldan hefði búið þarna án þess að nefna það síðar við afkomendur sína. En Þorsteinn taldi nánast útilokað, að langafi hans hefði byggt húsið, án þess að nokkurn tíma væri á það minnst innan fjölskyldunnar. Stórfjölskyldan var um áratugaskeið búsett að Strandgötu 37, steinsnar frá Grundargötu 6, svo einhvern tíma hlyti það að hafa borist í tal, hefði ættfaðirinn byggt það hús. 

    Við nánari skoðun mína á gögnum frá Bygginganefnd kom enda eitt í ljós: Á þessum tíma voru búsettir í bænum tveir menn með nafninu Jón Jónatansson. Annar  var tómthúsmaður, síðar póstur, og var fæddur 1850  en hinn var járnsmiður, fæddur 1874. Sá síðarnefndi var löngum búsettur í Glerárgötu 3. Ef skoðuð eru gögn Bygginganefndar, sést nokkuð glögglega í „registrum“ að sami Jón Jónatansson virðist hafa fengið byggingaleyfi í Grundargötu árið 1903 og leyfi til byggingar smiðju í Glerárgötu 3 árið 1919. Þar er í báðum tilvikum um að ræða Jón Jónatansson járnsmið. Í stuttu máli: Jón Jónatansson járnsmiður hefur að öllum líkindum reist Grundargötu 6 árið 1903, en alnafni hans, Jón Jónatansson póstur flutt inn í húsið nýbyggt og búið þar ásamt fjölskyldu sinni. Er þessu hér með komið á framfæri.

Þorsteini Jónassyni þakka ég kærlega fyrir ánægjulegt símtal og vek athygli á því, að allar athugasemdir og ábendingar við pistlana eru þegnar með þökkum. 

 

jon_jonatansson_byggnefnd1902-21

 

 

Að ofan: Úr yfirliti (registrum) fundargerðabókar Bygginganefndar fyrir árin 1902-21. Um er að ræða skjáskot af vefsvæði Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1902-1921 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu. Það verður vart annað lesið úr þessu, en að sami Jón Jónatansson hafi fengið húsgrunninn við Grundargötu og fengið að byggja smiðju við GlerárgötuSá Jón var járnsmiður og var búsettur í Glerárgötu 3. Það er hins vegar annar Jón Jónatansson sem skráður er til heimilis að Grundargötu 6 á árunum 1903-12. Virkar næsta ótrúlegt, en rétt að nefna, að það var ekkert einsdæmi, að einn fengi byggingarleyfi en annar flytti inn í húsið eða lyki við bygginguna. Og þá gat auðvitað allt eins verið um alnafna að ræða eins og aðra.

 

 


Gleðilega páska

Óska öllum gleðrilegrar páskahátíðar smile

Páskamyndin í ár er tekin á skírdag, 6. apríl sl. á Garðsskaga og sýnir gamla Garðsskagavita og nærumhverfi hans. 

IMG_0130

 


Hús dagsins: Strandgata 35

Strandgata 35 eða Havsteenshús er eitt af reisulegri húsum hinnarP3290966 tilkomumiklu götumyndar við Strandgötu. Húsið byggði Jakob V. Havsteen árið 1888 en ekki liggja fyrir heimildir um teiknara. Höfundi þykir hins vegar freistandi að giska á, að Snorri Jónsson timburmeistari á Oddeyri, hafi haft hönd í bagga við hönnun og byggingu hússins,  jafnvel að hann hafi verið byggingameistari.

Strandgata 35 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara og með háu, portbyggðu risi. Fyrir miðju húsi er stór kvistur með mænisþaki og gengur hann í gegnum húsið. Nyrst á austurstafni eru tröppur upp að inngöngudyrum og á vesturstafni eru tvær inngöngudyr, inndregnar og útskorið skraut yfir inngönguskoti. Inngönguskúr „bíslag“ er á bakhlið undir kvisti.  Vestanmegin, meðfram Grundargötu gengur mikil bakálma úr húsinu. Er hún tvílyft með lágu risi. Er þar um að ræða viðbyggingu. Austasti hluti hússins, sem er einlyftur með valmaþaki er einnig viðbygging. Er hún tvö „gluggabil“ og eru gluggar þar með þverpóstum. Á veggjum er einhvers konar báruð álklæðning og hefðbundið bárujárn á þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum en þverpóstar í fáeinum þeirra. Grunnflötur hússins (ónákvæm mæling af map.is) er u.þ.b. 24x11m, þar af viðbygging að austan um 4m breið og bakálma um 8x6m.

Árið 1887 fékk Jakob V. Havsteen lóð hjá Gránufélaginu. Í samningunum kemur fram að „[…]allur reki sunnan við lóðina er undanskilinn frá kaupunum, s.s. hvalur, viður, kolkrabbar og landshlutur af síld“ (Jón Sveinsson 1933: 82). Hvort fjörur Oddeyrar hafi verið krökkar af kolkrabbar síðla á 19. öld skal ósagt látið hér, en alltént eru þeir tilgreindir þarna sérstaklega.  Vorið 1888, nánar tiltekið þann 8. maí, mældi bygginganefnd fyrir húsi Havsteens. Það skyldi 32 álnir (u.þ.b. 20m) að lengd, 16 álnir (u.þ.b. 10m) að breidd og stæði austan við hús Ólafs Jónssonar (Hótel Oddeyri, sem brann 1908). Fjarlægð frá húsi Ólafs yrði 22 álnir (u.þ.b. 14m). Næsta áratuginn fór fram mikil uppbygging á lóðinni, árið 1891 reisti Havsteen pakkhús norðan við húsið, nánar tiltekið 10 álnir frá húsinu, 12 álnir að lengd, 10 álnir að breidd, frá norðri til suðurs. Þá byggði hann einnig fjós, hlöðu og geymslu og brauðgerðarhús og  stóðu húsin nokkurn veginn í hring um lóðina. Fæst þessara húsa standa þó enn, íshúsið, sem var Strandgata 35b var rifið fyrir um tveimur áratugum. Enn standa þó geymsluskúrar, sem áfastir voru því húsi. Þá má einnig geta þess, að Havsteen reisti annað hús norðan við lóðina, Grundargötu 4, árið 1902 og stendur það hús enn. Þá reisti hann bryggju í fjörunni framan við húsið.

Árið 1903 fékk Havsteen leyfi til að reisa „veranda“ austan við, 6,5 álnir austur af stafni og í „flugti“ við suðurhlið. Var verönd þessi öll hin vandaðasta og glæsilegasta, yfirbyggð að hluta með stórum og miklum skrautrúðum og sannkallaður sólskáli. Þakbrúnir og þakskegg voru skreytt útskurði. Vorið 1913 fékk Jakob Havsteen leyfi til að byggja saman Grundargötu 2 og Strandgötu 35 en fyrrgreinda húsið mun hafa verið pakkhúsið frá 1891. Þar með fékk húsið það lag sem það síðan hefur; pakkhúsið var orðin áföst bakálma við húsið. Nyrsti hluti þess hefur þó nokkuð örugglega verið rifinn síðar, því eftir stækkun 1898 var pakkhúsið orðið samtals 23,5 álnir, eða um 15 metrar og núverandi bakálma er hvergi nærri það löng. Í Fasteignamati 1918 er húsinu lýst svo: Íbúðar- og verslunarhús úr timbri, klætt steinplötum á veggjum, einlyft með porti, kvisti og háu risi, á kjallara, þak pappaklætt. Á gólfi: 2 stofur, 2 skrifstofur, eldhús og veranda. Á lofti: 5 íbúðarherbergi og geymsla. Bygt [svo] 1888. Stærð: 25,0x10,0m. tröppur 12,5x1,3m, 2 skúrar, 4,4x1,9+6,6x2,2m, pallur 3,1x2,2m. Viðbótarbygging b. 1913, tvílyft stærð 5,6x4,4m.  (Úr Fasteignamati 1918).

Í fasteignamatinu 1918 segir að húsið sé klætt steinplötum. Umræddar steinplötur eru bogadregnar skífur. Mögulega hefur Havsteen sett skífuna á í kjölfar Oddeyrarbrunans 1906, en eldvörn var einn megintilgangur steinskífu. Ekki einu sinni,  heldur tvisvar hafa næstu hús við Strandgötu 35 brunnið til grunna og  hlýtur timburhúsið að hafa verið í hættu í bæði skiptin. Handan Grundargötu eða við Strandgötu 33, stóð stórhýsið Hótel Akureyri, byggt 1884, en mikið breytt og bætt um 1905, m.a. settir á það turnar og skreyttur kvistur. Það hús brann til ösku í október 1908, ásamt húsinu Strandgötu 31, sem byggt var 1886. Núverandi hús við Strandgötu 33 er byggt 1924. Þann 3. september 1931 brann þáverandi Strandgata 37 til grunna, en það hús reisti téður Havsteen einnig, sem brauðgerðarhús, árið 1899. Núverandi hús á þeirri lóð (þ.e. 37) sem löngum hýsti Kristjánsbakarí er byggt í áföngum frá 1931-46. Margir muna eftir Havsteenshúsinu skífuklæddu, en skífan mun hafa verið á húsinu eitthvað fram undir 1970. Upprunalega var húsið með láréttri panelklæðningu á veggjum. Sólskálanum eða veröndinni frá 1903 var lokað um 1950 og síðaP1230978n eru tveir gluggar með þverpóstum þar sem skautrúður voru áður. 

J.V. Havsteen eða Jakob Valdemar Havsteen var fæddur á Akureyri þann 6. ágúst 1844. Hann nam verslunarfræði í Danmörku og árið 1875 hóf hann störf hjá Gránufélaginu og gegndi þar stöðu verslunarstjóra. Hann var við störf hjá Gránufélaginu til ársins 1887 en ári síðar hóf hann eigin verslunarrekstur og stundaði hann til dánardægurs. Hann rak umfangsmikla útgerð og fiskvinnslu, síldveiðar og söltun, auk þess sem hann rak bakarí og sláturhús. Stundaði einnig ýmsan inn-og útflutning og var þannig nokkurs konar eins manns verslunarveldi. Hann gegndi auk þess ýmsum embættum og ábyrgðarstöðum, var m.a. konsúll Dana og Svía og hlaut árið 1907 etasráðsnafnbót, einn Íslendinga fyrr og síðar.  Jakob Havsteen lést þann 19. júní árið 1920.

 Margt hefur verið ritað og rætt um Jakob V. Havsteen og af honum fóru margar skemmtilegar sögur, enda valinkunnur mektarmaður og einn virtasti borgari Oddeyrar. „Það var tvímælalaust að í æsku minni var Jakob Havsteen kaupmaður mestur virðingarmaður á Oddeyri“  segir Jóhannes Jósefsson í æviminningum sínum. Jakob  Havsteen var  gamansamur mjög og tók hvorki sjálfan sig né aðra hátíðlegar en þörf gerðist, spaugsamur og góðlátlega stríðinn.   Þá má geta þess, að hann og kona hans, Þóra Emilie Havsteen, stóðu um árabil fyrir jólaskemmtunum fyrir börn og voru miklar hjálparhellur fátæks og þurfandi fólks. Greiddi Havsteen starfsfólki sínu í verslunum hærra kaup en aðrir, og sagði það vera vegna þess, að þá stæli það minna (Sbr. Jóhannes Jósefsson 1964:32).

Verslun Havsteens var staðsett í vesturenda hússins, með inngöngudyr frá Grundargötu. Þar mun hann hafa verslað með hinar ýmsu nauðsynja- og nýlenduvörur auk áfengis, uns áfengisbann gekk í gildi 1915. Jakob Havsteen lést, sem áður segir,  árið 1920 og eignaðist skrifstofustjóri hans, Jón Stefánsson þá húsið. Enda þótt verslun Havsteen hafi liðið undir lok með andláti hans, fór það ekki svo, að verslun hætti í Havsteenshúsi. Árið 1922, þegar sala á vínum var leyfð aftur, gerðist Jón framkvæmdastjóri útibús Áfengisverslunar ríkisins og opnaði útibú í kjallara hússins. Þar var áfengisverslunin fram yfir 1950 eða í rúma þrjá áratugi. Í upphafi fyllti Jón glugga verslunarinnar vínflöskum til auglýsingar og þótti mörgum nóg um en á síðari árum var hins vegar farið að öllu með mikilli leynd og gát, og þess gætt að börn sæju alls ekki hverjir komu inn í verslunina og þess þá heldur, að þau sæju hvað viðskiptavinir keyptu (sbr. Jón Þ. Þór 2021:234).  

 Eftir daga Havsteens varð húsið nokkurs konar fjölbýlishús og er það raunar enn. Árið 1930 er t.a.m. 31 skráður til heimilis í Strandgötu 35.  Í manntalinu 1901 er húsið talið nr. 29 við Strandgötu og áður kallaðist það Consúls Havsteens hús. Árið 1940 er afgreiðsla Strandgötu 35 einföld í manntalinu. Þar stendur einfaldlega „leigt Bretum“ og ekki orð um það meir- nema tekið fram, að eigandi sé Jón Stefánsson. En breska setuliðið hafði einmitt afnot af húsinu yfir stríðsárin en einnig og aðallega norsk flugherdeild, sem hér hafði bækistöð. Kallaðist húsið þá Norges hus.  Ekki er ósennilegt, að eftir brotthvarf norsku hermannanna hafi núverandi íbúðaskipan eða vísir að henni, komist á. Nú munu alls sjö íbúðir í húsinu.

Strandgata 35 er reisulegt og glæst hús, í mjög góðri hirðu og er til mikillar prýði í götumynd Strandgötu.  Á árunum 2012-22 voru í gildi  húsfriðunarlög, sem kváðu á um aldursfriðun húsa yfir 100 ára aldri. Er Strandgata 35 því friðuð vegna aldurs og er það vel, enda verðskuldar húsið svo sannarlega friðun. Í Húsakönnun 2020 hlýtur það einnig hátt varðveislugildi. Meðfylgjandi myndir eru teknar 23. janúar og  29. mars 2021.

Þess má geta, að lengri og ítarlegri grein um Strandgötu 35, eftir undirritaðan, má finna í nýjasta hefti Súlna - norðlensks tímarits, sem Sögufélag Eyfirðinga gefur út. 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 77, 8. maí 1888. Fundargerðir 1902-21 Fundur nr. 254, 18. ágúst 1903. Fundur nr. 378, 16. apríl 1913. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Fasteignamat á Akureyri 1918. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan.

Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa

Jón Sveinsson. „Jónsbók“, safn upplýsinga um hús og lóðir á Akureyri. 1933.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Jón Þ. Þór. 2021. Höndlað við Pollinn. Saga verslunar- og viðskipta á Akureyri frá öndverðu til 2000.

Manntal á Akureyri 1940. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Auk upplýsinga af timarit.is og manntal.is, sjá tengla í texta.

 


Hús dagsins: Grundargata 6

Grundargata er stutt en stórmerkileg gata á Oddeyrinni. PC290877Liggur hún á milli Strandgötu og Gránufélagsgötu og er aðeins um 90 metra löng. Grundargötuhúsum gerði sá sem þetta ritar skil á vefnum fyrir um áratug en eins og í tilfellum margra elstu pistla taldi höfundur tíma kominn á uppfærslu. Grundargata er mjög stutt, aðeins 90 metrar og við hana standa sex hús. Grundargata hefur einhvern hæsta meðalaldur húsa sem þekkist í bænum en húsin sex, sem standa við götuna eru á aldrinum 99-138 ára á árinu 2023. Hornhúsið við Gránufélagsgötu austanmegin, Grundargata 6, er einmitt 120 ára í ár.

    Grundargata 6 er reisulegt og stórbrotið hús. Það er dæmi um hús, þar sem viðbyggingar og viðbætur hafa skapað ákveðin sérkenni og gefið því sitt einstaka lag. Við getum borið saman hús nr. 5 og 6 við Grundargötu. Þau eru reist um aldamótin 1900, hús nr. 5 raunar nokkuð eldra, og voru í upphafi nokkuð svipuð í útliti, þ.e. ein hæð með háu mænisrisi (A-laga þaki). Grundargata 5 er nokkurn veginn óbreytt frá upphafi en nr. 6 var breytt umtalsvert á árunum um 1920 og eru þess hús nú gjörólík. Grundargötu 6 reisti Jón Jónatansson járnsmiður árið 1903. Fékk hann lóð þar sem mættust Grundargata og „hin fyrirhugaða gata austur og vestur eyrina“ og þar átt við Gránufélagsgötu, sem ekki hafði hlotið nafn. Fékk hann að reisa hús 10x12 álnir (6,3x7,5m) einlyft með porti og gerði bygginganefnd kröfu um, að a.m.k. þrír gluggar væru á norðurstafni. 

     P6060005Húsið er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi. Risið, sem er gaflsneitt, er af svokallaðri mansard gerð. Mansard mætti lýsa þannig að risið sé tvískipt, efra risið að mæni er aflíðandi en upp frá veggjum er risið bratt. Þannig er brot í risinu, enda mansardþök stundum kölluð „brotið ris“. Kvistur er á austurhlið hússins. Að sunnanverðu skagar austurhluti hússins fram um líklega 1,5m og í kverkinni við útskotið eru útidyr. Á veggjum er panell eða vatnsklæðning, krosspóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Skv. ónákvæmri mælingu grunnflatar á kortavefnum map.is mælist grunnflötur hússins um 11x8m, útskot að sunnanverðu um 5,5x1,5m.

    Jón Jónatansson (1850-1913), sem reisti húsið, var Þingeyingur. Hafði hann áður verið bóndi á Skriðulandi í Aðaldal en einnig verið í vistum á bæjum í Fnjóskadal og Aðaldal. Til Akureyrar flutti hann fyrir 1890 og árið 1901 er hann titlaður aukapóstur. Jón var kvæntur Guðrúnu Sesselju Jónsdóttur, sem einnig var Þingeyingur, nánar tiltekið úr Múlasókn. Á meðal barna þeirra var Kristján (1886-1972) bakari, en hann stofnaði árið 1912, Brauðgerð Kr. Jónssonar eða Kristjánsbakarí.  

     Árið 1912, eða mögulega síðla árs 1911, eignast Ágúst Jónsson tómthúsmaður Grundargötu 6. Tveimur árum síðar er sonur hans, Ólafur húsgagnasmiður, orðinn eigandi hússins ásamt föður sínum.   Ólafur fékk að byggja við húsið árið 1915, einlyfta byggingu, 5x5,65m að stærð suðaustanmegin við húsið. Þar hafði hann trésmíðaverkstæði.

    Árið 1917 var Grundargata 6 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús einlyft með porti og háu risi á kjallara. Viðbygging við bakhlið ein lofthæð á kjallara. Á gólfi við framhlið 2 stofur. Við bakhlið forstofa og eldhús. P5010521Á lofti 2 íbúðarherbergi og 2 geymsluherbergi. Kjallara skipt í tvennt. Í viðbyggingunni er trésmíðaverkstæði (Brunabótafélag Íslands, 1917: nr. 237). Á uppdrætti með brunabótamati sést að viðbygging hefur staðið nokkuð innan við norðurstafn hússins en jafnframt skagað örlítið fram fyrir suðurstafninn. Húsið er sagt 7,5x6,3m að stærð en stærð viðbyggingar er ekki gefin upp.

    Árið 1920 sækir Ólafur Ágústsson aftur um að byggja viðbótarbyggingu við húsið og hefur bygginganefnd á orði, að þessar P5010520breytingar verði til prýði fyrir húsið. Ekki fylgja lýsingar, en fram kemur að breytingarnar séu samkvæmt uppdrætti. Breytingar þessar fólust væntanlega í því, að þak viðbyggingar var hækkað, sem og þak upprunalegs húss og núverandi þakgerð komið á. Þá hefur viðbyggingin væntanlega verið lengd til norðurs, að stafni upprunalega hússins. Í Húsakönnun 1995 eru leiddar að því líkur, að húsið hafi þá fengið það lag sem það hefur nú. Á mynd, sem tekin er 1931, sést að húsið hefur fengið núverandi útlit.  Mögulega hefur húsið verið járnklætt um svipað leyti, en á húsinu var löngum bárujárn og steinblikk.Hjaltalinshus_breytingasaga

     Nokkrum árum eftir þessar framkvæmdir reisti Ólafur Ágústsson stórhýsi við Strandgötu 33 og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni. Það var árið 1924. Þá eignaðist húsið, þ.e. Grundargötu 6, Bjarni Hjaltalín, fiskimatsmaður. Átti Hjaltalínsfjölskyldan heima þarna um áratugaskeið og húsið jafnan nefnt Hjaltalínshús. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið margvísleg í gegnum tíðina, í manntölum frá 3. og 4. áratug eru ýmist tvö eða þrjú íbúðarrými skráð í húsinu. Síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús.

    Á árunum 2010-18 fóru fram á húsinu viðamiklar endurbætur. Það hafði lengi verið járnklætt en þegar þeirri klæðningu var flett af, sumarið 2011, P8240313 mátti sjá móta fyrir útlínum upprunalega hússins á norðurstafni. Endurbæturnar hafa heppnast stórkostlega og er Grundargata 6 eða Hjaltalínshúsið nú sannkölluð perla í umhverfi sínu. Húsið er stórbrotið og sérstakt í útliti og svo sannarlega hægt að taka undir ríflega aldargamalt álit bygginganefndar, að breytingar Ólafs Ágústssonar séu til prýði. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið miðlungs varðveislugildi og er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir árið 1923. Meðfgylgjandi myndir af Grundargötu 6 eru teknar 29. desember 2018, 1. maí 2017 og 24. ágúst 2011. Myndin af Grundargötu 5 er tekin 6. júní 2013. 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 252, 2. júlí 1903. Fundur nr. 404, 15. feb. 1915 Fundur nr. 473, 2. Ágúst  1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Fróðasund 10

Um uppruna Fróðasunds 10, eða 10a, er í raun ekki mikið vitað.P8081030 Það er að öllum líkindum þriðja elsta hús Oddeyrar, en gæti þó mögulega verið það annað elsta. Líkt og í tilfellum margra elstu húsa Oddeyrar liggur ekki fyrir byggingarleyfi en vitað, að Sigurður nokkur Sigurðsson er búsettur þarna árið 1877. Það er eflaust ekki óvitlaust, að miða við það, að hann hafi byggt húsið það ár. Á þessum árum voru fyrstu íbúðarhús Oddeyrar að byggjast upp og eigandi landsins, Gránufélagið, virðist ekki hafa kippt sér mikið upp við það, þó menn byggðu þar, svo fremi sem menn gengu frá lóðarmálum. Og þar lá heldur ekkert á, Snorri Jónsson fékk t.d. sína lóð um þremur árum eftir að hann reisti hús sitt. Þá fengu Björn Jónsson og Þorsteinn Einarsson lóð undir steinhús mikið, sem þeir reistu, fáeinum árum síðar. Bygginganefnd Akureyrar virðist einnig hafa kært sig kollótta, en hún útvísaði þó lóðum fremst á Eyrinni, þ.e. við Strandgötu. Og í tilfelli húss Sigurðar Sigurðssonar fylgdi raunar ekki lóð.

Húsið var upprunalega reist spölkorn sunnar og austar á Eyrinni, á austurbakka Fúlalækjar og varð síðar Norðurgata 7. Það er freistandi að áætla, að lega hússins hafi tekið mið af nýbyggðu húsi Jóns Halldórssonar (Strandgötu 27) í suðri. Árið 1877 lá nefnilega ekki fyrir neitt formlegt gatnaskipulag á þessum slóðum, það var ekki fyrr en sumarið 1885 að gatan, sem síðar fékk heitið Norðurgata, var ákvörðuð. Þá höfðu tvö önnur hús risið í sömu stefnulínu. Um aldamótin 1900 fékk sama gata nafnið Norðurgata.  

Fróðasund 10 er einlyft timburhús á háum kjallara og háu risi. Á suðurhlið er inngönguskúr. Veggir eru klæddir steinblikki eða múrhúðaðir (norðurveggur) og bárujárn á þaki og þverpóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins mælist um 5,5x6m á kortavef, inngönguskúr 5x2m.

Sem fyrr segir stóð húsið við Norðurgötu 7. Árið 1890 er eigandi hússins Karl Kristinn Kristjánsson og húsið nefnt „Hús Karls Kristjánssonar, Oddeyri.“ Þá eru búsett þar Karl og kona hans, Guðný Jóhannsdóttir og þrjú börn. Á meðal þeirra var Jakob (1885-1957), síðar verslunar- og athafnamaður hjá Eimskipafélaginu og Skipaútgerð ríkisins. Hann byggði mikið sveitasetur, Lund, ofan Akureyrar (nú í miðri byggð) árið 1925. Karl Kristjánsson lést árið 1894 og árið 1901 býr Guðný og börn hennar í Aðalstræti 19. Fróðasund 10a, sem síðar varð, var eitt þeirra húsa, mögulega það fyrsta, sem hýsti Oddeyrarskólann hinn eldri. Barnakennsla hófst á Oddeyri árið 1879 og fór fram í hinum ýmsum íbúðarhúsum næstu tuttugu árin. 

     Einhvern tíma á þessu árabili flytur Bjarni Hjaltalín fiskimatsmaður frá Neðri Dálksstöðum á Svalbarðströnd ásamt fjölskyldu sinni í húsið. Var húsið löngum nefnt Hjaltalínshús eftir þeim. Húsið var þó í eigu Gránufélagsins og síðar Hinna sameinuðu íslensku verslana til ársins 1916, ef marka má manntöl. Árið 1917, þegar húsið er virt til brunabóta, er Bjarni hins vegar orðinn eigandi hússins, og kemur það einnig heim og saman við manntal það ár. En það var 8. mars það ár sem matsmenn Brunabótafélagsins sóttu Hjaltalínsfjölskylduna heim og lýstu húsinu þannig: Íbúðarhús einlyft með porti og háu risi á steingrunni, lítill skúr á bakhlið. Á gólfi við framhlið ein stofa, forstofa og búr, við bakhlið ein stofa og eldhús. Á lofti tvö íbúðarherbergi og gangur. Veggir timburklæddir og þak járnvarið. Grunnflötur 6,3x5,2m, hæð 5,7m, átta gluggar á húsinu og einn skorsteinn. (Brunabótafélagið, 1917, nr. 1917). Fylgir það sögunni, að skorsteinn þessi var ekki í samræmi við brunamálalög, þar eð hann var of þunnur. 

     Það er óneitanlega nokkuð sérstakt, að þau rúmlega 20 ár sem Bjarni Hjaltalín og fjölskylda eru búsett hér, eru  Hinar sameinuðu verslanir (Gránufélagið þar áður) skráðar eigandi hússins í öllum manntölum öðrum en 1917. Hjaltalínsfjölskyldan mun hafa flutt úr húsinu 1924 en í október það ár búa hér Jóhannes Jónsson verslunarmaður og Sigrúnpa100009_1045338.jpg Sigvaldadóttir.    

     Árið 1942 búa í Norðurgötu 9 þau Valdimar Kristjánsson og Þorbjörg Stefanía Jónsdóttir. Á meðal barna þeirra var Óðinn (1937-2001) stórsöngvari. Hann er m.a. þekktur fyrir ódauðlegan flutning margra dægurlagaperla á borð við Ég er kominn heim, Í kjallaranum, og Útlaginn.  Valdemar eignaðist einnig hús nr. 7. Daginn fyrir lýðveldisstofnun, 16. júní 1944, heimilar Bygginganefnd Valdimari að flytja húsið Norðurgötu 9 á lóð við Fróðasund, milli Fróðasunds og 9 og Norðurgötu 17. Um leið var Norðurgata 7 flutt á lóðina sunnan við. Þar með urðu húsin nr. 7 og 9 við Norðurgötu að Fróðasundi 10a og 11. (Fróðasund 10b stóð sunnan við nr. 10a, en það hús var rifið árið 1998).

Margir hafa átt húsið og búið hér frá því það varð Fróðasund 10a, en öllum auðnast að halda húsinu vel við og er það í fyrirtaks hirðu. Það stendur á gróskumikilli lóð og er til mikillar prýði í umhverfinu. Staðsetningu þess má lýsa þannig, að það leyni á sér en Fróðasund 10 og 11 eru bakatil á milli Lundargötu og Norðurgötu. Húsið hefur varðveislugildi sem hluti af heild, hlýtur miðlungs varðveislugildi í Húsakönnunn 2020. Það er vitaskuld aldursfriðað, enda byggt 1877 og líklega um að ræða þriðja elsta hús á Oddeyri, á eftir Gránufélagshúsunum og Strandgötu 27. Myndirnar eru teknar annars vegar 8. ágúst 2022 og 10. október 2010. 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Hskj.Ak. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 980, 16. júní 1944. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Lundargata 6

Árið 1897 hafði Bygginganefnd Akureyrar starfað í 40 ár og haldið 150 fundi. Í 151. fundargerð segir svo orðrétt: IMG_0073„Ár 1897 þriðjudaginn þ. 17. ágúst 1897 var byggingarnefndin í Akureyrarkaupstað til staðar á Oddeyri eftir beiðni Björns Ólafssonar frá Dunhaga til þess að mæla út lóð undir hús hans er hann ætlar að byggja og sem á að vera 12 ál. á lengd og 10 ál. á breidd. Byggingarnefndin ákvað að húsið skyldi standa 10 ál. í norður frá húsi Baldvins Jónssonar sem þá var í smíðum í og í beinni stefnu að vestan við það og hús Jakobs frá Grísará“ (Bygg.nefnd. Ak. 1897 nr. 150). Umrætt hús Björns Ólafssonar fékk nokkrum árum síðar númerið 6 við Lundargötu. Af hinum húsunum, sem nefnd eru þarna, skal sagt frá í örstuttu máli. Hús Baldvins Jónssonar var Lundargata 4. Það brann til ösku í janúar 1965. Hús Jakobs frá Grísará var Lundargata 10. Það var byggt árið 1894. Árið 1920 var það flutt spölkorn norður og yfir Lundargötu, á lóð nr. 17. Örlög þess urðu þau sömu og Lundargötu 4, það er, húsið skemmdist í bruna 6. maí 2007 og var rifið einhverjum misserum síðar. 

            Lundargata 6 er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, með háu portbyggðu risi. Á veggjum er vatnsklæðning eða panell, sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins mun vera 7,62x6,39m. Kemur það heim og saman við upprunaleg mál, 10 álnir eru 6,3m og 12 álnir um 7,5m. 

            Björn Ólafsson virðist ekki hafa búið lengi í húsinu en árið 1902 er Lundargata 6 komin í eigu Gránufélagsins. Þá eru fjórar íbúðir skráðar í húsinu, og íbúarnir alls fjórtán að tölu. Á meðal sextán íbúa Lundargötu 6 árið 1912 voru þau Pétur Gunnlaugsson og Sigurjóna Steinunn Jóhannsdóttir.  Þann 9. febrúar 1913 fæddist sonur þeirra, Jóhann Kristinn, í þessu húsi en hann varð síðar þekktur undir nafninu Jóhann Svarfdælingur, hávaxnasti Íslendingur sem sögur fara af. Þau Pétur og Sigurjóna munu hafa flutt til Dalvíkur skömmu síðar og þaðan að Brekkukoti í Svarfaðardal. 

            Húsið var í eigu Gránufélagsins og síðar Hinna Sameinuðu íslensku verslana, arftaka Gránufélagsins, og leigt út til íbúðar. Árið 1931 eignaðist Tryggvi Jónatansson múrarameistari húsið. Hann reisti verkstæðishús á baklóð hússins, Lundargötu 6b. Tryggvi Jónatansson var mikilvirkur í teikningu húsa á Akureyri á fyrri helmingi 20. aldar, og á t.d. heiðurinn af drjúgum hluta stórmerkilegrar funkishúsaraðar í Ægisgötu. Kannski hefur hann teiknað þau og fjölmörg önnur hús heima í Lundargötu 6. 

            Mögulega hefur Tryggvi klætt húsið steinblikki, en sú klæðning var á húsinu, þegar gagngerar endurbætur hófust á því um 1985. Þeim endurbótum lauk um áratug síðar og hafði húsið þá fengið timburklæðningu og glugga í samræmi við upprunalegt útlit. Árið 2004 var steyptur nýr kjallari undir húsið og það hækkað um rúmlega hálfan metra. Teikningarnar að þessum endurbótum gerðu Haukur Haraldsson og Fanney Hauksdóttir. Nú er húsið í mjög góðri hirðu, enda hefur núverandi eigandi einnig gert mikla bragarbót á húsinu og umhverfi þess. Þannig er húsið til mikillar prýði í umhverfinu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923 og hlýtur í Húsakönnun 2020 hátt varðveislugildi sem hluti heildstæðrar götumyndar Lundargötu. Meðfylgjandi mynd er tekin 26. febrúar 2023.

HeimildirBjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 151, 17. ágúst 1897. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Strandgata 17

Austan megin á einu fjölfarnasta götuhorni Akureyrar stendur snoturt forskalað timburhús með tveimur kvistum. Vesturstafn þess prýða jafnan vegglistaverk, en húsið sjálft má sjálfsagt muna sinn fífil fegurri. Afstaða hússins við götuna er nokkuð óþægileg, sér í lagi fyrir notendur gangstéttar, því þar skilur innan við metrabreið stétt að norðurhorn hússins og mestu umferðargötu Akureyrar þ.e. Glerárgötu. Snjóruðningar að vetri gera aðstæður enn verri. En þegar þetta er ritað stendur hvort tveggja til bóta, ástand hússins og öryggismál vegfarenda, því nýr eigandi hyggst færa þetta tæplega 140 ára gamla timburhús til upprunalegs horfs. Og svo vill til, að sá hluti hússins sem skagar út í Glerárgötuna er síðari tíma viðbygging og verður fjarlægð. Um er að ræða Strandgötu 17.PC081000

     Á  tveimur fundum Bygginganefndar Akureyrar í maí 1886 voru mældar út lóðir, sem síðar fengu númerin 17, 19 og 21 við Strandgötu, og vill svo skemmtilega til, að öll þessi þrjú hús standa enn. Einar Pálsson og Þórður Brynjólfsson fengu mælda út lóð vestan við Hauskenshús og Jón Jóhannesson næstu lóð vestan við þá. Þriðji lóðarhafinn var Pétur Tærgesen, sem fékk næstu lóð vestan við téðan Jón Jóhannesson og skyldu húsin standa í línu hvert við annað. Í Húsakönnun um Oddeyri er P. Tærgesen sagður hafa fengið lóðina árið 1885 en mögulega er það misritun. En það er heldur ekki útilokað, að húsið hafi verið reist árið áður og gengið frá lóðarútmælingu vorið eftir. Ekki er getið neins byggingaleyfis eða lýsingar en um var að ræða einlyft hús með háu risi og miðjukvisti og þremur gluggabilum á framhlið og skúr á norðurhlið. Fékk hann útmælda lóð sem átti að vera í línu við næstu hús. Þeir sem keyrt hafa gegnum Akureyri ættu að kannast við þetta hús en Þjóðvegur 1 (Glerárgata) liggur aðeins nokkra tugi cm frá vesturgafli þess.

   Strandgata 17 er einlyft timburhús með háu risi og tveimur stórum kvistum á framhlið. Á austurgafli er forstofubygging og útskot eða álma, með stafni til norðurs, vestanmegin. Bárujárn er á þaki og á veggjum munu kvarsmulnings-steinaðar asbestplötur. Í flestum gluggum eru tvískiptir þverpóstar.  

    Af Pétri Tærgesen, sem hét fullu nafni Hans Pétur Tærgesen er það að segja, að mjög skömmu eftir að hann reisti húsið, 1886 eða ´87 fluttist hann til Vesturheims. Heimildum ber ekki alveg saman: Samkvæmt islendingabok.is fluttist hann vestur 1887 en samkvæmt sögusetri Manitobafylkis í Kanada, kom hann þangað árið áður. Pétur Tærgesen settist, eins og margir Íslendingar, að í Gimli, Winnipeg. Þar stundaði hann verslunarrekstur um áratugaskeið. Hann var tvisvar bæjarstjóri í Gimli, 1911-13 og 1919-23. Hans Pétur Tærgesen lést í Gimli árið 1954, 92 ára að aldri. Það er gaman að segja frá því, að Tærgesen mun hafa reist hús í Gimli árið 1911, Tergesen House, 38 Fourt Avenue  Þannig eru Tærgesenshúsin tvö, hvort í sinni heimsálfu! Og raunar eru þau þrjú, því Tærgesen reisti árið 1898 verslunarhús í Gimli, H.P. Tergesen General store. Og það sem meira er, verslunin H.P. Tergesen & sons er ennþá starfandi í sama húsi í Gimli. (Í Vesturheimi hefur sá ritháttur, að rita nafnið með „e“ komist á, enda „æ“ framandi stafur í enskri tungu. Hér verður hvort tveggja viðhaft, kanadíski rithátturinn þar sem við á og öfugt).PC081001

    Sá sem keypti hið nýreista hús af Tærgesen mun hafa verið Carl Holm, kaupmaður. Árið 1890 kallast húsið Hús Carls Holm, Oddeyri í Manntali og þar eru til heimilis, Carl og Nielsina Holm og dóttir þeirra, Hansína Holm. Einnig er skráður þar til heimilis Tómas Þorsteinsson, 75 ára, titlaður uppgjafaprestur. Árið 1907 eignaðist  Bjarni Einarsson, skipasmiður og útgerðarmaður, frá Kletti í Borgarfirði húsið. Í september 1908 fékk hann leyfi til að lengja húsið til vesturs, viðbygging 5 álnum breiðari en upprunalegt hús, með kvisti á framhlið og eldvarnarmúr á lóðarmörkum. Lagði hann fram teikningu að þessum breytingum. Þar er um að ræða vesturálmu hússins, með vestri kvistinum (nær Glerárgötu). Árið 1921 var innréttuð verslun í vesturhluta hússins og var þá settur á verslunargluggi.

    Í eystri hluta hafa alla tíð verið íbúðir. Sá húshluti var í eigu sömu fjölskyldu drjúgan hluta 20. aldar, en Magnús (1900-1992), sonur Bjarna Einarssonar, sem fluttist hingað á barnsaldri, bjó hér til æviloka. Kona Magnúsar Bjarnasonar, Ingibjörg Halldórsdóttir (1906-1999), var dóttir Halldórs Halldórssonar söðlasmiðs, sem reisti Strandgötu 15 (það hús var rifið fyrir áratugum). Margir hafa búið í Strandgötu 17 eftir hina löngu tíð þeirra Bjarna Einarssonar, sonar hans, Magnúsar og Ingibjargar. Allt frá 1921 og fram undir 2010 hýsti neðri hæð vestri hluta hina ýmsu verslun og starfsemi, m.a. afgreiðslu Happdrættis SÍBS um árabil. Á þriðja áratugnum er auglýst í húsinu „Litla búðin“ Axels Schiöth og um miðja 20. öld raftækjaverslunin RAF. SÍBS hafði þarna aðsetur í fjóra áratugi, frá 1970. Um 2014 var innréttuð íbúð á neðri hæð að vestan, þar sem SÍBS-rýmið var áður.

    Akureyrarbær hefur átt húsið sl. áratugi en seldi það nýverið með þeirri kvöð, að það yrði fært í upprunalegt horf. Teikningar að þeim endurbótum gerði Ágúst Hafsteinsson. Snemma árs 2023 keypti Helgi Ólafsson, sem hyggur á þessar endurbætur en hann mun þrautreyndur í endurbyggingu gamalla húsa.   Í Húsakönnun 1990 er húsið metið með varðveislugildi sem hluti götumyndar Strandgötu og það er einnig aldursfriðað, þar sem það er byggt löngu fyrir árið 1923. Þá hlýtur sú staðreynd, að húsið byggði maður, sem síðar varð einn af helstu mektarmönnum Íslendingasamfélagsins í Kanada, svo að segja rétt fyrir brottförina vestur, að gefa húsinu nokkurt gildi. Í Gimli virðist haldið nokkuð upp á Tergesenshúsin tvö, verslunarhúsið frá 1898 og íbúðarhús Tergesens frá 1911. Full ástæða er til þess, að gera elsta Tærgesenshúsinu, á heimaslóðum H.P. Tærgesens, einnig hátt undir höfði. Og nú stendur það svo sannarlega til: Fyrir liggja glæstar teikningar að endurbótum og húsið komið í góðar hendur.p2100009.jpg

   Það verður mjög spennandi að sjá hvernig endurbótum vindur fram á hinu aldna timburhúsi og er heillaóskum hér með komið til nýrra eigenda. Húsið mun, ef að líkum lætur, von bráðar verða hin mesta bæjarprýði, sannkölluð perla á fjölfarnasta stað Akureyrar.  Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. febrúar 2007 og 8. desember 2021.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundir nr. 71 og 72, 3. og 10. maí 1886. 1902-1921. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 347, 9. sept. 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 39-41; Sambyggingin

Um framlag Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, til íslenskrar byggingarlistar og byggingasögu þarf vart að fjölyrða. Hann er e.t.v. þekktastur fyrir hinar ýmsu opinberar byggingar, kirkjur og skólahús, og ber þar kannski helst að nefna Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju og aðalbyggingu Háskóla Íslands. En Guðjón er einnig höfundur fyrsta skipulags, sem unnið var fyrir Akureyri, og samþykkt var árið 1927. Miðbær Akureyrar er að miklu leyti byggður eftir þessu skipulagi, sem og gatnaskipulag Oddeyrar og neðri hluti Brekkunnar. Skipulag þetta gerði ráð fyrir miklum randbyggingum; röðum fjölbýlishúsa með görðum og torgum á milli, á Eyrinni. Ekki ósvipað t.d. Vallagötunum í Vesturbæ Reykjavíkur. Aðeins munu þrjú hús á Oddeyrarsvæðinu sem reist eru beinlínis eftir þessu skipulagi. Tvö þeirra, Gránufélagsgata 43 og Strandgata 37 bera þess merki, að byggja hafi átt beggja vegna við þau (þ.e. gluggalausir stafnar) en eitt er fullbyggt: Gránufélagsgata 39-41, sem greinarhöfundur kallar jafnan „Sambygginguna“.  Væntanlega er þar um að ræða fyrsta skipulagða fjölbýlishús Akureyrar. (Lengi framan af voru íbúðarhús almennt hálfgerð fjölbýlishús, þó byggð væru sem einbýli, þar sem margar fjölskyldur bjuggu undir sama þaki. Sjá nánar síðar í greininni). PA260980

     Gránufélagsgata 39-41 samanstendur af þremur sambyggðum húsum sem mynda eina heild, þrílyft með háu valmaþaki. Neðstu hæðir eru eilítið niðurgrafnar en vart hægt að kalla þær kjallara (í bókunum bygginganefndar eru þær sagðar ofanjarðarkjallari). Á vestasta hluta eru einlyftar bakbyggingar. Veggir eru múrsléttaðir og krosspóstar í flestum gluggum. Á risi eru alls sex smáir kvistir að framan og þrír á bakhlið. Auk nokkurra þakglugga.  Alls mun húsið um 26x8m á grunnfleti en útbyggingar að norðvestan eru um 4x3m og 5x3m.  

     Kannski halda einhverjir, að Akureyrarbær, byggingafélag eða verktakar hafi byggt Sambygginguna, en svo var nú ekki. Enda þótt húsið sé þrískipt, hús nr. 39 vestast, 41a í miðjunni og 41 austast reistu tveir einstaklingar húsið. Eystri hlutann, nr. 41, reisti Steinþór Baldvinsson skipasmiður frá Svalbarði, en vestri hluta, nr. 39  reisti Jón Kristjánsson ökumaður frá Landamótaseli í S-Þingeyjarsýslu. Teikningarnar að húsinu, eða húsunum þremur, gerði Halldór Halldórsson.  Það var 2. júlí 1928 sem Steinþór fékk lóð og leyfi til byggingar íbúðarhúss við Gránufélagsgötu, á horninu á móti Ólafsfjarðarmúla, norðan við götuna. Umræddur Ólafsfjarðarmúli er húsið Grundargata 7, sem löngum hefur gengið undir því nafni. Það fylgdi sögunni, að þetta væri hornlóð, vestan við „torgið“ en þar er vísað í hið nýja skipulag. Steinþór vildi byggja hús 7,70x10m að stærð en Bygginganefnd krafðist þess, að húsið yrði ekki mjórra en 8m. Það hlýtur að vera fátíðara, að byggjendur séu krafðir um að stækka byggingar sínar, heldur en hitt, að fyrirhugaðar byggingar séu of stórar miðað við skipulag.PA260981

     Þremur mánuðum eftir að bygginganefnd afgreiddi byggingarleyfi Steinþórs fékk Jón Kristjánsson leyfi til að reisa hús, 8,8x8m næst austan við hús Jóhannesar Júlínussonar, þ.e. Gránufélagsgötu 27,  tvær hæðir úr steinsteypu, á „ofanjarðarkjallara“.  (Hvers vegna 27 er við hliðina á nr. 39 er flestum, greinarhöfundi þ.m.t.,  hulin ráðgáta en þess má geta, að neðan við nr. 43 stendur nr. 29. Númerakerfi Gránufélagsgötu mætti kalla eitt af undrum Akureyrar. Kannski er skýringa á þessu að leita í téðu skipulagi frá 1927?)  Hann óskaði einnig eftir því, að reisa aðeins fyrstu tvær hæðirnar, og fékk fimm ára frest til að ljúka við efri hæðirnar. Þarna var aðeins um að ræða vestasta hluta hússins, því í bókuninni stendur, að austurstafninn skuli vera 6m frá vesturstafni húss Steinþórs Baldvinssonar. Í mars 1929 er Jóni leyft að reisa útskot úr norðvesturhorni hússins, 4,4x3,15m að stærð. Jón hefur ekki þurft að nýta fimm ára frestinn til þess að byggja efri hæðir hússins, því árið 1931 er húsið fullklárað. (Sést á ljósmyndum). Það er svo 29. apríl 1929 að bygginganefnd afgreiðir byggingaleyfi Steinþórs Baldvinssonar fyrir húsi, 5,90x8m á lóð hans. Þar er kominn miðhlutinn þ.e. 41a. Í október 1929, þegar tekið er manntal, er flutt inn í hvort tveggja, nr. 39 og 41, og hefur þá miðhlutinn verið í byggingu.

     Skömmu fyrir manntalið heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins, þá Jón og Steinþór og lýstu húshlutunum þannig: „Íbúðarhús, þrjár hæðir á lágum grunni með háu risi. Á „neðstagólfi“ 2 stofur, eldhús, búr, þvottahús og forstofa. Á efragólfi 5 stofur, salerni, gangur og forstofa. Efstahæð eins innréttuð. Á efstalofti 2 íbúðarherbergi og geymsla. 1 reykháfur, raf-vatns og skólpleiðsla. Lítill skúr við bakhlið notaður sem geymsla“ (Virðingabók Brunabótamats nr. 18, 3. sept. 1929).

Nr. 41: „Íbúðarhús 3 hæðir á lágum grunni með háu risi. Á neðstuhæð við framhlið 2 st.[ofur] og forstofa. Við bakhlið þvottahús og 2 geymslur. Á miðhæð við framhlið 2 stofur, forstofa við bakhlið, eldhús, búr og baðherbergi. Efstahæð eins innréttuð, efstaloft óinnréttað. 1 reykháfur, raf-vatns og skólpleiðsla. (Virðingabók Brunabótamats nr. 18, 13. ágúst 1929).

     Þann 6. desember 1929 auglýsir Steinþór Baldvinsson í blaðinu Íslendingi  til sölu „hús í byggingu“ og þar hlýtur að vera um að ræða nr. 41a. Kaupandinn hefur líkast til verið Þorsteinn Stefánsson, trésmiður frá Kílakoti (ritað með ý í Manntali) í Kelduhverfi, því hann er skráður eigandi hússins í manntali árið 1930. Það ár búa alls 60 manns í Sambyggingunni. Þrettán manns búa í nr. 39, sautján í 41a og tuttugu í nr. 41. Síðarnefndu húshlutarnir skiptast í fjögur íbúðarrými hvort um sig, þar búa ýmist fjölskyldur eða einstaklingar, sem líklega hafa leigt stök herbergi. Númer 39 virðist hins vegar einbýli, þar eru allavega ekki tilgreind íbúðaskil. Þar búa téður Jón Kristjánsson og Laufey Jónsdóttir, sex börn þeirra, vinnufólk, þrennt að tölu, og tveir leigjendur. Af Steinþóri Baldvinssyni og Soffíu Sigfúsdóttur, konu hans, er það hins vegar að segja, að þau fluttu að Höfn á Svalbarðsströnd árið 1934 (skv. islendingabok.is) og stunduðu þar búskap. Það er svo skemmst frá því að segja, að fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar hafa búið í Gránufélagsgötu 39-41 í lengri eða skemmri tíma, allt frá fáeinum mánuðum til margra áratuga. Sumar íbúðir hafa jafnvel gengið milli kynslóða. Um 1940 bjuggu í nr. 41 Konráð Jóhannsson gullsmiður og Svava Jósteinsdóttir ásamt nokkrum börnum sínum og barnabörnum. Afkomendur þeirra ganga undir nafninu Konnarar, eftir Konráði, sem kallaður var Konni gull.  Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið breytileg gegnum þessa tæpu öld og ýmist búið í stökum herbergjum eða heilum íbúðum. Nú munu alls sjö íbúðir í húsinu samkvæmt Fasteignaskrá, þrjár í 39 og 41 en miðhluti, 41a, sem er ívið smærri að grunnfleti en hinir hlutarnir,  hefur síðustu áratugi verið einbýli.P7160016

     Er Sambyggingin fyrsta „blokkin“ á Akureyri? Það er alltaf dálítið varasamt að fullyrða, að hús séu fyrst eða elst, þetta eða hitt. Stundum er það skilgreiningaratriði: Vitaskuld eru hærri og margskiptari randbyggingar í Miðbænum t.d. við Skipagötu og Ráðhústorg, sem byggðar eru á svipuðum tíma.  Og þegar Sambyggingin var byggð voru til fjölbýlishús t.d. í gamla Hótel Akureyri og Brekkugötu 3, þau hús þá um þrítugt. Miðbæjarhúsin voru raunar verslunar, íbúðar- og skrifstofuhúsnæði og eldri húsin tvö voru annars vegar fyrrum hótel og hins vegar fyrrum einbýli, sem nokkrum sinnum hafði verið byggt við. Þannig er tæpast nokkrum vafa undirorpið, að Gránufélagsgata 39-41 er eitt af allra fyrstu húsum Akureyrar, ef ekki það fyrsta, sem byggt er beinlínis sem „hreinræktað“ fjölbýlishús með þremur stigagöngum. Það var raunar ekki fyrr en um miðjan sjöunda áratug, að fleiri slíkar blokkir (þrjár hæðir, þrír stigagangar) tóku að rísa, þær fyrstu við Skarðshlíð í Glerárþorpi. En þær byggingar eru reyndar mikið, ef ekki margfalt, stærri en Gránufélagsgata 39-41 að rúmtaki. (En skiptir þetta svo sem nokkru máli?)  

     Gránufélagsgata 39-41 er í senn traustlegt og reisulegt en um leið látlaust hús. Það setur eðlilega mikinn svip á umhverfið, verandi „nokkrum númerum“ stærri en nærliggjandi hús en er þó til prýði og sérlegt kennileiti í umhverfi sínu. Húsið er í góðri hirðu, á því er t.d. nýlegt þak. Sambyggingin við Gránufélagsgötu 39-41 má segja sérlegan fulltrúa fyrsta Aðalskipulags bæjarins frá 1927, upphafið af stórhuga áformum um mikla torfu randbygginga á Oddeyrinni. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið einmitt miðlungs varðveislugildi sem minnisvarði um fremur „stórtækt skipulag frá 1927“ (Bjarki Jóhannesson 2020:149). Þá er húsið hluti varðveisluverðrar heildar. Þar sem Sambygginguna vantar ekki mörg ár í aldarafmæli og greinarhöfundi er stundum tíðrætt um hina svokölluðu 100 ára reglu, skal þess getið hér, að sú regla var afnumin um sl. áramót. Frá og með áramótum eru aðeins hús byggð 1923 og fyrr aldursfriðuð, en yngri hús (að byggingarári 1940) teljast umsagnarskyld. Sambyggingin verður því ekki aldursfriðuð en varðveislugildi hennar er ótvírætt samkvæmt Húsakönnun.  

Meðfylgjandi myndir eru teknar 16. júlí 2014 og 26. október 2019.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Akureyrarkaupstað 1922-29. Óprentað óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_3_virdingabok_1922_1929?fr=sMTZmNDQzODI5ODU 

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-35. Fundur nr. 614, 2. júlí 1928. Fundur nr. 620, 4. okt. 1928. Fundur nr. 626, 25. mars 1929. Fundur nr. 628, 29. apríl 1929.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns, greinar á timarit.is; islendingabok.is, sjá tengla í texta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 297
  • Frá upphafi: 421414

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 186
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband