Hús dagsins: Hamarstígur 2

Árið 1930 fékk Steinþór Guðmundsson skólastjóri lóð og byggingarleyfi á mótum Hamarstígs og Munkaþverárstræti, en síðarnefnda gatan liggur til norðurs út frá Hamarstíg rétt upp af Oddeyrargötu. P1210490Fékk Steinþór leyfi til að reisa íbúðarhús úr steinsteypu, 9x8,4m einlyft með háu risi, kvisti og forstofu að vestan. Teikningarnar gerði Halldór Halldórsson í mars 1930, en þær eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu.

   Hamarstígur 2 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á háum kjallara. Á framhlið er miðjukvistur en tveir smærri kvistir á bakhlið. Stafn framkvists er stallaður, líkt og á næsta húsi nr. 4, sem er mikið stærra og umfangsmeira hús. Á vesturhlið er einlyft forstofubygging með flötu þaki og svalir ofan á henni, en inngöngudyr eru sunnan á forstofuskúr og á bakhlið. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki, en veggir múrsléttaðir. Efst á kvisti og á stöfnum er smágluggar, ferningslaga á stöfnum en þríhyrndur á kvisti. Líklega er húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð en smávægilegar breytingar voru gerðar innandyra skv. þessum teikningum hér- auk þess sem gluggar voru færðir til upprunalegs horfs. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús en líkt og gekk og gerðist voru einstaka herbergi leigð út á fyrri árum. Hér má finna ríflega 80 ára auglýsingu þar sem er t.d. auglýst herbergi uppi á Hamarstíg 2 sem hentugt væri fyrir tvo skólapilta og einnig að þeir geti fengið þjónustu og fæði á sama stað. Hamarstígur 2 er reisulegt og traustlegt hús og virðist í góðri hirðu á allan hátt og í Húsakönnun 2015 fær það umsögnina “fallegt hús og vel viðhaldið” (Akureyrarbær, Teiknistofa, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 59) og getur sá sem þetta ritar svo sannarlega vel tekið undir það. Lóðin er stór og vel gróin þó það sjáist e.t.v. ekki svo glöggt á meðfylgjandi mynds sem tekin er í janúar. Fremst á lóð eru tvö gróskumikil tré sem ég þori ekki að tegundagreina en fljótt á litið myndi ég giska á silfur- eða gráreyni. Meðfylgjandi mynd er tekin þann 21.janúar 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur 636, 22.apríl 1930.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 

 


Hús dagsins: Hamarstígur 4

Oddeyrargötu tók ég fyrir hús fyrir hús á nýliðnu ári. Hún er frá “fornu fari” tenging Oddeyrar við Brekkuna þar sem hún skásker brekkuna ofan Miðbæjar. Upp frá götunni miðri, þ.e. milli húsa nr. 24 og 26 liggur Hamarstígur upp á Brekkuna og nær sú gata upp á Mýrarveg. Gatan er byggð á löngum tíma, milli 1930-60 en elsti hluti hennar er á milli Þórunnarstrætis og Oddeyrargötu. Sá kafli er snarbrattur og stundum heldur óskemmtilegur yfirferðar, gangandi og akandi, í mikilli hálku. En húsin þar eru síður en svo óskemmtileg en þar standa reisuleg og glæst steinhús frá 4.áratug 20.aldar, þ.á.m. Hamarstígur 4.P1210488

 

Síðla sumars árið 1929 fengu þeir Steinþór Jóhannsson og Halldór Halldórsson byggingafulltrúi og húsateiknari leigða lóð norðan Hamarstígs fyrir enda Hlíðargötu. Þeir fengu jafnframt leyfi til að byggja þar steinsteypuhús skv. “meðfylgjandi teikningu” sem Halldór gerði. Teikningin Skyldi það vera 8x14,60m að stærð, ein hæð á kjallara með háu. Byggingarleyfið var veitt með því skilyrði, að kvistur yrði settur á suðurhlið hússins [þ.e. framhlið þess], í síðasta lagi um leið og Hlíðargata byggðist. Húsið var parhús sem skiptist að miðju og reisti Steinþór eystri hlutann (4a) og Halldór þann vestari (4b). Árið 1935 fékk Halldór leyfi til að setja kvist á norðurhlið hússins, en skv. Húsakönnun 2015 kom hann ekki fyrr en tuttugu árum síðar og á sama tíma var gefið út leyfi fyrir viðbyggingu. Á teikningu, sem dagsett er 29.sept 1959 er ekki að sjá að kvistur sé kominn á suðurhlið, en mögulega er þarna um að ræða endurskoðaða, upprunalega teikningu. Mynd sem sjá má á bls. 94 í Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs tekur hins vegar af öll tvímæli um það, að kvistur hefur verið á suðurhlið frá upphafi. Því sú mynd er tekin sumarið 1931 og sýnir Gilið og Miðbæinn. Ofarlega í hægri jaðri þeirrar myndar má sjá Hamarstíg 4, sem þá stendur einna hæst húsa innan þéttbýlis á Akureyri. Þar má greinilega sjá kvistinn mikla, en hann er einnig skrýddur byggingarári hússins, 1930.

Hamarstígur 4 er stórt og reisulegt steinsteypuhús, í anda steinsteypuklassíkur þess tíma, einlyft með háu risi og stórum miðjukvisti og stendur á háum kjallara. Á bakhlið hússins er einlyft viðbygging, að öllum líkindum sú sem leyfi var gefið fyrir árið 1955 og stór kvistur með einhalla þaki sem nær að vesturgafli og yfir miðju hússins. Kvistur á framhlið er með stölluðum kanti og efst upp undir mæni hans er bogadreginn smágluggi. Byggingarárið 1930 er einnig múrað framan á kvistinn en ófá hús á Akureyri skarta því ártali á kvistum sínum. Þetta hefur því greinilega verið e.k. tíska um þetta leyti en einnig má finna ártölin 1926-29 á kvistum en 1930 er sýnu algengast. Húsið er sem áður segir byggt sem parhús og eru tvær inngöngudyr nærri miðju og steyptar tröppur upp að þeim. Á þeim er enn upprunalegt steypt skrauthandrið. Inngöngudyr standa eilítið lægra en neðri hæð og ofan þeirra eru póstlausir gluggar sem veita birta á stigahol upp á hæð. Fyrir miðri framhlið eru gluggar á hverri hæð og framhliðin samhverf um þá. Krosspóstar eru í gluggum hússins, en hafa mögulega verið margskiptir í upphafi og bárujárn er á þaki. Veggir eru múrhúðaðir með svokölluðum spænskum múr, en ég hef stundum líkt áferð þess konar múrs við krem á djöflatertu eða gulrótartertu.

Halldór Halldórsson, sá er reisti vesturhluta hússins var einn ötulasti hönnuður bygginga á Akureyri á áratugunum milli 1920-1940. Hann var fæddur 4.mars árið 1900 í Garðsvík á Svalbarðsströnd og lauk prófi í byggingarfræði í Hildisheim í Þýskalandi árið 1924. Hann var byggingafulltrúi og byggingameistari hér í bæ til ársins 1944 en fluttist þá suður og hóf störf hjá Skipulagi ríkis og bæja. Síðar varð hann forstjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins við stofnun hennar, 1957 og gegndi hann því starfi til dánardægurs. Hér má sjá minningargrein Magnúsar Inga Ingvarssonar um Halldór, sem lést 23.ágúst 1969. Halldór bjó hér ásamt konu sinni, Sigurlaugu Ólafsdóttur frá Krossum á fjórða áratug 20.aldar- og mögulega hafa einhver húsa hans verið teiknuð hér. Meðal húsa sem Halldór teiknaði má t.d. nefna hús nr. 12,14,16 og 22 við Oddeyrargötu,P1210491 Brekkugötu 27a, 43 og 45 en innan könnunarsvæðis Húsakönnunnar 2015 á Neðri Brekkunni má finna 21 hús eftir Halldór. Á Oddeyri standa einnig fjölmörg hús eftir Halldór, s.s. Eiðsvallagata 20, Fjólugata 7 og 9 en auk þeirra teiknaði hann fyrsta skipulagða fjölbýlishús Akureyrar, Gránufélagsgötu 39-41 (kölluð Sambyggingin í daglegu tali margra).

Í þessu húsi bjó einnig annar byggingamestar nokkru síðar eða um miðja 20.öld, þá komin á efri ár, Jónas Gunnarsson frá Syðri Bægisá. Hann var fæddur 1873 og var umsvifamikill í húsbyggingum á Akureyri á fyrstu árum 20.aldar. Reisti hann vegleg timburhús í Miðbæ Akureyrar, Jerúsalem og Rotterdam en þar var um að ræða stór og vegleg timburhús sem bæði urðu eldi að bráð fyrir rúmum 70 árum. En Jónas stóð einnig fyrir byggingu hinnar stórmerku timburhúsaraðar við Hafnarstræti 33-41 P7040032í félagi við Sigtrygg Jóhannesson. Jónas lést árið 1954 og var þá búsettur hér. Margir hafa búið í húsinu þessa tæpu níu tugi ára sem það hefur staðið. Íbúðir voru tvær frá upphafi en ekki ólíklegt að húshlutunum hafi verið skipt í smærri íbúðir eða leiguherbergi, enda húsið nokkuð stórt í sniðum. Hér er tveggja herbergja íbúð auglýst á efri hæð hússins, árið 1967.

Hamarstígur 4 er reisulegt og traustlegt hús og í góðu standi. Múráferðin, kantaður kvistur og bogadreginn gluggi setja skemmtilegan svip á húsið. Það er ekki ósvipað að gerð og næstu hús, Hamarstígur 2 og 6 og samkvæmt Húsakönnun 2015 eru Hamarstígur 4 og 6 “samstæð hús sem mynda sterka heild” og hafa varðveislugildi sem slík. Húsið stendur hátt, líklega einum 2-3metrum ofan götubrúnar og er því býsna áberandi og lóðin er stór og vel gróin.

Á lóðinni stendur mjög gróskumikil Alaskaösp, a.m.k. 16 m há með stórri og breiðri P8310020krónu, skv. bæklingnum Merk Tré , sem Skógræktarfélag Eyfirðinga gaf út 2005.
Þá er tréð sagt um 16m hátt en ekki er ólíklegt, að það sé orðið nær 20 metrum þegar þetta er ritað, rúmum ellefu árum síðar. Hef ég heyrt hana nefnda Hamarstígsöspina og einhvern tíma skildist mér að nærri helmingur allra Alaskaaspa á Akureyri væru komnar út af þessari miklu ösp- hinn helmingurinn út af vegar annarri svipaðri sem stendur við Grænugötu á Oddeyri. Sel það ekki dýrara en ég keypti. Myndina af húsinu tók ég í “vorblíðu” og hláku þann 21.janúar 2017 en myndina af öspinni miklu tók ég í trjágöngu um Neðri Brekku sem Skógræktarfélagið stóð fyrir þann 31.ágúst 2013.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur 634, 29.júlí 1929.

Fundargerðir 1930-35. Fundur 744, 24.maí 1935. 

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar og varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur.

 

 

 


Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 2; Péturskirkja.

Kaþólska kirkjan á Akureyri hefur til umráða tvö glæsileg timburhús frá fyrri hluta 20.aldar á horni Eyrarlandsvegar og Hrafnagilsstrætis. P5180333Annars vegar er það Eyrarlandsvegur 26 frá 1911 og hins vegar er það kirkjan sjálf, en hún stendur við Hrafnagilsstræti 2. Húsið hefur þó öldungis ekki alla tíð verið kirkja því upprunalega eða árið 1933 var húsið reist sem íbúðarhús. Það byggði Þorlákur Jónsson eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Þorlákur fékk haustið 1932 leyfi til að reisa íbúðarhús á horninu norðan Hrafnagilsstrætis og austan Möðruvallastrætis. Húsið yrði ein hæð úr timbri á lágum kjallara úr steini, vesturhluti 10,05x8,8m en austurhluti 6,50. Þessi mál vísa væntanlega til þess, að austurálma, sem snýr gafli mót austri sé 6,50 að breidd en hin vestari, sem vísar mót suðri sé 8,8m. Við norðurhlið “inngangsforstofa” og smá kvistir að sunnan og austan. Byggingarnefnd setti Þorláki nokkur skilyrði fyrir húsbyggingarleyfinu. Fyrir það fyrsta, máttu viðir ekki vera grennri en byggingarreglugerð mælti fyrir um, kjallari mátti ekki vera lægri en ein alin (63cm) upp frá lóðar eða götufleti. Þá skyldi húsið allt járnklætt þegar í stað, annars færi byggingin í bága við brunareglur.

Hrafnagilsstræti 2 er skrautleg timburkirkja, klædd láréttri borðaklæðningu og með sexrúðugluggum og bárujárni á þaki. Gengið er inn að sunnan, frá Hrafnagilsstræti og er turn kirkjunnar yfir inngönguálmu. Fyrrum austurálma íbúðarhússins er nú kirkjuskip og á austurhlið er lítill kór. Þá er stór gluggi á vesturhlið. Inngöngudyr eru breiðar og veglegar með miklu rislaga dyraskýli. Húsið var, eftir því sem ég best veit, íbúðarhús frá byggingu og fram að aldamótum. Þorlákur Jónsson, sá er byggði húsið auglýsir það til sölu árið 1947. Húsinu var breytt í kirkju á árunum 1998-2000, eftir teikningum Kristjönu Aðalgeirsdóttur og Sigríðar Sigþórsdóttur Hér má sjá grein um endurbætur á Hrafnagilsstræti 2 í Degi frá nóvember 1998. Það er ekki annað að sjá, en að þessi endurbygging hússins sé mjög vel heppnuð, allavega er Kaþólska kirkjan í hópi skrautlegustu og glæstustu bygginga, og er sannkölluð perla í glæsilegri götumynd Hrafnagilsstrætis. Allt er húsið sem nýtt, enda var flest endurnýjað sem nöfnum tjáir að nefna fyrir tæpum tveimur áratugum. Samkvæmt Húsakönnun 2016 er húsið metið til 6.stigs varðveislugildis, þ.e. Í meðallagi fyrir stakt hús- en einnig er húsið talið mynda skemmtilega heild með Eyrarlandsvegi 26. Myndin með færslunni er tekin þann 18.maí 2016.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 683, 10.okt. 1932. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. (1996). Byggingameistari í stein og stál; saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Feb. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 316
  • Frá upphafi: 420191

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 228
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband