Staðarbyggðarfjall

P6190022Þegar horft er til suðurs frá Akureyri og fram Eyjafjörðinn blasir næst við þetta ábúðarmikla fjall sem sést fyrir miðri mynd hér til hliðar. Er það Staðarbyggðarfjall (1118m y.s.). Fjallið tengist mikilli og breiðri hásléttu sem liggur milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals/Bleiksmýrardals og er tálgað af ísaldarjöklum inní jarðlagastaflann sem mun elstur vera 9-10 milljóna ára. Austan fjallsins liggur Garðsárdalur, ákaflega langur og víðlendur en hann var í byggð fram undir 1965*. Þar er vinsæl gönguleið um skarð sem nefnist Gönguskarð yfir í Fnjóskadal. Að vestan er Þverárdalur og sést hann til hægri á myndinni ásamt Tungnafjalli (um 1100m) sem gægist þarna á milli aspartrjánna. Staðarbyggðarfjall er nokkuð bratt og hvasst syðst en eftir því sem norðar dregur verður það ávalara og er nyrðri hlutinn lægri og bungulaga, kallast Öngulstaðaöxl. Hæst rís fjallið í Uppsalahnjúk, 1118 m y.s. en Öxlin er um 5-600m. Auðvelt er að ganga á Staðarbyggðarfjallið og er þá hægt að velja um að fara að norðanverðu upp Öxlina eða bakatil frá Garðsárdal. Þá er hægt að fara beint upp að vestanverðu (framanverðu, af svæðinu við Laugaland og Uppsali) þar sem fjallið er hæst en það er töluvert brött leið. Tvisvar hef ég farið á Staðarbyggðarfjallið, sumarið 1991,  í fyrra skiptið frá Garðsárdal en í seinna skiptið upp Öngulstaðaöxlina að norðanverðu. Fyrra skiptið, 29.6.1991,  var einmitt í fyrsta skipti sem ég gekk uppá fjall. Garðsárdalsleiðin man ég að var ekki tiltakanlega brött, byrjaði í hálendismóum en fikraði sig upp í gróðursnauða mela. Efst eru miklar og ávalar bungur  og mikið af "fölskum tindum" og tekur maður varla eftir því að maður er komin á toppinn fyrr en maður sér útsýnið.  Það má sjá á myndunum hér að neðan; Eyjafjarðarsveitin blasir öll við fyrir neðan en útsýni til vestur er verulega takmarkað af Súlnafjallgarðinum sem er miklu hærri. Þá er geysigott útsýni út Eyjafjörðinn og einnig sést til austurs og suðurs inná hálendið.

Scan10002 

Hér er horft af efri hluta Öngulstaðaaxlar yfir fjörðinn og við blasir fjallaröðin austan ár; f.v. Möðrufellsfjall (900m) . Þá ber Kerlingu (1538m)  hæst ásamt tindaröðinni sem gengur framan úr henni og kallast Röðullinn. Dalurinn milli Möðrufellsfjalls og Kerlingar heitir Finnastaðadalur. Þá koma Þríklakkar (um 1400m) og Bóndi (1361m) ca. fyrir miðri mynd. Þá er mikil slétta sem er rofin af innskotunum Litla- og Stóra Krumma. Lengst til hægri rís svo líparítkamburinn sem gengur að Syðri Súlu. Lengst til vinstri ber í Hvassafellsfjall og Skjóldal sem liggur milli þess og Möðrufellsfjalls.  Myndin er tekin sumarið 1991, sennilega 29.júní. Scan10003

Hér er aftur horft til norðurs út fjörðinn þar sem Eyjafjarðaráin liðast að ósum við Hólmana. Súlumýrar, Kjarnaskógur og Akureyri vestan megin (t.v.) en Kaupangssveit, Svalbarðsströnd og hlíðar Vaðlaheiðar að austan (t.h.). Kaldbak má síðan sjá lengst í norðri. Ég man hreinlega ekki hvort þessar myndir eru úr sömu göngunni, en tel það þó líklegast.  Miðað við snjóalög í fjöllunum hinu megin (sjá mynd í miðju) sýnist mér þetta frekar vera tekið í lok júní en um miðjan ágúst. Alltént eru myndirnar frá sumrinu 1991. Efsta myndin er hins vegar tekin á miðnætti 19.júní 2006, en Staðarbyggðarfjallið fær þennan skemmtilega bleik-fjólubláa lit í miðnætursólinni.

* Síðasta býlið í Garðsárdal, Þröm, fór í eyði 1965.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 22
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 420848

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 483
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband