Hús dagsins: Strandgata 51

Austan elsta húss Oddeyrar eða kannski öllu heldur á Oddeyrartanga, Gránufélagshúsanna, liggur Kaldbaksgata til norðurs. Þar er að finna m.a. verkstæðis- og smáiðnaðarhús. Á horninu stendur reisulegt tvílyft steinsteypuhús frá upphafi fjórða áratugarins, Strandgata 51. Þarna var um hálfrar aldar skeið aðsetur eins rótgrónasta málmiðnaðarfyrirtæki landsins, sem enn er starfandi.

Síðla hausts 1929 óskaði Steindór Jóhannesson eftir því að fá að reisa verkstæðisbyggingu norðan og austan „hinna sameinuðu verzlana“ (Gránufélagshússins).P6210887 Ekki var hægt að ákveða nákvæmlega hvar húsið ætti að standa, en bygginganefnd taldi ekkert því til fyrirstöðu að byggja. Um mitt ár 1931 hefur verkstæðishús Steindór verið risið, því þá óskaði hann eftir því að byggja viðbót við verkstæðisbyggingu sína eina hæð á lágum grunni byggt úr járnbentri steinsteypu og með steinlofti yfir. Sex árum síðar fær hann að byggja hæð ofan á húsið og fékk húsið þá væntanlega það lag sem það síðan hefur.  Strandgata 51 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með valmaþaki. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Gluggar eru heilir (póstlausir) og á framhlið er „iðnaðarhurð“ og inngöngudyr á vesturhlið. Húsið er sambyggt steinsteyptu verkstæðishúsi sem stendur við Kaldbaksgötu 2.  

Steindór Jóhannesson var Skagfirðingur, fæddur 1883 og uppalin í Lýtingsstaðahreppi og nam vélvirkjun í Danmörku í upphafi 20. aldar. Það var aldeilis nóg að gera á þeim vettvangi, þegar iðnaður, sjávarútvegur og samfélagið eins og það lagði sig var að vélvæðast. Árið 1914 stofnaði Steindór vélsmiðju sína á Torfunefi, en árið 1929 var starfsemin orðin það umsvifamikil að Steindór taldi nauðsynlegt að stækka við sig. Honum var bent á Oddeyrartanga fremur Torfunef til byggingar á nýju verkstæðishúsi og væntanlega hefur hann í kjölfarið sótt um að byggja á þessum stað.  Svo sem áður kemur fram, taldi bygginganefnd engin tormerki á byggingu þarna. Steindór starfrækti verkstæði sitt þarna og bjó ásamt fjölskyldu sinni, en eiginkona hans var Sigurbjörg Sigurbjarnardóttir, fædd og uppalin í Öxnadal. Verkstæðishúsið eða smiðjan norðan við stendur við við Kaldbaksgötu 2 og mun byggt af Steindóri og hans mönnum um 1940. Steindór Jóhannesson lést 1951, en þá hafði sonur hans, Steindór tekið við framkvæmdastjórn. Þess má geta, að Vélsmiðja Steindórs er enn starfrækt eftir 105 ár og er eitt elsta rótgrónasta málmiðnarfyrirtæki landsins. Sl. tæpa fjóra áratugi hefur fyrirtæki haft aðsetur við Fjölnisgötu, utarlega í Glerárþorpi, en hér var vélsmiðjan starfrækt allt til ársins 1981, eða í hálfa öld. Strandgata 51 og Kaldbaksgata 2 hafa hýst ýmsa starfsemi, en lengst af málmiðnað hvers konar. Framhúsið, þ.e. Strandgata 51 hefur lengst af verið skrifstofurými og íbúðir á efri hæð en smiðja í bakhúsinu við Kaldbaksgötu. Nú er starfrækt þarna blikksmiðjan Blikk- og tækniþjónustan og hefur verið um árabil. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út. Myndin er tekin þann 21. júní 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 639, 21. okt. 1929. Fundargerðir 1931-35. Fundur nr. 665, 30. júní 1931.

Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 795, 15. apríl 1937.

 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 582
  • Frá upphafi: 420835

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 475
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband