27.1.2016 | 21:18
Hús dagsins: Bjarmastígur 1
Oddeyrargata er nokkuð löng og brött gata sem skásker Brekkuna ofan Miðbæjar. Hún tengist Þingvallastræti að ofan og mótum Gránufélagsgötu og Hólabrautar að neðan, en Brekkugatan sker götuna örfáum metrum ofan við Gránufélagsgötu. Nokkrar þvergötur liggja út frá Oddeyrargötu að vestan og upp á Brekku. Efst er Lögbergsgata, þá Hamarstígur og neðst er Krabbastígur. (Þarna tel ég Brekkugötu ekki með, en síðast talda gatan er fáeinum húsalengdum ofan við hana). En þó að afleggjarar séu þrír út frá Oddeyrargötunni milli Þingvallastrætis og Brekkugötu er göturnar aðeins tvær, það er Oddagata og Bjarmastígur. Bjarmastígur liggur semsagt í vinkil ofan Brekkugötu og neðan Oddeyrargötu og tengist síðarnefndu götunni í báða enda. Á neðra horni gatnanna er vel gróin lóð og þar stendur reisulegt steinhús frá upphafi 4.áratugarins, en það er Bjarmastígur 1.
Um upprunasögu Bjarmastígs 1 er það að segja að skv. Jónsbók eru það Gunnar Jónsson og Eggert Melsteð sem fá byggingarleyfi á horni austan Oddeyrargötu og vestan Bjarmastígs, og má þá bókun finna í fundargerðum bygginganefndar frá 25.september 1930. Fá þeir leyfi til að reisa steinsteypt hús, 7,85x9,40m auk tveggja útbygginga. Á teikningum Halldórs Halldórssonar að húsinu er húsið aftur á móti sagt hús Péturs Ólafssonar en nafn hans yfirstrikað og búið að rita þar nafn Jón C.F. Arnesen konsúls. Vorið 1931 er hann orðinn eigandi hússins og fær leyfi til að breyta húsinu skv. framlagðri teikningu- sem er einmitt teikningin sem varðveist hefur og er aðgengileg gegn um tengilinn hér að framan. Sumarið 1932 fær Jón Arnesen leyfi til að reisa viðbótarbyggingu vestan á húsið, 4x1,8m og teikningarnar að þeirri breytingu hafa einnig varðveist. Bjarmastígur 1 er steinsteypuhús,tvílyft með háu risi og kvisti við suðurgafl vestan megin. Svalir eru framan á kvisti og undir þeim lítil bakbygging sem nær út fyrir horn hússins. Á norðurgafli er einnig stigabygging, lítið eitt mjórri en húsið. Þá er einnig kvistur með hallandi þaki á framhlið. Krosspóstar eru í gluggum en þakið skífuklætt. Á lóðinni stendur einnig steinsteyptur bílskúr, byggður 1957. Á teikningum er húsið að því er virðist einbýli með eldhúsi og stofum á jarðhæð og herbergjum á sk. stofuhæð en ris er óinnréttað, að öllum líkindum hugsað sem geymsluloft. Bjarmastígur 1 er stórbrotið og skemmtilegt hús, traustlegt og í góðu standi. Þakskífan gefur húsinu að mörgu leyti skemmtilegan svip, sem og kvistir (ekki eru þeir þó kynlegir ) .
Samkvæmt Húsakönnun sem Akureyrarbær lét framkvæma 2014 (síða 104 í pdf-skjali) fyrir þetta svæði er húsið sagt nánast óbreytt frá upphafi en ekki talið hafa varðveislugildi umfram önnur hús í Bjarmastíg. Lóðin er vel gróin og nánast hægt að tala þar um lítinn skóg. Húsið og trjágarðurinn er til mikillar prýði í umhverfinu en raunar er það svo að nokkra mánuði á ári sést húsið trauðla fyrir laufskrúði. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndirnar með færslunni eru teknar 10.jan. 2016, 8. og 28.október 2015 og 18.ágúst 2015 en þann dag lagði ég upp í myndagöngutúr um Brekkugötu, Bjarmastíg og Gilsbakkaveg. Komst ég þá að þeirri niðurstöðu, að bíða yrði vetrar til að ná húsinu á mynd.
Trjálundurinn á Bjarmastíg 1, hinar ýmsu árstíðir :
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35;
Fundur nr. 635, 25.sept. 1930.
Fundur nr. 661, 4.maí 1931
Fundur nr. 680, 8.ágúst 1932. Óprentuð heimild, vélritað afrit varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2016 | 16:40
Hús dagsins: Brekkugata 7
Brekkugötu 7 reisti Sveinn Sigurjónsson kaupmaður sumarið 1903, en byggingaleyfi fékk hann 8.júní það ár. Skyldi húsið standa 10 álnir norðan við hús Guðmundar Ólafssonar þ.e. Brekkugötu 5. Fékk hann leyfi til að reisa einloptað hús 14x10 al. að stærð en fjórtán álnir útleggjast sem ca. 8,8m og 10 álnir sem 6,6m. Ekki er ljóst hvort húsið var einlyft í upphafi en mjög fljótlega, eða innan 3 ára frá byggingu hefur húsið verið hækkað um eina hæð- og fengið það lag sem það nú hefur. Húsið sést nefnilega á ljósmynd sem tekin er frá svipuðum stað og síðar varð Bjarmastígur og er sögð tekin á bilinu 1903-06. Myndina má m.a. sjá á bls. 174 í bókinni Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs eftir Steindór Steindórsson. Þar má líka sjá, að í upphafi hefur þetta hús og Brekkugata 3 verið mjög svipuð að gerð og í útliti en síðarnefnda húsið tók miklum breytingum á 3. og 4.áratugnum.
En Brekkugata 7 er tvílyft timburhús með lágu risi á háum steyptum kjallara. Á bakhlið, við suðurgafl er inngönguskúr eða stigabygging. Veggir og þak hússins eru bárujárnsklædd og krosspóstar eru í gluggum en í upphafi var húsið panelklætt. Sveinn Sigurjónsson bjó í húsinu og verslaði um nokkurt árabil og gaf þarna út eða afgreiddi blaðið Nýjar Kvöldvökur. Árið 1922 var geymsluhús byggt á lóðinni, sem enn stendur. Þá er einnig steinsteypt viðbygging við kjallara með verslunarglugga sunnan við húsið og tengist hún næsta húsi, Brekkugötu 5. Elstu teikningar sem varðveist hafa af húsinu eru raflagnateikningar frá 1923 eftir óþekktan höfund. Þar má sjá að í upphafi hafa verið tröppur á framhlið, gengið upp beggja vegna. Þarna stofnaði Soffía Zophoníasdóttir garðyrkjustöðina Flóru en síðar tók Jón Rögnvaldsson, garðyrkjufrömuður frá Fífilgerði við rekstri stöðvarinnar. Húsin að Brekkugötu 7, framhús og bakhús hafa hýst ýmsa starfsemi í gegn um tíðina: Þegar heimilisfanginu er slegið inn á timarit.is koma ríflega 1000 niðurstöður. Þar má nefna Verslunina Drangey, Rammagerðina, Sparisjóð Glæsibæjarhrepps og á fyrsta áratug þessarar aldar var tölvuleikjasalurinn Pytturinn starfræktur þarna í kjallaranum. Í dag er húsið parhús og (telst raunar 7a og 7b) með tveimur íbúðum og hefur verið svo líkast til frá upphafi. Í viðbyggingunni sunnan við eru Vinstri grænir með skrifstofur. Brekkugata 7 er skemmtilegt og látlaust bárujárnsklætt timburhús og virðist lítið breytt frá upprunalegri gerð. Haustið 1994 kviknaði í húsinu og skemmdist það töluvert en það var lagfært og hefur þ.a.l. hlotið algjöra endurnýjun að innan. Það sem helst setur svip á húsið að mínu mati er áberandi sjöa framan á húsinu og hefur hún prýtt húsið árum saman. Líklega eru fá hús sem bera númer sitt jafn áberandi og Brekkugata 7. Þessi mynd er tekin þann 18.ágúst 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 249, 8.júní 1903. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Heimildir á timarit.is: sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2016 | 09:46
Hús dagsins: Brekkugata 5b
Brekkugata 5b er hús sem lætur ekki mikið yfir sér, enda stendur það í porti á bakvið tvö hærri hús. En húsið reisti Guðmundur Ólafsson snikkari í Brekkugötu 5 árið 1905. Hann fékk leyfi til að reisa bakhús á lóð sinni, 10x6al (u.þ.b. 6,6x4m). Mælt var fyrir um að húsið væri í sömu línu og framhús og með safngryfju steinsteyptri norðan við, sem ekki mátti ná lengra norður en jafnt íbúðarhúsi. Fjarlægð milli húsa skyldi vera 26 álnir eða um 15metrar. En Brekkugata 5b er einlyft timburhús á háum kjallara eða jarðhæð með lágu risi. Lóðrétt panelklæðning er á veggjum en sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Líklega hefur húsið í upphafi verið geymslu eða verkstæðishús í upphafi en þarna eru ekki skráðir íbúar í Manntali 1910. Árið 1920 búa í húsinu sex manns, Sigurlína Baldvinsdóttir og Davíð Einarsson ásamt tveimur börnum þeirra, Karli og Indíönu og tengdasyni, Sigurjóni Benediktssyni. Auk þeirra er leigjandi, Rósa Illugadóttir. Elsta heimildin um Brekkugötu 5b sem finnst á timarit.is er frá febrúar 1937, auglýsing frá Kristjáni S. Sigurðssyni um spunavél til sölu. Ég sé ekki auglýsingar um neina verslun eða þjónustu í húsinu við uppflettingu í þeim nærri botnlausa sarpi sem timarit.is er. En ljóst er að búið hefur verið í húsinu sl. 100 árin eða svo og í dag er ein íbúð í húsinu. Húsið var allt tekið til gagngerra endurbóta árið 1994 enda virðist húsið í góðu standi eða sem nýtt. Þá mun þaki hússins haf verið breytt úr einhalla þaki í lágt ris. Þessi mynd er tekin þ. 18.ágúst 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 286, 28.ágúst 1905. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2016 | 15:58
Hús dagsins: Glerárgata 5
Á bakvið hinn valinkunna Sjalla standa tvö sambyggð timburhús, sem snúa hvort í sína áttina. Nyrðra hús snýr N - S en syðra húsið A-V. Hér er um að ræða Glerárgötu 5. Glerárgata var í upphafi 20.aldar ein af þvergötunum norður úr Strandgötu líkt og t.d. Lundargata, Norðurgata og Grundargata. Vitaskuld er hún enn í dag ein af þvergötum Strandgötu en með umtalsvert breyttu sniði því sl. 35 ár eða svo hefur Glerárgatan verið fjögurra akreina hraðbraut og gatan hluti af Þjóðvegi 1 gegn um Akureyri. Við þær framkvæmdir voru fjölmörg hús sem stóðu neðst við götuna rifin en meðal þeirra sem enn standa er hús nr. 5.
Glerárgata 5 er sem áður segir tvö sambyggð hús. Samkvæmt Fasteignaskrá er húsið sagt byggt árið 1900 en húsið kemur ekki fyrir í bókunum bygginganefndar fyrr en tíu árum síðar. EN árið 1910 fékk Bjarni Einarsson að reisa fjós og heyhlöðu á baklóð milli Glerárgötu og Túngötu, 10x11 álnir [ innskot: Áln eða alin er tæpir 63 cm, þ.a. grunnflötur hefur verið um 6,6x7,2m] að stærð, portbyggt með risi og sje austurhlið paralell með húslínunni að vestanverðu við Glerárgötu (Bygg.nefnd Ak. 1910:360). Bygginganefnd þótti einnig ástæða til að taka fram að ekki væri heimilt að girða með gaddavír. Hér er um að nyrðra húsið. Sextán árum síðar fær Bjarni leyfi til reisa geymsluhús sunnan við svonefnt Litla-Rússland, járnklætt á steinsteyptum kjallara, 9,4x6,3m. En þetta heiti, Litla- Rússland var þá komið á nyrðra húsið og enn í dag eru þekkja margir þessi hús þekkt undir því heiti. Samkvæmt þessu mun syðra húsið hafa verið byggt 1926 og þessi samstæða fengið það lag sem hún hefur nú.
En hvers vegna þetta ósamræmi milli Fasteignaskrár og bygginganefndar ? Mér detta í hug tvær ástæður. Annars vegar sú, að húsið hafi einfaldlega verið löngu risið þegar sótt var um byggingaleyfi. Það var raunar ekkert óalgengt nokkrum áratugum fyrr; í upphafi byggðar á Oddeyri, að hús væru reist og byggingarleyfi fengið í framhaldi af því, svona formsins vegna. Og líkast til var þetta enn minna mál þegar um var að ræða gripahús. Hitt gæti verið tilfellið að Bjarni hafi flutt hús, sem byggt var 10 árum fyrr, annars staðar frá á þessa lóð.
En Glerárgata 5 er semsagt timburhús á háum steinsteyptum kjallara eða jarðhæð. Nyrðra húsið er með háu risi og löngum en lágum kvistum með hallandi þaki báðu megin á þekja. Syðri hluti er aftur með lágu og aflíðandi risi. Í gluggum hússins eru krosspóstar. Bárujárn er á þaki en veggir bárujárns og timburklæddir. Húsin voru upprunalega reist sem geymslu- og gripahús en þarna hafa hinsvegar verið m.a. íbúðir, fasteignasala og um árabil var trésmíðaverkstæði rekið í húsinu. Þannig er ljóst að húsið hefur þjónað hinum ýmsu hlutverkum. Nú er íbúð á efri hæð nyrðra hússins en syðra húsið er að ég held nýtt sem geymsla. Húsið er líkast lítið breytt frá upprunalegri gerð, a.m.k. að utanverðu. Þess má geta að samkvæmt deiliskipulagi fyrir hinn svokallaða Sjallareit er gert ráð fyrir að húsið víki, en þegar þetta er ritað standa húsin enn á sínum stað. Myndin er hins vegar tekin 19.apríl 2014 eða fyrir nærri tveimur árum.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 360, 27.júní 1910.
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 587, 7.ágúst 1926.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók (skrá yfir byggingarleyfi og önnur gögn varðandi fasteignir á Akureyri til ársins 1933).
Öll þessi rit eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 28.2.2017 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2016 | 09:19
Skátagilið; sagan á bakvið nafnið.
Ekki eru mörg örnefni kennd við skáta. En ofan við Miðbæinn á Akureyri má hins vegar finna Skátagil. Gilið er eitt fjölmargra gilja og gildraga sem skera Akureyrarbrekkuna og jafnframt þeirra nyrst. Liggur það á að giska 70-80m norðan Grófargils eða "Listagilsins eða einfaldlega Gilsins" sem kallað er. Á milli þessara gilja er melbrekkutunga - sem mér skildist einhvers staðar, einhvern tíma að kallaðist Skessunef. Þar liggja göturnar Oddagata og Gilsbakkavegur en á norðurbarmi Skátagils er gatan Bjarmastígur. Ljóst er að þetta nafn Skátagil getur ekki verið mjög fornt þar eð Skátahreyfingin er rétt liðlega aldargömul. En við heimildaöflun í húsagreinar sl. sumar rakst ég á punkta í fundargerð Bygginganefndar sem líklega má rekja upphaf þessarar nafngiftar til.
Fyrst ber að nefna fundargerð vorið 1933 á fundi nr. 700. Þar lagði nefndin til að " [...] það sem bærinn á af gilinu milli Oddagötu og Bjarmastígs verði girt fallega af, ræktað og prýtt[...] " (Bygg.nefnd. Ak, 1933:700). Segir svo fátt af þessu ágæta gili fyrr en tæpum tveimur árum síðar; nefnilega á fundi Bygginganefndar þann 14.febrúar 1935. Var þá tekið fyrir erindi sem Skátasveitin Fálkar lagði inn fyrir nefnd þar sem þeir sækja um að taka hluta þessa gils "í fóstur" þ.e. sjá um ræktun og umhirðu skákar þessarar fyrir bæinn. Á móti fékk skátasveitin, sem Jón Norðfjörð veitti forystu, að reisa þarna tjaldbúðir og hafa þarna e.k. athafnasvæði. Líklegast þykir mér að Fálkar hafi strax um vorið hafist handa við útplöntun og ræktun. Nú þekki ég ekki hvort einhver þeirra trjáa sem fálkar plöntuðu eru enn uppistandandi í gilinu en vel er þetta svæði gróið. Elsta heimildin sem ég finn á timarit.is, þar sem Skátagilið er nefnt er frá vorinu 1949, úr Alþýðumanninum 24.maí 1949.
Ég fæ ekki séð að gilið hafi borið annað nafn áður. Í bókunum Bygginganefndar er aðeins talað um gilið eða spilduna á milli þessara tveggja gatna, Oddagötu og Bjarmastígs. Í öndvegisriti Steindórs Steindórssonar, er Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs er heldur ekki minnst á nokkurt annað nafn á Skátagili.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 700, 20.maí 1933, Fundur nr. 735, 14.feb. 1935. Óprentað og óútgefið. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík, Örn og Örlygur.
Svipmyndir úr Skátagilinu með þessari færslu eru teknar á góðviðrisdegi haustið 2015. Á efstu mynd er horft upp gilið af göngubrúnni, sem tengir Oddagötu og Bjarmastíg neðst í fyrrnefndu götunni.
Að neðan: Lerkitré mikið neðarlega í Skátagilinu og handrið fyrrgreindrar brúar.
Neðst í Skátagilinu stendur Hafnarstræti 107b; Ingimarshús og þar er rekið hið stórskemmtilega kaffihús Kaffi Ilmur.
Bloggar | Breytt 12.1.2016 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2016 | 12:36
Hús dagsins: Brekkugata 4
Mér finnst svolítið sniðugt að fyrsta "Hús dagsins" á þessu nýja ári og birtist á 4.degi ársins sé einmitt númer 4...
Brekkugata 4 er eitt fjölmargra húsa sem Sveinbjörn Jónsson teiknaði á Akureyri á 3. og fyrri hluta 4.áratugs síðustu aldar. Húsið byggði Kristján Kristjánsson árið 1932. Hann var kallaður Kristján bílakóngur en hann var forstjóri BSA; Bifreiðastöðvar Akureyrar. Brekkugata 4 er reisulegt steinsteypuhús, tvílyft með flötu þaki. Það er nokkurn vegin ferningslaga að grunnfleti en á suðvesturhorni er sneiðingur og einnig er skúrbygging á gagnstæðu (þ.e. NA) horni á bakhlið. Steyptir þakkantar með kassalaga kögri og lóðréttar súlur milli gluggapara og dyra setja svip á húsið. Gluggapóstar eru einfaldir þverpóstar með fjórum smárúðum í efri fögum. Inngangur er á miðju framhliðar og steyptar tröppur að honum en einnig eru inngangar í kjallara og á viðbyggingu bakatil. Á bakhlið eru svalir á annarri hæð og þar eru miklar stáltröppur sem liggja þangað ofan af þaki, líklega um einhverskonar neyðarútgang að ræða.
Upprunalega var húsið reist sem íbúðarhús en síðastliðna áratugi hefur húsið hýst ýmsar skrifstofur og starfsemi; vinnumiðlun, Alþýðusamband Norðurlands, lögmannsstofur og fasteignasölur svo fátt eitt sé nefnt. Síðustu ár hefur gistiheimili verið rekið í húsinu, nánar tiltekið Gistiheimilið Hrafninn. Húsið er í mjög góðu standi og lítur vel út, og skv. Húsakönnun sem unnin var um Miðbæjarsvæðið og nágrenni árið 2014 er húsið sagt nánast óbreytt frá upphafi. Þá er tekið fram að húsið hafi ekki sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús í nágrenninu. Það er þó nokkuð árstíðabundið hvenær vegfarendur neðanverðrar Brekkugötu geta barið framhlið hins glæsta steinhúss á Brekkugötu 4 augum. Lóðina prýða nefnilega stór og gróskumikil reynitré og yfir hásumarið hverfur framhliðin nánast bakvið laufskrúð. Trén hljóta að vera áratugagömul- jafnvel litlu yngri en húsið sjálft. Myndin sem sýnir trjálundinn geðþekka við húsið Brekkugötumegin var tekin 24.júlí 2015 en hin myndin er tekin 15.sept. sama sumar af bílaplaninu bakvið Landsbankann.
Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson (1996). Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt 5.1.2016 kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2016 | 17:46
Nýjárskveðja
Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs 2016 með þökk fyrir það liðna.
Myndin er tekin fyrr í dag, 1.jan 2016, á svipuðum slóðum og jólamyndin sem ég birti á aðfangadag- þ.e. á Höfðanum. Á þeirri mynd var horft norður til Oddeyrar en hér er Innbærinn- og raunar hin eiginlega Akureyri í forgrunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 137
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 496
- Frá upphafi: 446087
Annað
- Innlit í dag: 109
- Innlit sl. viku: 346
- Gestir í dag: 109
- IP-tölur í dag: 107
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar