28.10.2023 | 22:08
Eyfirskar svipmyndir. Sólríkir haustdagar í fremri byggðum.
Ásamt því að viða að mér fróðleik og skrifa um gömul mannvirki eru hjólreiðar eitt mitt helsta tómstundagaman. Þar hef ég tök á því að sameina samgöngumáta, áhugamál og líkamsrækt. Einhvern veginn hef ég ekki náð tökum á því að fara í ræktina, það er hlaupa á brettum eða lyfta lóðum o.s.frv. í yfirbyggðum líkamsræktarstöðvum heldur fellur mér betur, að stunda mína hreyfingu utandyra. En ég hefði eflaust gott af hinu. Á góðviðrisdögum veit ég fátt betra en að stíga á fákinn og bruna af stað, helst eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Þá er ævinlega stefnt fram í Eyjafjarðarsveit en fram að Hrafnagili liggur stórfínn göngu/hjólastígur og ágætt að komast á Eyjafjarðarbrautirnar af honum. Ég hætti mér sjaldan í hina áttina, þ.e. út með Kræklingahlíð og áleiðis til Dalvíkur (eða Reykjavíkur) en mér stendur nokkur stuggur af því að hjóla á þjóðvegi 1. Í þessum hjóltúrum er myndavélin ævinlega með í för en það er líka eitthvað, sem ég hef unun af, að taka myndir af umhverfinu. Í svona hjóltúrum sameinast þannig ótalmörg hugðarefni, hjólreiðar, ljósmyndun, líkamsrækt, húsa-og mannvirkjasaga (ég tek oft myndir af gömlum húsum og brúm á þessum ferðum) og náttúrufræði því Eyjafjarðarsvæðið er ríkt af hinum ýmsu náttúrufyrirbrigðum, sem vert er að gefa gaum. En hér koma nokkrar svipmyndir, flestar teknar á hjóltúrum um nærsveitir Akureyrar laugardagana 7. og 21. október sl.
BYGGING LANDSINS- í bókstaflegri merkingu!
Ísland er myndað fyrir tilstuðlan eldvirkni síðustu 20 milljón ára eða svo. Elstu hlutar landsins eru Austfirðir og Vestfirðir en yngstu hlutarnir eru á Reykjanesskaga og við Kröflu. Eyjafjarðarsvæðið er talið um 7-10 milljón ára gamalt. Þar hefur verið óskapleg eldvirkni en það sést á því, að óvíða er að finna hærri fjöll, Tröllaskaginn nær mest rúmlega 1500 metra hæð í vestanverðum Eyjafirði, nánar tiltekið í hátindi Kerlingar. Hæð íslenskra fjalla ræðst að mestu leyti af því, hversu mikið efni hefur hlaðist upp.
Kerling, séð annars vegar frá Finnastaðaá og hins vegar af Eyjafjarðarbraut eystri. Bærinn fyrir miðju á myndinni til hægri heitir Alda. Strýtulaga hnjúkurinn á myndinni til vinstri kallast Jómfrú.
Þeir sem séð hafa klettabelti í fjöllum kunna að hafa veitt því athygli, að þau eru oftar en ekki í mörgum lögum. Mætti líkja þeim við lagköku (randalín) þar sem klettaböndin eru eins og botnarnir en malar- og jarðvegslög eins og sultan. Þarna er um að ræða hraunlagastafla frá myndun landsins. Á myndinni fyrir neðan má sjá allt að 40 slík lög frá efstu skriðum upp af fjallsbrúnum í fjallinu Tröllshöfða framarlega í Eyjafirði. Þarna er semsagt um að ræða hraunlög sem runnið hafa hvert ofan á öðru í fyrndinni. Á milli hvers gætu hafa liðið fáein ár en í flestum tilvikum eru líklega hundruð eða þúsundir ára milli hraunlaga. Á þeim tíma hefur myndast gróður og jarðvegur, sem síðan hefur orðið undir nýjum hraunum; þar eru komin millilögin.
Þarna hefur verið gríðarleg framleiðsla á hraunum, sem hlaðið hefur upp meira en kílómetra þykkum stafla, mörg þúsund ferkílómetra að flatarmáli. Eldvirkni byggði upp en síðar kom að roföflunum, þar sem mest munaði um ísaldarjökla. Þeir skópu dali og firði og þegar stuðnings þeirra naut ekki við, áttu fjallshlíðar til að gefa sig. Þannig var það t.d. í tilfelli Möðrufellsfjalls:
Í haustmorgunsólinni má mjög greinilega sjá hraunlagastaflann en aðeins á hluta fjallsins. Þannig er nefnilega mál með vexti, að fyrir einhverjum þúsundum ára var þarna ægilegt framhlaup sem "opnaði á" hraunlagastaflann sem þarna blasir við sem mikið hamrastál. Og það sem meira er, þetta hefur gerst tvisvar, því greina má aðra "hillu" eða skál ofar í fjallinu. Framhlaup þetta myndaði hólaþyrpingu, sem alsett er grettistökum og kallast Möðrufellshraun. Ólafur Jónsson (1957: 179-180) telur, miðað við athugun öskulaga, að neðra berghlaupið hafa átt sér stað fyrir 2500-3000 árum en það efra fyrir um 5-6000 árum.
ÝMISLEGT, EITT OG ANNAÐ
Við Sólgarð stendur kýrin Edda. Hún er stórvirki þúsundþjalasmiðsins Beate Stormo í Kristnesi. Edda var flutt á þennan stað sl. sumar og er nú sérlegt kennileiti á þessum slóðum. Það var auðvitað ekki hægt annað, en að fá mynd af sér með henni þegar við Árni Már Árnason vorum á ferðinni um fremri byggðir Eyjafjarðar þ. 8. ágúst sl.
Horft af brúnni. Nánar tiltekið brúnni við Halldórsstaði, fremstu brú yfir Eyjafjarðará og jafnframt þá einu sem er á einkavegi. Halldórsstaðir er jafnframt eini bærinn í Eyjafirði, þar sem heimreiðin liggur yfir Eyjafjarðará.
Horft NIÐUR af brúnni
Liðið haust hefur verið sérlega blíðviðrasamt. 21. október var veðrið líkt og á sumardegi en það er ekki sjálfgefið, að á þessum tíma árs viðri fyrir langhjólreiðar. (Það er reyndar ekki sjálfgefið yfir hásumarið heldur). Hér má sjá Hólavatn. Sumarbúðir KFUM og K nokkurn veginn faldar í trjágróðri nærri miðri mynd.
Ef marka má skiltið, má finna Sprengisand þarna í skógarrjóðrinu . Myndin er tekin við Hólsgerði, fremsta byggða ból Í Eyjafirði. Þangað eru 46 km frá Akureyri. Frá Hólsgerði eru líka um 290 kílómetrar til Selfoss! Það er, ef farið um Laugafell, Nýjadal, Skeið og Þjórsárdal.
Þessi mynd er tekin við heimreiðina að Villingadal. Sú heimreið er líklega með þeim lengri á landinu en hún er rúmir 2 kílómetrar og liggur um syðstu hluta Leyningshóla. Áin fyrir miðri mynd er Torfufellsá, en til vinstri á mynd eru einmitt hlíðar Torfufellsfjalls. Snævi þakta fjallið í miðjunni mun vera Leyningsöxl en um hana klofnar Torfufellsdalur í Svardal í vestri (vinstra megin á mynd) og Leyningsdal í austri. Raunar heitir dalurinn Torfufellsdalur austanmegin og Leyningsdalur vestanmegin.
VEGIR OG BRÝR
Fremsta brúin á Eyjafjarðarbraut eystri er yfir Torfufellsá. Þaðan eru 43 km til Akureyrar.
Þegar það spurðist út, að ég hyggðist gefa út bók um brýr yfir Eyjafjarðará var ég mikið spurður, hvort Hólabrú yrði með. En í bókinni eru aðeins þær brýr, sem yfir ána liggja á því herrans ári 2023. Hólabrú var mjó göngubrú; hengibrú úr timbri, plankar með sem héngu á vírum á milli árbakkana á merkjum Ártúns og Skáldsstaða. Brúin var byggð 1948 en tekin niður skömmu eftir aldamótin. Enn standa uppi af henni tveir staurar á austurbakkanum.
Elstu brýr yfir Eyjafjarðará, sem enn eru í notkun, eru jafngamlar, byggðar 1933. Um er að ræða Stíflubrú við Möðruvelli og Hringmelsbrú eða Bogabrúin við Sandhóla. Þessar myndir eru teknar 28. ágúst 2022.
Yfir eitt hrikalegasta gljúfur Eyjafjarðarsveitar, Munkaþverárgil, liggur hins vegar ein elsta, ef ekki allra elsta brú sem enn er í notkun á þjóðvegi. Hún er að stofni til frá 1913 en var endurbyggð 1958.
(Verðum við ekki að hlýða á "Bridge over troubled water" (Brú yfir ólgandi vatn) þeirra Simon og Garfunkel fyrst við erum að spá í þessar brýr).
Og ætli það sé þá ekki ágætt að ljúka þessari myndasýningu með nokkrum myndum, sem teknar eru á Eyjafjarðarbraut vestri og Hólavegi, undir yfirskriftinni "Country Roads" (Sveitavegir) John Denver.
Þar sem þessi færsla er að breytast úr myndasýningu í einhvers konar útvarpsþátt er kannski allt í lagi að deila með lesendum lagi, sem mér þykir alveg óskaplega gaman að hlusta á, þegar ég er á ferðinni um sveitavegina; "Fugitive" flutt af Merle Haggard. Að hafa þetta lag í "Bluetooth" hátalara, hangandi á stýrinu í bland við niðinn af dekkjunum um Eyjafjarðarbrautirnar á 25-30km hraða er eiginlega ólýsanlegt!
Bloggar | Breytt 8.12.2023 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2023 | 20:31
Hús dagsins: Grundargata 3
Sum hús hafa breyst meira en önnur gegnum tíðina. Grundargata 3 á Oddeyrinni tilheyrir líklega fyrrnefnda hópnum en tíðin sú slagar reyndar hátt í hálfa aðra öld í því tilfelli...
Grundargata 3 er eitt af elstu húsum Oddeyrar, en það var reist 1885-86 af Einari Sveinssyni og Jónatan Jósepssyni. Það var mögulega síðla í ágúst árið 1885 að Bygginganefnd kom saman á Oddeyri í tilefni af beiðni Einars Sveinssonar um leyfi til að byggja hús á lóð sem hann hafði fengið fyrir norðan hús Ólafs Jónssonar. Dagsetningu vantar í þessa tilteknu fundargerð bygginganefndar, en næstu tveir fundir á undan eru skráðir 20. og 24. ágúst, 1885. Húsið átti að vera 12x9 álnir (u.þ.b. 7,6x5,7m), 10 álnir frá grunni að úthýsi Ólafs og í beinni línu með íbúðarhúsi og hesthúsi hans að austan. Húsið átti að snúa frá norðri til suðurs. Á næstu árum og áratugum byggðust fleiri hús við götuna í þessari sömu línu með húsi Ólafs og fékk sú gata nafnið Grundargata. Umrætt hús Ólafs Jónssonar brann til grunna árið 1908.
Grundargata 3 er tvílyft timburhús, nyrsti hluti þess steinsteyptur, á lágum kjallara með lágu risi. Framhlið og stafnar eru múrhúðaðir en bárujárn á veggjum bakhliðar. Miðhluti hússins er eilítið inndreginn að aftan en síðari tíma viðbyggingar skaga örlítið út fyrir upprunalegan grunnflöt að aftan, útskot á suðurenda nokkru lengra. Einfaldir þverpóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki.
Í upphafi var hús Einars Sveinssonar, síðar Grundargata 3, töluvert öðruvísi en nú og lag þess líkast til ekki óáþekkt næsta húsi, Grundargötu 5, (sem var reyndar byggt rúmum áratug síðar). Það er, einlyft timburhús á lágum kjallara með háu risi. Einar Sveinsson hefur ekki átt húsið lengi, mesta lagi í fimm ár, en húsið var frá upphafi tveir eignarhlutar. Í Brunabótavirðingu frá 1917 er Jónatan Jósepsson, sem byggt mun hafa norðurhlutann og bjó þar lengst af í norðurhluta hússins, einnig sagður hafa byggt suðurhluta þess. Það gæti jafnvel verið, að Jónatan hafi keypt eða tekið við byggingaleyfi Einars eða framkvæmdinni. Árið 1890 kallast húsið Jonathanshúsið og Edvaldshús og eru eigendur þess Jónatan Jósepsson, titlaður húsbóndi og erfiðismaður í manntali og Edvald Jónsson húsbóndi og beykir. Sá síðarnefndi mun hafa átt suðurhlutann. Í téðu manntali árið 1890 búa alls fjórtán manns í Jónatanshúsinu og Edvaldshúsi á Oddeyri, fjölskyldur þeirra Jónatans og Edvalds. Þess má geta, að árið 1890 báru tveir íbúar hússins titilinn erfiðismenn, en auk Jónatans var Ágúst Jónsson, 26 ára húsmaður hjá Eðvaldi Jónssyni, einnig titlaður erfiðismaður.
Jónatan Jósepsson (1854-1931) var múrari og mun lengi hafa verið sá eini í bænum. Hann var fæddur og uppalinn á Hólum í Saurbæjarhreppi. Á meðal barna Jónatans og konu hans, Jónínu Guðmundsdóttir (1854-1943) frá Akurseli í Kelduhverfi , var sonurinn Tryggvi. Hann var fæddur 15. apríl 1892, líkast til í þessu húsi. Tryggvi lærði múriðnina af föður sínum og hlaut meistararéttindi í þeirri iðn. Hann var einn af mikilvirkari húsateiknurum á Akureyri og á heiðurinn af mörgum húsum frá fyrri hluta 20. aldar m.a. á Oddeyri og neðri hluta Brekkunnar. Stór hluti Ægisgötunnar, heilsteypt röð einlyftra steinhúsa með valmaþaki og horngluggum, eru verk hans.
Í byrjun árs 1913 fær þáverandi eigandi suðurhlutans, Steinn Jóhannsson leyfi til byggingar, jafnbreiða húsinu og 5 álnir að lengd. Ári síðar, eða snemma árs 1914, sækir Jónatan Jósepsson um að stækka sinn hluta til norðurs og sú viðbygging var úr steinsteypu. Bygginganefnd setur sem skilyrði, að Jónatan semji við eiganda nábúalóðarinnar norðan við, þar eð viðbyggingin virðist ná inn á hana. Einnig setti nefndin það skilyrði, að ekki væru dyr, gluggar eða önnur op á norðurveggnum. Ekki liggja fyrir lýsingar, en ljóst að þessi viðbygging var tvílyft með lágu risi.
Í brunabótamati árið 1916 er suðurhluta Grundargötu 3 lýst á eftirfarandi hátt: Einlyftur með háu risi á lágum kjallara, lítill skúr áfastur við bakhlið, sameiginlegur með húshlutunum og geymsluskúr við suðurstafn. Á neðri hæð austanmegin (framhlið) voru stofa og hálf forstofa en vestanmegin eldhús og forstofa. Á lofti voru þrjú herbergi og gangur. Húsið sagt 6,9x5,7m að grunnfleti. Norðurhluti er metinn í tvennu lagi, annars vegar upprunalega húsið frá 1885 sem er sagt einlyft með háu risi og kjallara, innra skipulag nokkurn veginn það sama og í suðurhluta, nema hvað í risinu er aðeins eitt herbergi og gangur. Þessi hluti hússins er sagður 5,6x3,8m. Svo virðist, sem breidd norðurhlutans sé mæld meðfram götu (N-S) en breidd annarra hluta hússins þvert á götustefnu (A-V). Þetta sést á því, að breidd suðurhlutans (5,7m) er nokkurn veginn jöfn lengd norðurhluta (5,6m). Steinsteypta viðbyggingin er sögð tvílyft íbúðarhús úr steinsteypu með lágu risi á lágum kjallara, 6,3x3,7m. Þar voru ein stofa, austanmegin og vestanmegin eldhús og forstofa. Á efri hæð tvær stofur og gangur. (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 234 og 235).
Árið 1920 fær Jóhann Steinsson leyfi til að byggja við suðurhlutann, ekki kemur þó fram í hverju sú viðbygging felst en fram kemur í Húsakönnun 1995 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 93) að þá hafi suðurhlutinn verið hækkaður, væntanlega til samræmis við nyrsta hluta hússins. Þá skagar syðsti hluti hússins eilítið út úr bakhlið upprunalega hússins, líkt og nyrsti hlutinn. Síðar var miðhlutinn hækkaður og húsið múrhúðað. Á tímabili var hluti norðurhluta hússins með háu risi og smáum kvisti en væntanlega fékk framhlið hússins núverandi útlit um 1964. Þá voru gerðar breytingar á húsinu, sem var í eigu Magnúsar Albertssonar, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Kemur þar fram að sá hluti hafi áður verið ein hæð og ris en ekki fullkomlega ljóst, hvort sú breyting sé þegar orðin eða hvort breytingarnar felist í því, að umræddur hluti sé hækkaður. Í téðri Húsakönnun frá 1995 kemur reyndar fram, að eftir 1920 hafi húsið allt verið orðið tvílyft og fengið það lag sem það enn hefur. Á ljósmynd frá 1931 má hins vegar sjá, að örlítil sneið af framhliðinni, líklega suðurhluti rishæðar upprunalega hússins, er með háu risi og kvisti. Það er allavega nokkuð ljóst, að oft hefur verið prjónað við Jónatans- og Eðvaldshúsið, sem byggt var 1885 og myndar nú nokkurs konar kjarna í Grundargötu 3.
Vegna mikilla breytinga hlýtur húsið ekki hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020 en er engu að síður hluti varðveisluverðrar heildar. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, en elsti hluti þess er í hópi allra elstu húsa Oddeyrar. Grundargata 3 er dæmi um hús, sem tekið hefur miklum breytingum og verið byggt í mörgum áföngum á mörgum áratugum. Miklar viðbyggingar og breytingar frá upphaflegri gerð hafa að öllu jöfnu áhrif á metin varðveislugildi húsa og teljast þá sjaldnast til tekna. En óneitanlega er það svo, að margviðbyggð og margbrotin hús eru ekkert síður áhugaverð. Margar og miklar viðbyggingar segja vissa sögu og oft skapa síðari tíma viðbyggingar viðkomandi húsum sérstöðu og gera þau í raun einstök. Myndirnar eru teknar 27. október 2023.
Tilgátuteikning höfundar af byggingaþróun Jónatans-og Edvaldshúss" eða Grundargötu 3. Á teikningunni er vitaskuld allir mögulegir fyrirvarar, t.d. varðandi kvisti, gluggapósta og dyrarskipan.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 70, 1885 (ódagsett). Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 374, 10. janúar 1913. Fundur nr. 387, 10. feb. 1913 Fundur nr. 476, 19. maí 1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2023 | 18:09
Hús dagsins: Ránargata 13 (áður Hafnarstræti 107)
Eftir síðustu grein um Gömlu Gróðrarstöðina hafði samband við mig Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ. Hann vann um tíma í Gróðrarstöðinni og ber húsinu vel söguna. Erindi hans var, að honum hafði áskotnast teikningar af Gróðrarstöðinni og koma því á framfæri að langafi hans, Guðlaugur Pálsson timbursmiður, hafi flutt inn efnið í húsið og stýrt byggingu þess. Þá muni nafn hans hafa sést letrað á fjalir inni í húsinu. Þannig var byggingameistari og mjög líklega hönnuður Gróðrarstöðvarinnar, Guðlaugur Pálsson. Þakka Jóni Birgi kærlega fyrir þessar ábendingar. En af Krókeyrinni færum við okkur á Oddeyrina...
Ránargata er ein þvergatnanna sem gengur norður frá Eiðsvallagötu á Eyrinni.Liggur hún samsíða og vestan við Ægisgötu en austan við Norðurgötu. Ránargata tók að byggjast uppúr 1930 en flest húsin við hana voru byggð á fimmta og sjötta áratugnum. Húsin eru flest nokkuð svipuð, tveggja hæða steinsteypt hús með lágum valmaþökum. En hús nr. 13, sem stendur á horninu við Eyrarveg sker sig dálítið úr. Það er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti, járnklætt á steyptum kjallara. Grunnflötur er um 16x8,70m. Byggingalagi þess svipar raunar mjög til elstu húsa Oddeyrar t.d. við Strandgötu, Norðurgötu og Lundargötu. Enda er um að ræða hús frá því skömmu fyrir aldamótin 1900, um hálfri öld eldra en nærliggjandi hús. Og það er aðflutt, stóð áður við Hafnarstræti 107, þar sem nú er aðsetur Sýslumanns og áður Útvegsbankinn.
Ránargötu 13, áður Hafnarstræti 107, reistu þau Júlíus Sigurðsson bankastjóri og kona hans Ragnheiður Benediktsdóttir árið 1897. Þess má geta, að hún var systir Einars Benediktssonar, skálds og athafnamanns. Húsið byggðu þau við fjöruborðinu í krikanum milli Oddeyrar og Bótarinnar. Var það eitt af fyrstu húsum sem risu á hinu langa og illfæra einskismannslandi er í þá daga aðskildi Akureyri og Oddeyri. Ekki var um neitt byggingarleyfi að ræða, enda segir í Jónsbók, að bygging hafi hafist áður en landið var lagt undir kaupstaðinn, en það var árið 1896. Var þá land Stóra-Eyrarlands á Brekkunni lagt undir lögsögu Akureyrarkaupstaðar. Fram að því tilheyrði brekkan milli Akureyrar (Innbæjarins) og Oddeyrar Hrafnagilshreppi, kaupstaðarlandið þannig í raun tvær hólmlendur inni í hreppnum. Það var hins vegar ekki fyrr en í febrúar 1897 að Júlíus keypti lóð milli Oddeyrar og Torfunefs með fyrirvara um nánari útmælingar. Það getur þó vel verið, að Júlíus hafi þegar hafið byggingu hússins árið áður enda þótt lóðin væri ekki í höfn formlega, en slíkt var ekkert einsdæmi. Á upphafsárum þéttbýlis á Oddeyri gátu meira að segja liðið nokkur ár frá því að hús var byggt og lóð var mæld út. Það var svo 6. apríl sama ár að lóðin var mæld út, 15 faðmar norður-suður og 22 faðmar austur-vestur. Söluverðið var 10 aurar á hverja fer-alin húsagrunns(63x63cm). Þá bættust við 10 aurar fyrir hvern faðm af annarri lóð, en höfum í huga að á þessum stað (þ.e. yst í Bótinni) var langt til næstu húsa árið 1897. Svo hæg voru heimatökin fyrir Júlíus, að stækka lóðina. Þá er rétt að geta þess, að ein alin er nálægt 63 centimetrum og faðmur var sagður 3 álnir (um 190cm). Þannig var lóð Júlíusar við Hafnarstræti 107 um 28x40m að stærð.
Júlíus Sigurðsson (1859-1936), sem fæddur var á Ósi í Hörgárdal, nam skipasmíðar hjá Snorra Jónssyni en við stofnun Gagnfræðaskóla á Möðruvöllum settist hann þar á skólabekk. Fékkst eftir það við barnakennslu, samhliða smíðum en réðst til Benedikts Sveinssonar (síðar tengdaföður Júlíusar) sýsluskrifara árið 1889. Þá fluttist hann til Akureyrar árið 1893 og gerðist þar amtsskrifari og amtsbókavörður. Þegar útibú Landsbankans var opnað á Akureyri árið 1902 var hann ráðinn útibústjóri og gegndi því starfi í nærri þrjá áratugi. Mestallan þann tíma, eða frá 1904-1931 var bankaútibúið starfrækt í Hafnarstræti 107. Þegar húsið var virt til brunabóta í lok árs 1916 var það sagt íbúðar- og bankahús einlyft með porti, kvisti og háu risi, á kjallara. Enda þótt húsið sé sagt bankahús er aðeins minnst á þrjár stofur og forstofur austanmegin (við framhlið) á neðri hæð, og tvær stofur, eldhús, búr og forstofu vestanmegin (við bakhlið). Væntanlega hefur útibúið verið starfrækt í einhverri stofanna. Á lofti voru alls sex herbergi, gangur og geymsla, en fimm geymslurými í kjallara. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Húsið var sagt járnklætt timburhús.
Þau Júlíus og Ragnheiður ræktuðu myndarlegan og gróskumikinn garð á suðurlóðinni og átti Ragnheiður fjós og dálítið tún í brekkunum bak við húsið og stundaði þar myndarbúskap og hafði karla í vinnu við hann. Það þótti dálítið sérstakt að konan sæi alfarið um búskapinn og segir Jón Sólnes (síðar ráðherra), sem vann um tíma í bankanum hjá Júlíusi, að Ragnheiður hafi yfirleitt ekki sést þegar hann heimsótti Júlíus. Hún var yfirleitt á kafi við bústörfin. Lýsandi fyrir það, var fleyg saga um tilsvar Júlíusar, þegar komið var nautið handa kúnum og hann einn heima við: Nú hvur andskotinn, nautið komið og Ragnheiður ekki heima! (Jón G. Sólnes (Halldór Halldórsson skráði) 1984: 22).
Júlíus lést árið 1936 og tveimur árum síðar flutti Ragnheiður í nýtt hús, sem hún hafði reist ofan við fyrrum tún sitt, við Bjarmastíg. Eignaðist þá Útvegsbankinn húsið við Hafnarstræti 107. Í febrúar 1953 birtist auglýsing frá Útvegsbankanum í bæjarblöðunum, þar sem húseignin Hafnarstræti 107 er boðin til sölu til niðurrifs og flutnings af lóð. Í maímánuði sama ár færir Bygginganefnd Akureyrar til bókar, að Karl Friðriksson og Jón Þorvaldsson fái aðra lóð vestan Ránargötu frá Eyrarvegi suður. Einnig, að þeir fái að flytja á lóðina gamla Íslandsbankahúsið, Hafnarstræti 107, þar sem ætlunin er að byggja það í sem líkustu formi og það er nú. Þurftu þeir að leggja fram teikningar, sem Jón Þorvaldsson gerði. Árið 1954 mun húsið hafa verið fullbúið á nýja staðnum. Nú ber heimildum raunar ekki saman, því í Sögu Akureyrar var það Árni Jakob Stefánsson sem kom að flutningi hússins ásamt Jóni Þorvaldssyni. Mögulega hefur Árni tekið við hlut Karls. En alltént voru Árni Stefán Jakobsson og fjölskylda hans búsett í húsinu eftir að það var orðið Ránargata 13. Húsið er nokkurn veginn í sömu mynd og þegar það stóð við Hafnarstræti nema hvað glugga- og dyraskipan hefur eitthvað verið breytt. En það er raunar ekki óalgengt þegar í hlut eiga hús á þessum aldri, óháð því hvort þau hafa verið flutt eða ekki. Í húsinu eru tvær íbúðir og mun svo hafa verið síðan húsið var flutt hingað.
Ránargata 13 er stórglæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Það setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt og nokkuð einstakt í götumyndinni enda miklum mun eldra hús og af allt annarri byggingargerð en nærliggjandi hús. Svo skemmtilega vill til, að gegnt húsinu, stendur langyngsta hús götunnar, Ránargata 14, sem byggt er 1985. Ránargata 13 er væntanlega aldursfriðað og hlýtur hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020. Það er ætíð æskilegra, ef hús verða að víkja, að þau séu flutt heldur en að þau séu rifin. Hið stórmerka hús þeirra Júlíusar Sigurðarsonar og Ragnheiðar Benediktsdóttur, sem víkja þurfti fyrir nýbyggingu Útvegsbankans, stendur enn með prýði og glæsibrag, þökk sé þakkarverðu framtaki stórhuga manna fyrir 70 árum síðan.
Myndirnar eru teknar þann 17. febrúar 2023.
Heimildir:
Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020 (minjastofnun.is)
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-53. Fundur nr. 1168, 18. maí 1953. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Halldór Halldórsson (1984) Jón G. Sólnes; segir frá viðburðaríkri og stormasamri ævi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óútg. varðv. á Hsksjs. Ak.
Jón Hjaltason (2004) Saga Akureyrar 4.bindi: Vályndir tímar. Akureyrarbær.
Steindór Steindórsson (1993) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Breytt 14.10.2023 kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.5.): 2
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 368
- Frá upphafi: 447926
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 227
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar