Eyfirskar svipmyndir. Sólríkir haustdagar í fremri byggðum.

Ásamt því að viða að mér fróðleik og skrifa um gömul mannvirki eru hjólreiðar eitt mitt helsta tómstundagaman. Þar hef ég tök á því að sameina samgöngumáta, áhugamál og líkamsrækt. Einhvern veginn hef ég ekki náð tökum á því að fara í ræktina, það er hlaupa á brettum eða lyfta lóðum o.s.frv. í yfirbyggðum líkamsræktarstöðvum heldur fellur mér betur, að stunda mína hreyfingu utandyra. En ég hefði eflaust gott af hinu. Á góðviðrisdögum veit ég fátt betra en að stíga á fákinn og bruna af stað, helst eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Þá er ævinlega stefnt fram í Eyjafjarðarsveit en fram að Hrafnagili liggur stórfínn göngu/hjólastígur og ágætt að komast á Eyjafjarðarbrautirnar af honum. Ég hætti mér sjaldan í hina áttina, þ.e. út með Kræklingahlíð og áleiðis til Dalvíkur (eða Reykjavíkur) en mér stendur nokkur stuggur af því að hjóla á þjóðvegi 1. Í þessum hjóltúrum er myndavélin ævinlega með í för en það er líka eitthvað, sem ég hef unun af, að taka myndir af umhverfinu. Í svona hjóltúrum sameinast þannig ótalmörg hugðarefni, hjólreiðar, ljósmyndun, líkamsrækt, húsa-og mannvirkjasaga (ég tek oft myndir af gömlum húsum og brúm á þessum ferðum) og náttúrufræði því Eyjafjarðarsvæðið er ríkt af hinum ýmsu náttúrufyrirbrigðum, sem vert er að gefa gaum. En hér koma nokkrar svipmyndir, flestar teknar á hjóltúrum um nærsveitir Akureyrar laugardagana 7. og 21. október sl. 

BYGGING LANDSINS- í bókstaflegri merkingu!

Ísland er myndað fyrir tilstuðlan eldvirkni síðustu 20 milljón ára eða svo. Elstu hlutar landsins eru Austfirðir og Vestfirðir en yngstu hlutarnir eru á Reykjanesskaga og við Kröflu. Eyjafjarðarsvæðið er talið um 7-10 milljón ára gamalt. Þar hefur verið óskapleg eldvirkni en það sést á því, að óvíða er að finna hærri fjöll, Tröllaskaginn nær mest rúmlega 1500 metra hæð í vestanverðum Eyjafirði, nánar tiltekið í hátindi Kerlingar. Hæð íslenskra fjalla ræðst  að mestu leyti af því, hversu mikið efni hefur hlaðist upp. 

IMG_1135

 IMG_1175

 

 

 

 

 

 

 

 

Kerling, séð annars vegar frá Finnastaðaá og hins vegar af Eyjafjarðarbraut eystri. Bærinn fyrir miðju á myndinni til hægri heitir Alda. Strýtulaga hnjúkurinn á myndinni til vinstri kallast Jómfrú. 

Þeir sem séð hafa klettabelti í fjöllum kunna að hafa veitt því athygli, að þau eru oftar en ekki í mörgum lögum. Mætti líkja þeim við lagköku (randalín) þar sem klettaböndin eru eins og botnarnir en malar- og jarðvegslög eins og sultan. Þarna er um að ræða hraunlagastafla frá myndun landsins. Á myndinni fyrir neðan má sjá allt að 40 slík lög frá efstu skriðum upp af fjallsbrúnum í fjallinu Tröllshöfða framarlega í Eyjafirði. Þarna er semsagt um að ræða hraunlög sem runnið hafa hvert ofan á öðru í fyrndinni. Á milli hvers gætu hafa liðið fáein ár en í flestum tilvikum eru líklega hundruð eða þúsundir ára milli hraunlaga. Á þeim tíma hefur myndast gróður og jarðvegur, sem síðan hefur orðið undir nýjum hraunum; þar eru komin millilögin. IMG_1232                                   IMG_1233

 

 

 

 

 

 

 

 

Þarna hefur verið gríðarleg framleiðsla á hraunum, sem hlaðið hefur upp meira en kílómetra þykkum stafla, mörg þúsund ferkílómetra að flatarmáli. Eldvirkni byggði upp en síðar kom að roföflunum, þar sem mest munaði um ísaldarjökla. Þeir skópu dali og firði og þegar stuðnings þeirra naut ekki við, áttu fjallshlíðar til að gefa sig. Þannig var það t.d. í tilfelli Möðrufellsfjalls:

IMG_1134

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í haustmorgunsólinni má mjög greinilega sjá hraunlagastaflann en aðeins á hluta fjallsins. Þannig er nefnilega mál með vexti, að fyrir einhverjum þúsundum ára var þarna ægilegt framhlaup sem "opnaði á" hraunlagastaflann sem þarna blasir við sem mikið hamrastál. Og það sem meira er, þetta hefur gerst tvisvar, því greina má aðra "hillu" eða skál ofar í fjallinu. Framhlaup þetta myndaði hólaþyrpingu, sem alsett er grettistökum og kallast Möðrufellshraun. Ólafur Jónsson (1957: 179-180) telur, miðað við athugun öskulaga, að neðra berghlaupið hafa átt sér stað fyrir 2500-3000 árum en það efra fyrir um 5-6000 árum.

ÝMISLEGT, EITT OG ANNAÐ

IMG_0924

 

 

 

 

 

 

 

 

Við Sólgarð stendur kýrin Edda. Hún er stórvirki þúsundþjalasmiðsins Beate Stormo í Kristnesi. Edda var flutt á þennan stað sl. sumar og er nú sérlegt kennileiti á þessum slóðum. Það var auðvitað ekki hægt annað, en að fá mynd af sér með henni þegar við Árni Már Árnason vorum á ferðinni um fremri byggðir Eyjafjarðar þ. 8. ágúst sl. 

IMG_1242

 

 

 

 

 

 

 

 

Horft af brúnni. Nánar tiltekið brúnni við Halldórsstaði, fremstu brú yfir Eyjafjarðará og jafnframt þá einu sem er á einkavegi. Halldórsstaðir er jafnframt eini bærinn í Eyjafirði, þar sem heimreiðin liggur yfir Eyjafjarðará. 

IMG_1240

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Horft NIÐUR af brúnni

IMG_1244

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Liðið haust hefur verið sérlega blíðviðrasamt. 21. október var veðrið líkt og á sumardegi en það er ekki sjálfgefið, að á þessum tíma árs viðri fyrir langhjólreiðar. (Það er reyndar ekki sjálfgefið yfir hásumarið heldur). Hér má sjá Hólavatn. Sumarbúðir KFUM og K nokkurn veginn faldar í trjágróðri nærri miðri mynd. 

IMG_1236

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef marka má skiltið, má finna Sprengisand þarna í skógarrjóðrinu laughing. Myndin er tekin við Hólsgerði, fremsta byggða ból Í Eyjafirði. Þangað eru 46 km frá Akureyri. Frá Hólsgerði eru líka um 290 kílómetrar til Selfoss! Það er, ef farið um Laugafell, Nýjadal, Skeið og Þjórsárdal. 

IMG_1237

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd er tekin við heimreiðina að Villingadal. Sú heimreið er líklega með þeim lengri á landinu en hún er rúmir 2 kílómetrar og liggur um syðstu hluta Leyningshóla. Áin fyrir miðri mynd er Torfufellsá, en til vinstri á mynd eru einmitt hlíðar Torfufellsfjalls. Snævi þakta fjallið í miðjunni mun vera Leyningsöxl en um hana klofnar Torfufellsdalur í Svardal í vestri (vinstra megin á mynd) og Leyningsdal í austri. Raunar heitir dalurinn Torfufellsdalur austanmegin og Leyningsdalur vestanmegin.

IMG_1160

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

VEGIR OG BRÝR

Fremsta brúin á Eyjafjarðarbraut eystri er yfir Torfufellsá. Þaðan eru 43 km til Akureyrar.

IMG_1163 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar það spurðist út, að ég hyggðist gefa út bók um brýr yfir Eyjafjarðará var ég mikið spurður, hvort Hólabrú yrði með. En í bókinni eru aðeins þær brýr, sem yfir ána liggja á því herrans ári 2023. Hólabrú var mjó göngubrú; hengibrú úr timbri, plankar með sem héngu á vírum á milli árbakkana á merkjum Ártúns og Skáldsstaða. Brúin var byggð 1948 en tekin niður skömmu eftir aldamótin. Enn standa uppi af henni tveir staurar á austurbakkanum. 

IMG_1157

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Elstu brýr yfir Eyjafjarðará, sem enn eru í notkun, eru jafngamlar, byggðar 1933. Um er að ræða Stíflubrú við Möðruvelli og Hringmelsbrú eða Bogabrúin við Sandhóla. Þessar myndir eru teknar 28. ágúst 2022.                                   

P8281034

P8281037

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Yfir eitt hrikalegasta gljúfur Eyjafjarðarsveitar, Munkaþverárgil, liggur hins vegar ein elsta, ef ekki allra elsta brú sem enn er í notkun á þjóðvegi. Hún er að stofni til frá 1913 en var endurbyggð 1958.                                

IMG_1184

IMG_1182

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Verðum við ekki að hlýða á "Bridge over troubled water" (Brú yfir ólgandi vatn) þeirra Simon og Garfunkel fyrst við erum að spá í þessar brýr). 

 

Og ætli það sé þá ekki ágætt að ljúka þessari myndasýningu með nokkrum myndum, sem teknar eru á Eyjafjarðarbraut vestri og Hólavegi, undir yfirskriftinni "Country Roads" (Sveitavegir) John Denver. 

IMG_1151 IMG_1231

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_1245IMG_1248

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þar sem þessi færsla er að breytast úr myndasýningu í einhvers konar útvarpsþátt er kannski allt í lagi að deila með lesendum lagi, sem mér þykir alveg óskaplega gaman að hlusta á, þegar ég er á ferðinni um sveitavegina; "Fugitive" flutt af Merle Haggard. Að hafa þetta lag í "Bluetooth" hátalara, hangandi á stýrinu í bland við niðinn af dekkjunum um Eyjafjarðarbrautirnar á 25-30km hraða er eiginlega ólýsanlegt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og sjö?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 58
  • Sl. sólarhring: 98
  • Sl. viku: 354
  • Frá upphafi: 420375

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 257
  • Gestir í dag: 54
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband