29.11.2014 | 14:18
Hús dagsins: Eiðsvallagata 8
Eiðsvallagötu 8 reisti Haraldur Jónsson kaupmaður árið 1943 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Húsið stendur á horni götunnar og Lundargötu, sem þá þegar var orðin gömul og rótgróin gata á Eyrinni. Ekki þykir mér ólíklegt að um sama Harald Jónsson sé að ræða og reisti húsið á móti, Eiðsvallagötu 6 fjórum árum síðar. Eiðsvallagata 8 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur það á kjallara. Aðaldyr hússins eru á vesturhlið sem snýr að Lundargötu en á húsinu eru horngluggar sem snúa í vestur og suður en slíkir gluggar eru ein helstu einkenni Funkisstefnunar hérlendis en Tryggvi Jónatansson teiknaði mörg slík hús. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með tveimur íbúðum, hvor á sinni hæð og er húsið líkast til lítt breytt frá fyrstu gerð a.m.k. á ytra byrði. Þessi mynd er tekin 31.okt. 2014.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2014 | 10:09
Hús dagsins: Eiðsvallagata 6 ; Bóla.
Eiðsvallagata 6 stendur á vesturhorni Eiðsvallagötu og Lundargötu. Húsið reisti Haraldur Jónsson kaupmaður árið 1947 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Það er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Inngönguhús er á suðurhlið og bílskúr og sólskáli á vesturhlið. Stórir verslunargluggar eru á neðri hæð en hún var verslunarrými frá upphafi en líkast til hefur alla tíð verið íbúð á efri hæð. Um miðjan 6.áratuginn eignast KEA neðri hæðina og þar rak félagið verslunarútibú sitt, eitt margra, í um aldarfjórðung. Kallaðist KEA- verslunin Bóla og þekkja margir þetta hús enn í dag undir því nafni. Á þessum árum voru verslunarhættir umtalsvert frábrugðnir því sem gerist í dag- stórmarkaðir óþekktir og bílaeign ekki almenn og því nauðsynlegt að helstu nauðsynjavörur væru í göngufæri inni í hverfunum. Þá var vöruúrval almennt ekki eins fjölbreytt í verslunum eins og gengur og gerist í stórmörkuðum nútímans og vörur eins og mjólk, brauð, kjöt og fiskur yfirleitt seldar í smáum sérverslunum. Verslunin Bóla var rekin fram undir 1980 en haustið 1981 flytja Neytendasamtökin inn á neðri hæð hússins en þá var húsið enn í eigu KEA. Heyrðust raddir um vafasamt væri að samtök um rétt neytenda væru inn á gafli hjá einu öflugasta verslunarfyrirtæki bæjarins en samtökin stöldruðu ekki við þarna um langt árabil. Tíu árum seinna kaupa JC (Junior Chamber samtökin ) neðri hæðina en um 1995 er hæðin innréttuð sem íbúð og hefur húsið allt verið íbúðarhús síðan. Nú eru því tvær íbúðir í húsinu. Húsið er nokkuð dæmigert fyrir íbúðarhús frá fimmta áratug 20.aldar en ef ég ætti meta einhverskonar varðveislugildi hússins myndi ég segja þetta hús, með sínum augljósu ummerkjum um fyrra hlutverk þ.e. búðargluggum á neðri hæð einn af mikilvægum minnisvörðum um verslunarsöguna á Akureyri. Hverfisverslanir KEA og kaupmaðurinn á horninu skipuðu áður stóran sess hjá bæjarbúum og margir eiga eflaust góðar minningar um verslunar- og sendiferðir í Bólu. Þessi mynd er tekin 31.okt. 2014.
Bloggar | Breytt 27.11.2014 kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2014 | 08:15
Hús dagsins: Eiðsvallagata 5
Ég held áfram umfjölluninni um Eiðsvallagötu 5 og fer ég eftir númeraröð. Því er Eiðsvallagata númer 5 næst í röðinni á eftir 4, enda þótt um 100 metrar skilji húsin að. Eiðsvallagata 5 stendur austan megin á horni götunnar og Ránargötu. Húsið reisti Gunnlaugur S. Jónsson vélsmiður, forstjóri Odda árið 1934 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Húsið er steinsteypt, byggt á pöllum sem kallað er og í upphafi voru svalir uppi á vesturálmu, sem var ein hæð en austurálma var þá tvær hæðir. Húsið var lengst af klætt skeljasandsmulningi en nú er á húsinu blikkklæðning. Vel var vandað til byggingar hússins í upphafi en það var einangrað með korki og gluggapóstar voru úr járni- sem ekki var algengt. (Líklega mun Gunnlaugur hafa smíðað póstana sjálfur í Odda.) Húsið er greinilega teiknað undir áhrifum frá Funkís-stílnum en eitt megineinkenni slíkra húsa er regluleg lögum og horngluggar. Sveinbjörn Jónsson teiknaði ein fyrstu fúnkís-húsin á Akureyri, hús í Aðalstræti, Möðruvallastræti auk þessa húss en hann mun þó hafa gerst fráhverfur þessari stefnu. Það hafa ekki verið margir eigendur að húsinu miðað við 80 ára sögu en Fljótlega eignast húsið Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður frá Hrísey (sonur hins valinkunna Hákarla- Jörundar) og átti hann það til 1955 er Anton Sölvason kaupir húsið. Árið 1974 eignast húsið Gunnar Skjóldal og í hans tíð eða um 1985 var húsinu breytt talsvert, byggt við það og vesturálma hækkuð þ.e. byggt yfir svalirnar. Nú er húsið því tvílyft á þremur pöllum með lágu, brotnu risi og sem áður segir er blikk á veggjum en járn á þaki. Bílskúr var reistur við austurmörk lóðarinnar árið 1962. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og hlotið gott viðhald. Það er sem áður segir vel byggt og vandað frá upphafi. 2.janúar árið 2011 kviknaði í þessu húsi og skemmdist það töluvert að innan en var allt tekið í gegn og mun nú sem nýtt. Húsið er stórt og sérstætt að gerð og setur svip á götumyndina. Þá er rammgerð steypt girðing, sennilega á líkum aldri og húsið, utan um lóðina og gróskumikil tré á henni. Ein íbúð er í húsinu og hefur verið svo alla tíð. Þessi mynd er tekin föstudaginn 31.október 2014.
Heimildir: Friðrik Olgeirsson, Halldór Reynisson, Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál. Reykjavík: Fjölvi.
Öruggar munnlegar heimildir úr ýmsum áttum...
Bloggar | Breytt 26.11.2014 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2014 | 11:34
Hús dagsins: Eiðsvallagata 4
Árið 1934 fengu þeir Óli Konráðsson, Ólafur Jakobsson og Ingvar Ólafsson leyfi til að reisa íbúðarhús næst austan við hornhús fyrirhugað, austan Glerárgötu og sunnan Eiðsvallagötu. Umrætt hornhús hefur að öllum líkindum átt að vera Eiðsvallagata númer 2. En hús þeirra Óla, Ólafs og Ingvars er Eiðsvallagata númer 4 og er efsta húsið við götuna og stendur örfáa metra frá götubrún Glerárgötu Eiðsvallagata 4 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum grunni og þverpóstum í gluggum. Húsið er byggt eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar en hann mætti kalla einn af "stóru nöfnunum" í byggingasögu Akureyrar en mörg hús á Oddeyrinni eru hans hönnun. Fyrstu árin var starfrækt nótastofa á neðri hæð hússins en á efri hæð bjó Óli Konráðsson ásamt fjölskyldu sinni. Teikningar af húsinu gera einmitt ráð fyrir slíkri starfsemi á neðri hæð. Hversu lengi netaverkstæðið var starfrækt þarna er mér ókunnugt um en 1.maí 1946 auglýsir Óli nótaverkstæði sitt í nýbyggðri Nótastöð norðarlega á Oddeyrinni. En húsið hefur allt verið íbúðarhús um áratugaskeið og er nú einbýlishús. Eiðsvallagata 4 er einfalt og látlaust og gerð og ekki mikið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Hús og lóð virðast í góðri hirðu. Þessi mynd er tekin í haustsólinni 8.september 2014.
Hér er einnig mynd af stórhýsi Nótastöðvarinnar á Norðurtanga, en þangað flutti Óli Konráðsson netaverkstæði sitt úr Eiðsvallagötu 4. Húsið er byggt 1945 og stendur rétt við ósa Glerár og hefur verið þó nokkuð kennileiti á sínum tíma en langt var í næstu hús af svipaðri stærð. Myndin tekin 15.nóv. 2014.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur þ. 20.4.1934 Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 19.11.2014 kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2014 | 11:30
Hús dagsins: Eiðsvallagata 3
Þann 17.september 1928 kom Bygginganefnd Akureyrarbæjar saman á fundi. Meðal erinda var afgreiðsla bréfs frá Magnúsi Einarssyni organista þar sem hann fór fram á að fá ...leigða lóð norðan Eiðsvallagötu og austan Norðurgötu, næstu lóð austan við hornlóðina [ innskot: þar er átt við lóðina Eiðsvallagötu 1 en þar var ekki risið hús enn ] að fá að byggja á henni íbúðarhús úr steinsteypu, tvílypt á lágum grunni, að ummáli 8,6x7,6m . (Bygg.nefnd Akureyrarbæjar 1928) Magnús fékk lóðina og leyfið og líklega hófst bygging vorið eftir. Eiðsvallagata 3 mun því vera elsta húsið við Eiðsvallagötuna , byggt 1929. Magnús reisti þetta hús líklega í félagi með Baldvini Júníussyni en árið 1930 eru tveir skráðir þarna til heimilis ásamt fjölskyldum sínum, alls 8 manns. Þannig hafa tvær íbúðir verið í húsinu í upphafi. En húsið er sem áður segir, tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni en neðri hæð eilítið niðurgrafin og með háu risi. Á austurhlið er inngönguhús á efri hæð með tröppum en miklar svalir á vesturhlið en bílskúr við norðurhlið. Allt er það tilkomið eftir aldamótin 2000 og upprunalega var lægra ris á húsinu en nú er. Nýlegir sexrúðupóstar eru í gluggunum. Húsið hefur eftir því sem ég best veit alla tíð verið íbúðarhús og þarna hafa margir búið, átt og leigt. Svona eins og gengur og gerist með hús á níræðisaldri. Ekki er ég frá því að húsið hafi um eitthvert skeið verið einbýli en í dag eru í því tvær íbúðir, líkt og í upphafi, ein á neðri hæð og önnur í hæð og risi. Húsið er nýlega uppgert bæði að utan og innan og er til mikillar prýði í umhverfi sínu og frágangur allur til fyrirmyndar a.m.k. að mati undirritaðs.Þessi mynd er tekin þ. 31.október 2014.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. (Nefndarmenn: Jón Sveinsson, Sigurður Bjarnason, Hallgrímur Davíðsson, Erlingur Friðjónsson, Halldór Halldórsson og Sigtryggur Jónsson.)
Manntal á Akureyri 1930. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2014 | 08:59
Hús dagsins: Eiðsvallagata 1
Í síðustu færslu tók ég fyrir Eiðsvallagötu 30 en mynd af því húsi tók ég fyrir hartnær tveimur árum, það er snemma í janúar 2013. Ætlunin þá var að taka það hús fyrir fljótlega en það dróst. Nú hef ég hins vegar ljósmyndað húsin við Eiðsvallagötu og ætla mér að taka götuna alla fyrir á næstu vikum. Uppröðun húsanna við Eiðsvallagötuna er eilítið sérstök, líkt og stundum er með eldri göturnar á Oddeyrinni. Efsta hús við Eiðsvallagötu norðan megin er hús númer eitt, en það stendur nokkrum tugum metra neðan við það efsta hús sunnan við, það er númer fjögur. Hér mun ég taka þann pól í hæðina að taka húsin fyrir í númeraröð. Eiðsvallagata 1 stendur beint á móti 18 á horni götunnar og Norðurgötu, en ástæðan fyrir þessu er líkast til Eiðsvöllurinn, sá iðagræni sælureitur Eyrarinnar. Hann stendur efst við Eiðsvallagötuna og afmarkast af henni í suðri, Glerárgötu í vestri, Grænugötu í norðri og Norðurgötu í austri. Neðri hluti vallarins er afgirtur leikvöllur en efri hlutinn er grænt svæði.
Elstu húsin við Eiðsvallagötuna voru reist árið 1930 og í hópi þeirra er Eiðsvallagata 1. Húsið reisti Þórður Jóhannsson húsgagnasmiður árið 1930 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Eiðsvallagata 1 er tvílyft steinsteypuhús með háu og bröttu risi og miðjukvisti á götuhlið. Á bakhlið er stór kvistur með skúrþaki sem er seinni tíma viðbót en ekki finnast teikningar af honum. Sennilega hefur hann verið byggður þegar ris var innréttað sem íbúð. Á austurhlið hússins eru steyptar svalir og hafa þær líkast til verið frá upphafi. Alltént eru svalir á teikningum Sveinbjarnar. Ekki er ósennilegt að fyrsti eigandi hússins hafi stundað iðn sína á fyrstu hæð hússins og önnur hæðin verið íbúðarhæð og rishæðin geymslurými. Nú eru hins vegar þrjár íbúðir í húsinu, ein á hverri hæð. Húsið lítur vel út og er í góðri hirðu og á lóð. Myndin er tekin 31.október 2014.
Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson (1996).Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982.Reykjavík: Fjölvi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2014 | 14:46
Hús dagsins: Eiðsvallagata 30
Eiðsvallagata liggur sunnarlega á Eyrinni, samsíða Gránufélagsgötu og Strandgötu. Hún liggur austur- vestur milli Hjalteyrargötu og Glerárgötu en ekki er keyrt inn í götuna frá hvorugum þeim götum. Neðarlega við götuna á horninu við Hríseyjargötu stendur Eiðsvallagata 30.

Húsið reisti Stefán Guðjónsson árið 1931 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar byggingarfulltrúa.Eiðsvallagata 30 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Krosspóstar eru í gluggum og járn á þaki. Húsið hefur líkast til verið einbýlishús í fyrstu en þar bjuggu þau Stefán og kona hans, Benedikta Sigvaldadóttir ásamt börnum sínum. Sonur þeirra var Hreiðar kennari og rithöfundur en hann er eflaust þekktastur fyrir Öddu-bækurnar sem hann skrifaði ásamt konu sinni, Jennu Jensdóttur. Þau starfræktu árin 1942-1963 barnaskóla sem kallaðist Hreiðarsskóli eða smábarnaskólinn. Í einhverri sögugöngu um Oddeyrina heyrði ég af því að skólahaldi hafi fyrstu árin verið hér, á heimili Hreiðars en lengst af var Hreiðarsskóli starfræktur ofarlega í Gránufélagsgötu, í húsi sem nú er horfið. Að öðru leiti hefur húsið verið íbúðarhús en einhvers staðar heyrði ég að á neðri hæð hafi um tíma verið vélsmiðja eða verkstæði á neðri hæð og um tíma vélskóli. Húsið virðist nánast óbreytt að utanverðu frá fyrstu gerðog gluggaskipan er sú sama og á upprunalegum teikningum. Nú eru í húsinu tvær íbúðir, hvor á sinni hæð. Þessi mynd er tekin 12.janúar 2013.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 2
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 230
- Frá upphafi: 445782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 157
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar