31.3.2017 | 12:22
Hús dagsins: Klapparstígur 1
Árið 1929 fékk Hallgrímur Hallgrímsson síldarmatsmaður frá Hjalteyri, leigða lóð á horni Klapparstígs og Brekkugötu og leyfi til að byggja á henni að reisa þar hús; 8x8,8m að stærð auk útskota, ein hæð og port á háum kjallara. Hallgrímur hefur líkast til áformað að húsið sneri hlið að götu því Bygginganefnd sér í bókun sinni ástæðu til að árétta sérstaklega að: Meirihluti nefndar heldur sig fast við það, að á þessum stað verði húsin að snúa stafni í götu, eins og gert er ráð fyrir á Skipulagsuppdrætti. Nefndin hefur ekkert að athuga við teikningu og lýsingu og gefur byggingafulltrúa heimild til að láta hefja verkið, þótt einhver breyting verði við snúning hússins. (Bygg.nefnd. Ak. 1929: nr.632) Hallgrímur hóf því að reisa húsið, sem snýr stafni að götu og var það fullbyggt 1930. Teikningarnar gerði Halldór Halldórsson. Þar má sjá, að í húsinu eru tvö eldhús, á jarðhæð og stofuhæð og tvö baðherbergi, annars vegar á jarðhæð og hins vegar í austurkvisti á svokallaðri porthæð en svo er rishæðin kölluð á teikningunum. Það er ekki annað að sjá á teikningum, að húsið eigi að vera hið vandaðasta í hvívetna, þar eru sex svefnherbergi og stofur á báðum hæðum auk gestastofu.
Klapparstígur er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu portbyggðu risi. Stór miðjukvistur er á framhlið (vesturhlið) og annar smærri á bakhlið. Bogadregin forstofubygging á framhlið, beint niður undir kvisti og að henni voldugar, steyptar tröppur og svalir ofan á henni sem gengt er út á af kvistherbergi. Þá er einnig bogadregið útskot með turnþaki á suðurstafni. Miklir steyptir kantar eru á þaki og svalahandrið steypt úr því sem ég myndi kalla bogasteinum- en þeir voru ekki óalgengir í veglegri girðingar og svalahandrið á þessum árum. Gefa þeir jafnan skemmtilegan svip en ekki þekki ég uppruna þessara hleðslusteina. Mögulega hafa þeir verið framleiddir í sömu verksmiðju og r-steinn Sveinbjarnar Jónssonar. Bárujárn er á þaki hússins og krosspóstar eru í gluggum.
Hallgrímur Hallgrímsson átti allt húsið í upphafi, en í ársbyrjun 1934 auglýsir hann efri hæðina til sölu (mögulega er þar átt við rishæð eða portbyggð) og þar kemur sérstaklega fram að íbúðin sé sólrík, en þrír suðurgluggar eru á risi hússins. Dóttir Hallgríms Hrefna Kristín. Hún kvæntist árið 1934 Jóni Sigurgeirssyni, síðar skólastjóra Iðnskólans. Þau bjuggu hér allt þar til Hrefna lést árið 1951 en Jón bjó hér áfram í tugi ára eftir það. Margir hafa búið í húsinu í lengri eða skemmri tíma, líkt og gengur og gerist.
Hér að ofan var greint frá staðfastri áherslu Byggingarnefndar á því, að hús við Klapparstíg sneru stafni að götu. Ef næstu hús götunnar eru skoðuð
mætti álíta, að ekki hafi reynt á þetta ákvæði því þau hús eru frábrugðin nr. 1, ferningslaga með flötum þökum enda reist á bilinu 1933-40 þegar Funkisstefnan var að ryðja sér til rúms. Húsið er skrautleg steinsteypuklassík, og það eina sinnar tegundar við götuna en svipar nokkuð til húsa við Eyrarlandsveg 16-24 og Brekkugötu 27a. Að ytra byrði er húsið h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð og hefur það líkast til hlotið fyrirtaks viðhald alla tíð- alltént er það í mjög góðu ástandi. Lóðin er einnig mjög vel frágengin og vel gróin- þó það sjáist lítt á meðfylgjandi mynd sem tekin er nærri miðjum janúar. sómir sér vel á þessum stað sem er nokkuð áberandi í bæjarmyndinni, því Klapparstígur liggur utan í hæð beint upp af Oddeyrinni og fjölförnustu götu Akureyrar (Þjóðvegi 1) og gegnt húsinu eru áhorfendabekkir Akureyrarvallar.Tvær íbúðir munu í húsinu, á jarðhæð og á hæð og risi. Myndin er tekin þann 14.janúar 2017.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr.632, 10.júní 1929.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Tvö ofantalin rit eru óprentaðar og óútgefnar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2017 | 09:42
Hús dagsins: Krabbastígur 4
Við Krabbastíg standa einungis þrjú hús, tvö norðan götu og eitt sunnan megin. Efra húsið norðan megin, þ.e. Krabbastígur 4 stendur á horni götunnar og Munkaþverárstrætis, en þar er um að ræða járnklætt timburhús. Sumarið 1934 sótti Jóhannes Jónasson um byggingarleyfi fyrir hönd Snjólaugar Jónasdóttur um að fá lóð við Krabbastíg, norðan við Gest Bjarnason. Þannig var staðsetningu húsa og lóða og ævinlega lýst í bókunum Bygginganefndar, þ.e. afstaða miðað við lóðir eða hús tilgreindra manna- húsnúmer sjást afar sjaldan. Vildi hún fá að reisa íbúðarhús úr timbri, járnklætt, 7,6x7,6m að stærð. Byggingaleyfið var veitt en þó með þeim skilyrðum að neðri hæð væri steinsteypt og senda skyldi nýja teikningu og lýsingu þar sem fram kæmi hæðarafstaða við götu. Þá teikningu samþykkti bygginganefnd á næsta fundi sínum. Páll Friðfinnsson teiknaði húsið, en upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1936.
Krabbastígur 4 er tvílyft hús á lágum grunni og með lágu risi. Neðri hæð er steinsteypt og múrhúðuð (tæpast hægt að tala um neðri hæð sem kjallara jafnvel þótt hún liggi nokkuð neðar en götubrún) en efri hæð úr timbri og járnklædd. Bárujárn er á þaki. Á norðurgafli er forstofubygging, viðbygging frá um 1967 eftir teikningum Páls Friðfinnssonar, sem teiknaði húsið í upphafi sem áður segir. Sú bygging er múrhúðuð, með einhalla þaki, aflíðandi til norðausturs og inngöngudyr að götu og bakatil á neðri hæð. Efri hæð viðbyggingar er stærri að grunnfleti en neðri hæð og stendur hún á stólpum á nyrsta parti. Gluggapóstar eru þverpóstar með margskiptum efri fögum og á neðri hæð eru neðri fög einnig skiptir í miðju lárétt.
Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líklega einbýlishús í upphafi en árið 1944 er það til sölu í heilu lagi, sjá hér og þar er Sigurlaug Jónasdóttir, sú er byggði húsið sem hyggst selja það. Fimmtán árum síðar er húsið hins vegar orðið a.m.k. tveir eignarhlutar, sbr. Þessa tilkynningu frá 1959 þar sem Jóhann Hauksson selur Sigurði Karlssyni sinn hluta hússins. Átta árum síðar er byggt við húsið til norðurs og fékk það þá núverandi útlit. Þá eru skv. teikningum tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Krabbastígur 4 er einfalt og látlaust timburhús- eitt fárra slíkra í þessu hverfi sem byggt er á sannkallaðri steinsteypuöld. Það er raunar eina húsið með þessu lagi á þessu svæði en sambærileg hús má finna t.d. Á Fjólugötu en einnig er húsið ekki ósvipað húsunum við Goðabyggð 7 (Silfrastaðir) og Hrafnagilsstræti 27 (Þrúðvangur) sem standa ofar og sunnar á Brekkunni. Þau eru jafnaldrar Krabbastígs 4 og byggð sem grasbýli en þéttbýli tók ekki að myndast á þeim slóðum fyrr en aldarfjórðungi síðar. Líklega er húsið nánast óbreytt frá upphafi að ytra byrði- ef undan er skilin er viðbygging. Húsið og umhverfi þess er til mikillar prýði, við inngönguskúr og lóðarmörk er sólpallur úr timbri og tvö smá þintré sitt hvoru megin við hlið, sem ramma aðkomuna að húsinu skemmtilega inn, a.m.k. að mati þess sem þetta ritar. Myndin er tekin þann 14.janúar 2017.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur 723, 22.júní 1934. Fundur nr. 724, 20.júlí 1934.Óprentað og óútgefið varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2017 | 11:22
Hús dagsins: Krabbastígur 2
Á fundi Bygginganefndar Akureyrar þann 3.ágúst 1929 var m.a. tekið fyrir erindi frá Byggingafélagi Akureyrar sem sótti um leyfi til að byggja hús fyrir Gest Bjarnason. Húsið skyldi jafnstórt og af sömu gerð og hús Þorsteins Þorsteinssonar. Þar var vísað til 2.liðs sömu fundargerðar, en erindi Byggingarnefndar var nr. 3 í afgreiðslu fundarins. En Þorsteinn hafði sótt um að reisa hús við Brekkugötu, sem skyldi 7,20x8m, ein hæð á kjallara og með lágu risi og varð það hús nr.43 við þá götu. Því er engum blöðum um það að fletta, að Krabbastígur 2 og Brekkugata 43 hljóta að vera reist eftir sömu teikningu, en hana gerði Halldór Halldórsson. Til fróðleiks má bæta við, á þessum sama fundi voru samþykktar fullnaðarteikningar af húsi KEA við Hafnarstræti (Kaupfélagstorginu). Húsið byggðu þeir svo feðgarnir Bjarni Pálsson og áðurnefndur Gestur Bjarnason og flutti 1929-30 og flutti stórfjölskyldan í húsið árið 1930. Hér er fróðlegt viðtal við móður Gests, Sigríði Helgadóttur. Viðtalið birtist í Degi 2.mars 1968 en þann dag varð Sigríður 95 ára, þá elsti innfæddi íbúi en hún var fædd 1873 í Barði.
Krabbastígur 2 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og á háum kjallara, raunar svo háum að telja mætti húsið tvílyft eða kjallara til jarðhæðar en skörp skil eru á milli kjallara og hæðar; þ.e. veggir kjallara eru eilítið þykkri og þ.a.l. kantur á útveggjum á hæðarskilum. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki en spænskur múr er á veggjum. Inngöngudyr eru m.a. á norðausturhorni kjallara. Krabbastígur 2 hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýlihús en þó hafa einstaka herbergi verið leigð út. Húsið er í góðu standi og á því er nýlegt þak frá því um 2000. Það er flokkað í varðveisluflokk 1 í Húsakönnun á Norður Brekku 2015 og þar sagt [...] vel við haldið og sómir sér vel í götumyndinni (Ak.bær, Teiknist. Ark., Gylfi Guðjónsson 2015: 144). Lóðin er einnig vel gróin; sunnan undir húsinu er vörpulegt reynitré. Skemmtileg timburgirðing á lóðarmörkum við götu er setur einnig skemmtilegan svip á umhverfi hins látlausa en glæsta 87 ára steinhúss. Myndin er tekin laugardaginn 14.janúar 2017. Hér fyrir neðan má einnig sjá mynd af húsunum tveimur sem Þorsteini Þorsteinssyni og Gesti Bjarnasyni var leyft að reisa í 2. og 3.lið í fundargerð Byggingarnefndar 3.ágúst 1929; jafn st+or og sömu gerðar. Þau hafa vitanlega tekið ýmsum breytingum gegn um tíðina, hvort um sig.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 635, 3.ágúst 1929.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Tvö ofantalin rit eru óprentaðar og óútgefnar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2017 | 16:43
Hús dagsins: Krabbastígur 1
Það eru ekki margar götur á Akureyri kenndar sjávardýr, en á milli Oddeyrargötu og Munkaþverárstrætis liggur stutt og mjó gata sem nefnist Krabbastígur skáhallt til NV upp brekkuna. Hún liggur á milli 8 og 10 við Oddeyrargötu og við hana standa einungis þrjú hús sem ég ljósmyndaði einn laugardag í janúar sl. og hyggst birta hér á næstu dögum (Reyndar myndaði ég hús nr. 1 í gær þ.s. Mér þótti fyrri mynd einfaldlega ekki nógu góð).
Krabbastíg 1 reistu í félagi þeir Jóhann Jónsson og Kristján Helgason árið 1930. Síðsumars 1929 fær sá fyrrnefndi lóð sunnan Krabbastígs, beint á móti lóð Gests Bjarnasonar (þ.e. Krabbastígur 2). Jóhanni er einnig veitt leyfi til að reisa íbúðarhús, skv. meðfylgjandi teikningu og lýsingu. Húsið skyldi vera úr steinsteypu, ein hæð með risi og á háum kjallara, 13,90x8m að stærð. Húsið var (og er) parhús, skipt í miðju og í Jónsbók er Jóhann Jónsson skráður fyrir Krabbastíg 1A og Kristján og Bernharð Helgasynir búa í 1B þ.e. vesturhluta. Teikningar sem varðveist hafa af húsinu eru óáritaðar en þær sýna herbergjaskipan neðri hæðar ("kjallara") og hæðar, en inngangur var á göflum, eldhús, bað og geymslur en stofa og svefnherbergi á hæð. Ris hefur að öllum líkindum verið óinnréttað í upphafi.
Krabbastígur 1 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Veggir eru múrsléttaðir, veggir jarðhæðar eru eilítið þykkri og þ.a.l. kantur á útveggjum á hæðarskilum. og bárujárn á þaki, og krosspóstar eru í gluggum. Einn gluggi er undir mæni hvoru megin og tveir smáir súðargluggar beggja vegna risglugga.
Krabbastígur 1 mun vera fyrsta húsið á Akureyri sem byggt var skv. lögum um verkamannabústaði en þau tóku gildi árið 1929, sama ár og byggingaleyfi var veitt fyrir húsinu. Hér má lesa frumvarp Héðins Valdimarssonar til laga um verkamannabústaði frá fyrstu hendi af vef Alþingis. Líklega eru þekktustu húsin, sem reist voru eftir þessum lögum Verkamannabústaðirnir við Hringbraut og við Vallagöturnar í Vesturbæ Reykjavíkur. Það myndi líklega ekki veita af sambærilegum lögum og aðgerðum í húsnæðismálum í dag og farið var í þarna, fyrir tæpum 90 árum! En nóg um það.
Ég nota vefinn timarit.is mikið til að kanna , hvort einhver verslun eða þjónusta hafi verið starfrækt í húsunum sem skrifað er um. Hafi slíkt verið auglýst í blöðum er má að öllum líkindum finna þær auglýsingar þar. Þegar heimilisfanginu Krabbastíg 1 er flett upp á timarit.is birtast 62 niðurstöður, m.a. um herbergi til leigu, tilkynningar um stórafmæli o.þ.h. Ein elsta heimildin sem timarit.is finnur um Krabbastíg 1 er í skátablaðinu Akurliljunni, sem skátaflokkurinn Fálkar gaf út árið 1932. Þar er auglýst til sölu rúm með fjaðradýnu og borðstofuborð.
Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, og íbúðaskipan líklega lítt breytt frá upphafi. Að ytra byrði er húsið svo til óbreytt frá upphafi a.m.k. miðað við upprunalegar teikningar- þar eru að vísu margskiptir gluggapóstar en krosspóstar nú en gluggasetning og staðsetning dyra er óbreytt sem og þak. Húsið er í mjög góðri hirðu, m.a. hefur þak nýlega verið endurnýjað. Húsið stendur alveg út við götubrún og á húsinu má, þegar þetta er ritað síðla vetrar 2017, sjá miða sem varar við snjó og klakahruni af þaki.(sjá til hliðar) Frábært framtak íbúa Krabbastígs 1 því þetta er hætta sem ég hef grun um að margir vanmeti. Því blautur snjór og grýlukerti eru býsna massamikil og verða raunar eins og fallbyssukúlur við fall af háum þakbrúnum. Húsakönnun 2015 metur húsið með varðveislugildi 1 þ.e. miðlungs enda er Krabbastígur 1 hið glæsilegasta hús og til prýði í umhverfinu. Myndin er tekin þann 18.mars 2017.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur 636, 20.ágúst 1929.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Tvö ofantalin rit eru óprentaðar og óútgefnar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 19.1.2019 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2017 | 10:28
Í röðinni - sönn gamansaga.
Það var einhverju sinni sl. haust að ég var staddur í [Nettó] Hrísalundi í stórinnkaupum. Í slík innkaup nota ég oft 60 lítra bakpoka. Hann er mikið umhverfisvænni kostur til innkaupa en plastpokarnir - sem ég viðurkenni að ég notast einnig við- og heldur hentugri til burðar. Á meðan jörð er auð nota ég oft hjólið sem ferðamáta - og þá er bakpokinn eiginlega eini möguleikinn til vöruflutninga. Í þetta skiptið var ég einmitt hjólandi- og nennti ekki að spenna hjálminn af inni í versluninni. Það er ekki sama hvernig hinum ýmsu matvörum er raðað í bakpoka- þ.a. úr verður stundum tímafrekt púsluspil- sem ekki er vel séð í kassaröð. Á eftir mér var nefnilega maður sem talaði í síma og var greinilega að flýta sér. M.a. heyrði ég "...það er einhver helvítis hjólatúristi á undan mér að reyna að troða einhverjum dósum í bakpoka!" Eftir að hafa raðað í pokan bað ég umsvifalaust um einn Vikudag á íslensku- og var bara þó nokkuð skemmt yfir skömmustusvip- og andlitsroða mannsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2017 | 15:06
Hús dagsins: Hamarstígur 6
Neðst við Hamarstíg norðanverðan standa þrjú reisuleg steinhús, byggð í upphafi fjórða áratugarins. Þau eru öll með steinsteypuklassísku lagi; einlyft með háu risi og miðjukvisti en hvert og eitt með sínu lagi og yfirbragði. Halldór Halldórsson teiknaði tvö þeirra þ.e. Nr. 2 og 4 en Hamarstíg 6 teiknaði Guðmundur Frímannsson.
Árið 1931 fengu þeir Jóhann Frímann skólastjóri Iðnskólans á Akureyri og Kristinn Þorsteinsson lóð og byggingarleyfi við Hamarstíg, vestan við hús Halldórs Halldórssonar þ.e. Hamarstíg 4. Af einhverjum ástæðum lagðist bygginganefnd gegn því, að þeim yrði leigð lóðin en meirihluta bæjarstjórnar féllst á það. Á næsta fundi bygginganefndar var þeim Jóhanni og Kristni leyft að reisa hús á lóðinni, á einni hæð með kvisti, byggt úr r-steini á steyptum kjallara, 14x7,5 að stærð. Sem áður segir teiknaði Guðmundur Frímannsson Hamarstíg 6, sem er parhús og skipt eftir miðju í austur- og vesturpart, og hafa teikningarnar varðveist. Þar má sjá, að í hvorum hluta hússins er gert ráð fyrir kontór inn af forstofu að framan. Þá eru tvö eldhús í hvorum hluta, þ.e. á hvorri hæð. Þannig virðist gert ráð fyrir að a.m.k. tvær fjölskyldur búi í hvorum hluta hússins, enda er það nokkuð stórt á mælikvarða þess tíma sem það er byggt. Húsið hefur frá upphafi skipst í tvo eignarhluta en Jónsbók tilgreinir ekki hvernig húsið skiptist milli þeirra Jóhanns og Kristins, þ.e. hvor bjó í hvorum hluta.
Hamarstígur 6 er reisulegt steinhús, byggt 1931-32, á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti að framan og forstofubyggingu fyrir miðju, steyptar tröppur eru upp að henni. Þar ofan á eru svalir með skrautlegu steyptu, upprunalegu handriði. Forstofutröppur eru einnig rammaðir inn með sams konar handriði. Á bakhlið inngönguskúr með aflíðandi einhalla þaki og á þaki miklir sambyggðir kvistir með einhalla þaki, sem ná eftir nærri allri þekju hússins. Munu þeir hafa verið frá upphafi að hluta, þ.e. kvistur á hvorum hluta hússins en í Húsakönnun 2015 kemur fram, að þeir hafi verið stækkaðir 1937. Á bakhlið eru einfaldir þverpóstar en á framhlið eru margskiptir póstar. Húsið lítur vel og virðist í góðri hirðu. Í áðurnefndri Húsakönnun fyrir Neðri Brekku segir að húsið myndi skemmtilega heild ásamt nr. 4, sem einnig er stórt parhús með miðjukvisti. Að framan virðist húsið nánast frá upprunalegri gerð en er þó í góðu standi. Lóðin er stór og vel gróin, má þar finna birki- og reynitré.
Á bakvið húsið, og raunar þessi þrjú neðstu hús við Hamarstíg er skemmtilegur grænn blettur, sem afmarkast af Hamarstíg í suðri, Helgamagrastræti í vestri, Bjarkarstíg í norðri og Munkaþverárstræti í austri. Er þetta sannkallaður sælureitur sem ég veit að börn í þessum götum hafa mikið til leikja um áratugaskeið. Nú væri gaman að vita það, hvort einhver lesenda kannaðist við það, að túnblettur þessi beri eitthvert nafn ? Í trjágöngu Skógræktarfélags Eyjafjarðar um Neðri Brekku að morgni 31.ágúst 2013 var áð á þessum stað og boðið upp á ketilkaffi og meðlæti. Ekki tók ég nú myndir af því skemmtilega samsæti, en hins vegar notfærði ég mér það, að þessi staður býður upp á skemmtilega yfirsýn yfir Oddeyri. Myndina af Hamarstíg 6 tók ég hins vegar þann 14.janúar 2017.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur 670, 21.sept 1931, nr. 671 5.okt. 1931.
Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 15.3.2017 kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 0
- Sl. sólarhring: 39
- Sl. viku: 211
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 149
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar