30.4.2016 | 11:41
Hús dagsins: Brekkugata 47
Brekkugötu 47 reisti Kaupfélag Eyfirðinga KEA árið 1941, eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar.
Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu Infrapath en þar má finna raflagnateikningar Eyjólfs Þórarinssonar sem dagsett er 12.ágúst 1941, samþykkt 17.sept. Þar má auk þess finna járnateikningar H. Halldórssonar (sem ég hef löngum talið vera Halldór Halldórsson,), þar sem stendur verslunarhús KEA. Brekkugata 47 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki, i funkisstíl. Húsið er raunar tvær álmur, framhús og vesturálma. Gluggar eru víðir og breiðir með einföldum, lóðréttum póstum og með pappa á þaki. Steyptir kantar eru á þaki. Klæðning er ekki sögð þekkt í húsakönnun sem vísað er til hér að neðan, en mér sýnist veggir klæddir einhvers lags steinmulningi eða perluákasti. Á suðurhlið eru steyptar svalir með timburverki á annarri hæð en timburverönd í kverk milli álma á vesturhlið. Þar eru inngangar hússins, en snýr sú hlið að Munkaþverárstræti.
Verslun KEA var opnuð í húsinu árið 1942, nánar tiltekið laugardaginn 14.mars 1942, líkt og sjá má í þessari auglýsingu í Verkamanninum. Þarna eru auglýstar hinar ýmsu vörur, s.s. Ostar, smjör, smjörlíki, harðfiskur, jarðepli (kartöflur) og margt fleira. Þegar heimilisfangið Brekkugötu 47 er slegið inn í timarit.is koma einar 109 niðurstöður, en stór hluti þeirra eru auglýsingar frá versluninni sem rekin var þarna í fjóra áratugi eða svo. Fyrstur gegndi Sigmundur Björnsson stöðu verslunarstjóra í verslununni. (Og fyrir þá sem áhuga hafa á ættfræðinni má geta þess, að faðir Sigmundar hét Björn Sigmundsson og yngsti bróðir Björns var Kristinn Sigmundsson, föðurafi þess sem þetta ritar ) Ætli það megi ekki fullyrða, að blómaskeið hverfisverslana hafi verið um og upp úr miðri 20.öld. Margar litlar verslanir voru bæði á Brekkunni og Eyrinni, flestar reknar af KEA . Einnig voru þeir nokkrir sjálfstætt starfandi nokkrum sjálfstæðum kaupmenn á horninu. Með tilkomu stærri verslana og stórmarkaða fór vegur hverfisverslana þó minnkandi. Bílaeign varð auk þess almenn og hagkvæmt að gera stærri innkaup, þó fara þyrfti langan veg. Árið 1979 var farið að halla nokkuð undan fæti í rekstri hverfisverslana KEA og ákveðið var, að loka m.a. Útibúinu í Brekkugötu 47 í hádeginu. Tveimur árum síðar eða 1981 var versluninni lokað. Nú eru í húsinu tvær íbúðir, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 10.janúar 2016.
Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2016 | 07:46
Hús dagsins: Brekkugata 45
Uppruna steinhússins á Brekkugötu 45 má rekja til hins 17.febrúar 1930, að Steinmar Jóhannsson og Helgi Kolbeinsson fá leigða lóð undir væntanlega húsbyggingu, eftir nánari útmælingu. Um sumarið sama ár fékk Steinmar leyfi til að reisa íbúðarhús á lóðinni, 9 x 7,70m skv. "framlagðri teikningu" en þá teikningu gerði Halldór Halldórsson.
Brekkugata 45 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Bárujárn er á þaki og krosspóstar eru í flestum gluggum. Undantekningar eru m.a. í risi en þar eru sexrúðupóstar. Það sem e.t.v. er mest ráðandi í svipgerð hússins er skraut beggja vegna glugga, n.k. falskir gluggahlerar úr timbri. Þessi skemmtilegi umbúnaður upphafi er seinni tíma viðbót frá um 1980 þessir hlerar lífga að mínum dómi mjög upp á húsið- sem er þar fyrir utan stórglæsilegt á allan hátt. Lóðin er auk þess vel gróin bæði runnum og trjám ( en þar sem meðfylgjandi mynd er tekin um hávetur er gróskan þar lítt áberandi ) Húsið er byggt sem íbúðarhús og hefur alla tíð verið nýtt sem slíkt. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús þó nokkrar fjölskyldur hafi búið þar samtímis fyrstu árin. Húsakönnun Akureyrarbæjar og Teiknistofu Arkitekta (sjá tengil hér að neðan) metur húsið í varðveisluflokki 1, þ.e. sem hluta af þeirri heild sem húsaröð Brekkugötunnar er. Þessi mynd er tekin sunnudaginn 10.janúar sl. en þann dag myndaði ég öll húsin við Brekkugötu 23-47 (að nr. 31 undanskildu, það hús myndaði ég sumarið 2010).
Heimildir
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.
Bygginganefnd Akureyrarbæjar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 642, 17.2.1930, nr. 655, 21.7.1930.
Óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Breytt 2.5.2016 kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2016 | 11:53
Hús dagsins: Brekkugata 34
Brekkugata 34 er efsta húsið á Brekkugötu að austanverðu og stendur sunnan við Hamarkotsklappir, þar sem m.a. má finna hringsjá og styttuna af Landnemunum, Helga magra og Þórunni hyrnu.
Jónas Þór, verksmiðjustjóri á Gefjun virðist hafa verið sérlega fundvís á skemmtileg hússtæði. Lýðveldisárið 1944 byggði hann Brekkugötu 34, íbúðarhús efst við Brekkugötu austanverða steinsnar sunnan Hamarkotsklappa. Ríflega tveimur áratugum áður hafði hann reist Brekkugötu 30, en það hússtæði hefur einnig verið býsna sjarmerandi, ofan klapparholta og túna norðan Oddeyrar. Þegar Brekkugata 34 var byggð hefur útsýnið frá þessum stað verið býsna skemmtilegt til allra átta; yfir iðagræn tún og grasbýli Glerárþorps, klapparholtin og túnin þar sem nú er Efri Brekkan. Verksmiðjurnar á Gleráreyrum, (þ.m.t. Gefjun þar sem Jónas gegndi forstöðu) voru einnig þarna í sjónmáli. Þess má líka geta, að á þessum tíma var þessi staður í þjóðbraut, en hún lá um Brekkugötu norður og vestur, ofan Gleráreyra.
Teikningarnar af húsinu gerði Tryggvi Jónatansson en elstu teikningarnar sem Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar býður upp eru ódagsettar, óáritaðar raflagnateikningar sem gjörla sýna upprunalega herbergjaskipan hússins. Brekkugata 34 er einlyft steinsteypuhús; steinsteypuklassík, með háu risi og miðjukvisti með einhalla þaki og stendur húsið á kjallara. Risið er gaflsneitt líkt og á næstu tveimur húsum neðan við, timburhúsinu á 32 og steinhúsinu á 30. Brekkugata 34 er raunar ekki ósvipað að gerð og hið síðarnefnda og hafa má í huga að þau byggði sami maður. Á suðurgafli er útskot eða sólstofa og svalir ofan á. Gluggar hússins eru með einföldum póstum, bárujárn er á þaki og inngangur á miðri framhlið og steyptar tröppur að honum.
Fljótlega eftir byggingu hússins hóf Jónas tilraunaræktun á eplatrjám á lóðinni og hér má sjá mynd af einu þeirra Hér má einnig finna tilvitnun í frásögn Jónasar af þessari áhugaverðu ræktunartilraun. eplatrjánum. Á 8. og 9.áratugnum hýsti húsið skrifstofu Iðju, félags verksmiðju- og skrifstofufólks, en enginn hefur búið í húsinu um áratugaskeið. Þá var leikskólinn Klappir starfræktur í húsinu um nokkurt árabil og hófst rekstur hans árið 1992 . Nú er starfrækt athvarf fyrir fólk með geðraskanir í Brekkugötu 34 og kallast það Lautin. Brekkugata 34 er hið glæsilegasta hús í góðu standi; það var allt endurgert að innan fyrir um áratug fyrir starfsemi Lautarinnar. Girðing á lóðarmörkum setur einnig skemmtilegan svip á umhverfið, en sú mun vera upprunaleg. Þessi mynd er tekin þ. 10.jan. 2016.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Ýmsar heimildir af vef, sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2016 | 20:16
Gleðilegt sumar
Óska öllum gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn.
Mynd segir ævinlega meira en 1000 orð; svona var umhorfs um fimmleytið í dag. Horft er fram Eyjafjörð, Staðarbyggðarfjall fyrir miðri mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2016 | 09:25
Hús dagsins: Brekkugata 43
Brekkugötu 43 reistu þau Þorsteinn Þorsteinsson verkamaður hjá KEA, síðar Sjúkrasamlagsgjaldkeri og Ásdís Þorsteinsdóttir. Árið 1929 fékk Þorsteinn leyfi til að reisa íbúðarhús úr steinsteypu, eina hæð á kjallara með lágu risi að stærð 8x7,2m auk bakhúss úr steinsteypu, jafn langt íbúðarhúsi. Húsið teiknaði Halldór Halldórsson.
Brekkugata 43 er einlyft hús á kjallara, raunar svo háum að álitamál er hvort húsið eigi að teljast ein- eða tvílyft. En byggingarleyfi segir einlyft með kjallara og mun höfundur hlíta þeim dómi hér. Á bakhlið er einlyft viðbygging með flötu þaki. Húsið er steinsteypt og með bárujárni á þaki og er nýlegur kvistur á framhlið. Gaflar rishæðar eru klæddir lóðréttum timburborðum og kvistur einnig. Yfir inngöngudyr á framhlið er dyraskýli; lítið risþak. Krosspóstar eru í flestum gluggum. Húsið hefur allt hlotið meiriháttar endurbætur á síðustu árum, 2012-14 og er kvistur á þaki til kominn þá. Hér má sjá teikningarnar að endurbótum hússins auk nánari byggingatæknilegrar lýsingar á húsinu. Lóð hússins virðist einnig vel frá gengin. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin sunnudaginn 10.janúar 2016.
Þorsteinn Þorsteinsson, sá er byggði Brekkugötu 43, var fæddur að Engimýri í Öxnadal 12.mars 1890. Þorsteinn var mikill ferðamála- og skógræktarfrömuður. Hann var einn af stofnendum Ferðafélags Akureyrar fyrir réttum 80 árum og var þar framkvæmdastjóri um árabil og er Þorsteinsskáli í Herðubreiðarlindum er nefndur eftir honum. Sonur Þorsteins var Tryggvi (1911-1975) kennari, skólastjóri og skátaforingi en um hann hef ég fjallað lítillega hér. Þeir feðgar leiddu m.a. hinn frækilega björgunarleiðangur Akureyringa sem fór að sækja áhöfn flugvélarinnar Geysis er brotlenti á Vatnajökli haustið 1950. Hér má skoða minningargreinar um Þorstein Þorsteinsson en hann lést í febrúar 1954, tæplega 64 ára.
Þorsteinsskáli (byggður 1958) í Herðubreiðarlindum er kenndur við Þorstein Þorsteinsson. Myndin er tekin 24.júlí 2010.
Heimildir:
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933. Handritað skjal, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Ýmissa heimilda á vef er vísað til með tenglum í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2016 | 08:42
Hús dagsins: Brekkugata 32
Brekkugötu 32 reisti Eyþór Tómasson, síðar kenndur við sælgætisverksmiðjuna Lindu, árið 1933 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. En Eyþór stofnaði hina nafnkunnu súkkulaðiverksmiðju árið 1948 og var þar forstjóri í fjóra áratugi, eða uns hann lést 1988. Hann fékk leyfi til byggingar við Brekkugötu haustið 1932 og hefur hann líkast til hafist handa við byggingu um veturinn. Þann 4.mars 1933 bókar bygginganefnd hins vegar eftirfarandi:
telur nefndin að þessi bygging hans fái ekki stæði [...] birgir fyrir útsýni og lýti skipulag bæjarins og fari í bága við Skipulagsuppdrátt hvað hæð snertir (Bygg.nefnd Ak. 1933: 694)
Þar á bæ voru menn sannarlega ekki að skafa utan af hlutunum en þetta sýnir ákveðinn metnað í þá átt að halda skipulaginu heildstæðu. Auk þess er athyglivert, að þarna er mönnum umhugað um útsýni, líklega það sem íbúar nærliggjandi húsa hafa átt að njóta. En rúmum mánuði síðar var Eyþóri heimilað að reisa hús, eina hæð á kjallara með háu risi og kvisti stærð 8,30 x 7,70m. Þar er væntanlega um að ræða hús það er enn stendur.
Brekkugata 32 er einlyft timburhús á kjallara og með háu gaflsneiddu risi og miðjukvisti að framan og forstofubyggingu að norðan. Þá er einnig kvistur með hallandi þekju á bakhlið en þann kvist fékk Eyþór að setja á húsið árið 1934. Húsið er klætt steinblikki og með bárujárni á þaki og þar er að öllum líkindum um að ræða upprunalega klæðningu, en á þessum árum var slík klæðning skilyrði fyrir byggingu timburhúsa. Krosspóstar eru í gluggum og á norðurhlið er forstofuskúr en einnig er gengt inn í kjallara á bakhlið. Húsinu hefur að öllum líkindum verið vel við haldið alla tíð, en það virðist í góðu standi og lítur vel út. (Ég hef eitt sinn heyrt börn kalla þetta Jarðarberjahús - líkast vegna litavalsins, þessa skemmtilega samsetning rauðs og græns). Og talandi um græna litinn- þá er lóð hússins vel gróin og hirt og þar standa nokkur gróskumikil tré. Eðlilega er gróðurinn þó lítt áberandi á meðfylgjandi mynd, sem tekin er í fyrrihluta janúar. Líkt og næsta hús, nr. 30 er húsið gaflsneitt og gefur það óneitanlega sérstakan svip. Húsið hefur alla tíð verið nýtt til íbúðar en líklega frá árinu 2014 hefur húsið verið nýtt sem gistiheimili. Af myndunum á þessari síðu má ráða, að ekki ætti að væsa um þá ferðamenn sem gista hið 83 ára gamla timburhús á Brekkugötu 32. Myndin er tekin þann 10.jan. sl.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundir nr. 682, 7.11.1932, nr. 694, 4.3.1933, nr. 697, 11.4.1933 og 715, 7.2.1934.
Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2016 | 01:00
Hús dagsins: Brekkugata 30
Snemma árs 1922 sótti Jónas Þór verksmiðjustjóri um lóð austan Brekkugötu, norðan við tún Axels Kristjánssonar.
Tún Axels hefur þannig að öllum líkindum verið á svipuðum slóðum og Akureyrarvöllur eða áhorfendastúka hans er í dag. Fékk Jónas 400 fermetra lóð eftir útmælingu og fékk um sumarið leyfi til að reisa steinhús, 10,8x8,2m að stærð, einlyft með háu risi og á kjallara. Húsið er eitt margra sem húsa sem byggingafræðingurinn og athafnamaðurinn Sveinbjörn Jónsson teiknaði á 3. og 4.áratugnum. Upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar gegnum Infrapath upplýsingar, en hér eru teikningar af gluggabreytingum sem gerðar voru 1992.
Brekkugata 30 er einlyft steinsteypu- og r-steinshús með háu risi og á lágum kjallara. Ris hússins er gaflsneitt og eru á húsinu tveir kvistir með hallandi þökum. Krosspóstar eru í gluggum og á þaki er svokallað stallað bárujárn- járn sem minnir nokkuð á skífuklæðningu. Hef ég kallað svona klæðningu skífustál. Timburverönd eða sólpallur er á vesturhlið hússins en einnig eru verandir á austurhlið og forstofubygging við kjallara. Húsið stendur á horni Brekkugötu og Klapparstíg og snýr framhlið hússins og suðurgafl að síðarefndu götunni en bakhlið að Brekkugötu. Er húsið syðst húsa við götuna austanverða, norðan Oddeyrargötu. Brekkugata 30 hefur að öllum líkindum alla tíð verið íbúðarhús. Það lítur vel út og er í góðu standi og samkvæmt húsakönnun sem vísað er til hér að neðan nýtur húsið varðveislugildis sem hluti af þeirri merku heild sem húsaröðin við Brekkugötu er. Gaflsneiðingurinn gefur húsinu óneitanlega skemmtilegan svip og er það einkenni húsinu og hinum tveimur næstu norðan við. Sunnan við húsið stendur fallegt kirsuberjatré, eitt fárra slíkra á Akureyri. Því miður á ég ekki til mynd af trénu - og eðlilega var lítið um laufskrúð eða blóm þegar ég var á ferðinni að mynda Brekkugötuhúsin þann 10.janúar sl.
Hér er horft frá Glerárgötu upp að Brekkugötu og Klapparstíg. Jónas Þór fékk úthlutað lóð norðan við tún Axels Kristjánssonar. Líklegt er, að það hafi verið á svipuðum slóðum og áhorfendasvæði Akureyrarvallar.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 507, 3.feb 1922
Nr. 518, 13.júlí 1922. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 135
- Sl. viku: 436
- Frá upphafi: 446090
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 321
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar