Hús dagsins: Gamli Skóli; Eyrarlandsvegur 28

Um aldamótin 1900 kölluðust stærstu hús bæjarins á, yfir Bótina; Snorri Jónsson hafði reist veglegt hús við Strandgötuna á Oddeyri og skömmu síðar reisti fyrrum nemi hans í trésmíðum, Bergsteinn Björnsson ámóta hús á uppfyllingu í Bótinni. Hús Bergsteins, sem var lítið eitt stærra að grunnfleti og hærra en hús Snorra, naut þó ekki lengi þess titils, að vera stærsta hús bæjarins. Fjórum árum síðar reis á hinu nýja landi Akureyrarkaupstaðar,  uppi á brekkunni nærri Stóra Eyrarlandi, eitt stærsta hús bæjarins og stærsta timburhús fyrr og síðar.  (Verið gæti þó, að  fjölbýlishús, sem nú rísa úr timbri í Holtahverfi í Glerárþorpi skáki  því að  rúmtaki). Um ræðir eitt skrautlegasta og tilkomumesta hús bæjarins, sérlegt kennileiti og prýði, Gamli Skóli eða Menntaskólinn. Þegar þessi pistill birtist hér, 29. apríl 2024, eruP6110956 liðin nákvæmlega 120 ár síðan Stjórnarráðið samþykkti teikningarnar að húsinu!

Gamli Skóli, sem margir kalla einfaldlega Menntaskólann í daglegu tali,  er háreist tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara. Skiptist húsið í þrjár álmur, suður og norðurálmur snúa stöfnum í austur og vestur en miðálma liggur á milli þeirra í norður-suður. Stafnar álmanna mynda tvær endaburstir en fyrir miðju húsinu er ein burst eða kvistur. Burstir þessar skaga 60 cm út fyrir miðálmu. (Ekki ósennilegt, að þar hafi verið miðað við eina alin). Grunnflötur miðálmu er 42,5x8,6m en hliðarálmurnar 10,1x9m. Á hvorri álmu eru einlyftar anddyrisbyggingar, sú á norðurálmu með lágu valmaþaki en sú á suðurálmu með háu risþaki. Kallast sú á suðurálmu Sólbyrgið. Einnig er útskot á bakhlið suðurálmu. Í flestum gluggum eru níu rúðu krosspóstar en mjórri gluggar (sexrúðu) eru m.a. í kjallara, undir rjáfrum og í kvistum. Þá eru vatnsbretti eða bönd undir neðri gluggalínu sem og á hæðarskilum við rishæð. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir og þak og húsið mjög skrauti prýtt; á burstum er útskurður á hanabjálkum og krossskeyttum bjálkum þ.e. hengisúlum. Einnig er útskurður á mænistoppum. Á miðburst rammar útskorið skraut inn fánastöng. Tveir skorsteinar, hlaðnir úr rauðleitum múrsteinum setja einnig svip á bakhlið hússins. Bakhliðin tengist löngum tengigangi sem tengir húsið við Hóla, nýbyggingu frá 1996.IMG_1562

 

      Að öllu jöfnu er saga Menntaskólans á Akureyri rakin til stofnunar skóla að Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1880 og raunar allt aftur til stofnunar skóla að Hólum í Hjaltadal árið 1106. Skólinn var starfræktur í veglegu húsi, tvílyftu með háu risi,  en það hús brann til ösku veturinn 1902. Var þá skólinn á hrakhólum en næstu tvo vetur var hann til húsa í nýbyggðum Barnaskóla sunnan Barðsnefs (Hafnarstræti 53). Raunar kom til greina, að hann fengi inni í nýreistu húsi Bergsteins Björnssonar, sem nefndur er hér í formála, en það var ekki talið fullnægjandi. Þegar skólahúsið brann voru þá þegar komnar fram hugmyndir um að flytja skólann til Akureyrar.  Í ársbyrjun 1898 hafði Jón Hjaltalín lagt það til í bréfi til landshöfðingja, sem annars sneri að lélegu ástandi Möðruvallahússins. Ekki voru menn sammála um þessa hugmynd en bruninn á Möðruvöllum mun þó hafa sameinað menn í þeirri afstöðu, að skólinn yrði endurreistur á Akureyri. Það varð svo úr,  að þann 10. nóvember 1903, voru samþykkt lög á Alþingi, um Gagnfræðaskóla á Akureyri og með fylgdi fjármagn; 67.000 krónur úr Landssjóði en byggja átti hús með heimavist fyrir allt að 50 nemendur. Raunar hafði skólameistari, Jón Hjaltalín, falast eftir því við bæjarstjórn, strax í september það ár,  að fá  lóð í norðausturhorni Eyrarlandstúns undir fyrirhugaðan gagnfræðaskóla. Vildi hann helst eina dagsláttu (u.þ.b. 3600 m2 ). Féllst bæjarstjórn á þetta að öllu leyti (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 894, 1903). Það var svo um vorið 1904, að Jón óskaði eftir stækkun á lóðinni og enn var bæjarstjórn velvildin ein; skólinn fékk alla spilduna milli Breiðastrætis og Bæjarstrætis að austan og milli Vesturstrætis að sunnan og túngarð Eyrarlands að norðanIMG_1563 (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 911, 1904). Ef marka má einn elsta uppdrátt sem til er af Brekkunni, virðist Breiðastræti hafa átt að liggja nokkurn veginn þar sem nú er byggingin Hólar, Vesturstræti þar sem nú eru norðurmörk Lystigarðs og Bæjarstræti um það bil þar sem nú er Eyrarlandsvegur. Umræddur túngarður Eyrarlands mun hafa verið á svipuðum slóðum og Hrafnagilsstræti er nú. Síðasta verk Bygginganefndar á árinu 1903 var að bóka álit nefndarinnar á þeim stað, sem afmarkaður hafði verið á Eyrarlandstúni, þar sem kennarar skólans teldu rétt að skólahúsið stæði. Voru nefndarmenn nokkurn veginn sammála en töldu rétt, að skólahúsið yrði fært austar.

       Á hinu nýja ári fóru skólayfirvöld að leita tilboða í byggingu skólahúss. Bárust tilboð frá helstu byggingameisturum bæjarins, auk eins tilboðs frá byggingameisturum úr Reykjavík.   Öllum var þessum tilboðum hafnað en Klemenz Jónsson leitaði til Sigtryggs Jónssonar, timburmeistara frá Espihóli  að gera uppdrátt og verklýsingu. Út frá þeirri teikningu var ákveðið að leita tilboða í byggingu en meðal þeirra sem sendu inn tilboð var Snorri Jónsson. Sendi hann einnig uppdrátt að húsi og lengi vel var raunar talið, að hann hafi verið höfundur hússins. Uppdráttur sem varðveist hefur, tekur af öll tvímæli um þetta; Sigtryggur Jónsson undirritar teikningar, sem daIMG_1567gsettar eru 26. apríl 1904 og samþykktar af Stjórnarráðinu þremur dögum síðar (sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:198). Svo hófust menn handa: Sigtryggur Jónsson hélt utan til Noregs að velja timbur í bygginguna og þann 11. maí örkuðu Bygginganefndarmenn upp á Eyrarlandstún. Þar  „afmarkaði [bygginganefndin] þessa spildu með niðurreknum hælum. Síðan var eftir beiðni J.A. Hjaltalín er var viðstaddur mældur ut grunnur undir skólahúsið á hinum afmarkaða bletti og var ákveðið,  að húsið skyldi standa 10 ál. [6,3m] frá Breiðastræti, jafnhliða götunni og 15 ál. [tæpir 10m] í norður frá Vesturstræti“ (Bygg.nefnd. Ak. 1904: nr. 267). Af Noregsferð Sigtryggs segir fremur fátt, nema hvað tilgreint var í verksamningi, að viðurinn mætti ekki vera úr Mandal. Mögulega hefur Sigtryggur haft forskrift og teikningar meðferðis og látið forsmíða húsið ytra. Er það raunar talið líklegra en hitt og það sem styður þá kenningu er kannski einna helst hinn ótrúlegi byggingarhraði: Húsið, það stærsta sem risið hafði á Akureyri, var ekki nema fjóra mánuði í byggingu! Hornsteinn var lagður 4. júní og skóli settur nákvæmlega fjórum mánuðum síðar, þ.e. 4. október 1904.  Þrjár kennslustofur voru fullbúnar við skólasetningu en fleiri voru teknar í notkun eftir því sem á leið. Um áramótin 1904-05 átti íbúð skólameistara að verða tilbúin og heimavistin haustið eftir. Og það stóðst að mestu leyti. Heimavistin IMG_1566var með nokkuð nýstárlegu sniði, 2-4 nemendur saman í herbergi og ef fjórir deildu herbergi fengu þeir tvö herbergi, annað til svefns og hitt til lesturs. Fram að þessu var algengast að heimavistir væru einfaldlega svefnsalir eða loft.  Á fyrstu áratugum hússins var skipulagið nokkurn veginn þannig, að vesturhluti norðurálmu, báðar hæðir og kjallari, var heimavist auk þess sem risið var lagt undir heimavistina. Íbúð skólameistara var á neðri hæð í suðurálmu. Í kjallara norðurálmu voru herbergi þjónustustúlkna en síðar voru þar gerð heimavistarherbergi. Kennslustofur og skrifstofur voru flestar í miðálmu, á báðum hæðum en smíðastofa var í kjallara. Þá voru ýmsar einkageymslur skólameistara þ.á.m. vínkjallari í kjallara suðurálmu.

       Jón Hjaltalín (1840-1908), sem gegnt hafði stöðu skólameistara allt frá stofnum Möðruvallaskóla árið 1880, var kominn á sjötugsaldur þegar skólahúsið nýja reis og var orðinn nokkuð heilsuveill. Hann lést árið 1908 og varð Stefán Stefánsson þá skólameistari. Gagnvart húsnæði skólans einkenndist hans tíð nokkuð af erjum við yfirvöld vegna viðhalds og rekstrarfjár til hins nýja skólahúss. Var það helst að húsið væri óþétt; þiljur og gluggar héldu illa vatni. Kannski var miklum hraða við bygginguna um að kenna? Steininn tók þó úr í sunnan aftakaveðri í árslok 1914 er vatnsflaumur komst inn um veggi og glugga suðurhliðar og þakjárn flettist af. Í kjölfarið voru gerðar endurbætur á húsinu, suðurhlið klædd bárujárni og reist viðbygging á sömu hlið. Er sú bygging kölluð Sólbyrgið.   IMG_1564

       Árið 1914 tengdist skólahúsið vatnsveitu, þegar hún var tekin í notkun og rafmagn var leitt í húsið 1922, þegar rafveitu var hleypt af stokkunum hér í bæ. Um svipað leyti var sett í húsið miðstöðvarhitun en fram að því var húsið kynt með stökum kolaofnum. Fundist hafa gögn um að skoðuð hafi verið tilboð um miðstöðvarkerfi við byggingu hússins, en ekki náði það lengra en svo að það yrði skoðað. Hefur mögulega þótt of dýrt. Það hefndi sín hins vegar frostaveturinn 1918, þegar vatn í lögnunum frá 1914 fraus og handlaugar sprungu. Þá virðast steypt kjallaragólf hafa frostsprungið, en Stefán Stefánsson skólameistari getur þess, að frostið í skólaherbergjum hafi farið niður í 17 til 18 stig  og mest 24 stig á skrifstofu skólameistara! Enda segir hann „Sparnaðurinn við hitunarleysið étur sig því nokkuð upp, þegar á allt er litið“ (Steindór Steindórsson 1980:216).   Stefáni Stefánssyni var umhugað um viðhald hússins og góða umgengni. Í æviminningum sínum lýsir Steindór Steindórsson metnaði hans, en þegar Steindór hóf nám í skólanum 1920 var heilsu Stefáns farið að hraka (hann lést í janúar 1921): „Hið vökula auga Stefáns skólameistara hafði vakað yfir allri umgengni utan húss og innan, og með smekkvísi sinni hafði honum tekist að breiða yfir þótt naumt væri skammtað til húsabóta. Hann þoldi engan sóðaskap né ósnyrtimennsku, og sjálfrátt eða ósjálfrátt lærðu nemendur af honum að vanda umgengni sína[...]“ (Steindór Steindórsson 1982:97-98). Stefán Stefánsson stóð einnig fyrir því, að lóð skólans var stækkuð, hann tók land á erfðafestu allt vestur og upp að Þórunnarstræti. Skömmu fyrir andlátið seldi hann Júníusi Jónssyni húsverði skólans túnspilduna, en hann hugðist reisa þar íbúðarhús. Nýr skólameistari, Sigurður Guðmundsson, IMG_1568var ekki alls kostar sáttur við þetta og taldi þessi byggingaráform þrengja að skólanum. Júníus seldi skólanum spilduna aftur en byggði hús austan Eyrarlandsvegar, nánar tiltekið húsið Eyrarlandsveg 29. Sigurður Guðmundsson var heldur ekki hrifinn af því, að byggja ætti austan Eyrarlandsvegar og átti í nokkrum deilum við bæjaryfirvöld þess vegna, enda þótt skipulagsnefnd ríkisins væru á hans máli.

       Árið 1922 skoðaði Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, skólabygginguna og gerði í kjölfarið tillögu að endurbótum. Fólust þær m.a. í ýmissi endurnýjun á innra byrði auk þess sem húsið var raflýst og sett í það miðstöðvarhitun. Um 1925 var húsið svo allt  bárujárnsklætt að utan og fékk þá það útlit að mestu sem það enn hefur. Að bárujárnsklæðningunni undanskilinni, er húsið að mestu lítt breytt að ytra byrði frá upphaflegri gerð. Annað, sem heimavistarnemendum hefur eflaust þótt enn meiri bylting var, að um sama leyti voru sett vatnssalerni í kjallara norðurálmu, í stað útikamra. Grípum niður í minningum Steindórs um innanhússkipulag skólahússins árið 1921: „Við 2. bekkingar vorum til húsa í næst innstu stofu á ganginum en þriðju bekkirnir sinn hvoru megin, A-bekkur að framan en B að innan. Ekki var kennt á efri hæðinni. Salurinn einungis notaður til morgunsöngs, söngkennslu og fundarhalda, en norðan við hann var náttúrugripasafn skólans en bókasafn að sunnanverðu. Smíðastofa var í norðurenda kjallara, en borðstofa heimavistar í suðurenda. Í öllum stofum voru kolaofnar, en gaslampar til ljósa í kennslustofum og á göngum“ (Steindór Steindórsson 1982:98).  Það er skemmst frá því að segja, að húsið hefur verið notað til kennslu nokkurn veginn óslitið síðastliðna 120 vetur, frá 4. október 1904. Aðeins um nokkurra mánaða skeið á árinu 1940 var ekki unnt að kenna í húsinu þar sem breska setuliðið hafði komið sér fyrir þar. Gerðust menn þá nokkuð smeykir um að þeir myndu í ógáti brenna húsið til kaldra kola og sagt að þeir fleygðu frá sér sígarettustubbum hvar sem þeir stóðu, jafnvel innandyra í timburhúsinu. En staðreyndin var hins vegar sú, að þessi eldhætta var líkast til ekkert  minni flestöll þau ár sem heimavist var í húsinu. Gefum Steindóri Steindórssyni orðið: „Herbergin voru hituð með kolaofIMG_1569num, og urðu nemendur að sjá um, að kol væru fyrir hendi ásamt uppkveikju, þá lögðu þjónustustúlkur heimavistar í ofnana um leið og þær gerðu herbergin hrein á hverjum morgni. Síðan önnuðust nemendur ofnana sjálfir, og er furða að aldrei skyldi slys hljótast af, þar sem fæstir kunnu með ofna að fara. Stundum skall þó hurð nærri hælum, þannig lá við að ofninn hjá Hermanni [Stefánssyni] og Bernharð Laxdal spryngi er þeir skvettu olíu á kolaglóð, til að skerpa á hitanum“ (Steindór Steindórsson 1980:103). Svona lagað mun ekki hafa verið einsdæmi. Raunar logaði eldur stanslaust í Gamla Skóla í 75 ár, eða allt þar til Árni Friðgeirsson ráðsmaður slökkti á olíukyndingu, sem tók við af kolunum um 1950, og hleypti á húsið heitu vatni frá Hitaveitu Akureyrar. Var það 1. október 1979 (sbr. Tryggvi Gíslason 2009: 171).  Alla tíð voru menn hins vegar meðvitaður um eldhættu, næturvörður var í húsinu til ársins 1967 en þá var sett í húsið reykskynjarakerfi, beintengt við slökkvilið. Síðar kom fullkomið viðvörunar- og vatnsúðakerfi. Eins og fyrr segir var íbúð skólameistara í húsinu en síðar bjó þar ráðsmaður, téður Árni Friðgeirsson, allt til ársins 1978.

       Um fá hús hafa verið ritaðar nákvæmari viðhaldssögur en Gamla Skóla. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru frá fyrstu áratugum hússins en lesendum er bent á mjög ítarlega kafla í tveimur bindum Sögu Menntaskólans á Akureyri. Annars vegar kafli Steindórs Steindórssonar í 1. bindi (bls. 205-234) og Tryggva Gíslasonar í 4. bindi (bls. 169-244).   Þess má geta, að sá síðarnefndi tók við embætti skólameistara af hinum fyrrnefnda árið 1972 og gegndi starfinu fram á nýja öld. Þannig er raunar um að ræða frásagnir frá fyrstu hendi, manna sem samanlagt voru viðloðandi þetta hús í meira en 80 ár.IMG_1565

       Síðustu áratugi hefur framkvæmdir og viðhald við Gamla Skóla, utan jafnt sem innan, miðað að því að halda sem mest í upprunalega gerð hússins. Árið 1977 var húsið friðlýst af bæjarstjórn Akureyrar, í hópi fyrstu húsa hér í bæ sem friðlýst voru. Var hann friðaður í B-flokki, sem nær til ytra byrðis. Árið 1969 gerði Þorsteinn Gunnarsson arkitekt (og stórleikari) uppmælingarteikningar að húsinu og hafa síðan verið gerðar á húsinu ýmsar endurbætur, utan jafnt sem innan, sem líklega væri of langt mál að telja upp hér. En húsið hefur hlotið fyrirtaks viðhald í alla staði. Þrátt fyrir ýmsa vankanta, sem töldust á húsinu á upphafsárum var það engu að síður svo, að um 1970 var það með öllu fúalaust (sbr. Steindór Steindórsson 1980: 211) og því eflaust vel viðað frá upphafi.  Sem fyrr segir er enn kennt í Gamla Skóla og þar er einnig kaffistofa starfsfólks og skrifstofur. Þess má geta, að þekkt íslenskt orðtak á uppruna sinn í Gamla Skóla. Þannig var mál með vexti, að á skrifstofu skólameistara stendur verklegt hvalbein. Í meistaratíð Sigurðar Guðmundssonar var talað um „að fara á hvalbeinið“ þegar nemendur voru kallaðir til hans, og hann las þeim pistilinn. Þannig er komið máltækið „að taka einhvern á beinið“ (sbr. Steindór Steindórsson 1993:163).

       Af öðrum byggingum á lóð Menntaskólans má nefna Fjósið, sem reist var ári síðar en Gamli Skóli, og var frá upphafi íþróttahús og er enn. Heimavistarhús reis norðvestanmegin á lóðinni 1946 og með tilkomu þess var smám saman farið að breyta heimavistarherbergjum í Gamla Skóla í kennslustofur. Möðruvellir, raungreinahús, beint vestur af Gamla Skóla og Fjósi var tekið í notkun 1969. Árið 1996 var nýjasta bygging skólans, Hólar, tekin í notkun en það hús er nokkurn veginn miðsvæðis. Hólar eru nokkurs konar viðbygging við Möðruvelli en tengjast einnig Gamla Skóla gegnum langan gang. Þannig þrengja nýbyggingar hvergi að gamla húsinu enda þótt innangengt sé á milli. Það er óneitanlega viss stemning yfir því, að ganga eftir hörðum dúklögðum gólfum gangsins úr Hólum og stíga yfir á brakandi, dúandi gólf Gamla skóla. Nýjasta viðbótin við húsaþyrpingu á Menntaskólasvæðinu er ný heimavist, sem reist var árin 2002-03 og er sameiginleg fyrir Menntaskólann og Verkmenntaskólann. Þess má geta, að greinarhöfundur var einmitt í hópi nemenda, sem fylgdust með þáverandi bæjarstjóra, Kristjáni Þór Júlíussyni, taka fyrstu skóflustungu af þeirri byggingu, 2. maí 2002. Fengu þá allir að fara úr tímum að fylgjast með og var greinarhöfundur einmitt í dönskutíma í Gamla Skóla; nánar tiltekið nyrst í kjallara þar sem heitir G1 (sú stofa mun upprunalega hafa verið smíðastofa).

    Húsið er sem fyrr segir friðlýst og hlýtur hæsta mögulega varðveislugildi í Húsakönnunn 2016 eða 8. stig, sem friðlýst bygging. Þar fær Gamli Skóli umsögnina: „Einstakt  hús  sem  hefur  mjög  hátt  varðveislugildi  vegna  aldurs, byggingarlistar, menningarsögu og staðsetningar“ (Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:49). Um gildi Gamla Skóla fyrir umhverfi sitt eða sögu bæjarins þarf vart að fjölyrða. Um er að ræða eitt stærsta og skrautlegasta timburhús bæjarins, mikið kennileiti sem sést langt að og er samofið sögu virtrar menntastofnunar. Þegar þetta er ritað eru liðin rétt 120 ár frá því að lokið var við teikningar hússins og næstkomandi haust verður það 121. sem nemendur setjast þar á skólabekk. Hversu mjög sem samfélagið og tæknin gerbreytist stendur sumt hið gamla ÁVALLT fyrir sínu með glæsibrag. Þar á meðal er hið aldna og glæsta skólahús á Syðri Brekkunni.  Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. júní 2020 og 15. apríl 2024.

 

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21.  Fundur nr. 267, 11. maí 1911.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Bæjarstjórn Akureyrar. Fundargerðir 1900-09. Fundur nr. 894, 22. sept. 1903. Fundur nr. 911, 10. maí 1904. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a25_5?fr=sZTFmMTQzODI5ODU

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.).2003. Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning

Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Steindór Steindórsson. Gagnfræðaskólinn á Akureyri 1902-1930; Hús skólans og lóð. Í Gísli Jónsson (ritstj.). 1980. Saga Menntaskólans á Akureyrar 1. bindi. (bls. 205-234) Menntaskólinn á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1982. Sól ég sá. Sjálfsævisaga Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Tryggvi Gíslason. Hús skólans. Í Jón Hjaltason (ritstj.) 2009. Saga Menntaskólans á Akureyri 4. bindi. (bls. 169-244) Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólann á Akureyri.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Segja má, að götumynd Eyrarlandsvegar sé tvískipt. Úr norðri liggur gatan upp brattan hjalla upp frá Grófargili að brún Barðsgils en sunnan síðarnefnda gilsins þræðir hún brekkubrúnina í aflíðanda til suðurs að mótum Spítalavegar og aðkeyrslunni að Sjúkrahúsi Akureyrar. Með fáeinum undantekningum er gatan skipuð reisulegum steinhúsum frá 3. áratug sl. aldar.  Í norðurhlutanum standa húsin vestan götu en í suðurhluta standa húsin austanmegin og snúa stöfnum mót götu. Vestanmegin suðurhluta götunnar er að sjálfsögðu lóð Menntaskólans og Lystigarðurinn. Syðsta hús Eyrarlandsvegar er reisulegt steinhús, reyndar ekki frá 3. áratug sl. aldar, heldur örlítið eldra eða frá 1915. Þegar það var reist taldist það reyndar standa við allt aðra götu…IMG_1557

Í febrúar 1915 sótti Þorkell Þorkelsson kennari um lóð við Eyrarlandsveg, norðan við Sigurð Hlíðar (Eyrarlandsveg 26 eða Breiðablik) og leyfi til að byggja hús, samkvæmt framlagðri teikningu; 8,8x8,2m með forstofu 2,3x3,4m og bakskúr 2,2x1,3m. Fékk hann lóðina og byggingarleyfið en tveimur vikum síðar ber hann upp annað erindi við bygginganefnd. Þorkell tilkynnti bygginganefnd, að hann hyggðist hætta við þessa lóð. Þess í stað  ætlaði hann að reisa umrætt  hús á lóð, sem hann ætlaði að kaupa af Sigurði Fanndal. Lóðin yrði þannig austan við Eyrarlandsveg og norðan við Fagrastræti (sjá síðar í grein) og framhlið hússins snúi að síðarnefndu götunni. Veitti bygginganefndin leyfið með þeim skilyrðum að húsið stæði „nokkuð frá Fagrastræti“ og gaflinn yrði í húsalínu við Eyrarlandsveg. Einnig skyldi Þorkell kaupa spilduna austan húsalínunnar við Eyrarlandsveg (sem kallaður er Spítalavegur innan sviga í bókunum Bygginganefndar) á eina krónu hvern fermetra. Umræddur Sigurður Fanndal, sem seldi Þorkeli lóðina var þáverandi eigandi Hafnarstrætis 49 (Amtmanns- eða Sýslumannshússið, enn síðar skátaheimilið Hvammur).  Þannig má segja, að húsið sé „byggt úr landi“ Hafnarstrætis 49, en þegar það hús var reist árið 1895 var lóðin rúmur hektari, enda staðsett utan þéttbýlis.

      Eftir því sem greinarhöfundur kemst næst er hönnuður hússins ókunnur. Til eru ódagsettar, óáritaðar teikningar að húsinu sem  taldar eru gerðar eftir 1928 en á þeim má greina höfundareinkenni Halldórs Halldórssonar. Elstu varðveittu teikningar að húsinu munu óáritaðar raflagnateikningar frá 1923. Ekki er útilokað, að Þorkell hafi sjálfur teiknað húsið en hann var eðlisfræðimenntaður og hafði unnið við Tækniháskóla Danmerkur svo húsateikningar hefðu líkast til ekki vafist fyrir honum.

      Eyrarlandsvegur 35 er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með portbyggðu risi. Krosspóstar eru í gluggum á hæð og í risi en á inngönguskúr á framgafli er margskiptur skrautgluggi. Á framhlið er forstofubygging, á norðurhlið er lítil útbygging eða stigahús og lítið útskot með lauklaga þaki (karnap) er á suðurhlið. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.  Húsið er látlaust og einfalt að gerð, líkt og elstu steinsteyptu íbúðarhúsin hérlendis en útskotið er einkum áberandi í svipgerð hússins og gefur því skrautlegt yfirbragð. Í því samhengi mætti einnig  nefna tvo samliggjandi bogadregna glugga á sömu hlið en einnig skrautglugginn á forstofu. Alls mun húsið um 225 m2  að stærð, skv. Húsakönnun (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:59).IMG_1561

      Þegar húsið var svo til nýbyggt, í desember 1916, var það metið til brunabóta og lýst sem einlyftu íbúðarhúsi með porti og risi, á kjallara og byggt úr steini með járnklæddu timburþaki. Á gólfi undir framhlið, þ.e. vestanmegin á neðri hæð voru tvær stofur og forstofa en austanmegin eitt herbergi, eldhús og búr og forstofa með stiga upp á loft. Á rishæð voru fimm íbúðarherbergi og fjögur geymsluherbergi. Þá kemur einnig fram, að við aðalinngang sé skúr sem einnig er forstofa og annar lítill skúr sé við bakhlið. Grunnflötur hússins 8,5x8,2m, hæð 7,5m, gluggar 27 að tölu og einn skorsteinn. Þá kemur einnig fram, að 60 metrar séu að næsta húsi (sbr. Brunabótafélagið 1916: nr 95). Húsið, sem stóð í 60 metra fjarlægð var væntanlega skólahúsið, en næsta hús við Eyrarlandsveg á þessum tíma var Breiðablik sem Sigurðar Hlíðar byggði.

      Þegar húsið var reist stóð það við  Fagrastræti, sem liggja átti frá Lystigarðinum og til suðurs að brún Barðsgils. Ef marka má bókun bygginganefndar hefur húsinu verið ætlað að standa á horni Eyrarlandsvegar og Fagrastrætis. En hvað var þetta Fagrastræti?  Um var að ræða fyrirhugaða götu, sem líklega hefur verið ætlað að liggja nokkurn vegin á sömu slóðum og gatan Barðstún var lögð löngu síðar. Húsið taldist Fagrastræti 1 í áratugi ( og telst eflaust enn í hugum margra) og elstu dæmin sem  gagnagrunnurinn timarit.is finnur um Eyrarlandsveg 35 eru frá því eftir 1970. En það var hins vegar haustið 1961 að Bygginganefnd lagði til við bæjarstjórn, sem það samþykkti,  að Fagrastræti 1 yrði Eyrarlandsvegur 35

       Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur, sem byggði húsið, var fæddur að Frostastöðum í Skagafirði 6. nóvember árið 1876. Eftir stúdentspróf frá Reykjavík 1898 nam hann eðlisfræði í Kaupmannahöfn og lauk prófi þaðan 1903. Í Kaupmannahöfn starfaði hann í fimm ár við Polyteknisk lærenstalt (Tækniháskóla Danmerkur) uns hann fluttist til Akureyrar árið 1908. Hér í bæ kenndi hann við Gagnfræðaskólann, sem síðar varð Menntaskólinn á Akureyri. Það var því ekki langt fyrir Þorkel í vinnuna þau fáu ár sem hann bjó hér, því skólinn sá var til húsa handan götunnar í skólahúsinu mikla, sem nú kallast Gamli Skóli.  Þau fáu ár segir hér: Þorkell átti aðeins heima hér í þrjú ár því árið 1918 fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann kom á fót löggildingarstofu voga-og mælitækja og varð forstöðumaður þeirrar stofnunar.  Árið 1920 var Veðurstofa Íslands stofnuð og var Þorkell fyrsti veðurstofustjóri. Gegndi hann forstöðu beggja stofnananna, Löggildingarstofu og Veðurstofu, um nokkurra ára skeið, eða til áramóta 1924-25.  Þar var um að ræða nokkurs konar samrekstur eða samvinnu þeirra að ræða fyrstu árin. Þorkell var veðurstofustjóri til ársins 1946 er hann fór á eftirlaun. Eiginkona Þorkels var Rannveig Einarsdóttir (1890-1962), úr Hafnarfirði. Þorkell Þorkelsson lést árið 1961.IMG_1560

      Eftir að þau Þorkell og Rannveig fluttu úr húsinu átti Baldvin Ryel kaupmaður það um skamma hríð en árið 1920 er eigandi hússins Brynleifur Tobiasson, kennari við Gagnfræðaskólann. Hann fluttist hins vegar árið 1926 norður yfir Eyrarlandsveginn, í húsið Breiðablik, sem um svipað leyti fékk númerið 26 við Eyrarlandsveg. Árið 1930 búa alls fimmtán manns í Fagrastræti 1 og skiptist húsið í þrjú íbúðarrými. Þá er Sveinn Bjarnason bókhaldari eigandi neðri hæðar og Benedikt Pétursson þeirrar efri. Árið 1940 er eigandi hússins Jakob Kristján Lilliendahl bókbindari. Hér má sjá hann ásamt konu sinni, Stígrúnu Helgu Stígsdóttur og börnum þeirra sunnan við hús sitt um 1940. Hafa síðan ýmsir átt húsið og búið þar en síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús. Sem fyrr segir var götuheitið Fagrastræti formlega lagt niður árið 1961 og húsið síðan Eyrarlandsvegur 35. Hins vegar má segja, að Fagrastræti hafi að einhverju leyti orðið að veruleika þremur árum síðar, þegar gatan Barðstún var skipulögð á brekkubrúninni austan og neðan Eyrarlandsvegar. Barðstún nær reyndar ekki að Lystigarðinum eins og Fagrastrætinu var ætlað því gatan er lokuð í suðurendann, en lega götunnar er líkast til ekki fjarri því, sem Fagrastrætinu var ætlað. Fjögur hús standa við Barðstún, öll skráð byggð 1966 nema nr. 7, sem byggt er áratug síðar.

       Eyrarlandsvegur 35 er að mestu leyti óbreyttur að ytra byrði frá upphaflegri gerð en er þó í afbragðs góðri hirðu. Húsið er látlaust og einfalt að gerð og nokkuð dæmigert fyrir steinsteypuhús frá upphafi 20. aldar en þau voru yfirleitt byggð með sama byggingarlagi og tíðkaðist við timburhús.  Útskot og  bogadregnir gluggar á suðurhlið ásamt skrautgluggum í forstofubyggingu gefa húsinu hins vegar skemmtilegan og skrautlegan svip. Í Húsakönnun, sem unnin var um þetta svæði árið 2016, segir að húsið hafi hátt varðveislugildi vegna aldurs og byggingargerðar. Þá telst það  hafa hátt menningarsögulegt gildi með fyrstu húsum sem risu á svæðinu og hluti götu sem aldrei varð að veruleika. Húsið hlýtur næst hæsta mögulegaP3180106 varðveislugildi umræddrar Húsakönnunnar, eða 7. stig (8. stig fá friðlýst hús) sem hluti götumyndar Eyrarlandsvegar og framangreindra atriða. Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað skv. lögum nr. 80/2012 um aldursfriðun húsa eldri en 100 ára (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 59). Þá hafi það fágætisgildi sem eitt af fyrstu steinsteyptu íbúðarhúsum á Akureyri. Í svipinn man greinarhöfundur aðeins eftir Steinöld (1903), Ósi í Glerárþorpi (1908), Hafnarstræti 19 (1913), Aðalstræti 80, Smiðjunni við Gránufélagsgötu 22 og Strandgötu 45 (þrjú síðasttöldu byggð 1914). Þannig gæti Eyrarlandsvegur 35 verið áttunda elsta steinsteypuhús Akureyrar.  Húsið stendur á skemmtilegum og áberandi stað í gróinni brekku, gegnt Lystigarðinum. Þá er lóðin vel hirt og prýdd gróskumiklum trjágróðri.

Myndirnar eru, að einni undanskilinni, teknar 15. apríl 2024 en meðfylgjandi er einnig mynd sem tekin er 18. mars 2012 en þá stóð myndarleg Farmal dráttarvél í hlaði.

Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 404, 15. febrúar 1915 og nr. 406, 1. mars 1915.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Viðhorf til hjólreiðamanna

Ekki þekki ég til þessa tiltekna máls, annað en það sem ég hef séð í fréttum, en það að aka vísvitandi á hjólreiðamann er ekkert annað en TILRÆÐI. Það sem hins vegar gerist ævinlega, þegar frétt á borð við þessa fer um netmiðla byrjar söngurinn "hjólreiðamenn eru alltaf fyrir" og "hjólreiðamenn fara ekki eftir reglum" og árstíðabundna vers sama söng "það á ekki að hjóla á veturna". Svona eins og framangreint beinlínis RÉTTLÆTI svona lagað. En stöldrum aðeins við þennan punkt: Hjólreiðamenn eru alltaf fyrir.  Þetta þykir þó nokkrum svo djöfullegt, að umræddir hjólreiðamenn teljast allt að því réttdræpir. Allir vilja auðvitað allir komast leiðar sinnar og tafir hvers konar geta verið hvimleiðar. En stundum gerist það, að bílum er lagt á hjóla/göngustíga eða snjór annað hvort ekki ruddur eða á hinn veginn að snjóruðningar loki viðkomandi stígum. Ef fundið er að því er segin saga, að slíkt er afgreitt sem "væl" eða "tuð" eða jafnvel "frekja". Stórmerkilegt, svo ekki sé meira sagt. Svo gæti ég haldið áfram. Sumum finnst það algjört fásinna og sóun á fé skattgreiðenda að leggja göngu- eða hjólastíga. Hér skal þó skýrt tekið fram, að ég tel þetta ekki almenna viðhorfið og ég upplifi nánast undantekningalaust sjálfur tillitssemi í minn garð á götum Akureyrar. Og flestir hafa skilning á ólíkum þörfum ólíkra samgöngumáta.

Eitthvað af þessum viðhorfum gæti skýrst af því, að fólk telur hjólreiðar ekki vera samgöngumáta heldur "sport" og þess vegna sé t.d. bara allt í lagi þó einhver hjólastígur sé tepptur eða lokaður. Það er bara einfaldlega rangt! Sjálfur fer ég t.d. flestallra minna ferða hjólandi og ég þarf alveg eins að mæta á staði á réttum tímum, eða ná fyrir lokun eins og ökumaðurinn, sem bölvar hjólreiðamanninum, sem alltaf er fyrir. undecided Og ég er aldeilis ekki eini maðurinn, sem notar þennan ferðamáta. 

Alhliða lausnin í þessu öllu saman er, að allir vegfarendur, óháð ferðamáta taki sjálfsagt tillit til hvers annars. smile

 

  IMG_0685


mbl.is „Ert þú þá svona latte-lepjandi hjólagaur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Áður en lengra er haldið: Séra Jürgen Jamin hafði samband við akureyri.net vegna umfjöllunar á akureyri.net og langaði að koma eftirfarandi á framfæri: 

-Hrafnagilsstræti 2 hefur aldrei verið notað sem prestssetur (líkt og fram kom í pistli undirritaðs) heldur leigt út til spítalans i mörg ár þar til því var breytt í kirkju. 
-Kapellan var á neðri hæð Eyrarlandsvegar allt þar til Péturskirkja var tekin í notkun. Prestur bjó á efri hæðinni á Eyrarlandsvegi 26. (í pistli undirritaðs mátti líklega skilja sem svo, að allt húsið hafi verið kapella). Er sr. Jürgen þakkaðar þessar ábendingar. 
 
Spítalavegur 9

 

Á síðustu árum 19. aldar hófust landvinningar Akureyrar upp á brekkuna bröttu ofan kaupstaðarins í kjölfar þess, að jörðin Stóra Eyrarland var keypt og lagt undir kaupstaðinn. Árið 1898 reis nýtt sjúkrahús af grunni í hinu nýja „landnámi“ bæjarins. Var það á ávölum brekkubrúnum norðan Búðargils, á svæði sem kallast Undirvöllur. Ári síðar reis læknisbústaður á sama stað. Sjúkrahúsbyggingin er löngu horfin af þessum stað en var endurreist í Hlíðarfjalli og er nú Skíðastaðir. Læknisbústaðurinn stendur hins vegar enn... (Greinarhöfundi er reyndar ekki kunnugt um, hvort sjúkrahúslóðin sem slík var í því landi, sem bærinn hafði keypt árið 1893, eða hvort sá tiltekni blettur hafi tilheyrt bænum fyrir það. Það má þó teljast nokkuð ljóst, að yfirráð og eign Akureyrar á Eyrarlandsjörðinni var forsenda uppbyggingar á þessum slóðum).  IMG_0081

Árið 1896 hafði sjúkrahús verið starfrækt á Akureyri í liðlega tvo áratugi, í húsinu J. Gudmanns Minde sem nú er Aðalstræti 14 og jafnan þekkt sem Gamli Spítalinn. Það ár réðist til Akureyrar sem héraðs- og spítalalæknir, Guðmundur Hannesson (1866-1946). Hinum unga lækni (Guðmundur stóð þá á þrítugu) blöskraði aðstæður og aðbúnaður í húsinu, sem orðið var 60 ára gamalt og byggt sem íbúðarhús. Sagði hann húsið „stórum verra en flest privat hús“ og nefndi þar gluggaleysi, loftleysi, súg og ýmislegt annað, auk þess sem lækningatól voru flest úr sér gengin eða úrelt. Þá var því þannig háttað, að sjúkrarýmin voru á efri hæð hússins og mikið verk að koma sjúklingum upp þröngan og snúinn stiga. Það var því strax í janúar 1897 að Guðmundur lagði fram teikningar að nýju sjúkrahúsi og þar var um að ræða mjög fullkomið hús á einni hæð með vatnsleiðslu og miðstöðvarkyndingu (sbr. Magnús Stefánsson 2016:67-68). Um líkt leyti og fyrstu sjúklingar voru lagðir inn á nýja sjúkrahúsið á Undirvelli snemmmsumars 1899 hófst Guðmundur handa við byggingu eigin íbúðarhúss sunnan sjúkrahússins nýja.  

Það var vorið 1899, nánar tiltekið þann 20. maí að Guðmundur Hannesson fékk útmælda lóð og byggingarleyfi á þeim bletti á Undirvellinum, sem hann hafði látið slétta. Húsið yrði 17x12 álnir með „framstandandi útbyggingu“ að norðan og austan, 4x8 ½ álnir og „veranda“ sunnan við útbygginguna. Vestan hússins yrði skúr, 4 ½ x 12 álnir. (Lesendur eru kannski farnir að kunna það utanað, að alin var u.þ.b. 63 cm). Bygginganefndin mælti svo fyrir, að húsið skyldi standa í sömu stefnu og sjúkrahúsið og standa 5 álnir frá brekkubrúninni að austan en 6 ½ alin sunnan norðurbrúnar brekkunnar, sem upphlaðin er.  

Spítalavegur 9 er einlyft timburhús með háu risi og stendur á háum steyptum kjallara. Er það þrístafna ef svo mætti segja, það er tvær álmur; sú nyrðri snýr austur-vestur en suður úr henni er önnur álma sem snýr stafni mót suðri. Að norðan er miðjukvistur fyrir miðri þekju en útskot meðfram báðum hliðum suðurálmu. Þá eru smærri kvistir á báðum hliðum suðurálmu. Húsið er klætt láréttri panelklæðningu að utan og stallað bárujárn er á þaki. Á þakskeggjum og rjáfrum eru útskornir sperruendar og skraut í andaIMG_0082 sveitserstíls. Lóðréttir bjálkar skeyttir undir hanabjálka á austurstafni, sem ramma inn útskorið skraut á austurstafni norðurálmu og margskiptir skrautsprossar í sólskála austurhliðar setja sérlega skrautlegan svip á húsið. Grunnflötur hússins N-S er 10,32x10,80m (útbygging á vesturhlið meðtalin) en 5,59m breiður austurstafn norðurálmu skagar 2,65m út fyrir austurhlið. Sólskáli að austan 4,51x2,01m (skv. uppmælingarteikningum Finns Birgissonar, 1993)    

Smíði hússins mun ekki hafa tekið nema um þrjá mánuði, það er hún hófst í byrjun sumars 1899 og mun hann hafa flutt inn, ásamt fjölskyldu sinni um haustið. Fékk Guðmundur til liðs við sig timburmeistarann Snorra Jónsson á Oddeyri en Guðmundur mun sjálfur hafa ráðið útliti og innra skipulagi hússins að mestu leyti. Snorri og lærlingar hans smíðuðu glugga og hurðir í húsið veturinn áður en Guðmundur mun sjálfur hafa teiknað og sagað út skrautið sem prýðir gafla og þakbrúnir. Mætti ímynda sér, að hann hafi gripið í útskurðinn sér til hugarhægðar frá annríki læknisstarfsins. Svo vill til, að vitað er hver smíðaði upprunalegu hurðirnar í húsi Guðmundar. Hét hann Kristján Sigurðsson og lærði smíðar hjá Snorra Jónssyni árin 1896-98 og voru hurðirnar sveinsstykki hans í iðninni. Kristján lýsir vinnulaginu hjá Snorra á eftirfarandi hátt:  [...]hann [Snorri Jónsson] kom við og við til að segja fyrir um herbergjaskipan og mæla fyrir dyrum og gluggum. Aldrei var nokkurt hús teiknað fyrir fram, enda var hér þá enginn iðnskóli og lærðum við því ekkert í teikningu. Þegar byggja átti hús, var aðeins sagt fyrir, hve stórt það ætti að vera. Síðan var grindin höggvin saman og þá um leið ákveðið hvar dyr og gluggar ættu að vera. Því næst var húsið reist, klætt utan og síðan þakið (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (Kristján Sigurðsson, 1945) 1995:103).  

Þá kemur fram, að næst hafi verið settir í húsin gluggar og útihurðir, þá gólf og loft og því næst mælt fyrir innréttingum og veggjum. Var það að jafnaði gert í samráði við húseigendur og strikað með krítarsnúru fyrir veggjum. Þessi merkilega lýsing skýrir það, hvers vegna upprunalegar teikningar finnast sjaldan eða ekki þegar um ræðir íbúðarhús frá þessum árum: Þær voru einfaldlega ekki gerðar!    

 Í bréfi til konu sinnar, Karólínu Margrétar Ísleifsdóttur, sumarið 1899 segist Guðmundur hafa teiknað „veranda“ sólpall og hann ágætlega smíðaður af Ásmundi nokkrum sem á heima á Eskifirði. En umræddur Ásmundur, var Ásmundur Bjarnason sem nokkrum árum síðar átti eftir að stýra byggingu eins skrautlegasta og veglegasta timburhúss Eyjafjarðarsvæðisins, Grundarkirkju Magnúsar Sigurðssonar. Og einnig segir Guðmundur: „Ég er viss um að húsið verður fallegt, enda þó bæjarbúar sé á annarri skoðun og þyki það ljótt“ (Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:191).  Segir Guðmundur, að bæjarbúar telji það eins og tvo samsettir kumbalda, sem fátæklingar hefðu byggt fyrir 100 árum. Kannski var það þessi tvískipta gerð, með stöfnum til þriggja átta sem olli þessu áliti. En Guðmundur bætir einnig við nokkuð áhugaverðum punkti: „Kassi helst sem allra stærstur, það er það sem við fólkið á [...]. Þegar fleiri fallegri hús verða byggð breytist þetta smám saman “ (Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:191). Þessi orð eru einkar áhugaverð í ljósi þess, að um 120 árum síðar komu fram fremur stórkarlalegar hugmyndir um byggingu nokkurra, margra hæða fjölbýlishúsa á þessum sömu slóðum, að heita ofan í lágreistu byggðinni frá aldamótunum 1900.   

Hús Guðmundar var undir sterkum áhrifum frá norska sveitserstílnum og mun eitt fyrsta einbýlishúsið í þeim stíl hér í bæ. Ekki var það einungis nýstárlegt í útliti heldur einnig frágangur þess og búnaður. Ytri klæðning var tvöföld með þumlung á milli, innri klæðning pappalögð en grindin þétt einangruð með mosa. Þá var húsið kynt með kolaofnum sem drógu að sér loft eftir stokkum og í húsinu var vatnsleiðsla og vatnssalerni. Mun þetta fyrsta íbúðarhús bæjarins, sem búið var slíkum þægindum (sbr. Finnur og Hanna Rósa 2003:192). Guðmundur var að mörgu leyti frumkvöðull í heilsubótum og lækningaaðferðum, hann framkvæmdi t.d. botnlangaskurð fyrstur lækna hérlendis haustið 1902 (sbr. Magnús Stefánsson 2016:78) og gerði hann sér grein fyrir orsakasamhengi húsnæðis og heilsufars. Þannig var hann mjög áfram um bættan húsakost landsmanna og beitti sér óspart á því sviði. Það er því kannski engin tilviljun, að hús Guðmundar læknis skyldi hafa verið svo nýstárlegt hvað varðaði gerð og innri búnað eða þægindi.  Ásamt Guðjóni Samúelssyni vann hann ötullega að því, að kynna m.a. kosti steinsteypuhúsa í stað torfhúsa. (Reyndar gerðu fáeinar teikningar Guðjóns af íbúðarhúsum til sveita ráð fyrir torfþökum, t.d. á Kaupangi og Möðrufelli). P7310010 Guðmundur Hannesson kynnti hugðarefni sitt í blaða- og tímaritsgreinum auk bókarinnar Um skipulag bæja, sem út kom 1916. Þar er um að ræða tímamótarit í skipulagsfræðum þar sem fram koma margar nýjar hugmyndir, sem margar hverjar hafa æ síðan verið helsta leiðarljós í þéttbýlisskipulagi. Guðmundur, sem sat á Alþingi árin 1914-15, samdi  frumvarp að fyrstu íslensku skipulagslögunum, sem sett voru 1921 og á næstu árum skipulagði Guðjón Samúelsson svo nokkra þéttbýlisstaði, þ.á.m. fyrsta Aðalskipulag Akureyrar sem samþykkt var 1927.   

Guðmundur Hannesson fluttist til Reykjavíkur árið 1907 og tók þar við stöðu héraðslæknis og í húsið fluttist eftirmaður hans, Steingrímur Matthíasson, Jochumssonar. Steingrímur átti hér heima ásamt fjölskyldu sinni en hafði einnig læknastofu í húsinu. Steingrímur var eigandi hússins þegar matsmenn Brunabótafélagsins voru hér á ferð síðla árs 1916. Lýstu þeir húsinu sem einlyftu íbúðarhúsi með porti og háu risi á kjallara og með skúr til norðurs við vesturenda. Á gólfi við framhlið (austanmegin á neðri hæð) voru tvær stofur og forstofa en við bakhlið (vestanmegin) tvær stofur, eldhús og gangur með stiga uppá loftið. Á lofti voru þrjú íbúðarherbergi og fimm geymsluherbergi. Lengd 13,2 m, breidd 10,4 og hæð 6,9m. Þá voru 20 gluggar á húsinu og tveir skorsteinar, sem tengdust fjórum kolaofnum, eldavél og þvottapotti (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. ) Ekki er minnst á vatnssalerni í brunabótamatinu, en ekki ósennilegt, að það hafi verið í einhverju geymsluherbergja í kjallara. (Kannski hafði það aðeins verið virkt í tíð Guðmundar?) 

Förum nú hratt yfir sögu. Húsið hefur að mestu haldið sinni upprunalegri gerð, kvistur var settur á það árið 1938 og einhvern tíma var skraut fjarlægt af þakbrúnum. Þá var húsið klætt asbestplötum á tímabili en árið 1992 hófust endurbætur sem miðuðu að því, að færa húsið til upprunans. Voru þær gerðar eftir teikningum Finns Birgissonar. Á tímabili var húsið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Í Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar frá árinu 1986 er nokkuð ítarlegur eigendalisti hússins: Næsti eigandi á eftir Steingrími Matthíassyni er Þorsteinn M. Jónsson árið 1937 og tveimur árum síðar er eigandi Ingibjörg Kristófersdóttir. Haukur Snorrason eignast svo húsið 1941 og Ásgeir Árnason ári síðar. Ekki kemur fram hver á hvaða hæð eða hvort umrætt fólk eigi allt húsið en árið 1958 er Kjartan Ólafsson eigandi neðri hæðar og Stefán Reykjalín eigandi efri hæðar frá 1965. Þá er Sigurður Sigurðsson sagður eigandi 1971 (ekki getið fleiri eigenda) (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:152). Um áramótin 1980-81 fluttu þau Ólafur Tryggvi Ólafsson og Þorbjörg Ingvadóttir á efri hæð hússins og síðar eignuðust þau alltP5150358 húsið. Árið 2016 heimsótti Kristín Aðalsteinsdóttir þau Ólaf Tryggva og Þorbjörgu (sem búa hér enn þegar þetta er ritað síðla vetrar 2024) og tók við þau viðtal. Sögðu þau m.a. frá tveimur giftingarhringum sem fundust, annar milli þils og veggjar og hinn í garðinum. Annar þeirra var merktur St.gr. Hlaut það að standa fyrir Steingrímur, og hringarnir þannig tilheyrt þeim Steingrími Matthíassyni og Kristínu Þórðardóttur. Þá fundu þau Ólafur og Þorbjörg m.a. kínverska peninga milli þilja, við endurbætur á húsinu (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir, 2017:155).  

Spítalavegur 9 er reisulegt og skrautlegt hús í mjög góðri hirðu. Það stendur á einkar skemmtilegum og áberandi stað, hátt á brekkuhorniIMG_1520 norðan og ofan Búðargils. Lóðin er mjög gróin og prýdd gróskumiklum trjám. Þetta svæði við Spítalaveginn og Tónatröðina er einkar geðþekkt og gróið og prýtt lágreistum húsum. Mikil prýði er af þessari spildu á brekkubrúninni, sem blasir skemmtilega við  úr Innbænum, af Leiruvegi og frá vinsælum útsýnisstað á Naustahöfða, norðan Kirkjugarðs. Húsið Spítalavegur 9 er aldursfriðað og einnig hluti varðveisluverðrar heildar og fær þessa umsögn í húsakönnun, sem unnin var um svæðið árið 2009: Spítalavegur 9 er eitt glæsilegasta sveitserhús landsins og er um margt sérstakt. Húsið hefur mikið varðveislugildi af þessum sökum. Þar að auki er það einn mikilvægasti hluti þeirrar heildar sem sjúkrahúsbyggingarnar mynda og er gildi þess þeim mun meira  (Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2016: 22). Látum það vera lokaorð þessarar umfjöllunar.  

Meðfylgjandi myndir eru teknar 31. júlí 2010 og 26. febrúar 2023. Myndirnar, sem sýna Undirvöll og „Spítalabrekkuna“ eru teknar 15. maí 2016 og sl. páskadag, 31. mars 2024.  

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917.  

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 175, 20. maí 1899. Fundur nr. 314, 14. júlí 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu 

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2003. Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning. 

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 2016. Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg. Minjasafnið á Akureyri. Pdf skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf 

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins. 

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur. 

Magnús Stefánsson. 2016. Svipmyndir úr sögu sjúkrahúss í eina öld. Akureyri: Völuspá útgáfa.  

 

ES. Hér að ofan er vitnað í bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbær. Hús og fólk. Þá er rétt að minna á sambærilega bók um Oddeyrina, sem hún og undirritaður sendu frá sér sl. ár. Hana er hægt að kaupa af höfundum eða í Eymundsson- sjón er sögu ríkari. Upplögð tækifærisgjöf m.a. sem sumargjöf!

 oddeyri_forsíða


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 372
  • Frá upphafi: 440805

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 175
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband