31.8.2015 | 00:15
Kaffi og feitur vindill
Ég hef einhvers staðar minnst á það hér að ég sé skáti, og mögulega einnig að ég hafi í rúman áratug farið með skátasveitir í útilegur. Í skátaútilegum gerist margt, sumt leiðinlegt en miklum mun fleira skemmtilegt, jafnvel bráðfyndið. Eitt af því fyndnara sem ég man eftir að hafa heyrt í útilegu átti sér stað í Fálkafelli að mig minnir í nóvember 2005. Ekki man ég þetta allt í smáatriðum en einhvern vegin svona var þetta- vel má vera að aðrir þátttakendur muni þetta allt öðru vísi.
Á hádegi á laugardeginum í útilegu þessari var verkefnið að elda úti á frumstæðum hlóðum. Bröltum við þá út með stóran pott og röðuðum einhverjum steinum upp á melnum norðan skálans. Ekki var hlaupið að því, snjór var yfir öllu og jörð gaddfreðin en einhverju náðum við að hlaða upp og eftir dágóða stund náðum við að kveikja undir pottinum. Nú skyldu eldaðar núðlur úr pakka. Þegar hitað er yfir eldi skiptir mestu máli að ná glóðum, því glóðin gefur mesta hitann. En glóðin var yfirleitt lítil þarna en reykur hins vegar umtalsverður enda slokknaði ítrekað undir pottinum. Einhver stakk upp á því að fara bara með þetta inn í skála og elda krásirnar á gasinu þar en ég vildi sko ekki heyra á það minnst. Á DAGSKRÁNNI VAR ÚTIELDUN OG ÚTIELDUN SKYLDI ÞAÐ VERA!!! Að lokum ákváðum við að núðlurnar hlytu nú að vera soðnar, þá var klukkan langt gengin í tvö að mig minnir. Skemmst er frá því að segja að núðlurnar voru rétt rúmlega volgar og með vatnsbragði þar sem kryddið hafði verið alltof lítið í hlutfalli við vatnið- og gott ef þær höfðu ekki dregið í sig bragð úr reyknum. Þannig að hádegismaturinn voru volgar, hálfsoðnar, hálfreyktar núðlur með vatnsbragði. Fæstir drengjanna tóku vel til matar síns en einhverjir gerðu þessu "ljúfmeti" góð skil. Mér fannst algjörlega óborganlegt, þegar ég heyrði einn þeirra segja: Djöfull var þetta gott. Eftir svona máltíð væri maður bara til í kaffi og feitan vindil !
(Líklegt þykir mér að drengurinn hafi mögulega haft frægt atriði úr kvikmyndinni Englum Alheimsins í huga)
Í borðsalnum í Fálkafelli. Myndin er tekin 25.okt. 2008, Fálkaskátasveitin Ernir situr við spil eftir kvöldvöku og úti geysar öskrandi brjáluð stórhríð.
Bloggar | Breytt 2.9.2015 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2015 | 09:33
Hús dagsins: Fjólugata 10
Húsið á Fjólugötu 10 reisti Ólöf Guðmundsdóttir árið 1934. Hún fékk haustið 1933 lóð og leyfi til að reisa hús næst vestan við hús Óskar Jóhannesdóttur, einnar hæðar steinsteypt með porti og risi og kvistum, 10x7,6m að grunnfleti. Fjólugata 10 er steinsteypt hús með miðjukvisti, einlyft á háum kjallara. Snýr húsið A-V og er inngönguskúr og tröppur á austurhlið en á bakhlið er steinsteypt viðbygging (bílskúr) og ofan á honum sólskýli. T-póstar eru í flestum gluggum hússins og bárujárn er á þaki.
Ólöf bjó um áratugaskeið í húsinu ásamt manni sínum, Sigfúsi Baldvinssyni útgerðarmanni en a.m.k. hefur verið tvíbýlt í húsinu um 1942. Þá bjó einnig í húsinu Páll A. Pálsson og sá flutti inn og seldi alls kyns vélar og tæki frá Englandi og Ameríku, m.a. pylsuskurðarvélar, úrbeiningarvélar, dósamiða og umbúðir og smjörlíkisgerðarefni. Enda þótt húsið hafi alla tíð verið íbúðarhús þá var hér einnig starfrækt nuddstofa á fyrri hluta 9.áratugarins, þ.e. Nuddstofa Brynjólfs. Nú er húsið einbýlishús.
Fjólugata 10 er stórglæsilegt hús og í góðri hirðu. Það er með svipuðu lagi og hús nr.8, með háu risi og kvistum og eru húsin nokkuð háreistari en næstu hús. Húsin mynda skemmtilega tvennd í götumyndinni og eru frábrugðin öðrum húsum við götuna. Þá er lóðin einnig vel gróin m.a. birki- og reynitrjám og er til mikillar prýði. Þessi mynd er tekin 22.7.2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35. Fundur nr. 708, 22.sept. 1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2015 | 22:03
Hús dagsins: Fjólugata 9
Karl Grant reisti Fjólugötu 9 árið 1934 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Húsið er einlyft steinhús með lágu risi og á háum kjallara, líkt og öll næstu hús. Grunnflötur er ferningslaga ef marka má upprunalegar teikningar, þ.e. 7,5x7,5m að grunnfleti. Inngangar eru á miðri framhlið og á vesturhlið. Bárujárn er á þaki og T-laga póstar í gluggum en langur stigagangsgluggi á vesturhlið. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en mögulega hafa fleiri en ein fjölskylda búið þarna samtímis á árum áður. Árið 1972 var reistur bílskúr áfastur húsinu að austan og um 1997 voru byggðar svalir úr timbri á suðurhlið, með uppgöngutröppum. Ástand hússins og lóðar virðast eins og best verður á kosið. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin 12.júní 2015.
Fjólugata 9 er efst í röð svipaðra húsa, sem öll eru byggð 1933-34 og standa við númer 1-9. Handan götunnar eru hús nr. 2-6 einnig að svipaðri gerð. Þetta eru einföld og látlaus hús, ýmist timburhús eða steinhús og flest lítið breytt frá upphafi, a.m.k. hefur engu húsið verið raskað svo að það stingi í stúf við götumynd. Hér er um að ræða hús alþýðufólks, sem þó virðast hafa verið býsna vönduð að allri gerð. Eru þau flest í góðu standi og vel við haldið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2015 | 21:13
Hús dagsins: Fjólugata 8
Árið 1932 fékk Ósk Jóhannesdóttir lóð næst vestan þeirra tveggja lóða sem Ólafur Ágústsson hafði fengið (Fjólugata 2 6) og leyfi til að byggja þar hús. Húsið skyldi vera timburhús, 9x7,50 metrar ein hæð með porti og risi og kvisti á steyptum kjallara og fylgdi sögunni að kjallaraveggir mættu ekki vera þynnri en 24 cm og húsið yrði að járnverja.
Árið 1933 byggðu Ósk og maður hennar, Anton Ásgrímsson útgerðarmaður, hús það sem enn stendur en teikningar gerði Tryggvi Jónatansson. Fjólugata 8 er timburhús á háum kjallara með háu portbyggðu risi og miðjukvisti á framhlið og smærri kvisti með hallandi þaki á bakhlið. Á vesturgafli er einlyft viðbygging, steypt með skúrþaki byggð um 1970 sem stofa. Á austurgafli eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim. Veggir eru klæddir steinblikki en bárujárn er á þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins, tvískiptir breiðir á framhlið. Við skoðun á upprunalegum teikningum hússins mætti ætla að tvær íbúðir hafi verið í húsinu í upphafi. Alla vega eru þar tvö eldhús í húsinu, annað á hæð en hitt í norðurkvisti í risinu. Árið 1936 eru auglýst 2-3herbergi til leigu ásamt eldhúsi í Fjólugötu 8. Svo virðist sem húsið sé mest lítið breytt frá upphaflegri gerð, ef frá er talin viðbyggingin að vestan. Húsinu er vel við haldið og lítur vel út. Það er ekki ósvipað mörgum timburhúsum frá aldamótum 1900 t.d. húsaröðinni syðst í Norðurgötu. Það er nokkuð frábrugðið aðliggjandi húsum að austan, háreistara og mynda hús nr. 8 og 10 nokkurs konar samstæðu, bæði með háu risi og miðjukvisti. Frá og með 12 taka hins vegar við nokkuð yngri hús (1940-45), með öðruvísi lagi.
Ekki er hægt að fjalla um Fjólugötu 8 án þess að minnast á lóðina en garðurinn er ábyggilega með þeim gróskumeiri á Eyrinni. Hann er þétt skipaður miklum reynitrjám og ljóst að ötult garðyrkjufólk hefur búið þarna. Bakvið reynitrén má svo greina gullregn nær húsinu. Húsið er eitt þeirra húsa sem ógerningur er að mynda að sumarlagi vegna laufskrúðs. Ekki er þó garðurinn minna glæsilegur yfir veturinn þegar mjöllin prýðir trén. Þessi mynd af Fjólugötu 8 er tekin að vorlagi, 14.maí 2015, en myndina af garðinum tók ég um hásumar þann 22.júlí sl.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur nr. 687, 21.nóv. 1932. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2015 | 11:48
Hús dagsins: Fjólugata 7
Þann 16.september 1933 kom bygginganefnd saman á fundi. Eitt erindi var afgreiðsla bréfs sem dagsett var þann 14. frá Jóhanni Indriðasyni þar sem hann sækir um lóð við Fjólugötu, næst vestan við lóð Þorgríms Þorsteinssonar. [Mér þótti einsýnt að hús Jóhanns hlyti að vera Fjólugata 5, þar eð ljóst var að Þorgrímur Þorsteinsson átti númer 3. Hins vegar vill svo til að þetta byggingaleyfi er afgreitt einum og hálfum mánuði áður en Friðgeir H. Berg fékk lóð nr. 5 ] Ekki gekk það alveg snurðulaust fyrir sig að fá lóðina því nefndin bókar eftirfarandi: Þar sem nefndinni er ekki kunnugt um að þessi maður sé búsettur í bænum, vill hún kynna sér ástæður hans til að geta byggt, áður en hún leggur til að honum verði leigð lóðin (Bygg.nefnd Ak. 1933: nr. 707)
En þremur vikum síðar hefur Jóhann fengið grænt ljós frá Bygginganefnd, því 7.október er honum leyft að byggja hús, 7,6 x 6,6m ein úr timbri á steinsteyptum kjallara og húsið járnvarið en ekki mátti reisa timburhús öðru vísi en svo að þau væru járnklætt. Og árið 1934 var risið á Fjólugötu 7 hús það er enn stendur, byggt eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Á hæð voru stofur, svefnstofa og eldhús en geymslur og þvottahús á efri hæð. Og enda þótt húsið sé aðeins um 45 fermetrar á grunnfleti var það nú svo að árið 1940 bjuggu þarna alls 14 manns.
Fjólugata 7 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara með lágu aflíðandi risi. Húsið er klætt skeljasands plötum og í gluggum eru krosspóstar en bárujárn á þaki. Að öllum líkindum er húsið lítið breytt frá upphaflegri gerð. Það er í grófum dráttum mjög svipað næstu húsum, en er það eina í röðinni 1-9 sem ekki hefur inngöngudyr í kjallara á framhlið. Húsið er í góðri hirðu og sömu sögu er að segja um lóðina. Myndin er tekin 12.6.2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur 707, 16.sept 1933.
Fundur nr. 709, 7.okt. 1933. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2015 | 11:54
Hús dagsins: Fjólugata 6
Árið 1933 fékk Ingólfur Árnason byggingarlóð norðan Fjólugötu og byggingarleyfi á lóð sem Ólafur Ágústsson hafði afsalað sér. Honum var leyft að byggja steinsteypt hús á kjallara með lágu risi 7,15x7,5 að stærð. Húsið var ekki ósvipað að lögun og þau sem voru að rísa á lóðum Ólafs, þ.e. nr. 2 og 4. Það er þó eilítið hærra og er auk þess steinsteypt, en við vinnslu þessara greina gekk ég fyrirfram út frá þeirri tilgátu að öll húsin nr. 2-6 væru reist eftir sömu teikningu en nr. 6 hefði síðar verið forskalað. Sú tilgáta reyndist röng.
Fjólugata 6 er einlyft á háum kjallara og með lágu risi. Á bakhlið er einlyft viðbygging með lágu risi, reist árið 1989 og var ætlað að hýsa m.a. vinnuherbergi. Bárujárn er á þaki og einfaldri lóðréttir póstar með tvískiptu opnanlegu fagi í gluggum. Á austurhlið eru steyptar tröppur og inngöngudyr. Líkt og önnur hús í Fjólugötu hefur húsið frá upphafi verið íbúðarhús en oftar en ekki bjuggu fleiri en ein fjölskylda í húsunum í einu. Árið 1936 auglýsti Helgi Daníelsson, búsettur þarna, herbergi til leigu á góðum stað í bænum. Ekki kemur þó fram hvort herbergið, sem einnig gat leigst með aðgangi að eldhúsi og baði var í þessu tiltekna húsi en það verður að teljast líklegast. Húsið er í góðu standi og er að mínum dómi til prýði í götumyndinni. Það myndar skemmtilega þrenningu ásamt húsum númer 2 og 4. Myndin er tekin þ. 12.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar, Fundagerðir 1930-35, Fundur 707, 16.sept 1933 Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Tenglar í texta vísa beint í heimildir af timarit.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2015 | 17:14
Hús dagsins: Fjólugata 5
Síðla hausts 1933 fékk Friðgeir H. Berg leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Fjólugötu.
Friðgeir vildi fá að reisa timburhús á steinsteyptum kjallara, 7,2x7,6m að stærð með valmaþaki en nefndin leyfði ekki slíkt þak heldur verði stafnar byggðir upp eins og venjulega, ennfremur að útitröppur séu jafnháar kjallara. Þá vildi bygginganefnd ekki leyfa Friðgeiri að stjórna byggingu hússins sjálfur þar eð hann gat ekki framvísað skilríkjum þess efnis að hann hefði til þess heimild.
Í íbúaskrám Akureyrar frá 4. áratug 20.aldar er Friðgeir ekki skráður til heimilis í Fjólugötu 5, heldur bjó hann sunnar á Eyrinni, á Strandgötu 27. Þarna er hins vegar skráður maður að nafni Arnaldur Guttormsson, en hann kemur hvergi fyrir í bókun bygginganefndar. Þetta þótti þeim sem þetta ritar ástæða til að gaumgæfa nánar. Friðgeir H. Berg var kvæntur Valgerði Guttormsdóttur frá Ósi í Hörgárdal en áðurnefndur Arnaldur var bróðir hennar. Líklegt er, að Friðgeir hafi byggt þetta hús til handa mági sínum, Arnaldi Guttormssyni. Árið 1940 er þríbýlt í húsinu, annars vegar Friðrik Tryggvi Jónsson og Margrét Halldórsdóttir og hins vegar þau Þórir Guðjónsson og Margrét Halldórsdóttir. Þá eru tveir leigjendur, mæðgurnar Stefanía Pétursdóttir og Vigdís K.P. Stefánsdóttir. Þá bjuggu allt í allt 12 manns í húsinu- sem er sem áður segir 7,2x7,6 á grunnfleti eða um 54 fermetrar. Þess má þó geta að það var alls ekki óalgengt að tvær til þrjár fjölskyldur byggju í húsum af þessari stærð og oftar en ekki voru einhverjir leigjendur í herbergjum. En Fjólugata 5 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara. Inngangar eru á framhlið á kjallara en á austurstafni eru steyptar tröppur og þar inngangur á hæð. Líkt og á næstu húsum eru tveir gluggar beggja vegna framdyra sem og á efri hæð á framhlið. Bárujárn er á þaki hússins en húsið en veggir eru plötum með grjótmulningi (perluákasti). Húsið er í mjög góðu standi, klæðning, gluggar og þak virðast nýleg. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þ. 12.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur 711, 2.nóv 1933.
Manntal á Akureyri 1940. Þessi rit eru óutgefin en eru varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 16.8.2015 kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2015 | 10:35
Hús dagsins: Fjólugata 4
Ólafur Ágústsson reisti Fjólugötu 4 árið 1932, en hann fékk þá leyfi til að reisa tvö sams konar timburhús við Fjólugötu. Húsin, sem voru númer 2 og 4 voru einlyft á steyptum kjallara og með lágu risi, járnvarin, 7,2 x 7,8 m að grunnfleti þ.e. rétt um 50 fermetrar. Þessi húsagerð virðist hafa verið einkar vinsæl á Eyrinni á fyrri hluta fjórða áratugarins.
Bæði þessi hús voru byggð sem íbúðarhús, var þá búið á hæð og geymslur og þvottahús í kjallara en ekki er ólíklegt að einhvern tíma hafi kjallarar þessara húsa verið nýttir sem íbúðarrými. Enda þótt húsið sé teiknað sem einbýlishús voru einstök herbergi leigð út, en slíkt var ekki óalgengt á þessum árum. Lengst af voru þessi hús, númer 2 og 4 mjög svipuð en um 2005 var húsið allt endurnýjað og byggt við það. Húsið er nú allt klætt bárujárni, bæði þak og veggir. Það er, sem áður segir, timburhús á háum kjallara og með lágu risi. Á austurstafni er inngönguskúr og tröppur upp að honum. Einfaldir, lóðréttir póstar eru í gluggum. Húsið er allt sem nýtt eftir endurbætur fyrir áratug og lítur stórglæsilega út. Þessi mynd er tekin þ. 12.6.2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur nr. 685, 7.nóv. 1932 Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2015 | 13:32
Hús dagsins: Fjólugata 3
Árið 1933 fékk Þorgrímur Þorsteinsson lóð og byggingarleyfi á Fjólugötu sunnan götu ámóta húsi Óskar Jóhannesdóttur (þ.e. Fjólugötu 8). Sótti Tryggvi Jónatansson um leyfið í hans umboði og líklegt þykir mér að hann hafi gert teikningarnar að húsinu, sem var íbúðarhús úr steinsteypu, 8,8x8,6m, 1 hæð á kjallara".
Fjólugata 3 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu risi. Bárujárn er á þaki og einfaldir póstar í gluggum og er húsið allt klætt bárujárni eða stálklæðningu. Áfastur húsinu er bílskúr, byggður um 2004. Stendur hann fast við suðvesturhorn hússins. Ef litið er til grunnflatartölu hússins sést að hún er sú nákvæmlega sama og fyrir nr. 1 enda virðast húsin um margt svipuð, þó gluggasetning sé eilítið frábrugðin. Á báðum húsum er t.d. inngangur fyrir miðju og tveir gluggar sitt hvoru megin við dyr. Á nr. 1 er einn gluggi í miðju á hæð- beint ofan við dyr en á 3 er minni gluggi fast við dyrnar. Sameiginlegt einkenni húsanna tveggja eru bogadregnir toppar á stöfnum, en svipað skraut er á t.d. Norðurgötu 32 og 33. Fjólugata 3 er líkt og nærliggjandi hús einfalt og látlaust og gerð. Það er greinilega ný upptekið eins og gjarnan er sagt um bíla- á því er nýleg klæðning og gluggar. Þessi mynd er tekin 12.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur 703 27.júlí 1933 og nr. 704, 1.ágúst s.á. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2015 | 14:33
Hús dagsins: Fjólugata 2
Síðla árs 1932 fékk Ólafur Ágústsson byggingameistari þrjár lóðir vestast við Fjólugötu norðanverða. Hann fékk leyfi til að reisa þar tvö timburhús steyptum kjallara, járnvarin 7,2x7,8m að grunnfleti, ein hæð með lágu risi. Nefndin setti þau skilyrði að útitröppur væru ekki að götu og gerði einnig kröfu um það að húsin yrðu búin vatnssalerni ! Á þessum árum var nefnilega mikil áhersla lögð á að útrýma slæmum og heilsuspillandi húsakosti og sá sem flettir fundargerðum Bygginganefndar frá þessum árum rekst oftar en ekki á upptalningar á íbúðum sem úrskurðaðar voru óíbúðarhæfar og ekki leyfilegt að búa þar. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hvernig þessum úrskurðum var fylgt eftir.
Árið 1933 risu þessi hús Ólafs og urðu þau númer 2 og 4 við Fjólugötu. Hús númer 2 stendur á horni Fjólugötu og Norðurgötu og stendur stafninn við gangstéttarbrún þeirrar síðarnefndu. Fjólugata 2 er einfalt og látlaust hús, einlyft með lágu risi, klætt bárujárni á veggjum og þaki og hefur verið svo frá upphafi því á þessum var sú krafa gerð að timburhús væru járnvarin. Stendur húsið á háum steyptum kjallara og í gluggum eru einfaldir, lóðréttir póstar. Meðal fyrstu íbúa hússins voru þau Bjarni Vilmundarson verkstjóri og Margrét Sigurðardóttir en þau bjuggu þarna á 5. og 6.áratug 20.aldar. Hún var árið 1957 elsta konan til að ganga í svokallaðri Landsgöngu á skíðum, en þar var um að ræða mikla skíðagöngu fyrir almenning. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út. Það myndar skemmtilega tvennd í götumyndinni ásamt systurhúsi sínu númer 4. Og jafnvel þótt síðarnefnda húsinu hafi nokkuð verið breytt eru húsin tvö sláandi lík- svona fljótt á litið. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin í byrjun ársins, þann 4.janúar 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundur nr. 685, 7.nóv. 1932. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 11.8.2015 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 27
- Sl. sólarhring: 195
- Sl. viku: 386
- Frá upphafi: 445977
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 261
- Gestir í dag: 24
- IP-tölur í dag: 24
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar