30.9.2014 | 22:31
Hús dagsins: Lækjargata 11
Búðargil er eitt mest þeirra gilja sem skera Akureyrarbrekkurnar og þar liggur Lækjargatan.

Stundum kalla menn gilið Lækjargilið, hugsanlega eftir götunni eða eftir læknum sem enn rennur ofanjarðar á köflum í efri hluta gilsins. En á þeim stað þar sem Lækjargatan er hvað bröttust stendur hús númer 11 við götuna, en það er komið vel til ára sinna, 140 ára á þessu ári. Lækjargötu 11 byggði maður að nafni Sigurður Pétursson árið 1874. Húsið er einlyft timburhús á lágum grunni og háu risi með miðjukvisti. Að framanverðu hefur risi verið lyft og bætt við húsið skúrbyggingu, jafn langri húsinu. Tjörupappi er á þaki en asbestplötur á veggjum. Það sem e.t.v. mætti kalla óvenjulegt við Lækjargötu er einmitt þetta, að risinu er lyft á götuhlið og byggt við það þar en kvistur og inngangur snýr að baklóðinni en nánast undantekningarlaust er þessu öfugt farið. Sigurður Pétursson átti húsið og lóðina um langt skeið, líklega til æviloka (1899) en 1908 er Kristján Sigurðsson orðinn eigandi hússins en hann lét stækka lóðina til suðurs.

Á blaðsíðu 160 í Akureyrarbók Steindór Steindórssonar (1993) má sjá mynd sem Hallgrímur Einarsson tók árið 1915 ofan úr Búðargili. Þar er húsið einlyft með háu risi en ekki komið á það kvistur né búið að lyfta risinu. Bakbyggingin (eða réttara sagt frambyggingin) lága er hins vegar komin þá. Á þeirri mynd sést örlítið bíslag eða inngönguskúr, sem nú er horfin, þar sem útidyr eru nú. 1930 var húsið stækkað af þáverandi eiganda, Árna Þorleifssyni og freistandi að telja að þá hafi húsið fengið það lag sem það hefur nú. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og líkast til einbýlishús en vel gæti hugsast að fleiri en ein fjölskylda hafi búið í húsinu í einu á fyrri hluta 20.aldar þegar húsnæðisskortur var viðvarandi. Það hefur alltént verið stækkað sem óneitanlega bendir til þess að á þeim tímapunkti hafi íbúana skort pláss. Myndirnar með þessari færslu eru teknar 14.september sl. og sýna götuhlið (efri mynd) og hliðina sem snýr út að baklóð.
Sem áður segir er húsið klætt asbestplötum en þær eru nú almennt taldar hið mesta skaðræði. En slíkar plötur voru áður hið mesta þarfaþing í byggingariðnaði, eldtraustar og endingargóðar og vel einangrandi. En hvað er þetta "baneitraða og stórhættulega" efni, asbest? Asbestos er raunar samheiti sex " fribrous silicat minerals" eða trefjakenndra kísilsteinda. Þær eru samsettar úr magnesíum, súrefni, vetni og kísli (sílikoni). Algengasta gerð asbestsins er hvíta asbestið, líkt og klæðningin á Lækjargötu 11, heitir á fræðimáli Krýsótíl og hefur efnaformúluna Mg3Si2O5(OH)4. Einnig eru til blátt asbest, Crocidolít og brúnt asbest, amosít Krýsólít er, eða var unnið úr námum m.a. í Kanada og Rússlandi, þannig þarna er ekki um að ræða tilbúið eða verksmiðjuframleitt efni. Uppúr 1970 fór að koma í ljós að asbestryk gat haft skaðleg áhrif á öndunarfæri manna. Örsmáar asbesttrefjarnar eru langar og þunnar og smjúga þær í gegn um öndunarveg og safnast fyrir í lungum (sbr. "asbestlunga") og er absestryk þekktur krabbameinsvaldur í lungum. Árið 1989 var notkun efnisins bönnuð í Bandaríkjunum og hefur asbesti yfirleitt verið úthýst í hinum vestræna heimi a.m.k. í nýframkvæmdum. Athuga ber að það er asbestrykið sem er skaðlegt; asbestplötur utan á húsum og á veggjum eru algjörlega sauðmeinlausar. En þegar absestið er rifið þá fara agnirnar af stað. Innan umhverfisfræðinnar eru menn ekki á einu máli hvort asbest beri að uppræta úr gömlum mannvirkjum eða hvort það skuli einfaldlega látið vera. Haft var eftir vísindamanni nokkrum að uppræting asbests væti líkt og að vekja grimman hund af blundi með því að pota í hann en aðrir vilja meina að asbest í mannvirkjum sé líkt og tifandi tímasprengja. (Baird og Cann 2005: 135) Sjálfur tel ég að asbestið sé best látið kyrrt liggja nema eðlilegt viðhald krefjist þess. Ekki skyldi rjúka upp til handa og fóta við niðurrif allra asbestklæðninga í nafni heilsuverndar.
Heimildir: Baird, C. og Cann, M. (2005) Environmental Chemistry. New York: W.H. Freeman and Company.
Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Joesten, M.D. og Wood, J.L. (1996) The World of Chemistry Orlando: Saunders College Publishing.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Breytt 1.10.2014 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2014 | 09:29
Hlíðarskál 24.sept. 2014
Um daginn fjallaði ég um Hlíðarskál og snjófönnina þar. En mörgum Akureyringum og nærsveitungum þykir það spennandi síðsumar að fylgjast með því hvort slitni á milli efri og neðri hluta fannarinnar. Þessa mynd tók ég um sjöleytið í morgun en hún segir meira en þúsund orð. Í forgrunni eru húsin við Sólvelli 7 og 8 á norðanverðri Oddeyri en litlu ofar er íbúðablokk við ofanverða Brekkugötu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2014 | 10:00
Hús dagsins: Gránufélagsgata 19
Líkt og hús síðustu færslu, Fróðasund 4, stendur húsið hér á myndinni einungis nokkra metra frá Þjóðvegi 1 gegn um Akureyri, þ.e. Glerárgötu. Efst við þann hluta Gránufélagsgötunnar sem liggur neðan Glerárgötunnar stendur þetta hús, Gránufélagsgata 19. Húsið reisti Jónasína Þorsteinsdóttir árið 1925 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar, en hann teiknaði þó nokkur hús á Eyrinni á fyrri hluta 20.aldar. Gránufélagsgata 19 er tvílyft steinsteypuhús með lágu og aflíðandi risi og stendur á háum kjallara. Inngangur er á austurgafli og þar eru steyptar tröppur en á bakhlið- sem snýr í norður- er mjó tvílyft útbygging- stigahús eða inngönguskúr. Örlítil áhrif frá sk. jugend stíl sjást á húsinu en það eru bogadregnir toppar á stöfnum. Í gluggum eru krosspóstar. Það var ekki óalgengt á frumbýlingsárum steinsteypunnar að steinhús líktu eftir þeim algengustu svipmótum, sem tíðkast höfðu í timburhúsum. Gránufélagsgata 19 er þar ekki undantekning en það er í sjálfu sér ekki ósvipað í laginu og húsin Lundargata 15 og Norðurgata 11 í næsta nágrenni. Gránufélagsgata 19 virðist traustlegt og glæsilegt hús að upplagi. Í því eru tvær íbúðir hvor á sinni hæð en geymslur í kjallara. Guðný Gerður og Hjörleifur (1995) meta það sem svo að húsið hafi varðveislugildi en það felst í nálægð hússins við Lundargötuna. Þessi mynd er tekin þann 8.sept. 2014.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri; húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2014 | 09:32
Hús dagsins: Fróðasund 4
Fróðasund skiptist í tvo stutta götustubba, hvor um sig um 50 metrar sitt hvoru megin Lundargötunnar. Ofan eða vestan Lundargötunnar standa tvö hús, númer 3 og þetta hús, Fróðasund 4. Húsið byggðu þeir Eiríkur Kondrup og Þórir Haraldsson árið 1943 og var það reist sem verslunarhús, líkt og gluggar neðri hæðar vitna um. Teikningar af húsinu hafa varðveist og eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar, en ekki er vitað hver höfundur hússins er. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur á lágum grunni. Ekki er kjallari undir húsinu. Á vesturhlið hússins er áfastur bílskúr, einnig með valmaþaki en á austurhlið er steinsteypt skúrbygging sem liggur að lóðarmörkum og er sameiginleg með næstu húsum. Gluggar eru með fjórskiptum póstum, bæði á efri hæð og einnig verslunargluggar á neðri hæð og virðast þeir í samræmi við upprunalegar teikningar að húsinu. Húsið er líkast til lítið breytt frá upphafi a.m.k. að ytra byrði. Nú er saumastofa á neðri hæð en ýmis starfsemi hefur verið þar gegn um tíðina. Íbúðir eru á efri hæðinni en einnig er lítil íbúð í bílskúrnum. Lóð hússins er ekki víðlend en hún stækkaði nokkuð fyrir fáeinum árum síðan þegar lítið bakhús, Lundargata 13b var rifið og lóð þess húss skiptist á milli Fróðasunds 4 og Gránufélagsgötu 19. Umhirða bæði húss og lóðar er mjög góðu lagi. Þessi mynd er tekin 8.sept. 2014.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2014 | 08:39
Hús dagsins: Fróðasund 9
Fróðasund er stutt þvergata á suðvestanverðri Oddeyrinni. Hún sker Lundargötuna og en nær ekki að öðrum götum, en mörk neðstu lóðanna liggja við lóðirnar við Norðurgötu 15 og 17. Aðeins sex hús teljast standa við götuna og eitt þeirra er þetta virðulega steinsteypuhús, Fróðasund 9. Húsið stendur á horni götunnar og Lundargötu og snýr framhlið þess að síðarnefndu götunni. Húsið reisti Sigurgeir Jónsson árið 1929 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar byggingarfulltrúa. Það er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á nokkuð háum kjallara. Stór miðjukvistur er á framhlið og annar kvistur á bakhlið. Helsta breyting á húsinu að utanverðu frá upphafi mun sú að árið 1981 var sá kvistur stækkaður. Gluggapóstar eru einfaldir að gerð. Húsið var byggt sem einbýlishús og hefur líkast til alla tíð verið. Á lóðinni stendur einnig lítill garðskúr með valmaþaki. Ekki er mér kunnugt um byggingarár þessa skúrs en hann hafur alltént staðið þarna í áratugi. Einhvern tíma skildist mér að krakkar úr hverfinu hafi staðið fyrir einhverskonar blóma- eða dótasjoppu þarna. Húsið og umhverfi þess er í góðri hirðu og lítur vel út og er húsið talið hafa varðveislugildi (Guðný Gerður og Hjörleifur 1995). Áberandi er stórt tré á norðvesturhorni lóðarinnar sem mér sýnist að geti verið silfurreynir (Sorbus intermedia). Þessi mynd er tekin í morgunsólinni sl. mánudag þann 8.september 2014.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. (1995). Oddeyri; húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2014 | 11:52
Hlíðarskálin 30.ágúst 2010 og 2014
Á laugardaginn ákvað ég að mynda Hlíðarskálina, þ.e. skálina miklu í Hlíðarfjalli milli Hlíðarhryggs og Háurinda. Segja má að skálin sé "á tveimur hæðum" þ.e. hún skiptist í efri og neðri skál

Skilin á milli eru best sýnileg á sumrin þar eð þar bráðnar vetrarsnjórinn á milli efri og neðri hluta sísnævarins eða hlíðarjökulsins sem þarna er. Mörgum á Akureyrarsvæðinu (síðuhöfundur þ.m.t.) þykir einkar spennandi að fylgjast með því á sumrin hvort "slitni á milli" efri og neðri skálar eða "skálin fari í sundur" eins og það kallast oft. Síðastliðin áratug hefur það eiginlega verið regla frekar en undantekning að fönnin fari í sundur, enda fóru jafnan saman tiltölulega mildir vetur og hlý sumur. (Mig minnir að 2003 eða 4 hafi þetta gerst og þá var það í fyrsta skipti í marga áratugi heyrði maður). 2010 var fönnin farin í sundur þann 30.ágúst líkt og sjá má á myndinni hér til hliðar, sem tekin er af bílastæðinu við Háskólann á Akureyri við Sólborg. En á laugardaginn mundi ég að ætti mynd af Hlíðarfjalli sem tekin var 30.ágúst svo ég ákvað að smella af einni þar sem skálin sést. Og svona lítur Hlíðarskálin út 30.ágúst 2014. Myndin er tekin af Eiðsvelli á sunnanverðri Oddeyri og í forgrunni er húsaröðin við Brekkugötu.

Eins og glögglega má sjá er snjórinn umtalsvert meiri þetta sumarið en fyrir fjórum árum og enn nokkuð breitt haft á milli efri og neðri fannar. Enda var síðasti vetur talsvert snjóþungur m.v. síðustu ár- og það var raunar veturinn þar á undan. Enn er þó tæplega hægt að fullyrða hvort slitni á milli eða ekki, en ég tel það raunar ólíklegt úr þessu. Jafnvel þó september verði heilt yfir hlýr þá vega næturfrost og haustrigningar (sem í þessari hæð falla sem snjór) væntanlega upp á móti.
Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað um þetta fyrirbæri:
30.sept. 2010: Hlíðarskál með mánaðar millibili.
30.ágúst 2010: Hlíðarskál 30.8.2010
10.ágúst 2009: Skálin í Hlíðarfjalli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 2
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 230
- Frá upphafi: 445782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 157
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar