30.9.2025 | 22:27
Hús dagsins: Háls í Eyjafirði
Hleiðargarðsfjall, nefnist fjall, framarlega í Eyjafirði vestanverðum. Um það greinist annars vegar Djúpidalur vestanmegin og hins vegar fremstu kimar Eyjafjarðar (eða Eyjafjarðardals) austanmegin. Þar nefnist byggðin Vesturkjálki, undir bröttum hlíðum Hleiðargarðsfjalls og Tröllshöfða. Norður úr Hleiðargarðsfjalli gengur ógnarlöng og aflíðandi öxl eða háls, sem örnefnakort map.is nefnir Slakka efst en Saurbæjarháls neðar, en Saurbær stendur einmitt undir hálsi þessum. Kallast þar Saurbæjarpláss, undir hálsinum en samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:805) eru norðurmörk Vesturkjálka og Saurbæjarpláss við Krónustaði, liðlega kílómetra framan Saurbæjar. Hátt í hlíðunum ofan og lítið eitt norðan Saurbæjar stendur annar bær, sem hefur reyndar verið í eyði í ríflega þrjá áratugi og dregur hann einmitt nafn sitt af hálsi þessum. Bærinn heitir þó
ekki Saurbæjarháls heldur einfaldlega Háls. Þar stendur tæplega aldargamalt timburhús.
Bæjarstæði og hús
Háls stendur sem fyrr segir hátt í hlíðum Saurbæjarháls. Er bæjarstæðið í rúmlega 140 metra hæð yfir sjávarmáli, en til samanburðar er Saurbær í um 50 metra hæð. Húsið stendur sunnarlega í aflíðandi og víðlendu túni, um 600x200 metra breiðu, sem liggur á milli gróskumikilla skógarreita til allra átta. Frá Eyjafjarðarbraut vestri liggur um 1400 metra löng heimreið og er hún sameiginleg með Saurbæ og Saurbæjarkirkju. Frá miðbæ Akureyrar eru rétt um 30 kílómetrar að íbúðarhúsinu á Hálsi, sem hér eftir mun einfaldlega kallast Háls, en tilgreint sérstaklega ef um jörðina er að ræða.
Háls er einlyft timburhús með portbyggðu risi og stórum miðjukvisti. Stafnar hússins snúa austur-vestur og framhlið mót vestri. Á norðausturhorni hússins er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og smár kvistur á bakhlið. Húsið er nokkuð greinilega byggt við gamlan torfbæ og má greina leifar af þeim bæ suðvestan við húsið. Húsið er klætt láréttum borðum eða panel og bárujárn á þaki. Þverpóstar eru í flestum gluggum en tveir gluggar eru negldir aftur með plönkum. Grunnflötur hússins mælist um 6x9m en viðbygging nærri 4x7m.
Að fornu og nýju
Jörðin Háls er ævaforn, raunar frá landnámi og notaði Helgi magri jörðina sem merki, þegar hann gaf Auðuni rotnum, land sem heimanmund með Helgu dóttur sinni. Náði land þetta frá Hálsi í norðri að Villingadal í suðri. Næstu aldir fer fáum sögum af Hálsi og Hálsverjum en jörðin mun hafa verið í eigu Saurbæjarkirkju. Jarðarinnar er reyndar getið árið 1318 sem hluta af eignasafni Saurbæjarkirkju, en þá átti kirkjan hálfa jörðina. Fyrsti nafngreindi bóndi á Hálsi í stórvirkinu Eyfirðingum er Jón Flóventsson, handalausi, sem mun hafa búið hér á fyrri hluta 17. aldar. Árið 1703 er Gunnvör Jónsdóttir, ríflega sextug ekkja skráð hér fyrir búskap, aðrir íbúar Höskuldur Björnsson ráðsmaður og fyrirvinna frá Brekku í Öngulsstaðahreppi og vinnuhjú, Hallur Þorsteinsson og Halldóra Jónsdóttir. Höskuldur mun skömmu síðar hafa tekið við búskapnum. Margir sátu jörðina næstu hálfa aðra öldina, svo sem gengur og gerist á löngum tíma. Um miðja 19. öld fluttust hingað þau Hallgrímur Einarsson Thorlacius og Sigríður Jónsdóttir frá Litla-Dal en á þeim tíma, var faðir Hallgríms, séra Einar Hallgrímsson Thorlacius, prestur í Saurbæ. Hann stóð fyrir byggingu þeirrar Saurbæjarkirkju sem enn stendur, árið 1858. Hallgrímur og Sigríður bjuggu hér til ársins 1880 og virðist hafa verið tvíbýlt hér um nokkurra ára skeið, frá 1877 til 1883 og virðast ábúendaskipti hafa verið nokkurn veginn árviss á Hálsi árin 1879 til 1881.
Jón Abrahamsson frá Nesi í Saurbæjarhreppi og Anna Stefánsdóttir frá Ásláksstöðum í Kræklingahlíð fluttust hingað árið 1881 en fluttu vestur um haf til Ameríku tveimur árum síðar. Þá fluttust hingað þau Benedikt Einarsson (1856-1928) fæddur á Halllandi á Svalbarðsströnd og Margrét Kristín Ólafsdóttir (1850-1916) frá Ánastöðum í Sölvadal. Hér bjuggu þau til æviloka og afkomendur þeirra æ síðan, í meira en öld. Benedikt Einarsson á Hálsi var annálaður athafnamaður: Benedikt á Hálsi var meira riðinn við opinber störf en nokkur annar samtíðarmaður hans í Eyjafirði. Hann var hreppstjóri i 27 ár, oddviti hreppsins í 3 ár, í sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu nær 2 áratugi, endurskoðandi reikninga Kaupfélags Eyfirðinga í 24 ár, formaður Búnaðarfélags Saurbæjarhrepps í 13 ár (Laufey Sigurðardóttir 1980: 400). Benedikt var sæmdur riddarakrossi Dannebrogsorðunnar árið 1907. Benedikt var einnig afkastamikill hagyrðingur og skáld og eftir hann er ljóðabókin Vökudraumar sem út kom fyrir réttri öld, 1925. Þegar góðvinur Benedikts, Matthías Jochumsson, flutti í nýtt hús sitt á Akureyri orti hann þessa vísu:
Heimþrá manns er heiðin greið
huldir liggja þræðir,
anda hans er leiða leið
Ijúft á Sigurhðir.
Árið 1908 tóku við búinu á Hálsi þau Ingimar Traustason (1876-1947) frá Æsustaðagerði og Indíana Benediktsdóttir (1882-1971), dóttir téðra Benedikts og Margrétar. Synir þeirra voru Benedikt og Ármann. Þá var á Hálsi torfbær frá fornu fari. Núverandi timburhús var reist árið 1929 og það hefur Trausti væntanlega reist ásamt sonum sínum, sem þá voru 17 og 23 ára gamlir. Eins og oft tíðkaðist kom nýja íbúðarhúsið ekki algjörlega í stað gamla torfbæjarins, heldur var það í raun reist sem nokkurs konar viðbót við hann, nokkurs konar framhús. Upprunalega voru stafnar hússins úr torfi en einhvern tíma hefur suðurstafn verið steyptur eða múrhúðaður. Hlóðaeldhús var hér notað langt fram yfir miðja 20. öld og árið 1970 var ein torfburst áföst íbúðarhúsinu að sunnanverðu.
Þann 6. mars 1934 voru húsakynnin á jörðinni Hálsi metin til brunabóta. Þar eru fyrst upp talin baðstofa og eldavélarhús, sem væntanlega voru hluti gamla torfbæjarins. Þar er timburskilrúm milli baðstofu og eldavélarhúss og þess getið, að reykháfur sé 16 tommur að utanmáli og reykholið sé 6 tommur. Baðstofan og eldavélarhúsið tengjast öðrum húsum með þykkum torfveggjum. Þetta mannvirki er 8,5x3,2m að grunnfleti og 2m á hæð. Næst í upptalningunni er búr og gangur, 4,2x3,4m að grunnfleti og 2,4m á hæð. Þriðja í upptalningunni er svokallað framhús með torfstöfnum og járnþaki. Þar er líklega komið nýja timburhúsið. Þar eru stofa, bæjardyr og geymsluhús. Það er 8,1x4,4m að grunnfleti og 3,7m á hæð. Steinolía er notuð til ljósa. Að auki eru á Hálsi hlóðaeldhús, búr, fjós, skemma, eldiviðarkofi, fjárhús og jötukofi og allar framangreindar byggingar úr torfi. Tekið er fram, að baðstofa og eldavélarhús sé aðskilið frá öðrum mannvirkjum með þykkum torfveggjum. Ríkissjóður er eigandi jarðarinnar árið 1934 (sbr. Brunabótafélag Íslands 1934: nr. 42).
Ingimar og Indíana eru skráð hér sem ábúendur eftir 1908, þó er Benedikt Einarsson skráður hér árabilið 1916 til 1920. Frá árinu 1938 er Ármann, sonur Ingimars og Indíönu, skráður hér fyrir búinu. Það má þó geta sér þess til, að báðir hafi þeir bræðurnir komið að búrekstrinum, þó aðeins annar þeirra væri skráður fyrir honum. Ármann Ingimarsson lést árið 1957, aðeins 45 ára að aldri og tók þá Benedikt við búinu. Með honum bjó móðir hans, Indíana, en hún lést árið 1971. Svanhildur Daníelsdóttir, fædd og uppalin í Gnúpufelli kom oft í Háls sem barn. Var hún þá í fylgd móður sinnar, Ingibjargar Bjarnadóttur, sem hafði verið í vist á Hálsi, áður en hún hóf búskap í Gnúpufelli ásamt manni sínum, Daníel Pálmasyni. Svanhildur minnist þessara heimsókna með mikilli hlýju:
Ég kom mjög oft í Háls þegar ég var barn og unglingur, mamma hafði verið þar kaupakona sumarið 1948 og leit alltaf til með Indíönu gömlu og Benna syni hennar, allt þar til þau dóu. Gluggarnir sunnaná eru eldhúsgluggi sá stærri og salernisgluggi sá mjói. Framaná sunnan við útidyrnar var stofan og þar sváfu þau mæðgin bæði, Inda í rúmi að sunnanverðu, Benni við eldhúsvegginn. Dívan var undir stofugluggunum og borðstofuborð stóð þar, setið á dívaninum öðru megin borðsins og á kollum hinu megin. Þar man ég eftir að hafa fengið að sjúga kamfórudropa úr molasykri og finn nú lyktina þegar ég hugsa um það. Við norðurvegg stóð skrifborð Benna, en hann var skáld gott. Á skrifborðinu stóð líka upptrekktur grammafónn og Benni spilaði stundum 78 snúninga plötur fyrir okkur mömmu. Stofan var eina herbergið í húsinu sem var upphitað. Norðan við útidýrnar var búrið og aftan við búrið þröngur stigi upp í kvistherbergið. Torffjósið stóð sunnan við húsið, þar voru tvær kýr, önnur grá, hin bröndótt. Aftan við fjósið stóð enn hlóðaeldhúsið og þar sauð mamma slátrið fyrir Indu gömlu (Svanhildur Daníelsdóttir, 2025).
Það er ekki ósennilegt, að innri skipan hússins hafi verið að mestu óbreytt frá upphafi þegar þarna var komið sögu (um og fyrir 1970) og sé það enn.
Úr Byggðum Eyjafjarðar
Árið 1970 voru byggðum Eyjafjarðar gerð skil í miklu, samnefndu riti, sem út kom þremur árum síðar. Þá eru þau mæðgin búsett hér og Benedikt sagður hafa tekið hér við búi með móður sinni árið 1958 og byggingar sagðar íbúðarhús úr timbri, 150 m3 , fjós fyrir 6 kýr, fjárhús fyrir 120 fjár og braggahlaða fyrir um 450 hesta (af heyi). Túnstærð er 15,29 hektarar og töðufengur er um 450 hestar. Bústofninn telur 80 fjár (sbr. Ármann Dalmansson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:311). Þegar Eyjafjarðarbyggðum voru næst gerð skil á prenti hafði Benedikt búið einn á Hálsi í um tvo áratugi, en Indíana móðir hans lést 1971, tæplega níræð að aldri. Árið 1990 voru nokkurn veginn sömu byggingar á Hálsjörðinni, íbúðarhúsið frá 1929, sem sagt er 59 m2, fjárhús sem einfaldlega eru sögð gömul fyrir 80 kindur og hlaða byggð 1945 fyrir 640 rúmmetra. Þar er líklega um að ræða bygginguna, sem tuttugu árum fyrr kallast braggahlaða en braggarnir urðu móðins með breska og síðar bandaríska setuliðinu. Hæg hafa heimatökin verið fyrir Hálsfólk að nýta bragga frá setuliðinu, en á vegum þess voru miklar bækistöðvar og flugvöll steinsnar frá, við Rauðhús. Flugvöllurinn var á Melgerðismelum og eftir að stríði lauk þjónaði hann sem flugvöllur Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins í um áratug, þar til Akureyrarflugvöllur var tekinn í notkun. Ræktað land að Hálsi er 15,3 hektarar sem er nokkurn veginn það sama og 1970 og árið 1990 átti Benedikt á Hálsi 37 kindur (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:832). Steindórsson, Benedikt átti hér heima alla sína tíð, en hann lést í október 1992, 86 ára að aldri. Byggðabókunum ber ekki saman um, hvenær Benedikt tók við búinu, síðari bókin (1993) segir 1957 en í eldri bókinni frá 1973 er nefnt árið 1958 í því samhengi. Ármann, bróðir Benedikts, lést í nóvember 1957 og hlýtur því Benedikt að hafa tekið við búinu samdægurs. Mögulega gætu einhver formlegheit vegna yfirfærslunnar hafa dregist fram yfir áramótin. Benedikt Einarsson bjó á Hálsi alla sína tíð en hann lést þann 8. október 1992, 86 ára að aldri. Eftir fráfall hans lauk búsetu á Hálsi og jörðin fór í eyði. Benedikt var, líkt og Svanhildur Daníelsdóttir nefnir hér að framan, skáld gott og liggja eftir hann a.m.k. tvær ljóðabækur, Kvæðakver (1969) og Frá vordögum (1975).
Hér er haustvísa eftir Benedikt Ingimarsson:
Að hausti vart má vita af því
hvað vorið skarta lætur.
Næðir hjarta nepjan í.
Nóttin svarta grætur.
Benedikt Ingimarsson á Hálsi kvað einnig um vorið:
Sólin bræðir fannafeld
fald sem klæðir vetur.
Vorið glæðir innri eld
öllum gæðum betur.
Þegar Háls var kominn í eyði gerði fyrrnefnd Ingibjörg Bjarnadóttir í Gnúpufelli því skil í löngu kvæði. Eitt erindanna er eftirfarandi:
Tíminn streymir sem stórfljót æst
stór komu skörð í hópinn.
Ármann hvarf fyrstur, Inda næst
enginn í staðinn hafði bæst
Örlögin sýna sópinn.
Enda þótt búsetu lyki á Hálsi hófst nýtt tímabil í sögu jarðarinnar nokkrum misserum síðar. Þannig var, að Skógræktarfélag Eyfirðinga hafði löngum leitað fyrir sér að landi, þar sem félagar þess gætu sinnt og stundað skógrækt. Jörðin þótti ekki sérlega hentug til búskapar, m.a. nokkuð þurr og hrjóstug. Í jörðinni Hálsi sáu skógræktarmann ákveðið tækifæri og varð úr, að samningar tókust milli Skógræktarfélagsins og Landbúnaðarráðuneytisins um langvarandi afnot félagsins af jörðinni (leiga til 75 ára auk forleiguréttar að þeim tíma liðnum) í árslok 1993. Í fyrstu voru girtir 70 hektarar og hófst þar ræktun árið 1995. Eftirspurn eftir ræktarlöndum reyndist mikil og því var ráðist í friðun annars áfanga jarðarinnar árið 1997 og var það viðbótarland um 75 hektarar. Í upphafi voru hugmyndir hjá Skógræktinni að gera gamla íbúðarhúsið upp, en við nánari skoðun reyndist það of kostnaðarsamt enda hafði húsið verið dæmt ónothæft (sbr. Hallgrímur Indriðason og Vignir Sveinsson 2000:159). Húsið var þó engu að síður nýtt sem afdrep fyrir starfsmenn félagsins og hlaut lágmarks viðhald. Það er skemmst frá því að segja, að Hálslandið hefur ítrekað sprengt utan af sér skógræktina, svo mikil hefur eftirspurnin verið, og árið 2005 samdi Skógræktarfélagið um viðbótarlandsspildu, 150 hektara, á nágrannajörðinni Saurbæ. Upprunalega voru spildurnar, sem úthlutað var til ræktunar 37 að tölu á 70 hektörum en nú eru þeir a.m.k. 110 á alls 295 hekturum eða tæpum þremur ferkílómetrum.
Árið 2012 heimsótti rannsóknarhópur um eyðibýli Háls og hafði m.a. þetta að segja um ástand hússins: [...] Útveggir eru heilir og húsið virðist í góðu ásigkomulagi. Gluggar eru glerjaðir og karmar, póstar og fög á sínum stað [innskot: Árið 2025 eru neglt fyrir tvo glugga hússins]. Þak og útihurð eru heil. [...] Ekki varð komist inn í húsið en inn um gluggana sást að húsið er heillegt að innan og líklega notað í kringum skógræktina. Erfitt er að segja til um hvort herbergjaskipan sé óröskuð, en það þykir þó líklegt (Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir 2012:110). Eyðibýlahópurinn telur varðveislugildi hússins einkum felast í staðsetningu hússins, hér sé mikilfenglegur útsýnisstaður og telur viðgerð á húsinu raunhæfa.
Niðurlag
Háls er einfalt og snoturt hús til mikillar prýði í grænu og grónu umhverfi. Það stendur á áberandi stað og sést langt að, enda þótt það sé í miðju skóglendi. Lesendur kunna að hafa tekið eftir því, að greinarhöfundi þykir nokkuð gaman að bera saman íbúðarhús í sveitum Eyjafjarðar við hús á Akureyri, hvað varðar útlit og byggingarlag. Segja má, að fljótt á litið gæti Háls átt a.m.k. tvö frændhús á Akureyri: Syðst við austanverða Norðurgötu á Oddeyri má sjá tvö hús, númer 2 og 4, sem eru ekki óáþekk Hálsi að sjá; kannski sér í lagi stærðir og hlutföll t.d. kvists og þaks og virðast nokkuð sviplík (látum ólíka gluggasetningu á framhlið liggja milli hluta). Það er þó skemmst frá því að segja, að Norðurgata 2 og 4 eru alls óskyld Hálsi, þrátt fyrir líkindin í útliti. Háls er t.a.m. miklu yngri en Norðurgötuhúsin og munar þar rúmum þremur áratugum. Húsin við Norðurgötu eru byggð 1897 og eru talin hönnun Snorra Jónssonar timburmeistara, en hann hefur ekki komið nærri hönnun Hálshússins, sem byggt er 1929, enda látinn ellefu árum fyrr. Það vill nú svo til, að þessi hús eru af mjög algengri gerð timburhúsa sem tíðkaðist um aldamótin 1900, einlyft, portbyggt ris og miðjukvistur og sjást ámóta hús víða. Háls er reyndar nokkuð ungur af þess háttar timburhúsi að vera, en árið 1929 voru steinhús aðallega móðins í nýbyggingu íbúðarhúsa, hvort tveggja í sveitum og kaupstöðum. Í bókinni Eyðibýli á Íslandi er Háls sagður áhugaverður sökum náttúrufars, fjallasýn hvert sem litið er og staðsetningin skemmtileg. Þar er viðgerð á húsinu sögð raunhæf. Það er þó nokkuð ljóst, að sú viðgerð yrði ærin og kostnaðarsöm, það hefur Skógræktarfélagið þegar reynt sem fram hefur komið, en sannarlega yrði mikil prýði af húsinu endurbættu: Háls er að upplagi látlaust en glæst hús á virkilega skemmtilegu og tignarlegu bæjarstæði og yrði svo sannarlega mikil prýði af því endurbættu. Háls gæti eflaust orðið fyrirtaks orlofshús eða ámóta bústaður. Nú stendur húsið að heita umlukið skógi, sem ræktaður hefur verið upp á síðastliðnum þremur áratugum, en engu að síður er þaðan mikið útsýni.
Meðfylgjandi myndir sem sýna Háls í nærmynd frá mörgum hliðum eru teknar 11. ágúst 2025, en myndin sem tekin er handan Eyjafjarðarár og sýnir bæjarstæði Háls er tekin 7. október 2023. Myndin af húsunum við Norðurgötu er tekin 22. október 2024.
Háls er kominn í eyði
Kvæði Ingibjargar Bjarnadóttir í fullri lengd.
Ljósið í glugganum lítur á mig
ljómar svo glatt og segir:
Sælinú! kom inn og hvíldu þig
komdu frostið er tíu stig
harðir og hélaðir vegir
Hurðin með ískri opnast við
andlit í dyrunum ljóma.
Hlýlegt og þétt er handtakið
heilsteypt er sálin þar bak við
Fingrum er brugðið á kalda kinn komdu inn!
Inda, Benni og Ármann hlýtt
inna þar gestinn sagna.
Eitthvað þú segir sjálfsagt títt,
sestu hérna hvað er nýtt
Einlæg þau öll mér fagna
Tíminn streymir sem stórfljót æst
stór komu skörð í hópinn.
Ármann hvarf fyrstur, Inda næst
enginn í staðinn hafði bæst
Örlögin sýna sópinn.
Kom ég þar oft með blek og blað
bætti í visku sarpinn.
Láðist mér oft að þakka það
þetta, sem Benni las og kvað.
Man ég vel gamla garpinn.
Líkaminn hnýttur, hönd með sigg
hrukkur á enni stórar.
Lundin þýð og trölla trygg
tungan aldrei hörð né stygg
sálin, sem sólir fjórar.
Á hálsinum stendur hnípinn bær
hljóður og yfirgefinn.
Grasið í varpanum vex og grær,
vellir spói, gaukur hlær
Að mér sækir efinn.
Járnkrumlur hrista jaðarbyggð
jafnvel í bestu sveitum
Ofnotkun valds er viðurstyggð,
verða hér nokkrum lífskjör tryggð. -
Það er eitthvað, sem enginn veit um.
Myrkrið í gluggunum mænir út
moldirnar gróa á leiði.
Enginn í dyrum með eldhúsklút
eyðingin glottir niðurlút.
Nú er Háls kominn í eyði.
Ingibjörg Bjarnadóttir (1926-2022) í Gnúpufelli. Birtist í eyfirska tímaritinu Eyvindi í mars 1995.
Greinarhöfundur við Háls þ. 11. ágúst 2025. Þess má geta, að allar húsamyndatökuferðir sínar um sveitir Eyjafjarðar fer undirritaður á reiðskjóta sínum, Cube 750-rafhjóli, enda um sérlegt samgöngutæki hans að ræða og langhjólreiðar eitt það skemmtilegasta sem hann gerir. Myndina tók Árni Már Árnason, en hann er eigandi hjólsins sem stendur við dyr hússins.
Heimildir:
Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður-Þingeyjarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli áhugamannafélag.
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Brunabótafélag Íslands. 1934. Háls. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I. 1933-1944. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/41.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Hallgrímur Indriðason og Vignir Sveinsson.2000. Háls í Eyjafjarðarsveit í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar; Skógar að fornu og nýju. Bls. 159-161. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Ingibjörg Bjarnadóttir. 1995. Háls er kominn í eyði Í Eyvindi, 4. árg. 1. tbl., bls.6.
Laufey Sigurðardóttir. 1980. Benedikt á Hálsi Í Heima er bezt, 30. árg. 11. tbl. 1. nóv.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.
Svanhildur Daníelsdóttir. 2025. Munnleg/skrifleg heimild: Ummæli á Facebook síðu höfundar þ. 12. ágúst 2025.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2025 | 17:11
Hús dagsins: Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið
Þegar horft er fram Eyjafjörð frá Akureyri er eitt helsta kennileiti svæðisins, ásamt Súlutindum í vestri og Vaðlaheiði/Kaupangssveitarfjalli í austri, Staðarbyggðarfjall, í suðri. Einhvern tíma heyrði greinarhöfundur því haldið fram, að Staðarbyggðarfjall héti jafn mörgum nöfnum og bæirnir, sem undir því stæðu. Hvað er hæft í því skal ósagt látið en alltént heitir ysti og lægsti hluti fjallsins Öngulsstaðaöxl, Uppsalahnjúkur er sunnar og heitir svo syðsti hluti fjallsins, Sigtúnafjall. Raunar er fjallið endalaust í suðurátt, því sunnanmegin myndar það austurhlíð Þverárdals á móti Tungnafjalli í vestri. Tungnafjall og Staðarbyggðarfjall eru raunar, eins og öll fjöllin austanmegin Eyjafjarðar, tungur eða greinar út úr hásléttu á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Eyjafjarðarsvæðið var áður geysi víðlend háslétta, hlaðin upp af hraunlögum mörg þúsund eldgosa á milljónum ára. Síðar gekk í garð ísöld og lagðist þá jökulhella yfir gjörvallt norðurhvel jarðar og skiptust á kuldaskeið og hlýskeið. Skriðjöklar miklir tálguðu þá og grófu, líkt og risavaxnar skurðgröfur og jarðýtur, hundruð metra djúpa og margra kílómetra langa dali, og firði í hraunlagastaflann mikla. Hraunlagastaflinn sést víða í fjöllum og er lagskiptingin einkum greinileg á veturna, þegar snjór sest í millilögin líkt og hvítt krem í marglaga dökkri lagtertu hraunlaganna, en á sumrin sést oft gróður og lausamöl í millilögunum. Millilögin eru til komin af jarðvegi og gróðri sem náði sér á strik á milli hraunlaganna, en á milli laga í hamrabeltum geta verið hundruð eða þúsundir ára. En þar sem okkur ber niður nú, undir Staðarbyggðarfjalli, hefur verið búið í rúm þúsund ár og eldra íbúðarhúsið er rétt að verða hundrað ára. Það er á Ytri-Tjörnum.
Bæjarstæði og hús
Ytri-Tjarnir standa sem fyrr segir í hlíðum Staðarbyggðarfjalls, nánar tiltekið Öngulsstaðaaxlar í aflíðandi og ávalri hlíð, sem rís upp af Staðarbyggðarmýrum. Stendur bærinn rétt neðan Eyjafjarðarbrautar eystri, rúmum kílómetra norðan vegamótanna við Miðbraut, sem tengir saman Eyjafjarðarbrautirnar eystri og vestri milli Laugalands og Hrafnagils. Frá Ytri-Tjörnum eru rúmir 13 kílómetrar í miðbæ Akureyrar. Á Ytri-Tjörnum stendur einkar reisulegt steinhús í nýklassískum stíl, með kvisti sem skartar áletruninni 1927, sem vísar til byggingarársins. Það virðist hafa verið lenska á árunum kringum 1930, að marka kvisti húsa með byggingarárinu (í einhverjum tilfellum hefur áletrunin verið gerð eftir á). Húsið minnir óneitanlega á hús við göturnar Eyrarlandsveg, Brekkugötu og Oddeyrargötu á Akureyri en í Eyjafjarðarsveit, nánar tiltekið á Hvassafelli má finna hús ámóta gerðar.
Gamla íbúðarhúsið á Ytri-Tjörnum er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stórum miðjukvistum og stendur húsið á háum grunni. Á miðri framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur að þeim. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki og krosspóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins mælist (ónákvæmt af map.is) um 12x10 metrar. Áfast húsinu norðanmegin eru útihús, fjós og hlaða. Fjósið er um 15x10m og hlaðan, sem snýr stöfnum þvert á íbúðarhúsið um 17x7m. Á stöfnum og kvisti eru bogadregnir, steyptir kantar, sem setja skemmtilegan svip á húsið. Skraut af þessu tagi mun undir áhrifum frá svokölluð jugendstíl en einnig kennt við barrokk.
Í brunabótamatsskýrslu árið 1934 var húsinu á Ytri-Tjörnum lýst svo: Íbúðarhús, 11,4x9m að grunnfleti og 7,7m á hæð. Útveggir og skilrúm öll að efri bitum úr steinsteypu. Loft, gólf og innveggir úr timbri og járnvarið timburþak. Eldstæði; miðstöðvarketill í kjallara sem tengist 10 miðstöðvarofnum í stofum og eldavél í eldhúsi við steinsteyptan reykháf. Vatnsleiðsla og W.C. skúr og fjós og úr torfi og skemma með timburgafli. Ytri-Tjarnahúsið er sambyggt fyrrum gripahúsum og hlöðu en í upphafi var það stakstætt, fast við gamla torfbæinn (sbr. Björn Jóhannsson, 1934: án bls.). Síðar, líklega 1934 og 1939 (m.v. skráð byggingarár) voru byggð hlaða og fjós, í þessari röð, og fékk þá húsasamstæðan það lag sem hún hefur æ síðan. Gengt var (og er) inn í íbúðarhúsið úr tengibyggingu eða hluta fjóssins, sem nú er skráð sem vélageymsla.
Að fornu og nýju: úr Eyfirðingum Stefáns Aðalsteinssonar
Ytri-Tjarnir eru forn jörð og er nefnd í Auðunarmáldaga árið 1318 og var ein af jörðum Munkaþverárklausturs og í eigu þess um aldir. Fyrsti Ytri-Tjarnabóndinn sem þekktur er með nafni mun hafa verið Sigurður Loftsson, sem hér bjó á fyrri hluta 17. aldar. Árið 1712, þegar jarðir Íslands voru metnar í fyrsta skiptið voru Ytri-Tjarnir metnar á 40 hundruð að Ytra-Tjarnakoti meðtöldu en án kotsins, 30 hundruð. Ytra-Tjarnakot var byggt á fjórðungi úr landi Ytri-Tjarna um 1662 og í byggð í tvær og hálfa öld, en kotið var lagt undir heimajörðina um 1921. Samkvæmt örnefnakorti Landmælinga standa fjós og hlaða Ytri-Tjarna í bæjarstæði Ytra-Tjarnakots, um 120 metra norðan íbúðarhúsanna. Við skulum staldra við í ábúendasögu Ytri-Tjarna árið 1841 er hingað flyst maður að nafni Benjamín Flóventsson. Hann var uppalinn hjá fósturforeldrum í Grjótargerði í Fnjóskadal, þeim Tómasi Guðmundssyni og Þórunni Árnadóttur. Þegar Tómas lést, 1832, fluttist Þórunn yfir Vaðlaheiðina, að Syðra-Hóli þar sem hún bjó í skjóli dóttur sinnar, Sigríðar. Önnur dóttir Tómasar og Þórunnar, Halldóra, giftist Benjamín, fósturbróður sínum og bjuggu þau á tveimur bæjum í Öngulsstaðahreppi, næsta áratuginn uns þau fluttu að Ytri-Tjörnum. Sem var, sem fyrr segir, 1841. Þar bjuggu þau til æviloka, Halldóra Tómasdóttir, lést 1862 en Benjamín árið 1877. Benjamín Flóventsson var fróðleiks- og námsfús mjög en átti þess engan kost að komast til mennta, vegna fátæktar. Hann var þó sjálflærður í skrift og ýmsum fræðum og nam smíðar af Þorláki Þorsteinssyni á Þórðarstöðum í Fnjóskadal, annáluðum hagleiksmanni. Um Benjamín var kveðið:
Benjamín ei fargar frið
fyrir sóma gjörnum
hagur sitt fram leggur lið
lengi á Ytri- Tjörnum.
Svo lengi sem 36 ár bjó Benjamín Flóventsson á Ytri-Tjörnum. Árið 1862 kvæntist Benjamín, Sigríði Jónsdóttur frá Bringu. Eignuðust þau fimm syni, þar af náðu fjórir fullorðinsaldri. Einn þeirra var Kristján Helgi, sem fæddist hér í október árið 1866. Fyrir honum átti eftir að liggja, að hefja búskap hér, en áður hafði hann búið á Þröm í Garðsárdal og Rútsstöðum (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1667-1679). Og þar er kominn sá maður, sem kom upp steinhúsinu mikla að Ytri-Tjörnum, sem enn stendur.
Nýja steinhúsið og samanburður við önnur slík; hver teiknaði eldra íbúðarhúsið á Ytri-Tjörnum?
Það var árið 1899 sem Kristján Helgi Benjamínsson hóf hér búskap, ásamt konu sinni, Fanneyju Friðriksdóttur frá Brekku. Móðir hans hafði flutt héðan árið 1878, þá orðin ekkja og höfðu ýmsir búið hér þau ellefu ár, sem liðin voru. Líkt og á flestum bæjum var hér torfbær frá fornu fari. Torfbærinn var nokkuð stór, á honum voru þrjár burstir (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:1667), þar sem voru bæjardyr, stofa og skáli. Við enda langra ganga, þar sem finna mátti tvö búr og eldhús, var og baðstofa og sérstakt baðstofuhús (sbr. Jónas Rafnar 1975:136). Árið 1915 virðist torfbærinn hafa verið endurbættur nokkuð eða jafnvel endurbyggður (sbr. Jónas Rafnar 1975:137) og búið að innrétta stofu, svefnherbergi og skrifstofu, auk nýs eldhúss og búrs. Ekki mörgum árum síðar var enn komið að endurnýjun húsa. Leki var t.d. þrálátur og hvimleitt vandamál í gamla bænum á árunum kringum 1926 (sbr. Theódór Kristjánsson, 1926). Þá var barnahópur þeirra Ytri-Tjarnahjónanna æði stór, en haustið 1926, þegar sagt er frá því í Degi, að Kristján Helgi hafi haldið upp á sextugsafmæli sitt, hafi verið skírt þeirra 12. barn (elstu börnin reyndar orðin uppkomin, fædd um aldamótin). Það er reyndar ekki minnst á, að þau séu að undirbúa byggingu steinhúss, enda var það e.t.v. ekki fréttnæmt, svo algeng sem steinhúsabygging var orðin til sveita. Þegar þau Kristján Helgi og Fanney hugðust endurnýja húsakostinn á Ytri-Tjörnum, um miðjan 3. áratug 20. aldar kom auðvitað ekkert annað til greina en steinhús. Höfðu þá risið þó nokkur steinhús í hreppnum á undangengnum misserum, eða voru í byggingu, m.a. á Rifkelsstöðum, Sigtúnum, Syðra og Ytra-Laugalandi og á næsta bæ sunnan við, Syðri-Tjörnum og var það hús kallað Háagerði. Beint handan Eyjafjarðarár blasti svo við Ytri-Tjarnafólkinu nýlegt, steinsteypt íbúðarhús bræðranna Stefáns og Hallgríms Jónssona í Kristnesi. Á Vesturbakkanum, handan árinnar blöstu einnig við þeim stórframkvæmdir; bygging heljarinnar berklahælis á Kristnesi.
Hverjir voru smiðir og hönnuðir Ytri-Tjarna? Teikningarnar að húsinu eru ekki aðgengilegar á kortagrunni og því liggur það ekki fyrir þar, hver gerði teikningarnar. Ytri-Tjarnahúsinu svipar útlitslega m.a. til Eyrarlandsvegar 20 og 22, sem Tryggvi Jónatansson múrarameistari teiknaði, Brekkugötu 25, sem Jónas Snæbjörnsson brúarsmiður og smíðakennari teiknaði, Strandgötu 33, sem Ólafur Ágústsson húsgagnasmiður teiknaði og Eyrarlandsvegi 27, sem Einar Jóhannsson byggingameistari teiknaði, svo fátt eitt sé nefnt. Hvassafellshúsið er einnig af svipuðum meiði en greinarhöfundi er ekki kunnugt um hönnuð þess. Við heimildavinnu hafði greinarhöfundur samband við Ólaf Theódórsson og fékk að skyggnast í dagbækur föður hans, Theódórs Kristjánssonar (1908-1994) frá Ytri-Tjörnum og varpa þær ljósi á hönnuð og smiði nýja Ytri-Tjarnahússins. Theódór Kristjánsson fékkst við vélavinnu og viðgerðir og vann hjá Vélasjóði ríkisins, ók um árabil skólabíl hreppsins (sem hann byggði yfir og innréttaði sjálfur) og var lengi húsvörður í félagsheimilinu Freyvangi. Þann 10. apríl 1927 segist Theódór í dagbók sinni vera við íbúðarhústeikningar og þann 19. segir hann, að faðir hans [Kristján Helgi Benjamínsson] hafi farið yfir í Heilsuhæli [Kristneshæli, sem þá var í byggingu] að finna byggingafræðing, að sýna honum teikningu að þeirra feðga af fyrirhuguðu húsi. Og 30. apríl mætir umræddur byggingafræðingur með endanlega teikningar að nýja húsinu. Sá er nafngreindur: Sveinbjörn Jónsson. Sveinbjörn Jónsson, löngum kenndur við Ofnasmiðjuna er semsagt hönnuður Ytri-Tjarnahússins frá 1927. Teikningarnar vann hann eftir forskrift þeirra feðga, Theódórs og Kristjáns.
Úr dagbók húsbyggjanda
Dagbækur Theódórs Kristjánssonar ljóstra því sem fyrr segir upp, að Sveinbjörn Jónsson teiknaði Ytri-Tjarnahúsið og gott betur en það, því þar er rakin byggingarsaga hússins, nánast dag frá degi. Sem fyrr segir voru teikningarnar tilbúnar þann 30. apríl, vorið 1927. Um svipað leyti, líklega um leið og frost fer þokkalega úr jörðu er byrjað að grafa fyrir húsgrunninum og að Ytri-Tjörnum koma fjölmargir bílfarmar af sementi. (Þann 3. maí eru komnar 60 tunnur og það látið duga fyrst um sinn). Samhliða þessum framkvæmdum eru auðvitað hefðbundin bústörf en auk þess fæst Theódór við niðurrif gamla bæjarins og vegavinnu. Þau nöfn sem oftast koma fyrir í þessari vinnu með Theódóri eru Siggi, Steini og Þorsteinn (mögulega um sama mann að ræða), Þórður (Daníelsson) á Björk ásamt fleirum. Ekki kann greinarhöfundur frekari deili á þessum mönnum. Hér fara nokkur dagbókarbrot frá Theódóri, er viðvíkja húsbyggingunni. Við skulum stikla á stóru við nokkrar dagsetningar (skáletrað er orðrétt frá Theódóri):
9 maí 1927: Við 3 (Siggi í Brekku og Steini) rifum upp grjót úr grunninum og byrjuðum að grafa kjallara.
18. maí: Lukum við að grafa kjallarann og hringrásina, erum einnig búnir að púkka ofan í hana í hana að miklu leyti.
24. maí: Þórður á Björk kom í vinnuna og vorum við, við smíðar, smíðuðum trönurnar að kjallaranum og hrærufleka . Þann 27. maí byrja þeir Theódór og Þórður að steypa.
30. maí: Steyptum í gríð og erg.
1. júní: Lukum við að steypa kjallarann og grófum fyrir skilrúmsrásum
11. júní: Steyptum hæðina uppúr að sunnan, hliðarnar langt komnar og talsvert af norðurgafli. Hver dagbókarfærsla hefst með veðurlýsingu og þennan dag er: Veðrið kalt, hefir hríðað efst í fjöll í nótt. (hafís sagður ekki langt undan landi) sólskinsglæta þó um stund.
24. júní: Lokið við að steypa portið og ganga frá loftsgluggaflekum. Þorsteinn byrjaði á sperrunum.
25. júní: Steyptum suðurstafninn upp í topp.
1. júlí: Steyptum vesturkvistinn. (Þennan dag fara einnig fram fráfærur, fært frá 23 ám og rekið upp úr miðdegi)
2. júlí: Við Steini slógum frá norðurstafni en Þorsteinn og Þórður hjuggu saman kvistsperrur, gráðusperrur og stúfsperrur.
4. júlí: Slegið frá báðum kvistunum
5. júlí: Þakskeggið steypt á austurhliðinni. Byrjað að leggja þakið.
7. júlí var Theódór ásamt fleirum að leggja þakið og reisa kvistsperrur. Þann dag bar það til tíðinda, að Jóhannes Jósepsson, sem nokkru síðar reisti Hótel Borg og æ síðan kenndur við þá byggingu, glímukappi kom í heimsókn og tvær dætur hans, Hekla og Saga.
14. júlí: Þorsteinn lauk við þakið (trje og pappa).
18. júlí: Hjer í dag var maður, Jóhann Frímannsson framan úr firði (hefir verið á Syðra-Laugal[andi] í vor) hjálpar hann Þorsteini að járnleggja húsið. Tóku eina skorsteinshræru.
20. júlí: Lokið við að leggja járnið [á þakið].
27. júlí: Komu gluggarnir með Nova í dag, og flutti Ingimar þá hingað einnig 2 útihurðir.
2. ágúst: Þorsteinn er að láta rúðurnar í, í dag.
4. ágúst: Þorsteinn setti í kjallaragluggana og gluggana á hæðinni. Óskar sem fór með mjólkina, kom með stafngluggana uppi (Eggert Guðmundsson smíðaði þá).
Þegar leið á sumarið virðist nýja húsið vera orðið fokhelt. Næstu mánuði dunda áðurnefndir menn, ásamt Theódóri og fleirum við ýmis verk innandyra, þilja í hólf og gólf, steypa í ýmis hólf og rými, fernisera og mála.
Þann 1. nóvember skrifar Theódór, m.a.: Við Þórður slóum lofti í norðurstofuna það sem panellinn náði. Kristneshæli vígt. Fórum héðan, pabbi, mamma og jeg. Var þar voða mikill mannfjöldi saman kominn.
Þann 26. nóvember kom miðstöð og var það Sveinbjörn byggingafræðingur sem hafði umsjón með því verki, að koma henni upp, ásamt vatnsleiðslum. Þar var Theódór hans sérlegur aðstoðarmaður.
Og þann 18. febrúar 1928 færir Theódór Kristjánsson eftirfarandi í dagbók sína:
Veður hægur sunnan andvari e.m. frostlaust um miðd. en eitthvað í kveld. Flutt í nýja húsið, morgunmatur borðaður síðast í gamla bænum, en miðdegismatur fyrst í nýja húsinu.
(Theódór Kristjánsson, 1927 og 1928)
Ytri-Tjarnaættir og búskaparsaga til vorra daga
Hér að framan er greint frá því, að á sextugsafmæli Kristjáns Helga hafi tólfta barn þeirra Ytri-Tjarnahjóna verið skírt. Theódór, sem svo skilmerkilega lýsti byggingu hússins var fæddur 1908 og var sá fimmti í röð í systkinanna. En umrætt tólfta barn Kristjáns og Fanneyjar hlaut nafnið Friðrik og sá varð síðar húsgagnasmiður og húsvörður í Hrafnagilsskóla. Öll náðu Ytri-Tjarnasystkinin fullorðinsaldri og það sem meira er; flest þeirra lifðu fram á níræðis- og jafnvel tíræðisaldur. Á meðal systkinanna frá Ytri-Tjörnum voru m.a. Dagrún, húsmæðrakennari, Valgarður borgardómari í Reykjavík og bræðurnir Benjamín og Bjartmar, sem báðir voru prestar og þjónuðu í Eyjafjarðarsóknum í áratugi, séra Benjamín frá 1935 til 1968 og séra Bjartmar (tók við af bróður sínum) frá 1968 til 1986. Séra Benjamín var einnig mikilvirkur fræðimaður og rithöfundur og meðal verka hans eru Eyfirðingabækur I og II, sem segja m.a. frá sögu kirkjustaða og kirkna Eyjafjarðar auk söguþátta af ýmsu merkisfólki. Og fyrst minnst er á merkisfólk má minnast á, að út af systkinunum tólf frá Ytri-Tjörnum eru, eðli málsins samkvæmt, komnir miklir og fjölmennir ættbogar. Og skemmst að segja frá því, að einn ættleggurinn frá Kristjáni Helga hefur setið Ytri-Tjarnir allar götur síðan.
Þau Kristján Helgi og Fanney áttu heima á Ytri-Tjörnum allt til æviloka, Fanney Friðriksdóttir lést árið 1955 og Baldur í ársbyrjun 1956. Tvö börn þeirra, þau Inga og Baldur Helgi bjuggu áfram á Ytri-Tjörnum og tók sá síðarnefndi við búinu ásamt konu sinni, Þuríði Helgu Kristjánsdóttur frá Hellu á Ársskógsströnd, árið 1944. Árið 1970 voru byggðir og bú Eyfirðinga skráðar skilmerkilega og niðurstaðan gefin út á bók þremur árum síðar. Segir svo um Ytri-Tjarnir:
Eigendur og ábúendur: Baldur H. Kristjánsson f. hér 7.6.1912 og og Þuríður H. Kristjánsdóttir f. á Hellu á Árskógsstr. 21.11.1915. Annað heimilisfólk 4 af 5 börnum þeirra. Einnig er hér til heimilis systir Baldurs, Inga, f. 29.7.1903. Baldur og Þuríður tóku hér við búi árið 1944. Foreldrar hans, Kristján H. Benjamínsson og Fanney Friðriksdóttir bjuggu hér 1899 1944. Byggingar: Íbúðarhús b. 1927, 3 hæðir, 640 m3; fjós f. 24 kýr, viðbygging f. um 20 gripi, fjárhús f. 60 fjár, hlaða f. um 800 h. og stórt vélahús. Allt úr steinsteypu nema fjárhús, sem er gamalt torfhús. Túnstærð 26,14 ha. Töðufengur um 1200 h. úthey um 100 h. og kartöfluland um 1 ha. Áhöfn: 30 kýr, 15 geldn., 60 fjár og 3 hross (Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:380).
Auk búskapar hófu þau Baldur og Þuríður snemma að fást við skógrækt, en árið 1947 girtu þau af þrjá hektara lands ofan bæjarins, austan þjóðvegarins og hófu þar skógrækt og er þar nú álitlegur skógarreitur. Hlið með fangamörkum þeirra, ÞHKBHK, má sjá í norðvesturhorni reitsins, fast við þjóðveginn. Það er skemmtileg tilviljun, að reitur þessi er jafnaldri sérlegs sælureitar Akureyringa, Kjarnaskógar, en þar hófst einnig ræktun 1947.
Árið 1990 eru sonur og tengdadóttir Baldurs og Þuríðar, Benjamín og Hulda Magnea Jónsdóttir tekin við búinu, frá 1975. Þau reistu nýtt íbúðarhús, skammt ofan þess gamla, árin 1977-78 en Baldur og Þuríður bjuggu áfram í gamla íbúðarhúsinu. Frá 1970 hafa, auk nýja íbúðarhússins, risið fjós og hlaða (1971) og hesthús (1989). Nýja fjósið og hlaðan standa sem fram kemur í upphafi, um 120 metra norðan íbúðarhúsanna, nokkurn veginn í bæjarstæði Ytri- Tjarnakots (skv. örnefnakorti Landmælinga). Árið 1990 voru alls 78 nautgripir, þar af 40 kýr á Ytri-Tjörnum og sex hross auk þess sem þar var stunduð kartöflurækt. Ræktað land á Ytri-Tjörnum árið 1990 var 35,6 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993: 998). Það er þó ekki aðeins gæði yfirborðs jarðar sem nýtt eru á Ytri-Tjörnum, því neðan bæjarins er hitaveituborhola (TN-4), boruð árið 1980 og nýtt af Hitaveitu Akureyrar (síðar Norðurorku). Boranir hófust í landi Ytri-Tjarna veturinn 1978.
Þegar Byggðir Eyjafjarðar voru teknar saman í riti hið þriðja sinni, 2010, eru Benjamín og Hulda eigendur og ábúendur en eldra íbúðarhúsið í eigu barna og tengdabarna þeirra Baldurs og Þuríðar; Baldur lést árið 2003 og Þuríður árið 2009. Þá eru þar nærri hundrað (95) nautgripir, þar af 50 kýr og 9 hross og ræktað land alls 56,2 hektarar, þar af 9,2 á jörðunum Tjarnagerði og Tjarnalandi, sem byggðar voru úr Ytri-Tjörnum árið 1951 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:541). Þegar flett er gegnum Byggðabækurnar er það oftar en ekki tilfellið, að dregið hafi úr búskap eða hann hreinlega lagst af á mörgum jörðum. Sérlega ánægjulegt er því að sjá, að hér hafi ræktun aukist og gripum fjölgað, m.ö.o. búið stækkað. Og fimmtán árum eftir að Byggðirnar voru teknar saman er enn rekið stöndugt kúabú, sem Baldur Helgi Benjamínsson fer fyrir, ásamt foreldrum sínum, téðum Benjamín og Huldu. Þess má geta, að Baldur Helgi var framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda í áratug, frá 2006 til 2016. Það er þannig fjórði ættliðurinn, í beinan karllegg frá Kristjáni Helga Benjamínssyni, sem stundar búskap á Ytri-Tjörnum og ættin þannig setið hér í nærri 130 ár. (Raunar mætti rekja sögu ættarinnar hér enn lengra aftur, eða allt til búskapartíðar Benjamíns Flóventssonar, sem hófst 1841, en jörðin var reyndar í ábúð annarra frá 1878 til 1899).
Niðurlag
Á Ytri-Tjörnum er ekki aðeins rekinn stöndugur landbúnaður og ýmis ræktun, heldur hefur ættinni auðnast að halda hinu tæplega hundrað ára íbúðarhúsi vel við og er það í reglulegri notkun. Gamla íbúðarhúsið á Ytri-Tjörnum er sérlega glæst hús og í góðri hirðu. Í því eru m.a. nýlegir gluggar, krosspóstar í anda hins upprunalega, en þeir voru settir í sumarið 2020 og leystu af hólmi einfalda þverpósta. Húsið hefur verið með veglegri íbúðarhúsum í Öngulsstaðahreppi á sinni tíð og hefur svipmót veglegustu íbúðarhúsa Akureyrar á sama tíma. Húsið, ásamt áföstum gripahúsum myndar einnig skemmtilega samstæðu. Húsið blasir við frá Eyjafjarðarbraut eystri en er einnig áberandi frá Vesturbakkanum, einkum ef menn eru með kíki. Húsið hlýtur að hafa nokkurt varðveislugildi en aðeins munar fjórum árum, að húsið sé aldursfriðað. Ákvæðið, sem kvað á friðun húsa sem næðu 100 ára aldri var nefnilega afnumið árið 2023 og miðast aldursfriðun eftir það við byggingarárið 1923. Umhverfi Ytri-Tjarna er einnig sérlega geðþekkt, ber mikið á trjárækt og þar eru svo sannarlega og í bókstaflegri merkingu bleikir akrar og slegin tún, þegar þannig stendur á árstíðum.
Meðfylgjandi myndir eru teknar 5. mars 2021, 17. febrúar 2023, 22. september 2024 og 14. september 2025.
Heimildir:
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri (ekki aðgengileg á vef). Hskj.Ak. H12-41.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.
Theódór Kristjánsson. 1927-28. Dagbókarfærslur. Þakka Ólafi Helga Theódórssyni kærlega fyrir lánið á vélrituðum afritum af dagbókum föður hans.
Þakka einnig þeim Ytri-Tjarnafeðgum, Benjamín Baldurssyni og Baldri Helga Benjamínssyni, kærlega fyrir skjót og góð viðbrögð við fyrirspurn minni um frekari upplýsingar.
Bloggar | Breytt 24.9.2025 kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.10.): 6
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 332
- Frá upphafi: 455907
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 221
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar