Allt tekur enda

Síðastliðin ár hefur undirritaður ætíð beðið þessa tíma árs með sérstakri eftirvæntingu. Vor og sumarkoman sem slík er auðvitað alltaf tilhlökkunarefni en um þetta leyti hefur venjan verið að ný sería byrji af Út og Suður. Mér fannst lengi vel þá fyrst að sumarið væri komið þegar maður settist við sjónvarpið  1.-3. sunnudagskvöldið í júní og upphafsstefið skemmtilega byrjaði að hljóma. En allt tekur enda um síðir og einhverntíma skildist mér að  ekki yrði ný þáttaröð þetta sumarið.  Auðvitað sér maður dálítið af þessum frábæru þáttum en þeir höfðu nú gengið í sjö sumur og sýndir yfir 100 þættir ( 100.þátturinn var einmitt sýndur í ágúst 2009, tvöfaldur þáttur um Hornstrandir) þannig að kannski var þetta komið ágætt. Gísli Einarsson virtist einstaklega fundvís á áhugaverða viðmælendur hingað og þangað um landið og ævinlega hafði þetta fólk frá miklu og merkilegu að segja, fróðleik eða skemmtilegum sögum. Oft var þetta fólk í einhverjum rekstri, einyrkjar eða einhverjir sem hnýttu ekki bagga sína endilega sömu hnútum og samferðamenn. Þá fólst oft í þáttunum fróðleikur um landsins gagn og nauðsynjar, ýmist í boði viðmælenda eða Gísla sjálfs.  Gísli hafði virkilegan áhuga á viðmælendunum og því sem þeir höfðu að segja og skein það í gegn um þættina. Þá er ekki hægt að tala um Út og Suður án þess að  minnast á upphafsstefið, einstaklega grípandi og hressilegur kántrý - gítarslagari, svolítið í anda The Shadows. (Gott ef það var ekki stefið sem upphaflega vakti áhuga minn á þessum þáttum.) Man ekki hvort Gísli hlaut einhverntíma Edduna fyrir þessa þætti en hann örugglega allavega tilnefndur-  enda vel að því kominn. En Edda eða ekki, Út og Suður voru  og eru stórfínir þættir!

Hús dagsins: Aðalstræti 52

p5290051.jpgAðalstræti 52 er í hópi allra elstu húsa Akureyrar byggt 1840 og líklega eru það aðeins Gamli Spítalinn (175)* og Laxdalshús (215) eru eldri. Ekki er vitað með vissu hver byggði þetta hús en 1853 bjó kjarnakonan Vilhelmína Lever í húsinu og rak þar einnig veitingasölu. Hugsanlega byggði hún húsið. Vilhelmína Lever einn af helstu stórlöxum Akureyrar um miðja 19. öld og kannski þekktust fyrir að hafa kosið í bæjarstjórnarkosningum (1863) fyrst kvenna, löngu áður en konur fengu slíkum. Fyrir rúmri viku komst Vilhelmína einmitt í sjónvarpsfréttir , en fyrir skömmu fann Hörður Geirsson á Minjasafninu myndir af henni, en þeirra hafði verið leitað svo árum skipti og jafnvel talið óvíst  hvort þær væru til. Vilhelmína seldi húsið 1859 Sveini Skúlasyni, prentara og mun hann hafa stækkað húsið undir prentverkið. Þremur árum seinna keypti Jón Chr. Stephansson, timburmeistari, ljósmyndari og bæjarfulltrúi og bjó hann þar til  í hálfa öld, til dánardags 1910. Jón byggði m.a. Gamla Apótekið (151). Eftir daga Jóns hefur húsið líklega skipt oft um eigendur og leigjendur og nokkuð öruggt þykir mér að á tímabili hafi margar fjölskyldur búið þarna samtímis. En líkast til hefur húsinu alla tíð verið vel við haldið; það var í hópi fyrstu húsa á Akureyri sem voru friðuð. Var það um 1980 og var friðunin tvenns konar, A og B flokkur. Þetta hús féll undir síðarnefnda flokkinn og hefur því verið breytt talsvert að innan. Enda má telja það eðlilegt, þar sem geta má nærri að kröfur íbúa til húsnæðis hafi gjörbreyst frá miðri 19. öld til ofanverðrar 20. Húsið er nú stórglæsilegt að sjá og mikil bæjarprýði og hefur verið fært sem næst upprunalegu útliti. Byggt hefur verið við það með þeim hætti sem talinn er til fyrirmyndar þegar í hlut eiga gömul og friðuð hús. Þannig hefur nýtískuleg viðbygging verið reist á bakvið, ekki áberandi frá götu og greinileg afmörkun milli eldra og yngra húss. Ljóst er að þessi framkvæmd er geysi vel heppnuð. Þessi aðferð hefur líka verið farin á Aðalstræti 44 ( sem er einmitt jafngamalt þessu húsi, 170). Þessa mynd tók ég 29.maí sl.

*Tölurnar í svigum vísa til aldurs húsanna. Finnst það nokkuð skemmtilegt fyrirkomulag.


Bloggfærslur 7. júní 2010

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 24
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 305
  • Frá upphafi: 447507

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 236
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband