Hús dagsins: Hofsbót 4

Um daginn vorum við stödd úti í Glerárþorpi, eftir að hafa dvalið um nokkurt skeið við syðstu byggðir Akureyrar. En nú förum við milliveginn- bókstaflega- því nú ber okkur niður í Miðbænum. 

Hofsbót er stutt gata (um 150m) sem tengir efsta hluta P1190980Strandgötu í norðri og Skipagötu í suðri og liggur í boga yfir bílastæðasvæði Miðbæjarins. Þessi hringtenging er uppistaða í hinum valinkunna „rúnthring“ Miðbæjarins. Kannski halda einhverjir, að Hofsbót dragi nafn sitt af Menningarhúsinu Hofi, en það er sjálfsögðu ekki svo, enda gatan til komin áratugum á undan Hofi. Hofsbót er gamalt heiti á Akureyrarhöfn eða krikanum við suðvesturhluta Oddeyrar og jafnvel Pollinum öllum (sbr. Steindór Steindórsson 1993: 134). Miðbæjarsvæðið hefur þannig löngum kallast Bótin, og íbúar þess „Bótungar“. Í upphafi 3. áratugs 21. Aldar stendur aðeins eitt hús við Hofsbót, en þeim kann að fjölga, gangi hugmyndir um nýtt Miðbæjarskipulag eftir.

Umrætt hús er Hofsbót 4. Húsið var fullbyggt 1988, en það var á vordögum 1987 að Verkfræðistofa Norðurlands auglýsti eftir tilboðum í byggingu 3500 m3 húss en auk þeirra stóðu Fatahreinsun Vigfúsar og Árna og þrír tannlæknar að byggingu hússins. Öllum tilboðum var hafnað.  Engu að síður var bygging hússins hafin í lok september 1987. Byggingarmeistarar hússins voru Jón Björnsson, Björgvin Björnsson og Sigurður Arngrímsson en húsið var teiknað á teiknistofunni Form. Á upplýsingakorti Akureyrarbæjar birtast fjölmargar teikningar af húsinu og hlutum þess, áritaðar af Eiríki Jónssyni.

            Hofsbót 4 er fjögurra hæða steinsteypuhús með flötu þaki.  Efsta hæð er inndregin sunnan og þar eru svalir, en þá er einnig útbygging til vesturs og svalir ofan á þeim. Gluggasetning efri hæða er þannig, að þrír gluggar sitja saman með breiðum timburþiljum á milli, og hvert „gluggastykki“ aðskilið af steyptum þverböndum. Á jarðhæð eru verslunargluggar. Efsta hæð er að mestu glerjuð, en þar er um nýlega framkvæmd að ræða. Veggir eru múrhúðaðir en dúkur á þaki.

            Húsið hefur frá upphafi hýst hina ýmsu starfsemi, þarna var sem áður segir fatahreinsun á neðstu hæð, ljósmyndaþjónusa og framköllun, tannlæknastofur á efri hæðum og Verkfræðistofa Norðurlands var í húsinu frá byggingu. Hún sameinaðist árið 2011 verkfræðistofunni Eflu undir nafni hinnar síðarnefndu. Jarðhæð hefur löngum skipst í tvö verslunarrými; nú eru í syðri hluta rakarastofa en í vefnaðarvöruverslunin Vogue hefur verið í nyrðri hluta um árabil. Íbúð er á efstu hæðinni, en hún var innréttuð um 2018 eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar.

Fyrir fáeinum misserum fóru miklar endurbætur fram á efstu hæð hússins en að öðru leyti er það að mestu óbreytt frá upphafi. Húsið setur nokkurn svip á Miðbæinn og er í ágætu samræmi við nærliggjandi byggingar, hvað varðar stærð og útlit. Það tekur þátt í sameiginlegri sexhyrndri götumynd efsta hluta Strandgötu, Ráðhústorgs, Skipagötu og Hofsbótar, sem á uppruna sinn í fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar frá 1927. Húsið er ekki talið hafa verulegt varðveislugildi í Húsakönnun 2014, enda á það yfirleitt ekki við um hús á þrítugs- eða fertugsaldri. Kannski mun Hofsbót 4 hljóta varðveislugildi þegar líða tekur á þessa öld...Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Bloggfærslur 26. mars 2021

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 202
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband