28.8.2024 | 16:24
Hús dagsins: Litli-Hamar
Kannski mætti kalla Tungnafjall, næst sunnan við Staðarbyggðarfjall, nokkurs konar systurfjall hins síðarnefnda. En Tungnafjall er ekki óáþekkt syðsta hluta Staðarbyggðarfjalls, sem nefnist Sigtúnafjall, háar og brattar, hömrum girtar hlíðar og efst mjóar en langar eggjar, svo líkja mætti lögun fjallanna við A-laga tjöld eða brött risþök. Kambsskarð, nyrst í Tungnafjallinu, gefur fjallinu hins vegar ákveðið sérkenni. En fjöll þessi eru auðvitað hlaðin upp af sömu eða sams konar hraunlögum á hundruð þúsundum eða milljónum ára og voru eitt sinn ein heild, eða þar til ísaldarskriðjökull gróf Þverárdalinn á milli þeirra. Neðan Tungnafjalls standa nokkrir bæir en segja má, að strangt til tekið standi bæirnir næst sunnan Þverár efri ekki við rætur Tungnafjalls heldur næsta fjalls sunnan við. Þar er um að ræða Möðruvallafjall en norðan úr því gengur langur og aflíðandi háls sem nær eiginlega fram fyrir gjörvallt Tungnafjall. En bakvið háls þennan rennur Mjaðmá úr samnefndum dal austan Möðruvallafjalls og rennur hún í Þverá rétt ofan við brúna yfir gilið mikla. En látum nú staðar numið af landfræðilegum formála. Eins og fjöll fjarðarins mynda skemmtilega sjónræna heild, gera sveitirnar undir þeim slíkt hið sama. Margt glæstra húsa á skemmtilegum bæjarstæðum standa undir Tungnafjalli sem og Möðruvallafjalli, þeirra á meðal er eitt af elstu steinhúsum í sveitunum framan Akureyrar. Um er að ræða hús sem reist var sumarið 1920 á bænum Litla-Hamri. Bærinn stendur í brekku neðan við Eyjafjarðarbraut eystri, skammt sunnan við hið hrikalega gil Þverár efri eða Munkaþverár. Frá Litla-Hamri eru rúmlega 20 kílómetrar til Akureyrar.
Rekja má sögu jarðarinnar Litla-Hamars til landnámsaldar en fyrirrennari jarðanna Litla- og Stóra-Hamars var jörðin Hamar, sem byggð var úr landi Þveræinga (Munkaþverár). Er hennar getið í Víga-Glúms sögu en þar mun hafa búið Þorkell nokkur. Þorkell var [ ] allvel efnum búinn en reyndist lítilmenni (Stefán Aðalsteinsson 2019:1407). Næstu ábúendur voru Helga, dóttir Þorkels, og Ingólfur Þorsteinsson en annars fer fáum sögum af jörðinni fyrr en á 15. öld. Þá hafði jörðinni verið skipt í Litlhamar [svo] og Meiri Hamar, síðar Stórhamar. Hvenær nákvæmlega jörðinni var skipt liggur ekki fyrir, en elsta heimildin um Hamar hinn minni er úr jarðaskrá Munkaþverárklausturs frá 1446. Var þá jörðin ein fjölmargra, er klaustrið átti. Þegar manntal var fyrst gert á Íslandi áttu heima á Litla-Hamri þau Jón Björnsson, ekkjumaður aldurhniginn, Jón Eyjólfsson, vinnumaður hans og kona hans Aldís Jónsdóttir. Auk þeirra Þórunn Jónsdóttir og sonur hennar Jón Guðmundarbur. Aldís og Þórunn munu hafa verið dætur Jóns. Þá er einnig búsettur hér Sigurður Sigmundsson, sem síðar gerðist bóndi á Kambi (næsta bæ ofan Litla-Hamars). Í stórvirkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár má finna ítarlegt ábúendatal fyrir Litla-Hamar (og alla bæi í Eyjafjarðarsveit) frá 1703 til vorra daga, en við skulum stikla á stóru og bera niður við upphaf 20. aldar. Á áttunda áratug 19. aldar var eigandi og ábúandi Jón Davíðsson (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1407). Hann bjó síðar á Kroppi, þar sem sonur hans, Davíð, fæddur hér á Litla-Hamri, reisti veglegt steinhús árið 1920. Svo vildi til að sama sumar var einmitt líka reist steinhús á Litla-Hamri.
Það mætti hæglega kalla sumarið 1920 Steinhúsasumarið í sveitunum framan Akureyrar en þá risu fimm steinhús í hreppunum þar. Auk Kroppshússins Í Hrafnagilshreppi reis í sama hrepp hús eftir teikningu Guðjóns Samúelsson í Möðrufelli og hús eftir svipaðri teikningu reis einnig í Kaupangi í Öngulsstaðahreppi. Yst í Öngulsstaðahreppi reis steinhús á Syðri-Varðgjá, eftir teikningu Sveinbjarnar Jónssonar og eftir sams konar teikningu reis einnig steinhús í syðstu byggðum hreppsins á Litla-Hamri. Þar var að verki Jónatan Guðmundsson, þá bóndi hér, og uppkomnir synir hans.
Litli-Hamar er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, með háu risi og miðjukvistum báðum megin. Snúa stafnar hússins norður-suður og við norðurgafl er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og er þar bílskúr. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Gluggasetning hússins er nokkuð sérstök en á þeirri hlið sem snýr að Eyjafjarðarbraut eystri er einn gluggi í venjulegri stærð fyrir miðju en tveir smærri gluggar sitt hvoru megin. Undir rjáfrum á kvistum og stöfnum eru bogadregnir smágluggar. Krosspóstar eru í gluggum. Grunnflötur hússins mælist alls um 14x8m á map.is, þar af bílskúrinn norðanmegin um 4 metrar.
Samkvæmt stórvirkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár (hér eftir kallað Eyfirðingar) fluttust tveir feðgar hér að Litla-Hamri aldamótaárið. Það voru þeir Guðmundur Jónatansson (1834-1906), fæddur að Miklagaðri í Seyluhreppi í Skagafirði og sonur hans, Jónatan, sem fæddur var að Klauf í Öngulsstaðahreppi (skammt ofan og sunnan Laugalands). Guðmundur hafði búið á ýmsum bæjum í hreppnum, m.a. Ytra-Laugalandi, Sigtúnum og Klauf en áður en þeir feðgar fluttust að Litla-Hamri höfðu þeir búið í þrettán ár að Uppsölum. Jónatan var kvæntur Rósu Júlíönu Jónsdóttir frá Illugastöðum í Fnjóskadal og áttu þau þrjú börn, þegar þau fluttu að Litla-Hamri. Eiginkona Guðmundar og móðir Jónatans var Anna Mikaelsdóttur frá Skútum á Þelamörk (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1441).
Þegar stórfjölskylda þessi flutti að Litla-Hamra stóð þar torfbær eins og almennt tíðkaðist til sveita. Ekki fylgir sögunni hvenær hann var byggður en af Bæjalýsingum og teikningum Jónasar Rafnar má ráða, að hann hafi verið fremur smár, þrjár burstir og undir þeim skáli, bæjardyr og stofa. Önnur rými voru eldhús, göng og baðstofa. Stofan var reyndar með veglegra móti, með millilofti og kjallara og baðstofa var tvíhólfa (sbr. Jónas Rafnar 1975: 121). En líklega hefur torfbærinn verið orðinn ófullnægjandi til íbúðar og mögulega orðinn lélegur, þegar leið á 2. áratuginn. Svo tímabært var að reisa nýtt íbúðarhús. Á Munkaþverá hafði risið heilmikið steinhús og sama skyldi uppi á teningnum á Litla-Hamri. Árið 1920 réðist Jónatan Guðmundsson svo í byggingu nýja hússins. Væntanlega hafa synir hans þrír, Guðmundur, Gunnar og Tryggvi, sem þá voru um og yfir tvítugt einnig komið að byggingunni. Hönnuður hússins var einnig rúmlega tvítugur, Ólafsfirðingur, Sveinbjörn Jónsson, sem nýverið hafði lokið byggingafræðinámi í Noregi. (Þess má geta, að Guðmundur, elsti sonur Jónatans, og Sveinbjörn voru jafnaldrar, báðir fæddir 1896). Sveinbjörn hafði einnig skömmu áður fundið upp nýja gerð hleðslusteins, r-stein og vél til að steypa steininn. Hins vegar mun Litla-Hamarshúsið hafa verið reist úr steinsteypu að mestu leyti en sama sumar, 1920, risu fyrstu r-steinshús veraldarsögunnar. Þau stóðu (og standa enn) við Oddeyrargötu 15 á Akureyri og Syðri-Varðgjá, yst í Öngulsstaðahreppi. Tveimur árum síðar reisti Sveinbjörn svo kirkju í Kaupangi úr r-steini.
Auk þess að hanna og byggja fjölmörg hús á ferli sínum var Sveinbjörn Jónsson mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna, teiknaði m.a. hitaveitu fyrir Kristneshæli árið 1927. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki.â¯Eitt helsta stórvirki Sveinbjarnar er líklega Kaupfélagshúsið við Hafnarstræti 91 sem er eitt af helstu kennileitum Akureyrar á Kaupfélagshorninu svokallaða í Miðbænum. Einnig má nefna sláturhús á Oddeyrartanga og Sundskálann í Svarfaðardal. Þá teiknaði Sveinbjörn íbúðarhús á næsta bæ við Litla-Hamar, Stóra-Hamri 10 árum síðar. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Svo fátt eitt sé nefnt. Hér er e.t.v. rétt að mæla með ævisögu Sveinbjarnar, Byggingameistari í stein og stál sem Fjölvi gaf út árið 1996.
Jónatan Guðmundsson telst, skv. Eyfirðingum, bóndi hér til ársins 1925 en þá taka synir hans við búskapnum, Guðmundur árið 1925 og Gunnar ári síðar. Munu þeir hafa átt hvor sinn hluta jarðarinnar. Jónatan bjó þó áfram hér til dánardægurs árið 1942. Þá segir í einni tilkynningu, nánar tiltekið í Íslendingi þ. 7. ágúst 1942, að látist hafi á heimili sínu á Litla-Hamri, bændaöldungurinn Jónatan Guðmundsson. Guðmundur er skráður fyrir búskapnum til ársins 1962 en Gunnar til ársins 1930 en þá mun hann hafa flutt til Snæfellsness. Mun þá Tryggvi hafa tekið við hans jarðarhluta. Bjó Tryggvi hér nánast óslitið áratugum saman, að árunum 1946-50 undanskildum, en þá er Hjalti nokkur Haraldsson skráður bóndi hér (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1442).
Árið 1934 var Litla-Hamri lýst svo í Brunabótamati: Íbúðarhús, allir útveggir úr steinsteypu og innveggir á neðri hæð. 9x7,3m, hæð 7,5m. Steinskilrúm í kjallara og á stofuhæð. Loft, gólf og skilrúm á lofti úr timbri. Pappaklætt timburþak. Miðstöð á efri hæð, tveir kolaofnar á neðri hæð. Tvær eldavélar við steinsteyptan reykháf. Vatnsleiðsla og skólpleiðsla (Björn Jóhannesson 1934, án bls.). Ekki er minnst á hvort rafmagn sé í húsinu en slíkt var aldeilis ekki á hverjum bæ árið 1934. Ekki er getið annarra mannvirkja, en þá stóðu einnig hér fjós fyrir 30 kýr, fjárhús fyrir 150 fjár og hlaða úr torfi og timbri. Þau mannvirki eru einfaldlega sögð gömul í Byggðum Eyjafjarðar 1970 en í sams konar riti fyrir árið 1990 kemur fram, að þau voru byggð 1916. Ári eftir að matsmenn brunabótafélagsins heimsóttu Litla-Hamar, þ.e. 1935, risu þar fjós, kálfahús, alifuglahús og hlaða úr steinsteypu. Síðar var byggður votheysturn.
Það er skemmst frá því að segja, að 104 árum eftir byggingu núverandi íbúðarhúss, er Litli-Hamar er enn í eigu og ábúð afkomenda Jónatans Guðmundssonar. Tryggvi Jónatansson var hér bóndi til ársins 1977 er Jónatan, sonur hans, tók við búinu og frá 1986 eru systir hans, Anna Helga Tryggvadóttir og maður hennar Húni Zophoníasson ábúendur hér.
Árið 1970 eru eigendur hálfrar jarðarinnar og ábúendur téður Tryggvi Jónatansson og Rósa Kristinsdóttir frá Hólkoti á Dalvík. Guðmundur, bróðir Tryggva, er eigandi hálfrar jarðarinnar á móti þeim. Íbúðarhúsið er sagt 520 rúmmetrar að stærð. Byggingar, auk íbúðarhússins, eru fyrrgreindar byggingar frá 1916 og 1935, sem getið er hér að framan. Bústofninn telur 15 kýr, 140 fjár og 3 hross. Túnstærð er 30,96 hektarar og töðufengur mælist 1400 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 362).
Árið 1990 eru eigendur jarðar þeir feðgar Tryggvi Jónatansson og Jónatan Sigurbjörn Tryggvason, en ábúendur þau Anna Helga Tryggvadóttir og Húni Zophoníasson. Byggingar eru þær sömu en í millitíðinni, þ.e. 1979, hefur risið bílskúr. Þar er íbúðarhúsið sagt 246 fermetrar og bílskúrinn 47 fermetrar. Þar kemur fram, að fjósið er 16 básar, kálfahúsið 64 fermetrar, alifuglahúsið 25 fermetrar og gamla fjárhúsið (frá 1916) fyrir 150 kindur. Hlöðurnar eru alls 1063 rúmmetrar, votheysturn, sem byggður var 1951, er 111 rúmmetrar. Ræktað land er 31 hektari. Bústofninn er 12 kýr, 17 aðrir nautgripir, 121 fjár, 17 hross, 11 hænur og sex alifuglar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 954).
Þegar Byggðum Eyjafjarðar 2010 voru gerð skil í samnefndu ritverki virðast byggingarnar frá 1916 á bak og burt en hins vegar hafði nýlega (2009) verið reist nýtt kálfahús, það hús ásamt því gamla samtals 223 fermetrar. Þá kemur fram, að fjósið frá 1935 er 91 fermetri en einnig er getið 22 fermetra mjólkurhúss frá 1945, 22 fermetrar. Ekki er minnst á gömlu byggingarnar frá 1916, hlöður eða alifuglahús en hins vegar eru 15 alifuglar m.a. skráðir hér til bústofns. En auk fuglanna fimmtán eru hér 90 geldneyti, 30 fjár og sex hross. Eigendur og ábúendur eru téð Anna Helga og Húni (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013: 513).
Íbúðarhúsið á Litla-Hamri er hið prýðilegasta hús, smekklegt og snyrtilegt. Það er látlaust og einfalt að gerð en hefur þó ákveðin sérkenni, sem gefa því sérstakan svip. Má þar nefna bogadregna glugga, gluggasetningu austurhliðar en einnig gluggapósta en þeir eru ósamhverfir lóðrétt, þ.e. önnur hliðin er umtalsvert breiðari en hin. Húsið er í mjög góðri hirðu, m.a. er á því nýlegt þakjárn. Litli-Hamar er aldursfriðað hús, þar sem það er byggt fyrir 1923. Húsin og trjálundur, sem prýðir hið geðþekka bæjarstæði mynda skemmtilega heild, hvort sem sjónarhornið er ofan frá, af Eyjafjarðarbraut eystri, eða handan ár. Myndirnar af eru teknar 23. apríl 2020 og 15. apríl 2023 og 8. júlí 2024.
Heimildir
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.
Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.
Bloggar | Breytt 3.9.2024 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 28. ágúst 2024
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 23
- Sl. sólarhring: 44
- Sl. viku: 440
- Frá upphafi: 440797
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 214
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar