Hús dagsins: Þrjú hús (þ.a. ein kirkja) í Eyjafjarðarsveit, eftir Sveinbjörn Jónsson

Ég hef í sumar haldið mig nokkuð við hús Sveinbjarnar Jónssonar, sem jafnan er kenndur við Ofnasmiðjuna og hér eru nokkur þeirra til viðbótar. Húsin sem hann ýmist teiknaði, byggði eða kom að byggingu á, bara á Eyjafjarðarsvæðinu skipta tugum og sennilega hefði ég getað haldið úti þessum pistlum í svipaðan tíma (14mánuði) með svipuðu millibili og hingað til eingöngu um hús Sveinbjarnar. En hér birtast þrenn hús sem Sveinbjörn teiknaði og byggði úr R-steini árin 1920-25. Standa þau rétt framan Akureyrar en handan ár, og eitt raunar beint á móti.

P8090012

Íbúðarhúsið að Syðri- Varðgjá stendur ofan við Vaðlareit, beint á móti Akureyri. En húsið er reist sumarið 1920 og er því með fyrstu R-steins húsunum. En fyrsta slíka húsið, Oddeyrargata 15 er jafn gamalt. Ábúendur þá munu hafa verið þau Stefán Stefánsson og Aðalbjörg Hermannsdóttir. En þau bjuggu hér frá 1904 til 1939. Árið 1990 hafði húsið skipt um ábúendur fjórum sinnum, síðast 1958 og eftir því sem ég best veit er enn sami ábúandi og þá. Fjárhús og hlaða eru sambyggð íbúðarhúsinu sem sjá má en þau komu nokkrum árum seinna eða 1927. Þessi mynd er tekin með aðdrætti frá vegamótum Leiruvegar og Eyjafjarðarbrautar Eystri.

P8090015

 Árið 1921 teiknaði Sveinbjörn hina glæsilegu kirkju við Kaupang, en hún var reist 1922 úr R-steini og vígð um jólaleytið það ár. Þetta glæsilega Guðs hús stendur um 6km frá Akureyri. Hún er nokkuð sérstæð að gerð og helsta sérkenni hennar er staðsetning turnsins á NV horni en eins og er alkunna er  hefðin jafnan  sú að kirkjuturnar séu á miðju, annað hvort uppá mæni eða framan við kirkjuskipið sjálft. Kaupangskirkja, sem tekur 90 manns í sæti, mun hafa verið tekin öll í gegn að innan árið 1988 og á henni virðist vera nýlegt þak. Þessi mynd er tekin frá Eyjafjarðarbraut eystri. Í baksýn eru klapparholt í hinu 700 m háa Kaupangssveitarfjalli. Það er kennt  við sveitina sem aftur er kennd við Kaupang. 

 

 P8090013Hið forna burstabæjarform var Sveinbirni nokkuð hugleikið enda teiknaði hann þó nokkuð af þannig húsum.Eitt þeirra var íbúðarhúsið sem hann byggði sér að Knarrarbergi sem hér sést til hliðar. Knarrarberg stendur um 500m norðan við Kaupang. En það hús teiknaði hann og reisti 1924-25 og árið 1925 stofnaði hann þar nýbýli ásamt konu sinni, Guðrúnu Björnsdóttur. Hún var mikill garðyrkju- og hússtjórnarfrömuður og stundaði hún þarna húsmæðrakennslu. Bjuggu þau í Knarrarbergi til 1938 er þau fluttu suður til Reykjavíkur. En áður en þau fluttu hingað bjuggu þau í Gömlu Gróðrarstöðinnivið Eyjafjarðarbraut. Eitthvað hefur byggt við húsið í gegn um tíðina en það er tiltölulega lítið breytt annars og er vel við haldið. Þarna er einnig mjög gróskumikil garður, og mikil trjárækt. Nafnið Knarrarberg er dregið af því að skammt norðan bæjarins er Festarklettur en þar mun landnámsmaður Eyjafjarðar, Helgi magri hafa lagt skipi sínu, knerri en það voru einskonar flutningaskip landnámsmanna.  Þá hefur sjórinn náð mikið lengra fram í fjörð en nú er þessi staður um 2km frá flæðarmáli. Myndirnar eru allar teknar sl. mánudag, þann 9.ágúst en þá brá ég mér í hjóltúr um þessar slóðir í brakandi blíðu og um 20°C.

Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson (1996). Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Steindórsson, Jóhann Sigvaldason, Kristján Sigfússon (ritnefnd). (1993). Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Sérstök kirkjan..ég hef ógurlegan áhuga á kirkjubyggingum :)

Ragnheiður , 14.8.2010 kl. 11:42

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já Kaupangskirkja er harla sérstök að gerð en stórglæsileg fyrir því. Á þeim tíma sem hún var byggð hefur hún sennilega þótt sérstaklega framúrstefnuleg því þá voru kirkjur með "óhefðbundnu" lagi mun sjaldgæfari en nú.  

Arnór Bliki Hallmundsson, 14.8.2010 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 33
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 504
  • Frá upphafi: 436859

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 326
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband