Hús dagsins: Fálkafell á Súlumýrum

Í síðustu færslu vorum við stödd í miðbæ Akureyrar við Amaróhúsið en nú bregðum við okkur uppá fjöll ef svo mætti að orði að komast- en þó aðeins 6km frá Miðbænum- uppá norðausturbrún Súlumýra ofan Akureyrar.p7090026.jpg En þar stendur valinkunnur skátaskáli, Fálkafell, í u.þ.b. 370m hæð y.s. Skálann byggðu skátaflokkurinn Fálkar árið 1932 og er til saga um hvernig skálastæðið var valið, sjá Tryggva Þorsteinsson 1973. Þannig var að flokkurinn var á göngu í júní 1932 um fjalllendið ofan Akureyrar. ( En þess má geta að fyrir tæpum 80 árum var staðurinn þar sem nú  er  Akureyrarlaug nokkurn vegin við þéttbýlismörkin og það svæði sem nú er þekkt sem Suðurbrekkan uppí sveit og þar sem nú eru efstu hlutar Lundahverfis h.u.b. uppi á öræfum.) Þeir munu hafa villst í þoku en rambað allt í einu á það sem þeir héldu að væri hús en reyndist gríðarstórt grettistak, aflangur jarðfastur steinn. Þá létti loks til og þvílíkt útsýni! Þeir ákváðu að lengra skyldi ekki leitað enda er skálastæðið á einstaklega góðum stað útsýnislega séð og einnig sést skálinn allstaðar frá Akureyri og er  áberandi þegar kvöldsólin glampar á hann. Enda þótt byggingarárið sé sagt 1932 þá fékk skálinn ekki núverandi útlit fyrr en uppúr 1980. Ekki er gott að segja úr hverju skálinn er byggður- en trúlega er nærtækast að kalla hann timburhús. Eitthvað af veggjum er steyptur en mikill hluti forskalaður og einhvern tíma sá ég örugglega bárujárn inn undir múrklæðningu. Upprunalega voru útveggir torfhlaðnir. Skálinn hefur oft verið breytt og stækkaður, bæði að innan sem utan, fyrst 1942 þegar hann var breikkaður og torfveggir rifnir, um tuttugu árum síðar var hann líklega lengdur til vesturs.  Öðrum tuttugu árum síðar, skömmu eftir 1980 var síðan einlyfta forstofubyggingin reist, en þá var skálinn allur tekinn í gegn og m.a. sett í hann miðstöðvarkynding. Áður voru  tvær kolavélar uppi og niðri en nú er einn miðstöðvarketill, "kabyssa"  á neðri hæð. Upprunalega var þessi skáli aðeins reistur fyrir í mesta lagi 10 manna flokk en nú komast alltað 30 manna skátasveitir þarna auðveldlega fyrir. Leiðin uppí Fálkafell hefur styst þó nokkuð gegn um tíðina. Framanaf var ævinlega mætt við Sundlaugina, rétt ofan við miðbæinn og gengið, oftar en ekki í kafsnjó og hríðarbyl uppeftir en þessi leið er sem áður segir um 6km. Um tíma mun hafa verið mætt við afleggjara Súluvegar þar sem Möl og Sandur (nú BM Vallá) hefur aðsetur en nú er haldið af stað frá borholuskúrum Norðurorku við mynni Glerárdals, rétt utan við Öskuhaugana. Er það rúmlega kílómeters leið, en brött á köflum en getur verið ansi löng fyrir óvana, unga menn  með " hálfa búslóðina" bakpoka, kannski í mittisdjúpum snjó og 20metrum á sekúndu. Fálkafell er eins og margir segja "ekta útileguskáli" en í húsinu eru hvorki rafmagn eða rennandi vatn en ég hef bæði heyrt og tekið þátt í mörgum umræðum um hvort eigi að nútímavæða húsið með öllum þægindum eða framtíð hans yfirhöfuð; hvort jafnvel eigi að byggja nýjan eða hvað. En Fálkafell er klárlega í hópi elstu fjallaskála landsins sem enn er í reglulegri notkun og sennilega elsti skátaskálinn.  Ég hef einusinni deilt sögu úr einni Fálkafellsútilegu hér á síðunni. Myndin af Fálkafelli er tekin í kvöldsólinni 9.júlí 2009 en hér að neðan eru einnig myndir sem sýna hið dásamlega umhverfi og útsýni í kringum Fálkafell.

p7090023.jpg p4110024.jpg 

T.v. Horft af brún Súlumýra 9.7.2009 yfir Fálkafell og Akureyri, nánar tiltekið Lundarhverfi, Suðurbrekku og hluta Glerárþorps.  Brekkan þar sem myndin er tekin er há og hæfilega brött rennslisbrekka fyrir sleða eða hvers kyns rennslisbúnað og er óspart nýtt sem slík í skátaútilegum.  Myndin hægra megin er tekin klukkan 8 að morgni þann 11.apríl 2010 út um dyrnar á Fálkafell. Kaldbakur (1167m) lengst í norðri, nær er Kræklingahlíð og Glerárhverfi.

187.jpg

Þessi mynd er tekin 27.nóvember 2004 og þarna er horft uppá brekkuna bakvið skálann. Þríhyrningurinn er Súlutindur og á brekkubrúninni standa tveir skátar, alveg örugglega að gera sig klára að renna sér niður. Efri myndin t.v. er einmitt tekin af þessari sömu brekkubrún. 

Heimildir: Tryggvi Þorsteinsson. 1973. Varðeldasögur. Akureyri: Skjaldborg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 153
  • Sl. viku: 747
  • Frá upphafi: 419883

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 589
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband