Hús dagsins: Nokkur býli í Glerárþorpi

Í grófum dráttum er Akureyri skipt upp í tvo hluta, þ.e. norðan og sunnan Glerár. Gleráin skiptir bænum einnig í póstnúmerin 600(sunnan) og 603(norðan). Sunnan ár eru hverfin Innbærinn, Oddeyri, Brekkan og Naustahverfi en byggðin norðan ár er að öllu jöfnu kölluð Þorpið en það skiptist í Giljahverfi, Síðuhverfi, Hlíðar og Holt. Þorpið er raunar stytting á Glerárþorp- en sjálfur hef ég yfirleitt ímyndað mér Glerárþorp sem byggðina syðst og næst ánni, þ.e. sem nú afmarkast af Hlíðunum og Holtum. En á þeim slóðum þar var áður dreifbýlisþorp þar sem voru fjölmörg smábýli- byggðin var mikið strjálli þar sem nú eru efri byggðir Síðu- og Giljahverfis. Hverfin norðan ár eru miklu yngri raunar var Glerárþorp ekki lagt undir Akureyrarkaupstað fyrr en um 1955. Þéttbýlismyndun í Glerárþorpi hófst ekki fyrr en 1960-65, elst eru Hlíðahverfin og Holtin en næstu hverfi byggðust svo að mestu á næstu áratugum, áðurnefnt Hlíðahverfi 1970-80, Síðuhverfið 1980-90 og Giljahverfið tók að byggjast eftir 1990. En á mörgum stöðum í þessum hverfum er algengt að rekast á hús sem greinilega eru eldri en hverfið í kring. Oftar en ekki standa þau á geysimiklum lóðum og stundum á skjön við götuna. Er þar oft um að ræða gömul býli en fjölmörg þeirra standa enn þó mörg þeirra hafi vikið með öllu fyrir nýrri byggð.  En á fyrrihluta 20. aldar voru sem áður tugir smábýla í Glerárþorpi. Var það uppúr 1890 sem byggðin tók að myndast, að mestu í landi Bandagerðis. Sjaldan voru þetta stórar eða merkilegar byggingar né mikill bústofn, oftar en ekki var um að ræða torfkofa eða skúrræfla- enda var það jafnan efnalítið fólk sem byggði Glerárþorp.  Árið 1908 virðist byggðin hafa verið orðin það fjölmenn að byggja þurfti skóla fyrir börnin úr Glerárþorpi og reis það hús í Sandgerðisbót. Kallaðist húsið Ós og stendur það enn. Hér eru myndir af nokkrum eldri húsum í Glerárþorpi. 

 p5270041.jpgSæborg, rétt ofan við Óseyri. Einlyft timburhús með portbyggðu risi, bárujárnsklætt á háum steinkjallara. Sæborg var  byggð 1906 og er sennilega elsta hús sem enn stendur í Glerárþorpi. Er þetta eitt færri býla í Glerárþorpi þar sem upprunalegt hús stendur enn. 

 

 

 

 

 

 

 

p2130040.jpg

 

 

 

 

 

 

Bergstaðir, einlyft steinsteypuhús með risi, byggt 1926. Stendur við Lyngholt 2 en þessi hlið snýr að Hörgárbraut, sem er hluti Þjóðvegar 1. Þetta hús skartaði um nokkurra ára skeið Pepsi merkinu á þaki en hver sagan á bakvið það man ég nú ekki.

 

p2130045.jpgLundgarður, nokkuð dæmigert fúnkíshús, ferköntuð lögun allsráðandi og horngluggar áberandi. Húsið á sjötugsafmæli á þessu ári, steypt 1941. Húsið stendur NV og ofan Þórsvallar.

 

 

 

 

 

 

 

p2130112.jpg

Skútar, býlið stofnað um 1925 en þetta hús sem steinsteypt einlyft með risi og stórum miðjukvisti var byggt 1950. Húsið stendur við klettaborgir á hárri brekku  skammt austan Skarðshlíðar. Um Skútabrekkuna liggur Þjóðvegur 1 þ.e. Hörgárbraut. Fyrstu blokkirnar í Glerárþorpi risu við Skarðshlíð um 1965, rétt neðan Skúta.  

 Allar myndirnar eru teknar 13.febrúar 2011 nema myndin af Sæborg sem er tekin í kvöldsólinni þann 27.maí 2007.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alltaf skemmtilegt og afslappandi um leið að fara yfir bloggfærslur þínar,og þessi gömlu hús mörg hver er stórskemmtilegt að sjá,ogsvo ertu hin ágætasti ljósmyndari,hafðu þökk fyrir þessa elju og dugnað.

Númi (IP-tala skráð) 28.2.2011 kl. 18:16

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Þakka innlitið og hrósið.  Gaman að vita að menn hafa jafn gaman af að skoða þessar myndir og pistlana eins og ég hef af að mynda og skrifa .

Arnór Bliki Hallmundsson, 28.2.2011 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 491
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 323
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband