Á göngu um götur Akureyrar

Eftirfarandi grein skrifaði ég á vordögum 2009 sem grein í blað. Held það þurfi engan frekari formála en hér er lýst nokkrum gönguleiðum um götur Akureyrar.

 

Gengið um Akureyri

Fátt er meira hressandi en að skella sér út í göngutúr. Það skemmir heldur ekki fyrir ef gangan er í skemmtilegu umhverfi. Innan marka Akureyrar er að finna urmul af áhugaverðum gönguleiðum til styttri göngutúra og vel er hægt að gera sér dags gönguferðir innan bæjarmarkana. Alls staðar er eitthvað áhugavert að sjá og við það að ganga um götur og göngustíga bæjarins sér maður hann á allt annan hátt heldur en þegar maður brunar í gegn á hraðferð. Hér á eftir er upptalning á nokkrum fyrirtaks gönguleiðum innanbæjar.

 

Hlíðarbrautar- Þingvallastrætishringur

Þetta er raunar “litli hringurinn” um bæinn en leiðin þræðir umferðaræðarnar Hlíðarbraut-Þingvallastræti-Glerárgötu- Hörgárbraut gegn um Þorpið, Brekkuna og Eyrina. Leiðin er röskir 6km og tekur á góðum degi rúma klukkustund. Bætist að sjálfsögðu við tími og vegalengd eftir því hvar göngufólk leggur af stað. Útsýni er á köflum nokkuð skemmtilegt og eitthvað er af bekkjum til að hvílast á leiðinni. Ekki spillir fyrir að við Hlíðarbraut, neðan við Giljahverfi er stígur gegn um skógarreit sem þar er og þar er um að gera að taka smá krók frá aðalgötunni.

 

Borgarbrautarhringur, litli og stóri

Þetta er raunar hringur um “hálfan bæinn” en þarna er gengin Borgarbraut í stað þess að taka krókin upp Hörgárbraut- Hlíðarbraut. Afar áhugavert útsýni er frá Borgarbrautinni svæðið sem hún liggur lætur nærri að vera landfræðilegur miðpunktur bæjarins. Stóri hringurinn er að ganga suður Hlíðarbrautina, ( og raunar má lengja hringinn enn meira ef Borgarbrautinni er fylgt eftir upp í Giljahverfi og farið eftir Merkigili ). Litli hringurinn er hins vegar ef beygt er upp Dalsbrautina en þar er komið upp á Þingvallastræti við KA heimili. Dalsbrautin liggur um svokallaðan Lækjardal, afar fallegt svæði og er ég næsta viss um að fáir hafa vitað af honum áður en þessi braut var lögð. ( Að sjálfsögðu var þetta miklu áhugaverðara svæði áður en Dalsbrautin kom ) Þá er afar áhugaverður stígur gegn um Sólborgarsvæðið sem liggur upp í Gerðahverfi og hægt að fylgja eftir framhjá Hrísalundi að Skógarlundi. Þessar hringleiðir eru frá 3-5 km og taka frá hálftíma til klukkutíma en þar við bætist tími og vegalengd eftir því hvar göngufólk leggur af stað.

 

Hringur um Akureyri

Vilji menn taka hring um allan bæinn og þræða öll helstu hverfin liggur sú leið ( gerum ráð fyrir að byrja í miðbænum ) eftir Drottningarbraut, upp hjá Skautahöll, beygt inn í Kjarnagötu, upp Miðhúsabraut á Hlíðarbrautina upp Merkigil, Vestursíðu, niður Hlíðarbraut að Krossanesbraut- Hjalteyrargötu- Strandgötu. Þessi leið er um 13 km löng og tekur ekki innan við 2,5klst. á góðum degi. Full langt mál er að telja upp allt áhugavert sem er að sjá á þessari leið, en helst má nefna að útsýnið á Miðhúsabrautinni nýju yfir Brekkuna og upp til fjalls er afar sérstakt. Síðan er miklu áhugaverðara að þræða göturnar Hafnarstræti og Aðalstræti í stað Drottningarbrautar.

 

Glerárgil

Hér er um að ræða einstaka náttúruperlu inn í miðjum bænum. Glerárgilið skiptist í Efra og Neðra Gil en neðrihlutinn er sá sem liggur frá steypustöðinni og niður að Glerárhverfi. Um og við neðragil liggja ágætir nýlegir stígar gegn um skóglendið neðan Hlíðarbrautar niður að stíflu. Neðan stíflu var lagður stígur svo til alveg við ána um 2006 frá virkjunarhúsi að brúnni við Olís og á góðviðrisdögum er þetta alveg einstök leið. Í gilinu má sjá nokkra litla hellisskúta, þarna er plöntulíf fjölskrúðugt sem og fuglalíf, sérstaklega við lónið. Þessi leið nýtur sín best um hásumar en síst er hún áhugaverðari um vetur. Eða bara hvenær sem er. Að ganga eftir stígunum við Neðra Gil frá Olís að steypustöð tekur ca. 15-20 mínútur á fullu stími en um að gera er að taka sér góðan tíma að njóta þessarar skemmtilegu leiðar.

 

Stígakerfið

Þeir sem ganga um götur bæjarins að ráði kannast við að þéttriðið stíganet liggur um bæinn. Síðustu 5-10 árum hefur einmitt verið gert mikið skurk í stígamálum og er það vel. Gegn um Norðurbrekku má t.a.m. þræða stíg frá Þórunnarstræti gegn um Ásveg að Byggðavegi og heldur sá stígur áfram litlu ofar á Byggðaveginum áfram alveg upp í Gerðahverfi og þar er komin tenging við Sólborgarstíg. Hann heldur svo áfram að Lundarskóla en þar liggur annar stígur fram hjá KA svæði niður í Einilund. Til norðurs heldur stígurinn áfram hjá Sólborg í undirgöng undir Borgarbraut og áfram gegn um Þorpið framhjá Þórssvæði að Hörgárbraut. Við Glerárgilið er síðan tenging við stíginn sem lýst er í kaflanum um Glerárgilið. Í Þorpinu eru einnig ágætir stígar, frá Hlíðarbraut upp í Giljahverfi, liggur ofan Giljaskóla að gatnamótum Borgarbrautar að Bugðusíðu. Annar stígur neðar liggur við blokkirnar neðst í Drekagili og Tröllagili yfir Borgarbraut að Tungusíðu. Þá má einnig nefna sérlega áhugaverðan stíg ofan Aðalstrætis sem liggur frá Lækjargili að Nonnahúsi. Þarna er útsýnið frábært og segja má að sagan drjúpi þarna af hverju strái. Þá eru ótaldir fjölmargir aðrir styttri stígar innan hverfa bæjarins. Flestum finnst heppilegra að ganga eftir göngustígum inni í hverfunum frekar en við umferðargötur auk þess sem margir þessara stíga stytta leiðir milli bæjarhverfa allverulega. Þá skal því komið á framfæri hér að vetrarviðhald á þessum stígum, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir er til fyrirmyndar og fá þeir sem að því standa hér með hrós og þakklæti fyrir.

 

 

Arnór B. Hallmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góð samantekt. Það er mjög skemmtilegt að labba um bæinn.

Sumarliði Einar Daðason, 14.12.2011 kl. 20:08

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Þakka innlit og athugasemdaskrif. Já, það hefur verið mitt helsta tómstundagaman sl. 14 ár að ganga um götur bæjarins og ég fæ líkast til aldrei leiða á því- og er það raunar eins og fíkn hjá mér, ég þarf að fá mína 2-3km af göngu h.u.b. hvern einasta dag. Það er líka þannig að það er alltaf eitthvað nýtt að sjá :)

Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 15.12.2011 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 386
  • Frá upphafi: 436919

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 276
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband