Hús dagsins: Setberg og Skarð (við Hamragerði)

Í síðustu færslu fjallaði ég um stórbýlið Lund sem stendur ofarlega á Suðurbrekkunni.P2020048 En á Brekkunni, líkt og í Glerárþorpi voru þó nokkur býli fram yfir miðja 20.öld, þó miklu færri og stærri á Brekkunni en í Þorpinu og flest þeirra viku fyrir byggð. En um 500 metrum norðaustan við Lund standa tvö hús við götuna Hamragerði sem skera sig nokkuð úr, eru greinilega talsvert eldri en flest hús við götuna (sem byggðist að mestu sitt hvoru megin við 1970) og afstaða og lega öðru vísi og lóðir víðáttumeiri. En hér eru fyrrum bæjarhús.

Skarð stendur við Hamragerði 11. Þar var upprunalega byggt árið 1923 af Sigþóri Jóhannssyni en næsti ábúandi eftir honum var Tryggvi Emilsson rithöfundur frá 1931-1937. Upprunalega bæjarhúsið brann í mars 1937 og var bærinn í eyði nokkur ár þar til Jón G. Guðmann settist þarna að og reisti núverandi hús árið 1940. Skarð er nokkuð dæmigert fúnkíshús, einlyft á kjallara með flötu þaki og horngluggum. Ég er hreinlega ekki viss hvort húsið er timburhús eða steinhús en allavega eru veggir járnklæddir. Einhvern tíma hefur verið byggt við húsið til norðurs. Landareign Skarðs hefur líklegast afmarkast af Gleránni og náð  yfir mest það svæði þar sem nú eru Dalsgerði, Háagerði og S-gerðin, og yfir Lækjardalinn svokallaða þar sem Kotárlækur rennur, og Dalsbraut var lögð 2003-04. Háskólinn á Akureyri á Sólborg stendur í landi Skarðs en Sólborg var upprunalega reist sem sambýli um 1970 á landi sem Akureyrarbær keypti úr landi Skarðs. Á Skarði var ætíð myndarlegur bústofn, bæði nautgripir, fé og hænsni en þar hefur greinilega verið mikil trjárækt. Því víðáttumikil lóðin sem eftir stendur af jörðinni er þétt vaxin  skógi sem er í góðri hirðu eins og allt umhverfi hússins og húsið sjálft. Það hefði ekki verið viðlit að mynda þetta hús af götunni að sumarlagi því þá hverfur húsið nánast alveg inn í trjáþykknið.

Setberg stendur litlu norðar eða við Hamragerði 15 P2020046og það hús var reist árið 1934 af Sigurði Jóhannessyni sem hafði fengið úr landi Skarðs 2 dagsláttur undir smábýli. Setberg er einlyft steinsteypuhús með lágu risi, en hefur líkast til eitthvað verið stækkað gegn um tíðina og einnig byggður bílskúr á lóðinni. Þegar mest var komst bústofninn í Setbergi upp í 12 kýr og 40 kindur en kýrnar voru hýstar um tíma í kjallara hússins en annar bústofn í útihúsum sem löngu eru horfin. Sigurður Jóhannesson bjó hér til dánardægurs árið 1957 og þá hefur búskap væntanlega verið hætt því í Byggðum Eyjafjarðar (1990) telst Setberg fara í eyði þá. En húsið sem slíkt er aldeilis ekki í eyði, það er nú einbýli og er í góðu ásigkomulagi. Bakatil á lóð hússins stendur enn súrheysturn eða neðsti hluti hans eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem tekin er frá Dalsbraut, en hún liggur bakvið og neðan Hamragerðis um Lækjardalinn.P2020050 Þessi tvö hús, Skarð og Setberg setja skemmtilegan svip á götumynd Hamragerðis, frábrugðin öðrum húsum við götuna og bera  þess á margan hátt greinilega merki að vera fyrrverandi sveitabæir. Myndirnar með þessari færslu eru teknar 2.feb. 2013.

 

 

 

 

Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 502
  • Frá upphafi: 436897

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 334
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband