Hús dagsins: Sómastaðir

Um síðustu helgi var ég staddur á Neskaupsstað að kíkja á þungarokkshátíðina Eistnaflug og á bakaleiðinni var stoppað og þá smellti ég mynd af þessu húsi, sem stendur spölkorn utan þéttbýlisins á Reyðarfirði- gengt álveri Fjarðaáls. En það eru Sómastaðir. P7140017

Sómastaði byggði Hans Jakob Beck árið 1875 sem íbúðarhús en fyrir var torfbær á jörðinni. Húsið er einlyft með háu risi, grjóthlaðið úr ótilhöggnu grjóti sem mun fengið úr klettaborgum í næsta nágrenni. Það eru aðeins veggir sem eru hlaðnir en ris er úr timbri. Einhverntíma var byggð við húsið tvílyft viðbygging úr timbri vestan á húsinu en hún var rifin um 1950 þegar reist var nýtt íbúðarhús á Sómastöðum. Nú er aðeins lítill inngönguskúr úr timbri á vesturgafli. Það er spurning hvers vegna aðeins viðbyggingin var rifin, hvort að það hafi verið vegna varðveislusjónarmiða varðandi grjóthlaðna húsið. Eða hvort það hafi einfaldlega verið vegna þess að það var ekki eins hlaupið að því að rífa þykka grjótveggina eins og timburhúsið. En húsið hefur bæði verið íbúðarhús og einnig kaþólskt bænhús. Hvenær Sómastaðir fóru í eyði er mér ókunnugt um en alltént hefur húsið verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1988 sem hluti húsasafnsins. Húsið er eitt fárra grjóthlaðinna húsa hérlendis, en meðal annarra mætti nefna Þingeyrarkirkju, Alþingishúsið, Hegningarhúsið og Gömlu Prentsmiðjuna við Norðurgötu 17 á Akureyri. Allar þessar byggingar eru fáeinum árum yngri, utan Hegningarhúsið sem er er árinu eldra. Sómastaðir eru þó líkast eina húsið sem hlaðið er úr ótilhöggnum steini. Húsið var allt tekið í gegn árin 2008-2010 m.a. með styrk frá Alcoa og er húsið stórglæsilegt að sjá, viðgerð hefur greinilega tekist óaðfinnanlega. Húsið er áberandi í umhverfinu, blasir við af þjóðveginum milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Þessa mynd tók ég í gær, 14.júlí 2013 en heimildirnar hef ég af upplýsingaskilti sem er staðsett við húsið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 18
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 509
  • Frá upphafi: 436904

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 340
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband